Hoppa yfir valmynd
15. desember 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 557/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 557/2021

Miðvikudaginn 15. desember 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafræni kæru, móttekinni 28. október 2021, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. október 2021 um upphafstíma greiðslu heimilisuppbótar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Vegna breytinga á lögheimili kæranda voru greiðslur heimilisuppbótar til hennar stöðvaðar með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. janúar 2008. Í bréfinu var kærandi upplýst um að hún þyrfti að sækja um heimilisuppbót að nýju fyrir 15. febrúar 2008, ella myndu greiðslur falla niður frá og með 1. mars 2008. Kærandi sótti á ný um greiðslur heimilisuppbótar frá 1. mars 2008 frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 20. ágúst 2021. Með bréfi, dags. 7. október 2021, samþykkti Tryggingastofnun ríkisins greiðslur heimilisuppbótar frá 1. september 2019.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. október 2021. Með bréfi, dags. 2. nóvember 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 12. nóvember 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. nóvember 2021. Athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Með kæru fylgdi ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 7. október 2021, þar sem fram kemur að umsókn kæranda um heimilisuppbót hafi verið samþykkt frá 1. september 2019. Enginn rökstuðningur fylgdi kæru.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé upphafstími greiðslna heimilisuppbótar til kæranda en samþykkt hafi verið með bréfi, dags. 7. október 2021, að greiða tvö ár aftur í tímann frá umsókn, eða frá 1. september 2019.

Samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Í 7. gr. reglugerðar nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri komi fram að einstaklingar sem séu skráðir með sama lögheimili og séu eldri en 18 ára teljist að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan. Heimilisuppbót verði ekki greidd til aðila sem svo sé ástatt um sem hér segi:

„1. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að hafa sameiginlega aðstöðu varðandi fæði eða húsnæði, t.d. sambýli á vegum félagasamtaka, ríkis og sveitarfélaga.

2. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra aðila um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

3. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að leigja herbergi eða húsnæði með sameiginlegri eldunaraðstöðu með öðrum.“

Í 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð komi fram að ákvæði laga nr. 100/2007 um almannatryggingar gildi um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við eigi.

Samkvæmt 39. gr. laga um almannatryggingar sé umsækjanda rétt og skylt að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslur bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum. Þá sé skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur og greiðslur.

Í 52. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um að sækja skuli um allar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins og að umsóknir skuli vera á þar til gerðum eyðublöðum eða sendar með rafrænum hætti. Þá komi fram í 4. mgr. 53. gr. sömu laga að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn berist.

Tryggingastofnun hafi greitt kæranda heimilisuppbót til 1. mars 2008 en þá hafi hún verið stöðvuð vegna flutnings kæranda. Stofnunin hafi sent kæranda bréf, dags. 18. janúar 2008, þar sem fram hafi komið að vegna breytinga á lögheimili þyrfti hún að sækja um heimilisuppbót að nýju og að greiðslur myndu falla niður frá og með 1. mars 2008 ef ný umsókn myndi ekki berast fyrir 15. febrúar 2008.

Réttindi og skilyrði greiðslna heimilisuppbótar séu bundin í lögum og lagatúlkun. Í 1. mgr. 52. gr. og 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar komi fram að sækja þurfi um bætur skriflega og að ekki sé heimilt að greiða lengra aftur í tímann en tvö ár. Þá segi í 39. gr. laganna að umsækjanda sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt. Sú skylda sé því lögð á bótaþega að hann leiti eftir rétti sínum. Það hafi kærandi gert með umsókn, dags. 20. ágúst 2021, og hafi verið samþykkt að greiða henni heimilisuppbót tvö ár aftur í tímann frá því að umsókn hafi borist, eða frá 1. september 2019.

Samkvæmt skýru og afdráttarlausu orðalagi 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar skuli bætur aldrei úrskurðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta berist stofnuninni. Með framangreindri afgreiðslu á umsókn kæranda um greiðslur heimilisuppbótar telji Tryggingastofnun að komið sé eins langt til móts við kröfur hennar og leyfilegt sé lögum samkvæmt. Ekki sé til staðar lagaheimild til að greiða heimilisuppbót lengra aftur í tímann en greitt hafi verið.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 7. október 2021, þar sem umsókn kæranda um heimilisuppbót var samþykkt frá 1. september 2019. Í umsókn óskaði kærandi eftir greiðslum frá 1. mars 2008 og af því má ráða að ágreiningur málsins lúti að því hvort Tryggingastofnun sé heimilt að greiða heimilisuppbót lengra aftur í tímann.

Um heimilisuppbót er fjallað í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingu, þar sem segir í 1. mgr.:

„Heimilt er að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem býr einn og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.“

Í reglugerð nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, með síðari breytingum, eru skilyrði ákvæðisins nánar útfærð.

Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda lög nr. 100/2007 um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Þá segir í 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð að einnig skuli beita V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna. Um upphafstíma greiðslna er fjallað í 53. gr. laga um almannatryggingar. Svohljóðandi eru 1. og 4. mgr. ákvæðisins:

„Réttur til bóta stofnast frá og með þeim degi er umsækjandi telst uppfylla skilyrði til bótanna og skulu bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi. Bætur falla niður í lok þess mánaðar er bótarétti lýkur.

[…]

Bætur skulu aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berst umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta.“

Af framangreindu ákvæði verður ráðið að ekki sé heimilt að ákvarða bætur lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur nauðsynleg gögn til að leggja mat á bótarétt og fjárhæð bóta berast Tryggingastofnun ríkisins. Þá skulu bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi. Tryggingastofnun stöðvaði greiðslur heimilisuppbótar til kæranda 1. mars 2008. Kærandi sótti á ný um greiðslur heimilisuppbótar með umsókn, dags. 20. ágúst 2021, og fór hún fram á afturvirkar greiðslur frá 1. mars 2008. Tryggingastofnun ákvarðaði henni greiðslur frá 1. september 2019. Kærandi fékk því greiddar bætur tvö ár aftur í tímann, þ.e. stofnunin miðaði við fyrsta dag næsta mánaðar eftir að nauðsynleg gögn lágu fyrir samkvæmt 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 1. mgr. sömu greinar. Engar heimildir eru í lögum til þess að greiða bætur lengra aftur í tímann.

Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma greiðslna heimilisuppbótar staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma greiðslna heimilisuppbótar til A er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta