Hoppa yfir valmynd
1. september 2019 Atvinnuvegaráðuneytið

Segull 67 brugghús hlýtur Bláskelina, viðurkenningu fyrir plastlausa lausn

Marteinn Haraldsson einn eiganda Seguls 67 brugghúss tekur við viðurkenningunni úr hendi Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag.  - mynd

Brugghúsið Segull 67 hlaut í dag Bláskelina, nýja viðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fyrir framúrskarandi plastlausa lausn. Umhverfisráðherra veitti viðurkenninguna um leið og hann setti átaksverkefnið Plastlausan september í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Var það niðurstaða dómnefndar að sú lausn Seguls 67 að nýta bjórkippuhringi úr lífrænum efnum í stað plasts væri framúrskarandi. Í rökstuðningi nefndarinnar kemur fram að hún hefði lagt áherslu á að lausnin hefði möguleika á að komast í almenna notkun og að nýnæmi lausnarinnar hér á landi hefði vegið þungt. Ef fleiri framleiðendur myndu nota lífræna kippuhringi í stað plasts myndi það ekki einungis skila sér í minni plastnotkun og -mengun heldur einnig auka meðvitund í samfélaginu um óþarfa plastnotkun. Á síðasta ári voru 15 milljónir lítra af bjór í áldósum seldir hérlendis og 75% þeirra eru íslensk framleiðsla. 

Kallað var í sumarbyrjun eftir tilnefningum frá almenningi um fyrirtæki, stofnanir, einstaklinga eða aðra sem hafa nýtt framúrskarandi lausnir við að stuðla að minni plastnotkun og minni plastúrgangi í samfélaginu. Fjögurra manna dómnefnd skipuð fulltrúum frá Umhverfisstofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Plastlausum september fór yfir tilnefningarnar og valdi verðlaunahafa.

Fimm aðilar komust í úrslitahóp dómnefndar auk Seguls 67, en það voru Bioborgarar, Efnalaugin Björg, Farfuglar á Íslandi og Kaja Organics. Bioborgarar er lífrænn hamborgarastaður sem m.a. framreiðir matinn í margnota búnaði á staðnum og í pappaumbúðum fyrir þau sem taka hann með, Efnalaugin Björg býður upp á fjölnota fatapoka, Farfuglar á Íslandi hafa dregið verulega úr plastúrgangi og tekið út einnota plast í rekstri farfuglaheimila sinna og Kaja Organics rekur meðal annars umbúðalausa verslun, lífrænt kaffihús, heildsölu og framleiðslu vottaða af Tún lífrænni vottun.

Stofnað var til Bláskeljarinnar í því skyni að hvetja til plastlausra lausna í íslensku samfélagi og er viðurkenningin liður í aðgerðum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins til að draga úr plastmengun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta