Aukin vetrarþjónusta hjá Vegagerðinni
Vegagerðin eykur til muna vetrarþjónustu á þjóðvegum landsins næsta vetur. Sem dæmi má nefna aukna vetrarþjónustu á aðalvegum á Vestfjörðum og um norðausturhluta landsins.
Sem dæmi um breytinguna segir Björn Ólafsson, forstöðumaður þjónustudeildar Vegagerðarinnar, að veitt verði þjónusta sjö daga vikunnar á Vestfjörðum, bæði á Vestfjarðavegi milli Búðardals um Barðastrandasýslur og Vesturbyggðar og á Djúpvegi milli Brúar í Hrútafirði og Ísafjarðarsvæðisins en til þessa hefur þjónusta verið veitt þar fimm til sex daga vikunnar. Þá verður sömuleiðis veitt þjónusta alla daga vikunnar á Norðausturlandi, þ.e. á öllum Norðausturvegi á leiðinni um Melrakkasléttu og austur um til Vopnafjarðar og um Vopnafjarðarheiði. Á Suðurlandi verður Þingvallaleiðinni haldið opinni alla daga vikunnar, bæði Mosfellsheiði og leiðinni milli Þingvalla og Selfoss. Á leiðinni um Þingvöll hefur þjónusta aðeins verið veitt þrjá daga vikunnar til þessa. Einnig verður þjónsta á leiðinni til Gullfoss og Geysis sjö daga vikunnar.
Björn segir að nokkur kostnaðaraukning fylgi aukinni vetrarþjónustu en krafa samfélagsins sé að öllum aðalvegum verði haldið opnum allt árið, umferðarþunginn sé sífellt meiri og bæði atvinnulífið og ferðir fólks í sumarbústaði og aðrar ferðir krefjist þess. Með þessari auknu þjónustu verði nú stærstum hluta vegakerfisins haldið opnum árið um kring. (Mynd).