Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 68/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 68/2017

Miðvikudaginn 26. apríl 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 16. febrúar 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 8. febrúar 2017 þar sem kæranda var synjað um heimilisuppbót.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um heimilisuppbót til Tryggingastofnunar ríkisins með umsókn, dags. 3. febrúar 2017. Tryggingastofnun synjaði umsókn hennar um heimilisuppbót með bréfi, dags. 8. febrúar 2017.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 15. febrúar 2017. Með bréfi, dags. 16. febrúar 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 28. febrúar 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. mars 2017, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að synjun Tryggingastofnunar ríkisins verði felld úr gildi og umsókn hennar um heimilisuppbót verði samþykkt.

Í kæru kemur fram að kæranda hafi verið synjað um heimilisuppbót vegna þess að dóttir hennar, sem sé […] og […], sé búsett hjá henni. Hún hafi alla tíð þurft aðstoð móður sinnar og megi ekki aka bíl vegna […]. Síðastliðið haust hafi dóttir hennar þurft að hætta í skóla vegna veikinda sinna. Dóttir hennar sé alfarið háð kæranda og hún geti hvorki búið ein né séð um sig.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnun ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um synjun á umsókn um heimilisuppbót þann 3. febrúar 2017.

Kærandi, sem sé örorkulífeyrisþegi, hafi sótti um heimilisuppbót til Tryggingastofnunar ríkisins með umsókn þess efnis þann 3. febrúar 2017. Með bréfi frá umboði Tryggingastofnunar í B, dags. 8. febrúar 2017, hafi umsókn kæranda um heimilisuppbót verið synjað þar sem kærandi hafi ekki talist uppfylla það skilyrði laga og reglugerðar um félagslega aðstoð að vera ein um heimilishald. Nánar tiltekið hafi umsókninni verið synjað þar sem samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands sé annar aðili sem einnig sé með fullan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun skráður til heimilis á sama stað og kærandi.

Fjallað sé um heimilisuppbót í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þar segir að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða einhleypingi heimilisuppbót til viðbótar við tekjutrygginguna sem njóti óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Skilyrðin séu því þrjú sem þurfi að uppfylla og þau séu að heimilisuppbót greiðist einungis einhleypingum, þ.e. ógiftu fólki, hún greiðist einungis þeim sem njóti tekjutryggingar og hún greiðist einungis þeim sem séu einir um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra.

Í reglugerð nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri sé að finna almenn ákvæði um heimilisuppbót og aðrar uppbætur í I. kafla reglugerðarinnar og sérstakar reglur um heimilisuppbót í II. kafla.

Jafnframt komi fram í 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð að ákvæði laga nr. 100/2007 um almannatryggingar gildi um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við eigi.

Samkvæmt framlögðum gögnum málsins og þeim skilyrðum sem lög og reglugerðir um heimilisuppbót setji þá sé Tryggingastofnun ekki heimilt að greiða kæranda heimilisuppbót þar sem kærandi sé ekki ein um heimilishald, en það sé eitt af þeim skilyrðum sem bótaþegi þurfi að uppfylla til þess að eiga rétt á heimilisuppbót.

Í málinu liggi fyrir að kærandi deili heimili með öðrum einstaklingi sem einnig sé með fullar bætur frá Tryggingastofnun í formi örorkubóta. Þegar svo hátti til sem hér segi, þ.e. að þegar tveir einstaklingar deila heimili og báðir hafi fjárhagslegar tekjur þá hljótist af því töluvert hagræði í formi ódýrari rekstarkostnaðar heimilisins, enda deilist rekstur heimilisins niður á tvo aðila.

Tryggingastofnun telur ljóst að synjun stofnunarinnar á heimilisuppbót til kæranda hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög, reglugerðir og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem almennt hafi verið talið að einstaklingur sem búi með öðrum einstaklingi hafi fjárhagslegt hagræði af sambýlinu. Á þeim forsendum telur Tryggingastofnun ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðun sinni.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um heimilisuppbót vegna sambýlis með dóttur sinni.

Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð segir að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleypings sem nýtur óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og er einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfa öll skilyrði ákvæðisins að vera uppfyllt.

Í 8. gr. reglugerðar nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri eru skilyrði ákvæðisins nánar útfærð þar sem segir að heimilisuppbót verði ekki greidd til aðila sem svo sé ástatt um:

„1. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra aðila.

2. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að hafa sameiginlega aðstöðu varðandi fæði eða húsnæði, t.d. sambýli á vegum félagasamtaka eða ríkis og bæja.

3. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að leigja herbergi eða húsnæði með sameiginlegri eldunaraðstöðu með öðrum.“

Samkvæmt greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins grundvallaðist synjun stofnunarinnar á beiðni um heimilisuppbót á því að á heimili kæranda búi annar einstaklingur sem sé örorkulífeyrisþegi, það er dóttir kæranda. Kærandi hefur ekki andmælt búsetu dóttur sinnar á sama heimili. Rökstuðningur kæranda fyrir því hvers vegna hún njóti ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýli með dóttur sinni séu veikindi hennar. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun þiggur dóttir kæranda fullar örorkulífeyrisgreiðslur frá stofnuninni og því hefur kærandi ekki andmælt. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur kærandi ekki sýnt fram á að hún njóti ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýli með dóttur sinni. Úrskurðarnefndin telur að jafnan séu líkur á því og að eðlilegt sé að afkomendur á fullorðinsaldri sem búi hjá foreldrum sínum hafi fjárhagslega aðkomu að heimilisrekstri.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála uppfyllir kærandi ekki skilyrði 8. gr. laga um félagslega aðstoð um að vera ein um heimilisrekstur þar sem hún nýtur fjárhagslegs hagræðis af sambýli með dóttur sinni og á því ekki rétt á heimilisuppbót lögum samkvæmt. Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um heimilisuppbót staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um heimilisuppbót er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta