Hoppa yfir valmynd
21. júní 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 132/2012.

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 21. júní 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 132/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 10. júlí 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 9. júlí 2012 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 1. maí 2012. Fallist var á umsókn kæranda en réttur hennar til atvinnuleysisbóta var felldur niður í tvo mánuði í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.  Karl Ó. Karlsson hrl. kærði ákvörðunina f.h. kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, móttekinni 10. ágúst 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og viðurkenndur verði réttur hennar til atvinnuleysisbóta frá og með 1. maí 2012. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi starfaði sem herbergisþerna hjá B frá 16. júlí 2011 þar til henni var sagt upp störfum. Uppsögnin tók gildi 1. maí 2012. Með umsókn, dags. 1. maí 2012, sótti kærandi um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun. Samkvæmt vinnuveitendavottorði, dags. 16. maí 2012, var kæranda sagt upp í kjölfar viðvarana sem hún hefði fengið vegna hegðunar og brota í starfi.

Þann 25. júní 2012 barst Vinnumálastofnun skýringarbréf frá kæranda er varðaði afstöðu hennar til uppsagnarinnar hjá B. Í bréfi kæranda kemur fram að hún hafi fengið skriflega áminningu frá atvinnurekanda sínum sökum þess að ræstistörf hennar voru ófullnægjandi. Tekur kærandi fram að hún hafi í kjölfarið bætt sig í starfi og á fundi hennar með yfirmanni hafi verið tilkynnt að ekki myndi koma til uppsagnar. Hún hafi síðan fengið afhenta skriflega uppsögn 26. mars 2012 sem hún hafi ekki átt von á.

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 27. júní 2012, var kæranda tilkynnt að afgreiðslu á umsókn hennar hafi verið frestað vegna upplýsinga um starfslok sem fram kæmu á vottorði vinnuveitanda. Fram kom í bréfinu að líkur væru á að kærandi ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en að loknum biðtíma, sbr. X. kafla laga um atvinnuleysistryggingar.

Þann 21. september 2012 óskaði starfsmaður Vinnumálastofnunar eftir skriflegri afstöðu B á starfslokum kæranda sem barst stofnuninni með tölvubréfi 24. september 2012. Þar tiltekur starfsmannastjóri B að í janúar 2012 hafi kærandi fengið munnlega viðvörun í tvígang vegna lélegra vinnubragða og í kjölfarið fengið skriflega áminningu, dags. 13. febrúar 2012. Í framhaldi hafi kærandi bætt sig en eingöngu í mjög stuttan tíma og því hafi verið tekin ákvörðun um að segja henni upp störfum 26. mars 2012.

 

Í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar heldur kærandi því fram að hún hafi ekki átt sök á uppsögn sinni sjálf í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í rökstuðningi fyrir kæru er vísað til þess að til að starfsmaður geti talist hafa misst starf sitt af ástæðum sem hann á sjálfur sök á í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verði starfsmaður annaðhvort að hafa gerst sekur um svo verulega vanefnd á starfsskyldum sínum að það réttlæti fyrirvaralausa riftun ráðningarsamnings og stöðvun launagreiðslna eða að starfsmanni hafi verið sagt upp störfum að undangenginni árangurslausri áminningu. Ef starfsmanni er sagt upp í kjölfar árangurslausrar áminningar skapi það atvinnurekanda rétt til að rifta ráðningarsamningi og stöðva launagreiðslur. Slíkt eigi ekki við í tilviki kæranda þar sem vinnuveitandi hennar hafi nýtt sér kjarasamningsbundinn rétt til að segja kæranda upp að virtum uppsagnarfresti og án skýringa. Telur kærandi því að mál hennar falli þar af leiðandi ekki undir 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en til þess að svo hefði verið hefði vinnuveitandi þurft að vísa til fyrri áminningar í uppsagnarbréfinu og tilgreina sérstaklega að kærandanum hefði að mati atvinnurekanda ekki tekist að bæta ráð sitt. Kærandi telur jafnframt að órökstudd eftiráskýring í vottorði vinnuveitanda hafi enga þýðingu gegn fyrirliggjandi gögnum og skýringum kæranda.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 26. september 2012, kemur fram að stofnunin fallist ekki á þá túlkun 1. mgr. 54. gr. atvinnuleysistryggingalaga sem haldið hafi verið fram í rökstuðningi kæru, dags. 8. ágúst 2012. Stofnunin tiltekur í greinargerð sinni að hvorki gefi ákvæði 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar né ummæli í greinargerð með lögunum til kynna að svo aðili teljist hafa misst starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á þurfi að vera um að ræða verulegt brot í starfi sem hafi leitt til fyrirvaralausrar uppsagnar. Vinnumálastofnun bendir á að í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar segi meðal annars að erfiðleikum hafi verið bundið að takmarka þau tilvik sem gætu talist til gildra ástæðna í lögum og reglugerðum. Lagareglan sé því matskennd og hefur Vinnumálastofnun verið falið að meta hvort atvik og aðstæður hverju sinni falli að umræddri reglu. Stofnunin hafi við mat sitt litið til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða og komist að þeirri niðurstöðu að kæranda hafi ekki getað dulist ástæða uppsagnar hennar hjá B eftir að hafa fengið tvær áminningar í starfi á undangengnum tveim mánuðum. Það hafi enn fremur verið mat Vinnumálastofnunar í ljósi allra gagna málsins að kærandi hafi átt sök á uppsögn sinni í skilningi 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. september 2012, sent afrit af gögnum og athugasemdum Vinnumálastofnunar um málið og gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum fyrir 12. október 2012. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem er svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Ágreiningur málsins snýst um það hvort kærandi hafi misst starf sitt af ástæðum sem hún sjálf átti sök á. Við mat á því ber að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða, sbr. athugasemdir um ofangreint ákvæði í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt verður að hafa í huga að ákvörðun um frestun greiðslu í tvo mánuði er íþyngjandi í garð umsækjanda um atvinnuleysisbætur.

Með hugtakinu sök í skilningi 1. mgr. 54. gr. er átt við tilvik sem eru þess eðlis að leggja megi þau að jöfnu við uppsögn af hálfu starfsmannsins, þ.e. að starfsmaður hafi mátt segja sér að hegðunin gat leitt til uppsagnar. Ein frumskylda launþega er að sinna starfi sínu og vinna störfin vel í samræmi við það sem almennt má gera kröfu til. Úrræði þau sem atvinnurekendur geta gripið til vegna vanefnda starfsmanna á ráðningarsamningi fara eftir umfangi og eðli vanefndanna. Alvarlegustu viðbrögð atvinnurekanda eru að reka starfsmann fyrirvara- og bótalaust úr starfi. Sök launamanns á starfsmissi sínum í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnutryggingar verður þó ekki metin út frá því hversu hörð viðbrögð atvinnurekandans eru í hverju tilviki enda er tiltekið í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í greinargerð með frumvarpi því er varð að gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar að lagareglan sé matskennd og Vinnumálastofnun þurfi því að meta hvort atvik og aðstæður hverju sinni falla að umræddri reglu.

Við mat á því hvort umsækjandi atvinnuleysisbóta hafi sjálfur átt sök á uppsögn í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar geta uppsagnarbréf eða önnur gögn sem til urðu þegar til ráðningarslita kom verið mikilvæg.

Í tilviki kæranda liggur fyrir að hún var áminnt munnlega í byrjun árs 2012. Þann 13. febrúar 2012 var henni afhent skrifleg áminning vegna starfa hennar þar sem hún var ekki talin hafa sinnt starfi sínu sem skildi. Í áminningarbréfinu segir að henni séu gefnar tvær vikur til að lagfæra það sem áminnt var fyrir. Ekkert var aðhafst frekar vegna áminningarinnar. Kærandi leit því réttilega svo á að hún hefði bætt sig í vinnu sinni. Kæranda var afhent uppsagnarbréf þann 26. mars 2012 en engin ástæða er gefin fyrir uppsögninni í uppsagnarbréfinu og þar var henni sagt upp með kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti.

Tekið er undir þau rök kæranda að eins og atvik horfi við kæranda verði með engu móti ályktað að kærandi hafi átt sök á því að henni var sagt upp störfum. Til þess að starfsmaður geti talist hafa misst starf sitt af ástæðum sem hann á sjálfur sök á í skilningi framangreindrar 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 verður það að vera honum ljóst þegar uppsögn á sér stað. Það var fyrst í vottorði vinnuveitanda þann 16. maí 2012 til Vinnumálastofnunar að gefin var upp sú ástæða uppsagnar að hún væri í kjölfar áminningar. Að mati úrskurðarnefndarinnar er því ekki fallist á að skilyrði 1. mgr. 54. gr. framangreindra laga eigi við um kæranda. Kærandi átti því rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta í tvo mánuði frá 1. maí 2012 að telja.


 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 10. júlí 2012 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði er felld úr gildi. Kærandi á rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta í tvo mánuði frá 1. maí 2012 að telja.

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                 Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta