Hoppa yfir valmynd
18. mars 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 38/2021-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 38/2021

Fimmtudaginn 18. mars 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Erla Guðrún Ingimundardóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 24. janúar 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Fæðingarorlofssjóðs vegna umsóknar hans um greiðslur úr sjóðnum.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barnsfæðingar X. Umsókn kæranda var samþykkt og honum kynnt greiðsluáætlun með ákvörðun, dags. 6. nóvember 2019, þar sem fram kom að mánaðarleg greiðsla til hans yrði 485.537 krónur á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 24. janúar 2021.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að kærð sé ákvörðun frá 6. nóvember 2019. Fram kemur að hann eigi X börn og hafi X yngstu börnin fæðst X og X. Kærandi kveðst hafa notað þrjár vikur af fæðingarorlofi sínu vegna barns sem fæddist X en hann eigi rétt til 90 daga fæðingarorlofs samkvæmt lögunum sem nýta verði innan 24 mánaða frá fæðingardegi barnsins. Þegar eiginkona hans hafi orðið ólétt af yngsta barni þeirra hafi kærandi lagt inn umsókn hjá Fæðingarorlofssjóði í apríl 2019. Kærandi hafi talið að þegar hann lagði fram umsókn sína um fæðingarorlof á tímabilinu júní til ágúst 2019 vegna barns sem fæddist X, hafi hann verið að ráðstafa fæðingarorlofi sem hann átti rétt á vegna barns sem fæddist X. Þegar kærandi hafi viljað sækja um fæðingarorlof í mars og apríl 2021 hafi komið í ljós að Fæðingarorlofssjóður hafði reiknað fæðingarorlofið út frá hinu nýfædda barni, ekki barni fæddu X. Kærandi telur að Fæðingarorlofssjóður hafi gert mistök en í kjölfar tölvupóstsamskipta við sjóðinn hafi starfsmenn bent honum á að honum hafi yfirsést að tilgreina í umsókn fæðingardag barns.

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 6. nóvember 2019, um að mánaðarleg greiðsla til kæranda yrði 485.537 krónur á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 6. nóvember 2019, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, móttekinni 24. janúar 2021. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þess að kæra í máli þessu barst rúmlega einu ári og tveim mánuðum eftir að ákvörðun var tilkynnt kæranda er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta