Hoppa yfir valmynd
21. júní 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 128/2012.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 21. júní 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 128/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 13. júlí 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 11. júlí 2012 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur. Umsóknin var samþykkt en með vísan til starfsloka hjá B var réttur kæranda til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir. Vinnumálastofnun tók ákvörðun þessa á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 20. júlí 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun hafi verið rétt.

Kærandi hóf störf hjá fyrrum vinnuveitanda sínum B, 15. júní 2009 og starfaði þar í fullu starfi til 17. október 2010. Frá 18. október 2010 var kæranda veitt lausn frá embætti um stundarsakir og naut hann 50% launa frá þeim tíma til 15. júní 2012. Kæranda var veitt lausn frá embætti 15. júní 2012. Samkvæmt staðfestingu frá D var það gert á grundvelli 2. mgr. 29. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Kæranda var veitt lausn frá embætti á grundvelli 2. mgr. 29. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Í kæru kemur fram að kærandi óskar eftir því að endurskoðuð verði ákvörðun um tveggja mánaða biðtíma, launaskerðingin í tæplega tvö ár hafi verið slæm að ekki sé talað um að fá engar greiðslur í tvo mánuði. Það rústi heimilinu og öllum áætlunum. Kærandi bendir á að sonur hans hafi komið fyrir dóm sem vitni og borið svipað og kærandi en ætlaður brotaþoli beri alls ólíkt þeim um atburðarás þennan dag.

Kærandi kveðst hafa barist við kerfið frá því að málið hafi verið kært og enn meira eftir að ákæra hafi verið gefin út og hafi hann því miður misst trúna á ríkiskerfið og geri því ekki ráð fyrir að málið verði skoðað með sanngjörnum hætti. Allt hafi stefnt í þetta af hálfu hins opinbera, án þess að til dæmis Vinnumálastofnun geri sér grein fyrir því að þeirra fjármunir komi frá fyrirtækjum og stofnunum sem greiði kæranda laun og því fyndist honum ekki ósanngjarnt að hann fengi þessar greiðslur án skerðingar en hann hafi verið á vinnumarkaði frá 1978 og einungis fengið bætur á einu stuttu tímabili.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinumarkaðsaðgerða, dags. 8. ágúst 2012, kemur fram að deilt sé um hvort kærandi hafi misst starf sitt af ástæðum sem hann átti sjálfur sök á í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun bendir á að í athugasemdum í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segi um ákvæði 1. mgr. 54. gr. að lagareglan sé matskennd og Vinnumálastofnun sé falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur, falla að umræddri reglu. Skuli stofnunin því líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða og hafa í huga að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða. Jafnframt beri að líta til þess að orðalagið „gildar ástæður“ beri að skýra þröngt í þessu samhengi og þar af leiðir að færri tilvik en ella falli þar undir. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafa fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum.

Vinnumálastofnun bendir á að óumdeilt sé að kæranda hafi verið sagt upp starfi sínu hjá vinnuveitanda sínum. Sé því ljóst að líklegt sé að aðstæður kæranda eigi undir 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi starfað sem Cog því hafi hann fallið undir lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Jafnframt greinir Vinnumálastofnun frá því að af skýringarbréfi kæranda, dags. 5. júlí 2012, sé ljóst að kærandi hafi misst starf sitt sem C í kjölfar þess að hann var sakfelldur í Héraðsdómi ,. Einnig sé ljóst af upplýsingum frá D að nefnd sem sett hafi verið á fót á grundvelli 27. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hafi komist að þeirri niðurstöðu að víkja skuli kæranda úr embætti skv. 2. mgr. 29. gr. sömu laga. Vinnumálastofnun telur með vísan til framangreinds að kærandi hafi misst starf sitt af ástæðum sem hann átti sjálfur sök á og komi því til biðtíma skv. 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. ágúst 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 3. september 2012. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.

2.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 17. gr. laga nr. 134/2009, en hún er svohljóðandi:

 

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.

Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur segir starfi sínu lausu og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur. Í skilningi 1. mgr. 54. gr. er orðalagið „gildar ástæður“ skýrt þröngt, sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir.

 

Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í frumvarpi til laga atvinnuleysistryggingar segir að nefnd er fjallaði um efni laganna hafi tekið afstöðu til þess hvað gætu talist gildar ástæður og komist að þeirri niðurstöðu að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega slíkar ástæður í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagaregla þessi verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun sé þar með falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur falli að umræddri reglu. Stofnuninni beri því að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Af gögnum málsins má ráða að ástæða þess að kærandi var leystur frá störfum sínum sem C hafi verið sú að hann var sakfelldur fyrir kynferðisbrot í Héraðsdómi. Eftir að hin kærða ákvörðun var tekin 11. júlí 2012 var kveðinn upp hæstaréttardómur í máli kæranda þar sem hann var sýknaður af umræddu broti.

Með vísan til framanritaðs er það mat úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að í ljósi þess að kærandi var í Hæstarétti sýknaður af kynferðisbroti að kærandi hafi ekki misst starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur hafi borið sök á í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ber því að fella hina kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bótaréttar í tvo mánuði úr gildi.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 11. júlí 2012 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði er felld úr gildi. Kærandi á rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

            Hulda Rós Rúríksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta