Hoppa yfir valmynd
19. júní 2024 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 663/2024 Úrskurður

Hinn 19. júní 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 663/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU23110085

Kæra […] á ákvörðun Útlendingastofnunar

Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 19. nóvember 2023 kærði […], fd. […], ríkisborgari Albaníu (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. nóvember 2023, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga um útlendinga skal kærunefnd meta að nýju alla þætti kærumáls og getur ýmist staðfest ákvörðun, breytt henni eða hrundið að nokkru eða öllu leyti. Þá getur nefndin einnig vísað máli til meðferðar að nýju hjá þeirri stofnun sem tók hina kærðu ákvörðun. Við meðferð kæru þessarar fer fram endurskoðun á ákvörðun Útlendingastofnunar sem felur í sér sjálfstætt efnislegt mat á því hvort kærandi eigi rétt á veitingu alþjóðlegrar verndar á grundvelli 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna, hvort skilyrði séu fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laganna og hvort skilyrði fyrir brottvísun séu uppfyllt ef svo á við. Auk þess fer fram skoðun á því hvort formreglum laga um útlendinga og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið fullnægt. Kröfur í máli þessu eru í samræmi við framangreint.

Kæruheimild er í 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Málsatvik

Samkvæmt lögregluskýrslu kom kærandi til landsins ásamt tveimur sonum sínum, […] (hér eftir A) og […] (hér eftir B) 11. október 2023. Degi síðar, 12. október 2023, lagði kærandi fram umsóknir um alþjóðlega vernd fyrir sig og syni sína hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Í lögregluskýrslu greindi kærandi frá því að hann og synir hans væru komnir hingað til lands vegna vandræða í tengslum við atvinnu hans. Kærandi kvaðst vera lögreglumaður og vegna vinnu hans hafi bifreið hans verið sprengd í loft upp árið 2012 og síðan þá hafi albanska mafían verið á eftir honum. Árið 2021 hafi mafían reynt að ræna B en hann hafi náð að hlaupa í burtu frá þeim. Mafían hafi sent kæranda skilaboð um að báðum drengjunum yrði rænt. Þess vegna hafi kærandi og synir hans ekki þorað öðru en að flýja, enda hafi meðlimir mafíunnar búið í nágrenni við þá. Kærandi kvaðst hafa unnið hjá útlendingayfirvöldum og Frontex við landamæri Albaníu og Grikklands.

Þar sem kærandi er ríkisborgari ríkis sem skilgreint er sem öruggt upprunaríki og er á lista Útlendingastofnunar sem slíkt var umsókn hans tekin til forgangsmeðferðar með vísan til 1. tölul. b-liðar 1. og 2. mgr. 29. gr. laga um útlendinga. 

Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun 25. október 2023 ásamt löglærðum talsmanni. Aðspurður um ástæður flótta greindi kærandi frá því að 9. september 2011 hafi dómari verið myrtur. Kærandi hafi sama ár unnið sem rannsóknarlögreglumaður og rannsakað mál dómarans. Mafían hafi komist að því að kærandi væri að vinna í málinu og 27. janúar 2012 hafi sprengja verið sett undir bílinn hans. Á þeim tíma hafi kærandi ekki vitað hverjir hefðu sett sprengjuna undir bílinn hans en hún hafi sprungið um nóttina og áreitið hafi haldið áfram. Árið 2017 hafi kærandi verið tekinn úr rannsókninni og verið látinn vinna hjá tollgæslunni. Hafi mafían haldið áfram að áreita fjölskylduna og í kjölfarið hafi eiginkona hans yfirgefið hann. Kærandi greindi einnig frá því að 11. september 2021 hafi sonur hans verið eltur en hafi komist í burtu. Kærandi kvaðst hafa látið lögregluna vita en málið væri ennþá í rannsókn. Kærandi kvaðst hafa hitt samstarfsfélaga sinn í ágúst 2023 sem hafi sagt honum að passa sig vel því það væru stórir hlutir að gerast varðandi hann hjá mafíunni. Kærandi vísaði til þess að það sem hafi gerst fyrir son hans hafi verið af völdum mafíunnar. Þá hafi lögreglustjóri í […] borg hringt í kæranda og sagt honum að gleyma númerinu sínu og ekki hafa samband. Þá hafi kærandi vitað að hann hefði ekkert þar að gera og enga aðstoð að fá.

Með ákvörðun, dags. 1. nóvember 2023, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var það mat Útlendingastofnunar að umsókn kæranda væri bersýnilega tilhæfulaus, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Kæranda var brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Að ósk kæranda var veittur frekari rökstuðningur fyrir ákvörðun Útlendingastofnunar með bréfi stofnunarinnar, dags. 17. nóvember 2023. Var framangreind ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 19. nóvember 2023. Hinn 22. nóvember 2023 barst kærunefnd sameiginleg kæranda og sona hans. Þá bárust frekari gögn frá kæranda 23. nóvember 2023.

Hinn 23. janúar 2024 barst kærunefnd tölvubréf frá talsmanni kæranda þess efnis að kærandi væri horfinn og væri ekki vitað hvort hann væri staddur á landinu eður ei. Væru synir kæranda því án forsjárforeldis og komnir í umsjá barnaverndar. Hinn 6. febrúar 2024 bárust kærunefnd upplýsingar frá fjölskyldu- og barnamálasviði Hafnarfjarðar þar sem staðfest var að synir kæranda væru í umsjá barnaverndar Hafnafjarðar. Í tölvubréfi talsmanns kæranda 27. mars 2024 kom fram að talsmaður hefði ekkert heyrt frá kæranda og hefði ekki vitneskju um hvar hann héldi sig. Verður því úrskurðað í málum sona kæranda í sérstökum úrskurði hjá kærunefnd.

Greinargerð til kærunefndar

Nefndin hefur farið yfir greinargerð kæranda og fylgiskjöl og lagt mat á þau sjónarmið er þar koma fram. Verða aðeins reifuð hér helstu atriði greinargerðarinnar.

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi komið hingað til lands ásamt tveimur sonum sínum til að óska eftir alþjóðlegri vernd þar sem líf þeirra væri í mikilli hættu í heimaríki þeirra. Kærandi og synir hans hafi yfirgefið heimaríki í október 2023 og komið hingað til lands. Kærandi eigi aldraða foreldra í heimaríki og þá sé fyrrverandi eiginkona hans, móðir sona hans, einnig þar. Kærandi hafi sinnt herþjónustu í heimaríki en ekki tekið þátt í beinum átökum eða verið handtekinn. Kærandi tilheyri engum stjórnmálaflokki í heimaríki en telur sig tilheyra minnihlutahópi þar sökum stjórnmálaskoðana afa síns. Afi kæranda hafi verið þekktur and-kommúnisti og hafi verið ofsóttur af stjórnvöldum í Albaníu. Kærandi vísar til þess að hafa lagt fram skjal hjá Útlendingastofnun sem staðfesti ofsóknir á hendur afa hans. Hafi stjórnvöld ekki einungis ofsótt afa kæranda heldur alla í fjölskyldunni þar sem þau beri sama eftirnafn og afi hans. Hafi ofsóknir sem hann og fjölskylda hans hafi orðið fyrir staðið frá árinu 2012 og hafi lögreglan ávallt neitað kæranda um vernd og aðstoð. Kærandi hafi starfað sem lögreglumaður í heimaríki og hafi árið 2011 rannsakað mál þar sem dómari hafi verið myrtur. Hafi mafían fundið út að kærandi væri lögreglumaður og í janúar 2012 hafi bifreið hans verið sprengd og í kjölfarið hafi ofsóknir gegn honum haldið áfram. Árið 2017 hafi kærandi verið færður til í starfi og farið að starfa hjá tollgæslunni en ofsóknir hafi þó haldið áfram og hafi það endað með því að eiginkona hans hafi yfirgefið hann. Árið 2021 hafi sonur kæranda verið eltur af mafíunni og þegar kærandi hafi leitað til lögreglu vegna þess hafi þeir neitað að gera nokkuð í málinu. Í ágúst 2023 hafi vinur kæranda varað hann við að mafían væri að undirbúa árás gegn kæranda og sonum hans. Kærandi telur ljóst að mafían, lögreglan og háttsettir menn vilji þagga mál dómarans niður og hafi þess vegna ofsótt kæranda. Kærandi vísar til þess að í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi hann gefið upp nafn mafíuhópsins og foringja þeirra og telur hann að frásögn hans hafi verið trúverðug og studd af gögnum sem hann hafi lagt fram.

Kærandi byggir aðalkröfu sína um alþjóðlega vernd á því að hann eigi á hættu ofsóknir í heimaríki meðal annars vegna stjórnmálaskoðana, en afi hans sé þekktur and-kommúnisti og hafi öll fjölskylda kæranda orðið fyrir ofsóknum vegna þess. Kærandi mótmælir mati Útlendingastofnunar um að hann hafi ekki borið fyrir sig ofsóknir á grundvelli neinna þeirra ástæðna sem taldar séu upp í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá hafi kærandi þurft að sæta ofsóknum og áreiti af hendi mafíunnar og annarra aðila í heimaríki sem hafi verið í samstarfi með stjórnvöldum og/eða lögreglu.

Þá telur kærandi að ótti hans við ofsóknir í heimaríki sé ástæðuríkur og óttast hann að verða fyrir frekari ofsóknum í heimaríki eða jafnvel myrtur. Kærandi telur að vonlaust sé að fá vernd yfirvalda í heimaríki gegn ofsóknum og hafi yfirvöld þar í landi hvorki getu né vilja til að veita honum þá vernd sem hann þurfi á að halda.

Til vara gerir kærandi þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir framangreinda kröfu á því að félagslegar aðstæður hans verði erfiðar snúi hann aftur til heimaríkis, einkum vegna ofsókna sem hann hafi orðið fyrir. Kærandi muni þurfa að fara huldu höfði og geti því ekki unnið og framfleytt sér og sonum sínum. Kærandi eigi engan að í heimaríki nema háaldraða foreldra sína og hafi því ekkert tengsla- eða stuðningsnet.

Að lokum telur kærandi að með endursendingu hans til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Reglur stjórnsýsluréttar og málsmeðferð samkvæmt lögum um útlendinga

Kærunefnd hefur farið yfir málsmeðferð Útlendingastofnunar og hina kærðu ákvörðun sem er í samræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Er því ekki ástæða til þess að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi af þeim sökum.

Alþjóðleg vernd

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Við mat á umsóknum um alþjóðlega vernd verða stjórnvöld því að leggja mat á auðkenni umsækjanda, landaupplýsingar um það heimaríki umsækjanda sem til meðferðar er og trúverðugleika frásagnar umsækjanda.

Við mat á trúverðugleika er höfð til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá er tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga hefur kærunefnd talið rétt að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Auðkenni og ríkisfang

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað albönsku vegabréfi. Leggur kærunefnd því til grundvallar að kærandi sé albanskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

  • Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Albaníu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
  • 2023 Country Reports on Human Rights Practices: Albania (U.S. Department of State, 23. apríl 2024);
  • Amnesty International Report 2023/24 – Albania (Amnesty International, 24. apríl 2024);
  • Albania 2022 Report (European Commission, 12. október 2022);
  • Albania: Organisert kriminalitet (Landinfo, 19. ágúst 2022);
  • Albanien: Mänskiliga rättigheter, demokrati och rättsstatens principier: situationen per den 15 maj 2021 (Utrikesdepartementet, 1. desember 2021);
  • BTI 2024 Country Report: Albania (Bertelmann Stiftung, 19. mars 2024);
  • Commission Staff Working Document – Albania 2023 Report (European Commission, 8. nóvember 2023);
  • Country Policy and Information Note. Albania: Actors of Protection (UK Home Office, desember 2022);
  • Financing Social Protection. Albania (European Social Policy Network, ESPN, 2019);
  • Freedom in the World 2023 - Albania (Freedom House, 9. mars 2023);
  • Global Organized Crime Index: Albania (Global Initiative Against Transnational Organized Crimes, 2023);
  • Nations in Transit 2024 – Albania (Freedom House, 11. apríl 2024);
  • Review of social protection system in Albania (International Labour Organization, 4. júní 2021);
  • Stjórnarskrá Albaníu (https://www.osce.org/files/f/documents/3/2/41888.pdf);
  • The World Factbook – Albania (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 22. maí 2024) og
  • Vefsíða umboðsmanns í Albaníu (https://www.avokatipopullit.gov.al/en/).

Albanía er lýðræðisríki með rúmlega þrjár milljónir íbúa. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi árið 1991, samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1994 og sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2006. Þá gerðist ríkið aðili að Evrópuráðinu árið 1995 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu ári síðar. Albanía sótti um aðild að Evrópusambandinu árið 2009 og fékk stöðu sem umsóknarríki í júní 2014. Þá er Albanía á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki.

Í framangreindum gögnum, þ. á m. skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá árinu 2022, kemur fram að í Albaníu sé til staðar kerfi sem borgarar landsins geti leitað til telji þeir á sér brotið. Eftirfylgni brota gegn refsilöggjöf landsins sé góð og hafi albönsk yfirvöld skilvirka stjórn yfir löggæslu í landinu. Þá hafi góður árangur náðst undanfarin ár í baráttu gegn spillingu og refsileysi sem hafi verið viðvarandi vandamál í Albaníu, þ. á m. innan löggæslu- og réttarkerfisins. Lögreglu- og embættismenn hafi verið sóttir til saka fyrir brot í starfi og embætti sérstaks saksóknara (e. Special Anti-Corruption Structure, SPAK) hafi verið komið á fót. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2024 og á vefsíðu starfandi umboðsmanns í Albaníu (a. Avokati i popullit) kemur fram að umboðsmaður hafi m.a. það hlutverk að vernda rétt borgaranna gegn brotum opinberra starfsmanna. Umboðsmaðurinn geti, á grundvelli kvartana eða að eigin frumkvæði, tekið til skoðunar ætluð brot opinberra starfsmanna sem varði borgara landsins. Aftur á móti falli ákvarðanir og athafnir embættis forseta landsins og formanns ráðherranefndar (e. Chairman of the Council of Ministers), skipanir hersveita og einkaréttarlegir samningar utan starfssviðs umboðsmanns. Þá hefur frá árinu 2010 verið starfrækt sérstakt embætti til verndar frá mismunun (e. Commissioner for Protection from Discrimination). Hlutverk embættisins sé að efla jafnrétti í landinu, m.a. með vitundarvakningu á meðal almennings, tillögum til yfirvalda og reglulegum skýrslum um málefnið. Þá tekur embættið jafnframt við kvörtunum frá almenningi er varða meinta mismunun, bæði af hálfu opinberra aðila og einkaaðila, og úrskurði um kvörtunarefnið.

Í framangreindum skýrslum, þ. á m. skýrslu Evrópuráðsins, kemur fram að mikið atvinnuleysi hafi verið viðvarandi vandamál í Albaníu. Yfirvöld hafi unnið að úrbótum í atvinnumálum og hafi atvinnuleysi farið minnkandi undanfarin ár og staðið í stað frá árinu 2019. Efnahagur landsins hafi tekið vel við sér árið 2021 og hafi hagvöxtur verið jákvæður, atvinna aukist og laun hækkað. Þá hafi verið unnið að því að bæta aðgengi að ódýru húsnæði fyrir efnalitla einstaklinga og aðra viðkvæma hópa. Með það að markmiði hafi lög nr. 22/2018 (e. Law on social housing) verið innleidd. Auk þess sé öllum sem séu án atvinnu og hafi ekki önnur úrræði til framfærslu tryggður réttur til aðstoðar samkvæmt 52. gr. stjórnarskrá landsins. Lög nr. 9355 (e. Law on social assistance and services) kveða á um að fjölskyldur í neyð eigi rétt á fjárhagsaðstoð. Ákvörðunarvald um hverjir eigi tilkall til aðstoðar sé í höndum sveitafélaga og sé styrkjum úthlutað mánaðarlega. Samkvæmt skýrslu UNICEF frá 2019 geti fjölskyldur í neyð fengið ýmsan kostnað niðurgreiddan frá sveitafélögum, s.s. rafmagns- og vatnskostnað og kostnað vegna skólabóka. Þá geti foreldrar sótt um eingreiðslu vegna barnatengdra útgjalda.

Niðurstaða um réttarstöðu flóttamanns samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Kærandi mótmælir mati Útlendingastofnunar um að hann hafi ekki borið fyrir sig ofsóknir á grundvelli neinna þeirra ástæðna sem taldar séu upp í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá hafi kærandi orðið fyrir ofsóknum af hendi ýmissa aðila í heimaríki. Kærandi telur lögreglu ekki geta veitt sér þá vernd sem hann þurfi á að halda.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurriti af viðtali hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki hans.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi hafa starfað sem rannsóknarlögreglumaður árið 2011 og hafa unnið við mál sem tengdist morði á dómara. Hafi mafíuhópur komist að því og í janúar 2012 hafi bifreið kæranda verið sprengd í loft upp. Árið 2017 hafi kærandi verið tekinn úr rannsókninni og fluttur yfir í tollgæslustarf. Þá hafi verið gerð tilraun til að ræna syni kæranda í september 2021. Í viðtalinu var kærandi spurður að því hvort eitthvað hafi gerst á tímabilinu frá 2012 til 2017. Kærandi svaraði því að eiginkona hans hafi verið áreitt en hann hafi þó ekki vitað af því fyrr en hún hafi farið frá honum árið 2020. Aðspurður um hvort hann hafi orðið fyrir áreiti á þessu tímabili vísaði kærandi til þess að einhver háttsettur lögreglumaður hafi ekki viljað að hann væri að rannsaka framangreint mál og því hafi kærandi verið fluttur í tollgæsluna. Kærandi var þá spurður að því hvort hann hafi orðið fyrir áreiti sjálfur á tímabilinu 2017 til 2021 meðan hann hafi unnið í tollgæslunni. Kærandi svaraði því að ekkert hafi komið fyrir en hann hafi bara verið hræddur þar sem hann vissi um þessa mafíu. Kærandi kvað mafíuna hafa tengst því sem hafi gerst með bílinn hans og hafi hótað fjölskyldunni og horft á kæranda með illum augum. Kærandi nafngreindi yfirmann mafíunnar og kvað hann hafa verið myrtan árið 2022. Kærandi kvað samstarfsfélaga sinn hafa tjáð sér að mafían ætlaði ekki að fyrirgefa kæranda. Kærandi var spurður að því af hverju hann hafi beðið svona lengi með að fara frá Albaníu í ljósi þess að meint áreiti hafi byrjað árið 2011. Kærandi kvaðst ekki hafa vitað hver þessi mafíuhópur væri en hafi frétt það árið 2016, þá hafi hann farið í tollgæsluna og vonast eftir því að aðstæður myndu lagast. Kærandi kvaðst ekki hafa heyrt frá mafíu hópnum eftir árið 2021, einungis það sem samstarfsfélagi hans hafi tjáð honum varðandi hópinn.

Við málsmeðferð hjá Útlendingastofnun lagði kæranda fram ýmis gögn. Meðal annars lagði kærandi fram lögregluskírteini, skjal frá ráðuneyti lögreglumála, dags. 1. nóvember 2019, skjal frá innanríkisráðuneyti, dags. 24. janúar 2023, vottorð um þátttöku í námskeiði á vegum landamæralögreglunnar í Albaníu í september 2017, vottorð frá landamærayfirvöldum í heimaborg kæranda, […], dags. 7. mars 2023, þar sem vottað er að kærandi sé lögreglumaður á vegum albanska yfirvalda á […] landamæralögreglustöðinni. Jafnframt lagði kærandi fram afrit af skjölum frá skrifstofu saksóknara í […] borg ásamt þýðingum þeirra yfir á ensku. Annað skjalið er dagsett 27. febrúar 2018 og af þýðingu þess má ráða að það lúti að rannsókn á eyðileggingu bifreiðar í eigu kæranda af völdum sprengju. Hafi málið verið stofnað 30. janúar 2012 og lokið 30. mars sama ár. Hitt skjalið frá saksóknaraembættinu í […] er dagsett 15. september 2021 og af þýðingu þess má ráða að kærandi hafi tilkynnt til yfirvalda að 7. september 2021 hafi sonur hans, B, verið eltur og reynt hafi verið að nema hann á brott. Sendi saksóknaraembættið málið til lögreglunnar í […] til frekari meðferðar. Kærandi lagði auk þess fram afrit af ódagsettu bréfi skrifuðu af nafngreindum lögreglumanni hjá ríkislögreglunni ásamt enskri þýðingu þess. Fram kemur í því að bréfritari hafi átt samtal við starfsmann hjá […] sem hafi tjáð honum að „þeir“ muni gera það sama við hann og þeir hafi gert við kæranda.

Að mati kærunefndar er frásögn kæranda um að eiginkona hans hafi orðið fyrir áreiti vegna starfa hans í tengslum við morðmál óljós og hafa engin gögn verið lögð fram sem styðja þá frásögn. Þá er efni framlagðs skjals frá saksóknaraembættinu í […] ekki til þess fallið að renna stoðum undir þá frásögn kæranda að tilraun til að nema son hans á brott í september 2021 tengist störfum hans við rannsókn framangreinds morðmáls og að gerendur í báðum málum séu þeir sömu. Samkvæmt skjalinu hafi kærandi tilkynnt að ótilgreindur einstaklingur hafi elt son hans og reynt að nema á brott. Af frásögn kæranda í viðtali hjá Útlendingastofnun má ráða að hann hafi unnið við rannsókn á framangreindu morðmáli frá árinu 2011 til ársins 2017. Eins og að framan er rakið kvaðst kærandi aðspurður hvorki hafa orðið fyrir áreiti frá 2012 til 2017 né frá 2017 þar til hann yfir landið. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi búið í heimaborg sinn […] á þeim tíma sem framangreindir atburðir gerðust og þar til hann yfirgaf landið í október 2023 og hafi hann starfað sem lögreglumaður til ársins 2017 og frá þeim tíma hafi hann starfað sem landamæravörður.

Í greinargerð kæranda sem lögð var fram til kærunefndar er byggt á því að stjórnvöld hafi ofsótt kæranda og fjölskyldu hans vegna stjórnmálaskoðana afa hans. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi ekki hafa nein tengsl við stjórnmál en teldi sig tilheyra minnihlutahópi vegna stjórnmálaskoðana afa hans sem hafi verið andstæðingur kommúnista. Kærandi kvaðst ekki fá hjálp frá yfirvöldum þar sem afi hans hafi verið andstæðingur kommúnista. Af framlögðum gögnum frá saksóknaraembættinu í […] verður ekki betur séð en að kærandi hafi leitað til yfirvalda bæði vegna eyðileggingar á bifreið hans og vegna tilraunar til að nema son hans á brott og að yfirvöld hafi skoðað framangreind mál og komið þeim í ákveðinn farveg. Kærandi greindi ekki öðrum atvikum sem hann teldi fela í sér mismunun eða ofsóknir af hálfu stjórnvalda vegna stjórnmálaskoðana afa hans. Þá er til þess að líta að gögn málsins bera með sér að kærandi hafi starfað hjá eða á vegum stjórnvalda í heimaríki í það minnsta frá árinu 2011 til 7. mars 2023 og tekið þátt í námskeiðum á vegum starfsins á því tímabili. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu stjórnvalda vegna stjórnmálaskoðana afa hans í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. e-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. 

Með vísan til þeirra heimilda sem kærunefnd hefur skoðað um aðstæður í Albaníu telur kærunefnd ekki ástæðu til að draga í efa frásögn kæranda um að hann hafi orðið fyrir áreiti glæpahóps í tengslum við starf hans sem rannsóknarlögreglumaður árin 2011 til 2012. Á hinn bóginn er það mat kærunefndar að hvorki framburður kæranda né gögn málsins styðji þann málatilbúnað hans að atvik sem hafi hent eiginkonu hans og son tengist störfum hans við rannsókn morðs sem hafi átt sér stað 2011. Upplýsingar í framlögðu ódagsettu bréfi lögreglumanns hjá ríkislögreglunni í Albaníu eru ekki til þess fallnar að breyta því mati enda um einhliða frásögn bréfritara að ræða og óljóst til hvaða atvika hann er að vísa. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér er ljóst að þeir ríkisborgarar Albaníu sem telja að á réttindum sínum sé brotið geti leitað aðstoðar og verndar yfirvalda þar í landi og fengið lausn sinna mála. Þá er til staðar kerfi í Albaníu sem þeir geti leitað til sem telji sig hafa verið beitta órétti af lögreglu. Hægt sé m.a. að leita til stofnunar sem heyri undir innanríkisráðuneyti landsins sem og embættis umboðsmanns í ríkinu. Að mati kærunefndar hefur því ekki verið sýnt fram á að aðstæður kæranda séu með þeim hætti að stjórnvöld í heimaríki hans skorti vilja eða getu til að veita þeim viðeigandi vernd gegn athöfnum sem feli í sér hótanir, áreiti eða ofbeldi, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Þegar frásögn kæranda, upplýsingar um heimaríki og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kæranda, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á með rökstuddum hætti að hann eigi á hættu að sæta ofsóknum í heimaríki í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 38. gr. sömu laga. Sama gildir þótt litið sé til samsafns athafna. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Niðurstaða um viðbótarvernd samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Líkt og framan er rakið er lagt til grundvallar að kærandi sé frá borginni […] í Albaníu og hafi búið þar áður en hann yfirgaf heimaríki sitt. Með vísan til framangreindra heimilda er það mat kærunefndar að ástandið í heimaríki kæranda sé ekki á því alvarleikastigi að kærandi eigi á hættu að verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Að teknu tilliti til gagna málsins og heimilda bendir ekkert til þess að kærandi sé í raunverulegri hættu, í heimaríki sínu, á að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu þar í landi.

Þegar frásögn kæranda, upplýsingar um heimaríki og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kæranda í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að einstaklingsbundnar aðstæður kæranda séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærandi er ekki flóttamaður samkvæmt 37. gr. laga um útlendinga á hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða

Lagagrundvöllur

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. vísi m.a. til erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu og þá aðstöðu að yfirvöld veiti þegnum sínum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Í 43. gr. a reglugerðar um útlendinga kemur m.a. fram að með erfiðum almennum aðstæðum sé vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki sem ekki séu staðbundin, svo sem vegna langvarandi stríðsátaka. Þá kemur fram að erfiðar almennar aðstæður taki að jafnaði ekki til neyðar af efnahagslegum rótum eða náttúruhamfara, svo sem fátæktar, hungursneyðar eða húsnæðisskorts. Eigi það m.a. við þegar í heimaríki viðkomandi ríki óðaverðbólga, atvinnuleysi í ríkinu sé mikið eða lágmarkslaun dugi ekki fyrir framfærslu.

Í 43. gr. a reglugerðar um útlendinga með síðari breytingum og athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Í 43. gr. a reglugerðar um útlendinga og athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er jafnframt fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við heimkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli.

Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd hér á landi og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann lagði inn umsókn sína dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að uppfylltum skilyrðum 2. og 3. mgr. ákvæðisins. Ef um barn er að ræða skal miða við 16 mánuði.

Niðurstaða um 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi vera líkamlega hraustur en andlega búinn á því og ætti erfitt með að sofa á næturnar. 

Af framburði kæranda og framlögðum heilsufarsgögnum verður ekki séð að hann glími við skyndilega, lífshættulega eða mjög alvarlega sjúkdóma sem fyrirséð sé að muni valda honum alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni. Að framangreindu virtu verður ekki talið að kærandi þarfnist meðferðar sem sé svo sérhæfð að hann geti einungis hlotið hana hérlendis né að rof á henni yrði til tjóns fyrir hann snúi hann aftur til heimaríkis. Hefur kærandi því ekki sýnt fram á að hann hafi þörf á vernd af heilbrigðisástæðum, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærandi hefur greint frá því að hafa starfað sem lögreglumaður og landamæravörður í heimaríki. Í gögnum málsins hefur ekkert komið fram sem bendir til annars en að hann sé heilsuhraustur og vinnufær. Eru félagslegar aðstæður kæranda við komu til heimaríkis því ekki slíkar að þær geti talist erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þegar frásögn kæranda, upplýsingar um heimaríki og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kæranda í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Það er því niðurstaða kærunefndar að aðstæður í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Niðurstaða um 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd 12. október 2023 og á ákvæði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga því ekki við.

Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga

Lagagrundvöllur

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Niðurstaða um bann við endursendingu

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda er það niðurstaða kærunefndar að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í máli kæranda. Stendur ákvæði 42. gr. laga um útlendinga því ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Brottvísun og endurkomubann

Lagagrundvöllur

Í 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 kemur fram að verði umsækjanda um alþjóðlega vernd ekki veitt dvalarleyfi skuli Útlendingastofnun taka ákvörðun um frávísun eða brottvísun eftir ákvæðum laga um útlendinga og að útlendingur sem sótt hafi um alþjóðlega vernd teljist hafa áform um að dveljast á landinu lengur en 90 daga. Samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal vísa útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu svo framarlega sem ákvæði 102. gr. laganna eigi ekki við. Í 102. gr. laganna er kveðið á um vernd og takmarkanir við ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laganna skal brottvísun ekki ákveðin ef hún, með hliðsjón af atvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Við mat á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda verður að hafa ákvæði 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu til hliðsjónar. Þegar útlendingur á hagsmuna að gæta í skilningi 8. gr. sáttmálans verður ákvörðun um brottvísun að vera í samræmi við það sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 2. mgr. 8. gr. sáttmálans. 

Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laganna felst í endanlegri ákvörðun um brottvísun skylda útlendings til þess að yfirgefa Schengen-svæðið nema viðkomandi hafi heimild til dvalar í öðru ríki sem er þátttakandi í Schengen-samstarfinu. Með lögum um landamæri nr. 136/2022 voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga sem leiða til þess að brottvísun og endurkomubann er nú beitt þar sem áður var beitt frávísun en veita skal frest til sjálfviljugrar heimfarar, sbr. 104. gr. laga um útlendinga. Sá sem sætir slíkri ákvörðun getur komist hjá endurkomubanni með því að yfirgefa landið sjálfviljugur innan frestsins, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Í 1. tölul. b-liðar 1. mgr. 29. gr. laga um útlendinga kemur fram að í málum sem tekin séu til efnismeðferðar geti Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála ákveðið að umsókn um alþjóðlega vernd sæti forgangsmeðferð, m.a. þegar umsókn er bersýnilega tilhæfulaus, svo sem þegar útlendingur hefur ríkisfang í ríki þar sem ekki er talið að hann þurfi að óttast ofsóknir eða meðferð sem fellur undir ákvæði 37. gr. sömu laga.

Í 2. mgr. 29. gr. laga um útlendinga kemur fram að í málum þeim sem greini í b-lið 1. mgr. sé Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála heimilt að styðjast við lista yfir ríki sem almennt eru álitin örugg upprunaríki. Með öruggu upprunaríki sé átt við ríki þar sem einstaklingar eigi almennt ekki á hættu að vera ofsóttir eða sæta alvarlegum mannréttindabrotum. Við mat á því hvort ríki teljist öruggt upprunaríki skuli m.a. líta til þess hvort í viðkomandi ríki sé stöðugt stjórnarfyrirkomulag sem byggist á viðurkenndum meginreglum um réttarríki. Heimilt sé að líta til reynslu og framkvæmdar annarra Schengen-ríkja við mat á því hvaða upprunaríki teljist örugg.

