Dómar uppkveðnir árið 2006
| Hæstiréttur - dómar | Héraðsdómstólar - dómar | Félagsdómur |
Það sem af er árinu 2006 hafa verið kveðnir upp a.m.k. 20 dómar sem varða starfsmannamál hjá ríkinu og stofnunum þess. Hér að neðan er að finna upptalningu á nefndum dómum ásamt atriðisorðum og reifunum:
1
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 27. janúar 2006 í máli nr. E-10430/2004: SG gegn íslensku þjóðkirkjunni.
UPPHAF STARFS, HÆFISNEFND, MÁLSMEÐFERÐ, JAFNRÉTTI.
Viðurkennt var að íslenska þjóðkirkjan væri skaðabótaskyld gagnvart konunni S, umsækjanda um prestsembætti meðal Íslendinga erlendis. Stofnað var til sérstakrar hæfisnefndar til að meta umsækjendur og mæla með einum. Ákveðið var að niðurstaða nefndarinnar skyldi vera bindandi fyrir veitingarvaldshafa/vígslubiskup, sem skipaði í embættið í stað biskups Íslands sem var vanhæfur til meðferðar þessa tiltekna máls. Þar sem þessi tilhögun um bindandi niðurstöðu nefndarinnar byggði ekki á sérstakri heimild í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða stjórnsýsluvenju var hún að mati dómsins talin óheimil. Þá var talið að þessi annmarki hefði verið ótvírætt til þess fallinn að hafa áhrif á störf hæfisnefndarinnar svo og endanlega niðurstöðu staðgengils biskups um veitingu embættisins. Tekið var fram að ekki hafi verið sýnt fram á að niðurstaðan hefði orðið sú sama ef umræddur annmarki hefði ekki komið til en karlinn SS var skipaður í embættið. Vegna þessa var fallist á viðurkenningarkröfu S um skaðabótaskyldu. Auk þess komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að skipan SS í embættið hafi brotið gegn 24. gr. jafnréttislaga, sem hefur verið skýrð þannig að sæki kona og karl um starf sé skylt að ráða konuna ef hún er a.m.k. jafnt að því komin að því er varðar menntun og annað sem máli skiptir, enda séu fáar konur á viðkomandi starfssviði. Kröfum S um miskabætur var hafnað.
2
Dómur Hæstaréttar frá 9. mars 2006 í máli nr. 441/2005: ÁJ gegn Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
STARFSLOK, UPPSÖGN, ÁMINNING.
Heilbrigðisstofnun Suðurlands var sýknuð af kröfum karlmannsins Á, fyrrum heilsugæslulæknis við heilsugæslustöð sem síðar varð hluti af nefndri heilbrigðisstofnun. Stjórn heilsugæslustöðvarinnar sagði honum upp störfum vegna óheimilla fjarvista og óstundvísi eftir að hafa áður veitt honum áminningu fyrir samskonar hegðun. Niðurstaða dómsins var sú að uppsögnin hafi verið rétt, með vísan til 44. gr. starfsmannalaga, og að löglega hafi verið staðið að töku þessara ákvarðana.
3
Dómur Hæstaréttar frá 9. mars 2006 í máli nr. 384/2005: RBBU gegn íslenska ríkinu og gagnsök.
STARFSLOK, UPPSÖGN, ÁMINNING, SKAÐABÆTUR, SAMSKIPTAVANDI.
Tvær áminningar sem karlmanninum R, fyrrum starfsmanni á sambýli hjá svæðisskrifstofu málefna fatlaðra, höfðu verið veittar voru felldar úr gildi með þeim rökum: „að óumdeilt væri að honum hefði ekki verið veitt færi á að tala máli sínu áður en þær voru veittar svo sem þó var skylt, sbr. 21. gr. starfsmannalaga“. Þá var íslenska ríkið dæmt til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð kr. 800.000 vegna uppsagnar hans úr starfi af hálfu stofnunarinnar. Niðurstaða dómsins var sú að við uppsögnina hafi ekki verið gætt ákvæða 1. mgr. 44. gr., sbr. 21. gr. starfsmannalaga, og honum ekki gefinn kostur á að tjá sig áður en ákvörðun um uppsögn var tekin, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Tilefni uppsagnarinnar var framganga R í tengslum við umsókn manns um starf á sambýlinu þar sem hann hafði starfað áður og grunsemdum hins fyrrnefnda um að maðurinn hefði þá gerst sekur um brot í starfi. Tekið var fram að við ákvörðun bóta væri litið til þess að R hefði farið offari í framgöngu sinni í málinu sem leiddi til samsamskiptavanda milli hans annars vegar og yfirmanna og annarra starfsmanna á sambýlinu hins vegar. Kröfu R um miskabætur var hafnað.
4
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. mars 2006 í máli nr. E-4698/2005: HA gegn Fangelsismálastofnun.
STARFSÆVIN, KJARASAMNINGUR, ORLOF, VEIKINDI.
Karlmaðurinn H, fangavörður á Litla-Hrauni, var í orlofi þegar hann meiddist á fæti þann 18. júní 2004. Vegna þessa voru 8 vaktir hans skráðar sem veikindi. Eftir að hann var kominn aftur til starfa var honum tilkynnt þann 24. ágúst að yfirstjórn fangelsisins hefði ákveðið að vaktirnar teldust sem orlofsdagar en ekki veikindadagar. Í því sambandi var m.a. vísað til þess að H hefði ekki tilkynnt strax um veikindin eins og skylt er samkvæmt kjarasamningi. Framlagt læknisvottorð hans hafi ekki verið fullnægjandi. Þá hafi veikindi hans ekki verið alvarleg og hefðu því ekki átt að valda óvinnufærni a.m.k. ekki þann hluta vaktanna sem var eftir mánaðamótin júní-júlí. Dómurinn taldi að með umræddri ákvörðun hefði H verið beittur viðurlögum og því væri um stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga að ræða. Fallist var á þau rök H að frekari upplýsingar um heilsufar hans hefðu átt að liggja fyrir áður en umrædd ákvörðun var tekin. Tekið var fram að ákvæðum 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga hefði ekki verið fylgt. Vegna þessa yrði að telja umrædda ákvörðun ólögmæta og því bæri að taka kröfu H til greina og fella hana úr gildi.
5
Dómur héraðsdóms Reykjavíkur frá 29. mars 2006 í máli nr. E-4733/2005: AG gegn Landspítala – háskólasjúkrahúsi.
STARFSLOK, NIÐURLAGNING, UPPSÖGN, MÁLSMEÐFERÐ.
LSH ákvað að skurðstofa kvennadeildar yrði sameinuð svæfinga-, gjörgæslu- og skurðstofusviði. Í kjölfarið var yfirlæknisstaðan, sem A hafði gegnt, lögð niður og var A tilkynnt það með bréfi framkvæmdastjóra lækninga og forstjóra LSH. Þar kom fram að um væri að ræða skipulagsbreytingar, niðurlagningu á starfi og uppsögn á starfi yfirlæknis. A var í bréfinu boðið starf sérfræðings við kvennasvið en hann afþakkaði það í bréfi til LSH þar sem hann vildi aðeins vera í 80% starfi hjá LSH. A krafðist ógildingar á ákvörðun LSH um að leggja yfirlæknisstöðuna niður og segja honum upp stöðunni. Einnig krafðist A greiðslu, sem hann taldi sig eiga hjá LSH samkvæmt kjarasamningi, miskabóta vegna brota á málsmeðferðarreglum þegar staðan var lögð niður og innheimtuþóknunar. Ógildingarkröfu A var vísað frá dómi. LSH var dæmdur til að greiða A innheimtuþóknun og hluta málskostnaður en sýknaður af öðrum kröfum A.
6
Dómur héraðsdóms Reykjavíkur frá 31. maí 2006 í máli nr. E-5864/2005: II gegn íslenska ríkinu.
LAUN.
Viðurkennd var fjárkrafa I um greiðslu launa og viðurkenningu á frekari greiðsluskyldu vegna ákvörðunar skólameistara Menntaskólans á Ísafirði þann 23. febrúar 2005 um að leysa I undan starfsskyldum sem sviðsstjóra erlendra tungumála við MÍ. Lækkaði I í kjölfar þess um tvo launaflokka og var annar þeirra sviðsstjóraflokkurinn og hinn vegna alúðarröðunar.
7
Dómur Hæstaréttar frá 8. júní 2006 í máli nr. 8/2006: Landspítali-háskólasjúkrahús gegn TZ
BREYTING Á STÖRFUM, STARFSLOK
Framkvæmdastjórn LSH ákvað að hefja undirbúning að breytingum á starfstilhögun yfirmanna þess þannig að þeir myndu framvegis vera í 100% starfi og ekki sinna störfum utan LSH öðrum en kennslu og annars konar störfum við háskóla. T rak eigin læknastofu samhliða yfirlæknisstarfi sínu. Í kjölfar samþykktarinnar áttu T og fyrirsvarsmenn LSH í viðræðum um skyldu hans til að hlíta henni, sem lauk með því að T var tilkynnt að ákveðið hefði verið að leysa hann undan þeirri ábyrgð og stjórnunarskyldum, sem fylgdu starfi yfirlæknis, og að framvegis myndu starfsskyldur hans felast í starfi sérfræðilæknis á geðsviði. LSH reisti ákvörðunina á 19. gr. laga nr. 70/1996, þar sem mælt er fyrir um skyldu ríkisstarfsmanna til að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði, og að eftir þessa breytingu yrðu ekki gerðar athugasemdir við fyrirkomulag atvinnurekstrar hans. T krafðist ógildingar en til vara viðurkenningar á ólögmæti þessarar ákvörðunar. Dómurinn taldi að starf og verksvið yfirlækna væri bundið í lögum og yrði ekki breytt með ákvörðun stjórnvalds. Umrædd breyting var ekki liður í almennum skipulagsbreytingum á starfsemi LSH heldur gerð í tilefni af því að T vildi ekki láta af sjálfstæðum atvinnurekstri sínum. Með henni var T leystur undan lögboðnum stjórnunarskyldum sínum og jafnframt settur undir boðvald annars manns sem við þeim tók. Ákvörðun sú sem tekin af LSH rúmaðist af þessum sökum ekki innan heimildar til breytinga á verksviði starfsmanns samkvæmt 19. gr. laga nr. 70/1996. Ekki lá annað fyrir en að um starfslok T ætti að fara eftir 25. gr. og VI. kafla laga nr. 70/1996, sbr. 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum. Þar sem ákvörðunin var hvorki reist á þessum ákvæðum né hafði LSH haldið því fram að skilyrðum þeirra hefði í raun verið fullnægt var féllst dómurinn á að hún hefði verið ólögmæt. Dómurinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ákvörðunin hefði verið tekin af þar til bæru stjórnvaldi og var því ekki fallist á kröfu T um ógildingu hennar, sbr. 2. mgr. 32. gr. laganna. Varakrafa T var hins vegar tekin til greina þannig að viðurkennt var að LSH hefði verið óheimilt að grípa til umræddrar breytingar á starfi T.
8
Dómur héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. júní 2006 í máli nr. E-5272/2005: ÞG gegn Sinfóníuhljómsveit Íslands.
STARFSLOK, UPPSÖGN, SAMSKIPTAVANDI, ÁMINNING, SKAÐABÆTUR
Þ voru dæmdar bætur vegna þess að honum hafði verið sagt upp störfum með ólögmætum hætti. Dómurinn taldi að S væri ríkisstofnun og að um réttarstöðu starfsmanna hennar giltu lög nr. 70/1996. Þ var sagt upp störfum vegna langvarandi vandkvæði sem fylgt hafði störfum hans hjá S. Niðurstaða dómsins var að uppsögn Þ úr starfi væri byggð á því að hann hefði gerst sekur um mistök í starfi, slík sem fjallað er um í 21. gr. laganna og bar því samkvæmt 44. gr. að veita Þ áminningu og gefa honum kost á að bæta ráð sitt. Auk þess komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að gefa bæri Þ kost á að tala máli sínu áður en honum var veitt áminning, sbr. lokamálslið 21. gr. laga nr. 70/1996. Var þess ekki gætt áður en Þ var áminntur og jafnframt byggði uppsögnin á sömu atvikum og áminnt var fyrir en dómurinn taldi rétt hjá S að uppsögn gæti byggst á sams konar yfirsjónum og áminnt er fyrir en ekki þeim hinum sömu. Dómi þessum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.
9
Dómur héraðsdóms Reykjavíkur frá 29. júní 2006 í máli nr. E-7184/2005: SM gegn Landspítala-háskólasjúkrahúsi.
ÁMINNING
Við skipulagsbreytingar á LSH kom upp ágreiningur milli S og framkvæmdastjóra lækninga hjá LSH um það hvort S bæri að hætta rekstri lækningastofu. S taldi að ekki hefði verið uppfyllt af hálfu LSH það skilyrði í minnisblaði að fullnægjandi starfsaðstöðu hefði verið komið upp hjá LSH fyrir S og væri sá tími sem hann skyldi hætta rekstri læknastofunnar þar með ekki kominn að áliti hans. LSH taldi hins vegar að breytingar og lagfæringar, sem gerðar hefðu verið, samrýmdust í öllum meginatriðum áformum þar um, auk þess sem þær stæðust fyllilega samanburð við þróun annars staðar á spítalanum. Var S að lokum veitt áminning og honum veitt færi á að bæta ráð sitt en ítrekað brot kynni að varða uppsögn, sbr. 44. gr. laga nr. 70/1996. S krafðist þess að áminning, sem LSH veitti honum 31. október 2005, yrði dæmd ólögmæt. Niðurstaða dómsins var sú að LSH hefði ekki sýnt fram á að hann hefði haft lögmæta ástæðu samkvæmt 21. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins til að veita S áminningu. Áminningin var því talin ólögmæt og krafa S þess efnis tekin til greina.
10
Dómur héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. júní 2006 í máli nr. E-4916/2005: HÞG gegn
Íslenska ríkinu.
UPPHAF STARFS, FATLAÐIR, JAFNRÉTTI
Íslenska ríkið sýknað af bótakröfu vegna ráðningar í starf. H, 75% öryrki vegna fötlunar í baki, sótti um laust starf við afgreiðslu í Héraðsdómi Reykjavíkur. Annar umsækjandi en H var ráðinn í starfið. Óskaði H eftir rökstuðningi. Í rökstuðningi kom meðal annars fram að starfið væri mjög erilsamt og krefðist þess að viðkomandi væri snar í snúningum auk þess sem nauðsynlegt væri að fara víða um húsið, svo sem í geymslur og á aðra staði til þess að getað unnið afgreiðslustörfin að fullu. H hélt því fram að rökin fyrir því að ráða hann ekki til starfsins væri í andstöðu við ákvæði laga um málefni fatlaðra, í andstöðu við sjálfa auglýsinguna um starfið og þær forsendur sem þar voru gefnar um starfshæfi, hann hafi ekki verið kallaður til viðtals og að brotið hefði verið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Um bort á jafnréttislögum sagði dómurinn að engin rannsókn hafi farið fram af hálfu kærunefndar jafnréttismála um réttarstöðu H á grundvelli laga nr. 96/2000. Hvað varðaði forgang fatlaða sagði dómurinn að í lögum um málefni fatlaðra segði að fatlaðir skuli eiga forgang að atvinnu hjá ríki og sveitarfélagi ef hæfni þeirra til starfsins sé meiri eða jöfn hæfni annarra sem um starfið sækja. Um þau skilyrði sem birtast í atvinnuauglýsingu sagði dómurin að þau girði ekki fyrir þann rétt vinnuveitanda að velja þann umsækjanda sem hefur meiri menntun, umfram það sem krafist er, ef margir sækja um starfið. Um það að H var ekki kallaður til viðtals sagði dómurinn að vinnuveitanda sé frjálst að ákveða hvaða aðferð hann viðhefur við mat á atvinnuumsóknum svo fremur sem reglur stjórnsýsluréttar séu virtar og var HédR ekki skylt að kalla H til viðtals heldur mátti meta umsækjendur á grundvelli upplýsinga þeirra sjálfra enda verði að játa vinnuveitanda nokkuð svigrúm til að meta umsækjendur út frá forsendum þess starfs sem auglýst er. Dómi þessum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.
11
Dómur Félagsdóms frá 6. júlí 2006 í máli nr. 4/2006: Félag íslenskra flugumferðarstjóra
gegn íslenska ríkinu.
BREYTING Á VAKTAKERFI
Í sýknað að kröfu F en deilt var um það hvort Flugmálastjórn Íslands hefði brotið gegn kjarasamningi aðila með einhliða breytingum sínum á vaktakerfi í Flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík.
12
Dómur héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. september 2006 í máli nr. E-2445/2006: ÓÁ gegn
Fjársýslu ríkisins, ríkisfjárh.
LAUN
Laun Ó voru leiðrétt í framhaldi af dómi héraðsdóms í september 2005 til samræmis við dóminn fram til 11. febrúar 2005 en frá þeim degi kom ekki leiðrétting á laun H, ef frá er talin 2,36% leiðrétting, sem greidd var í febrúar 2006. Auk kröfu um leiðréttingu á laun gerði Ó kröfu til greiðslu 13,04% orlofs á hin vangreiddu laun í samræmi við kjarasamning. Enginn ágreiningur var um launakröfuna, en málskostnaðarkröfu Ó var hins vegar mótmælt sem of hárri. Niðurstaða dómsins var sú að F var dæmt til að greiða Ó umkrafin laun auk málskostnaðar samkvæmt ákvörðun dómsins.
13
Dómur Hæstaréttar frá 12. október 2006 í máli nr. 503/2005: HA gegn Lánasýslu ríkisins.
STARFSLOK, LAGAHEIMILD
Deilt var um gildi ákvæðis í starfslokasamningi sem forstjóri L og H gerðu með sér. Kom þar fram að L tæki að sér þá skuldbindingu að tryggja að H hlyti þau lífeyrisréttindi sem reglur lífeyrissjóðsins B kvæði á um, það er 85% af meðallaunum síðustu fimm ára án skerðingar. Að virtu orðalagi ákvæðisins, aðdraganda samningsins og skýringa aðila taldi dómurinn að L hefði lofað að rétta hlut H ef hann næði ekki fram rétti sínum gagnvart lífeyrissjóðnum með því að ábyrgjast að hann fengi lífeyrisgreiðslur svo sem þar segir. Var talið að H hefði mátt treysta því að L myndi efna þetta loforð og að ósannað væri að það hafi verið háð því skilyrði að L fengi óskilyrt umboð til málshöfðunar gegn lífeyrissjóðnum. Hvað varðaði það álitaefni hvort forstjóra L hefði verið heimilt að skuldbinda stofnunina með þessum hætti var litið til 8. gr. laga nr. 43/1990 og talið leiða af ákvæðinu að forstjórinn segði starfsmönnu upp og gerð starfslokasamninga á borð við þann sem gerður var við H. Þá leit dómurinn til þess að samkvæmt 1. mgr. 10. gr. sömu laga hafi L sérgreinda tekjuliði sem meðal annars skuli nota til greiðslu launatekna starfsmanna. Auk þess var tekið fram að á þeim langa tíma sem tók að ganga endanlega frá samkomulagi aðila um lífeyristöku H og þar til hún skyldi hefjast hefði verið nægur tími fyrir forstjóra L til að afla formlegrar heimildar til greiðslna samkvæmt hinu umdeilda ákvæði, ef hann taldi slíkrar heimildar þörf. Eins og á stóð og þegar litið var til stöðuumboðs forstjórans taldi dómurinn að H hafi hvorki mátt vera ljóst að formlegrar heimildar væri þörf né að hennar yrði ekki aflað, væri hennar talin þörf. Taldi dómurinn því að ekki bæri að sýkna L af þessari ástæðu og jafnframt féllst hann ekki á að aðrar málsástæður gætu leitt til sýknu. Þá taldi dómurinn ekki efni til að fallast á varakröfu L um sýknu að svo stöddu.
14
Dómur héraðsdóms Reykjavíkur frá 27. október 2006 í máli nr. E-7054/2005: FRF gegn Lögreglustjóranum í Reykjavík og íslenska ríkinu.
ÁMINNING
Viðurkennt var að F hefði sýnt óhlýðni við löglegt boð yfirmanns síns og hefði þar af leiðandi verið heimilt að áminna hann í starfi. Hins vegar taldi dómurinn ósannað að F bæri ábyrgð á símtali og smáskeytasendingum til nafngreinds manns sem vísað hafði verið til í áminningarbréfi.
15
Dómur Hæstaréttar frá 30. október 2006 í máli nr. 563/2006: ST gegn íslenska ríkinu.
STARFSLOK, NIÐURLAGNING, KÆRUMÁL, FLÝTIMEÐFERÐ.
Starf S á upplýsingatæknisviði LSH var lagt niður vegna skipulagsbreytinga. Störf fjögurra annarra starfsmanna á sama sviði voru jafnframt lögð niður frá sama tíma. Dómurinn féllst á með S að málið gæti talist varða stórfellda hagsmuni S. Þó að S gæti krafist skaðabóta í tilefni uppsagnarinnar kemur það ekki í stað kröfu um ógildingu hennar, er miðar að því að S fái að halda starfi sínu. Sagði dómurinn að verði ekki fallist á flýtimeðferð málsins væri ljóst að ekki fengist úr því skorið fyrir dómstólum, áður en uppsögnin kæmi til framkvæmda, hvort unnt væri að taka til greina aðalkröfu S. Féllst dómurinn því á að S væri brýn þörf á skjótri úrlausn málsins. Þá útilokuðu ummæli í uppsagnarbréfinu þess efnis að ákveðið hafi verið að leggja starf S niður ekki að hann haldi starfi sínu ef fallist verður á aðalkröfu S. Leit dómurinn til þess að samkvæmt gögnum málsins á uppsögn S rætur að rekja til fækkunar starfsmanna á upplýsingasviði LSH vegna breytinga á skipulagi starfseminnar, sem þar fer fram, en ekki til þess að sú starfsemi sé að leggjast af innan LSH. S kvaðst gegna starfi sem sé almennt og taki til allra verkefna á fagsviði S og að slíkum verkefnum verði áfram sinnt af starfsmönnum LSH eftir að uppsögn hans á að koma til framkvæmda. Tók dómurinn fram að ekki væri útilokað að leggja dóm á kröfu S áður en uppsagnarfresti hans lyki. Niðurstaða dómsins var því sú að uppfyllt voru skilyrði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 og lagt fyrir héraðsdómara að gefa út stefnu til flýtimeðferðar í málinu.
16
Dómur Héraðsdóms Vesturlands frá 7. nóvember 2006 í máli nr. E-27/2006: S gegn Fjölbrautaskóla Vesturlands.
UPPSÖGN. NIÐURLAGNING. SKIPULAGSBREYTINGAR. ORLOF Á UPPSAGNARFRESTI.
Í mars 2000 auglýsti F lausa til umsóknar kennarastöðu í myndlist. S sótti um stöðuna og var ráðinn í fullt starf hjá F. Eftir að S hafði starfað liðlega í eitt ár hjá F var gerður við hann skriflegur ráðningarsamningur. Samkvæmt þeim samningi var S ráðinn í fullt starf og átti að taka laun samkvæmt kjarasamningi ríkisins við KÍ. Einnig var tekið fram í samningnum að uppsagnarfrestur væri þrír mánuðir miðað við mánaðamót. Í fyrstu fólst starf S einkum í því að kenna myndlist hjá F, en samhliða var S falið að kenna stærðfræði í grunnáföngum til að fylla upp í starf hans hjá F. Haustið 2003 voru fáir nemendur við skólann sem völdu myndlist og enginn valdi þá grein á vormisseri 2004. Hafði S þá eingöngu með höndum stærðfræðikennslu. Á þessum tíma hafði orðið sú breyting að engin námsbraut var í boði við skólann sem hafði listgrein sem skyldufag. Síðasta brautin við skólann sem hafði slíka kjarnagrein var uppeldisbraut, en sú braut var lögð niður eftir að sett var ný aðalnámskrá fyrir framhaldsskóla. Haustið 2003 sótti S um námsorlof frá kennslu skólaárið 2004 til 2005 á grundvelli heimildar í 12. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 80/1996, og reglugerðar um námsorlof framhaldsskólakennara, nr. 331/1997. Með bréfi menntamálaráðuneytisins í nóvember 2003 var fallist á þá beiðni og S veitt námsorlofið með fullum föstum launum. Var miðað við að S kæmi aftur til starfa hjá F í byrjun ágúst 2005 að loknu námsorlofi og sumarleyfi í kjölfarið. Með bréfi í maí 2005 var S sagt upp störfum hjá F með þriggja mánaða uppsagnarfresti frá næstu mánaðamótum. Óskaði S eftir skriflegum rökstuðningi fyrir uppsögninni. Sá rökstuðningur var veittur með bréfi skólameistara en þar kom fram að ástæður uppsagnarinnar væru rekstrarlegs eðlis. Með bréfi lögmanns S í desember 2005 var skorað á F að draga uppsögnina til baka þar sem hún væri ólögmæt. Þeirri málaleitan var hafnað með bréfi F. Fyrir dómi bar S m.a. brigður á að málefnaleg sjónarmið hafi legið til grundvallar ákvörðun F. Í dómnum kom fram um þetta að á fyrirsvarsmönnum F hvíldi sú almenna skylda að sýna ráðdeild við meðferð þeirra fjármuna sem lagðir eru til skólans og hagræða eftir því sem föng eru á í rekstrinum. Í samræmi við það bar að draga saman við starfsmannahald eftir þörfum á hverjum tíma miðað við þær greinar sem kenndar voru við skólann. Þá bar fyrirsvarsmönnum F að taka mið af menntun þegar kennslu er úthlutað til kennara skólans, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 86/1998 , um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Leit dómurinn svo á að það hefði verið málefnalegt að líta til þess að kennsla hefði dregist saman í þeirri grein sem S var upphaflega ráðinn til að kenna. Jafnframt var málefnalegt að taka mið af því að S hefði ekki viðhlítandi menntun í stærðfræði og fela kennurum með menntun í þeirri grein að annast þá kennslu. Í því tilliti gat engu breytt þótt S hefði nokkra reynslu af stærðfræðikennslu á grunn- og framhaldsskólastigi, og að hann hefði í námsorlofi haustið 2004 lokið sjö einingum í þeirri grein við Kennaraháskóla Íslands. Þá taldi dómurinn að ekkert hefði komið fram sem stutt gat þá fullyrðingu S að óvild skólameistara F hefði haft áhrif á þá ákvörðun að segja S upp störfum. Að öllu þessu virtu taldi dómurinn að F hefði reist ákvörðun sína um uppsögn S á málefnalegum sjónarmiðum. Af hálfu S var einnig byggt á því að meðalhófs hefði ekki verið gætt þegar ákveðið var að segja honum upp starfi en dómurinn féllst ekki á að með ákvörðun um uppsögn S hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. S var afhent uppsagnarbréf F í byrjun maí 2005 og miðaði F við að þriggja mánaða uppsagnarfrestur tæki að líða frá næstu mánaðamótum. Um það leyti var S að ljúka námsorlofi sínu og hefja töku reglulegs orlofs, en gert var ráð fyrir að S snéri aftur til starfa að því loknu í byrjun ágúst. Með uppsögn sinni gat F ekki án samþykkis S skipað málum þannig að uppsagnarfrestur, sem ekki var lengri en hér reyndi á, félli saman við sumarleyfi S, sem hann átti ekki kost á að taka á öðru tímabili, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 17. febrúar 1994 (Hrd. 1994/329). Samkvæmt þessu gat uppsögn S að réttu lagi ekki haft áhrif fyrr en frá 1. ágúst þannig að uppsagnarfrestur hafi liðið í lok október 2005. Tók dómurinn því til greina kröfu S að því marki sem S fékk ekki greidd laun miðað við þriggja mánaða uppsagnarfrest, sem tók að líða 1. ágúst 2005. S fékk greidd laun í ágúst og voru honum því dæmdar bætur sem svöruðu til launa í september og október. Auk þess var F dæmdur til að greiða bætur sem svöruðu til meðaltals yfirvinnu auk fjárhæðar sem nam orlofi og mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Hins vegar tók dómurinn ekki til greina kröfuliði vegna eingreiðslu í nóvember 2005 og desemberuppbótar það ár, enda var ráðningarsambandi aðila þá endanlega lokið. Auk þess voru dregnar frá greiðslur sem S fékk úr sjúkrasjóði stéttarfélags fyrir það tímabil sem dæmdar bætur tóku til með vísan til almennra bótasjónarmiða og dómvenju. Aftur á móti var ekki fallist á það með F að draga ætti frá bótum laun sem S fékk vegna viðbótar námsorlofs á öðru tímabili.
17
Dómur héraðsdóms Reykjavíkur frá 10. nóvember 2006 í máli nr. E-2348/2006: EGG gegn íslenska ríkinu
LAUN, DRÁTTARVEXTIR.
Ríkið og Landsamband lögreglumanna gerðu með sér samning um kjaramál lögreglumanna og var síðan gerður sérstakur stofnanasamningur. Með þessu samkomulagi var breytt nokkuð reglum um launahækkun vegna starfsaldurs. Urðu af þessu nokkrar deilur og höfðuðu nokkrir lögreglumenn mál á hendur ríkinu. Lauk þeim málum með dómum Hæstaréttar í mars 2004. E hafði ekki höfðað mál, en í framhaldi af dómum þessum voru launagreiðslur til hans leiðréttar. E krafðist þess að greiddir yrðu dráttarvextir af hinni vangreiddu upphæð. Niðurstaða dómsins var sú að Í var dæmdt til að greiða E dráttarvexti af launum sem ekki höfðu verið greidd að fullu. Dómi þessum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.
18
Dómur Hæstaréttar frá 16. nóvember 2006 í máli nr. 195/2006: Íslenska þjóðkirkjan gegn SG. (sjá umfjöllun um dóm héraðsdóms í lið 1)
UPPHAF STARFS, HÆFISNEFND, MÁLSMEÐFERÐ, JAFNRÉTTI, SKAÐABÆTUR.
Embætti sendiráðsprests í London var auglýst laust til umsóknar, en embættið er samstarfsverkefni Íslensku þjóðkirkjunnar, Utanríkisráðuneytisins og Tryggingastofnunar ríkisins. Skipuð var sérstök hæfisnefnd með fulltrúum fyrrnefndra aðila og tekið fram að álit hennar væri bindandi. Nefndin mælti með því að A, sem er tengdasonur biskups, yrði skipaður til að gegna embættinu og var það gert. S, sem hafði einnig sótt um embættið, krafðist viðurkenningar á því að Í væri skaðabótaskyld vegna skipunarinnar. Dómurinn taldi ekkert því til fyrirstöðu að biskup hefði í samráði við þá sem tilnefndu fulltrúa í hæfisnefndina mátt ákveða að niðurstaða hennar yrði bindandi, enda hélt hann formlegu skipunarvaldi sínu og bar áfram ábyrgð á því að skipun í embættið væri lögmæt. Þá féllst dómurinn ekki á að brotið hefði verið gegn vanhæfisreglum stjórnsýsluréttar með afskiptum biskups af skipuninni eða að fulltrúi U hefði verið vanhæfur til setu í nefndinni. Þá taldi dómurinn ekki að formgalli hafi verið á málsmeðferð nefndarinnar þar sem einn nefndarmanna hefði setið hjá við afgreiðslu málsins eða að brotið hefði verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar þar sem ákvörðun hefði verið tekin án þess að tiltekin meðmæli hefðu borist nefndinni. Hins vegar komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að nefndin hefði ekki gætt málefnalegra sjónarmiða við mat á starfsreynslu og framhaldsmenntun umsækjenda. Taldi dómurinn að S hefði sýnt fram á að starfsreynsla hennar og menntun hefðu nýst henni þannig að hún hafi verið A jafnhæf eða hæfari til að gegna umræddu embætti. Engin kona gegndi prestsembætti erlendis og hafði Í ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hefðu legið til grundvallar þeirri ákvörðun að skipa A í embættið. Niðurstaða dómsins var sú að brotið hefði verið gegn 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna með skipuninni. Auk þess komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að S hefði leitt nægilegar líkur að því að hún hefði orðið fyrir fjárhagstjóni sem Í bæri skaðabótaábyrgð á.
19
Dómur Hæstaréttar frá 23. nóvember 2006 í máli nr. 597/2006: DDS gegn
Landspítala-háskólasjúkrahúsi.
BREYTING Á STÖRFUM, KÆRUMÁL, FLÝTIMEÐFERÐ.
D, hjúkrunarfræðingur á LSH, óskaði eftir flýtimeðferð vegna máls til ógildingar á tilfærslu milli deilda á geðsviði LSH. Dómurinn taldi að ráða mætti af rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun að hún væri ekki byggð á því að ávirðingar, sem á D hafa verið bornar af samstarfsmanni hennar, séu á rökum reistar, heldur hafi verið talið að ágreiningur þeirra myndi valda röskun á starfsemi viðkomandi deildar og að við því hafi þurft að bregðast. Dómurinn sagði að ákvörðunin fæli ekki í sér starfslok D á geðsviði LSH en hins vegar væri það háð viðbrögðum D hvort tilfærslan geti leitt til þess að D hætti þar störfum. Með þessum athugasemdum og með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar staðfesti dómurinn synjun á útgáfu stefnu til flýtimeðferðar.
20
Dómur héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. desember 2006 í máli nr. E-6591/2006: ST gegn Landspítala-háskólasjúkrahúsi.
UPPSÖGN, STARFSLOK, NIÐURLAGNING.
Starf S á upplýsingatæknisviði LSH var lagt niður vegna skipulagsbreytinga. Störf fjögurra annarra starfsmanna á sama sviði voru jafnframt lögð niður frá sama tíma. S krafðist þess að ákvörðun LSH um að segja honum upp störfum yrði dæmd ólögmæt. Vísaði S til málsmeðferðarreglna stjórnsýsluréttarins, meðalhófsreglunnar og rannsóknarreglunnar og efnisreglna stjórnsýsluréttarins, réttmætisreglunnar og jafnræðisreglunnar. LSH hélt því fram að hið nýja skipulag upplýsingatæknisviðs miðaði að því að ná fram nokkrum meginmarkmiðum í rekstinum þannig að fækkað yrði deildum og millistjórnendum, skerpt yrði á verkefnum hverrar deildar og starfsemi þeirra gerð skilvirkari. Markmið breytinganna hafi óhjákvæmilega leitt til þess að leggja varð niður fimm störf og starfsmönnum fækkað í samræmi við það. Þetta hafi verið kynnt starfsmönnum sviðsins á fundi og S verið tilkynnt að ákveðið hafi verið á leggja niður starfið sem hann gegndi. LSH taldi þessa ákvörðun lögmæta þar sem hún byggði á málefnalegum rökum og lögmætum ástæðum og það hafi verið heimilt að leggja niður starf S og segja honum upp störfum með vísan til 43. og 44. gr. starfsmannalaga. Niðurstaða dómsins var sú LSH hafi sýnt fram á að ákvarðanir um skipulagsbreytingar og uppsagnir starfsmanna hafi byggst á málefnalegum forsendum og mati stjórnenda LSH á því að aðgerðir þessar væru nauðsynlegar til að ná fram þeirri hagræðingu sem stefnt var að með þeim. Einnig taldi dómurinn að LSH hafi gætt þess að fyrir lægju fullnægjandi upplýsingar um ástæður uppsagnarinnar og því ekki brotið gegn rannsóknarreglunni og jafnframt voru engin rök talin standa til þess að álykta að S hafi ekki notið jafnræðis við mat LSH á því hvernig verkefnum skyldi sinnt samkvæmt hinu nýja skipulagi og þegar ákvörðun var tekin um uppsögnina. LSH var því sýknað að kröfum S.