Ábending vegna umfjöllunar um uppboð á íbúðarhúsnæði
Vegna frétta í fjölmiðlum um framhaldsuppboð íbúðarhúsnæðis í október vill félags- og tryggingamálaráðuneytið vekja athygli á aðgerðum sem gripið hefur verið til varðandi uppboð á íbúðarhúsnæði einstaklinga og fjölskyldna.
Í byrjun október lágu fyrir upplýsingar um að um 200 íbúðir þar sem eigandi býr myndu fara á framhaldsuppboð í mánuðinum. Í tengslum við fjölgun uppboða greip ríkisstjórnin til sérstakra aðgerða til aðstoðar þeim sem eiga yfir höfði sér nauðungarsölu á heimili sínu.
Samþykkt var á Alþingi frumvarp ríkisstjórnarinnar um að gildistími heimildar fyrir skuldara til að óska eftir þriggja mánaða frestun á nauðungarsölu yrið framlengdur til 31. mars 2011. Einnig var gerð lagabreyting sem veitir skuldurum skjól gegn innheimtu og uppboðum um leið og þeir óska eftir greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt upplýsingum frá umboðsmanni hefur umsóknum um greiðsluaðlögun fjölgað verulega frá setningu laganna og því má ætla að töluverðum fjölda fyrirhugaðra framhaldsuppboða hafi verið frestað. Í næstu viku mun liggja fyrir hve mörgum uppboðum hefur verið frestað vegna þessara aðgerða.
Tvö frumvörp ríkisstjórnarinnar bíða afgreiðslu Alþingis, annars vegar frumvarp til laga um að stytta fyrningarfrest krafna í kjölfar gjaldþrots í tvö ár að jafnaði og hins vegar frumvarp til laga um að heimila Íbúðalánasjóði að bjóða til leigu íbúðir sem sjóðurinn hefur keypt á uppboði þannig að tilteknir húsaleigusamningar verði með kauprétti.
Fyrra hluta október hóf umboðsmaður skuldara úthringingar þar sem haft er samband við þá einstaklinga sem eru við það að missa húsnæði sitt á nauðungarsölu. Af þeim sem rætt var við fyrstu helgina sem hringingar hófust óskuðu 82% eftir frekari aðstoð umboðsmanns. Af þeim sem svöruðu sögðust 43% ekki hafa nýtt sér fresti vegna nauðungarsölu, 38% höfðu nýtt sér slíka fresti en 18% gátu ekki svarað. Þá sögðust 60% vilja leita leiða til að koma í veg fyrir uppboð, 23% vildu það ekki en 17% gátu ekki svarað til um hvort þeir vildu það eða ekki. Tæpur helmingur, eða 48%, hafði ekki nýtt sér úrræði vegna greiðsluerfiðleika, 28% höfðu nýtt sér einhver úrræði en 25% gátu ekki svarað.
Lögð er áhersla á að þeir einstaklingar og þau heimili sem þarfnast aðstoðar vegna skuldavanda leiti án tafar til umboðsmanns skuldara eða viðskiptabanka síns um aðstoð og nýti þau úrræði sem eru fyrir hendi. Ósk um aðstoð nú mun á engan hátt skerða rétt þeirra til að njóta betri úrræða sem síðar kunna að bjóðast.