Í 46. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 eru ákvæði er mæla nánar fyrir um hvað teljist bersýnilega tilhæfulaus umsókn. Fram kemur í 2. mgr. 46. gr. að komi útlendingur frá ríki sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki telst umsókn bersýnilega tilhæfulaus þegar hún byggir á:

a.            því að fullnægjandi vernd yfirvalda í heimaríki sé ekki til staðar,

b.            einstaklingsbundnum líkamsárásum, hótunum, ógnunum eða deilum sem ekki geta talist kerfisbundnar,

c.            því að fullnægjandi aðstoð og aðgengi að heilbrigðisaðstoð í heimaríki sé ekki til staðar, enda hafi þegar verið tekið mið af heilbrigðisaðstæðum við mat á því hvort upprunaríki teljist öruggt eða

d.            öðrum málsástæðum sem telja má ótrúverðugar með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum um heimaríki.

Niðurstaða um brottvísun

Eins og að framan greinir hefur umsókn kæranda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verið synjað. Hefur kærandi því ekki frekari heimild til dvalar hér á landi. Af framangreindu leiðir að með hinni kærðu ákvörðun var réttilega bundinn endir á heimild kæranda til dvalar hér á landi og ber því samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga að vísa kæranda úr landi nema 102. gr. laganna standi því í vegi.

Kæranda var í viðtali hjá Útlendingastofnun leiðbeint um að til skoðunar væri að brottvísa honum frá Íslandi og ákvarða honum endurkomubann hingað til lands. Var kæranda gefið færi á að koma að andmælum hvað það varðar. Kærandi kvaðst engin tengsl hafa við Ísland eða önnur lönd innan Shcengen-svæðisins. Kærandi kvað ákvörðun um endurkomubann vera ósanngjarna vegna þeirra aðstæðna sem hann væri í og fengi enga hjálp við.

Með vísan til framangreindrar umfjöllunar og af þeim svörum sem kærandi gaf um tengsl sín við Ísland og önnur Schengen-ríki verður ekki séð að brottvísun hans og endurkomubann verði talin ósanngjörn ráðstöfun í garð kæranda eða nánustu aðstandenda hans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. 

Niðurstaða um endurkomubann

Líkt og að framan er rakið tók Útlendingastofnun umsókn kæranda til forgangsmeðferðar þar sem hann kemur frá ríki sem metið hefur verið sem öruggt upprunaríki, með vísan til 1. tölul. b-liðar 1. og 2. mgr. 29. gr. laga um útlendinga. Með vísan til frásagnar kæranda, að virtum gögnum máls hans og niðurstöðu trúverðugleikamats, var það mat Útlendingastofnunar að umsókn kæranda teldist bersýnilega tilhæfulaus, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggði umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann hafi orðið fyrir ofsóknum af hálfu mafíuhóps sem meðal annars hafi sprengt bíl hans í loft upp í janúar 2012 í tengslum við störf kæranda við rannsókn morðmáls árið 2011. Líkt og niðurstaða kærunefndar ber með sér renndu hvorki framburður kæranda né framlögð gögn stoðum undir málatilbúnað hans að hafa verið ofsóttur af hálfu mafíuhóps frá 2012 til 2023 eða ætti á hættu ofsóknir af hálfu slíks hóps eða annarra aðila í heimaríki hans. Það er mat kærunefndar, að teknu tilliti til gagna um heimaríki kæranda og aðstæðna hans þar, að það hafi frá upphafi málsmeðferðarinnar verið bersýnilegt að málsástæður hans vörðuðu ekki þá þætti sem 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga taka til. Enn fremur hafi verið bersýnilegt að aðrar aðstæður í heimaríki kæranda væru ekki þess eðlis eða næðu því alvarleikastigi að þær gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að heimilt væri að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í þessu sambandi lítur kærunefnd til þess að orðalag 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um að aðili þurfi að sýna fram á ríka þörf á vernd og tekur mat stjórnvalda á tilhæfuleysi slíkra umsókna mið af þeirri ábyrgð sem lögð er á aðila að þessu leyti.

Eins og að framan greinir er það niðurstaða kærunefndar að umsókn kæranda um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd hafi verið bersýnilega tilhæfulaus og því rétt að veita honum ekki frest til þess að yfirgefa landið sjálfviljugur sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga um útlendinga hefst endurkomubann þann dag sem útlendingur er færður úr landi eða fer af sjálfsdáðum af landi brott. Samkvæmt gögnum málsins er kærandi horfinn og ekki vitað hvort hann hafi yfirgefið landið af sjálfsdáðum eða hvort hann dvelji enn hér á landi. Endurkomubann hans tekur gildi frá þeim degi sem hann sannanlega yfirgaf landið eða verður færður úr landi. 

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar er hún staðfest.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration in the case of the appellant is affirmed.

 

F.h. kærunefndar útlendingamála, skv. 3. mgr. 8. gr. laga um útlendinga, 

 

Þorsteinn Gunnarsson

formaður 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta