Fjárlög 2023 samþykkt: innviðir styrktir og kaupmáttur varinn
Áframhaldandi styrking innviða og grunnþjónustu og áhersla á að verja kaupmátt og viðhalda raunvirði bóta almannatrygginga eru meginstef fjárlaga fyrir árið 2023 sem Alþingi samþykkti í dag.
Lögin tryggja aukin framlög til nokkurra veigamikilla málaflokka. Þar vega heilbrigðismál þyngst, sem fá um 343 ma.kr. í framlög. Að frátöldum launa- og verðlagsbreytingum þá eru framlög til heilbrigðismála aukin um um ríflega 17 ma.kr. frá gildandi fjárlögum eða sem nemur 5,5%.Einnig má nefna löggæslumál, málefni öryrkja og fatlaðs fólks, orkumál og nýsköpun, þar sem verulega er bætt í framlög. Á sama tíma er staðinn vörður um þau meginmarkmið opinberra fjármála að stöðva hækkun skuldahlutfalla.
Afkoma batnar
Afkoma ríkissjóðs batnar á milli ára en áætlað er að halli á frumjöfnuði ríkissjóðs verði um 50 ma.kr. eða 1,3% af VLF. Að teknu tilliti til 1,8% halla á vaxtajöfnuði þá er áætlað að halli á heildarafkomu ríkissjóðs verði um 120 ma.kr. á næsta ári eða 3% af VLF. Áætluð afkoma ríkissjóðs er vel innan marka samþykktrar fjármálastefnu fyrir árin 2022-2026 sem miðar við halla að hámarki 4% af VLF á næsta ári.
Áætlað er að skuldir ríkissjóðs skv. skuldareglu verði rúmlega 33% af VLF í lok næsta árs.
Nokkur áherslumál í fjárlögum 2023
- Stuðningsaðgerðir í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði: Barnabótakerfið styrkt og eflt, þar sem tæplega 3.000 fleiri fjölskyldur fá barnabætur, grunnfjárhæðir og skerðingarmörk hækka, húsnæðisbætur verða hækkaðar um 13,8% á næsta ári til viðbótar við 10% hækkun í júní sl. og tekjuskerðingarmörk húsnæðisbóta hækka um 7,4%, Eignaskerðingamörk í vaxtabótakerfinu hækka um 50% í upphafi árs 2023
- 5 ma.kr. færðir frá ríki til sveitarfélaga í tengslum við málefni fatlaðs fólk
- Áframhaldandi mikill stuðningur við rannsóknir og þróun
- Átaksverkefni til kaupa á hreinorkuökutækjum til bílaleiga
- Fjöldatakmörk raf- og vetnisbíla sem fá skattaívilnun afnumin á næsta ári
- Hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna öryrkja í 200 þús. kr. á mánuði
- Enn frekari styrking Landspítala
- 1 ma.kr. til að vinna gegn langtímaáhrifum kórónuveirufaraldursins
- Aukin framlög til löggæslumála
- Framlög vegna fjölgunar einstaklinga sem sækja um alþjóðlega vernd og stuðnings við Úkraínu