Hoppa yfir valmynd
6. júní 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 108/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 108/2019

Fimmtudaginn 6. júní 2019

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 13. mars 2019, kærði B réttindagæslumaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, afgreiðslu Reykjavíkurborgar á umsókn hennar um félagslega liðveislu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 4. nóvember 2015, sótti kærandi um félagslega liðveislu frá Reykjavíkurborg. Með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 6. janúar 2016, var kæranda tilkynnt að hún hefði fengið samþykkta 12 tíma á mánuði. Tekið var fram að haft yrði samband við hana um leið og þjónustan gæti hafist og gengið frá þjónustusamningi í kjölfarið. Með umsókn, dags. 22. október 2018, sótti kærandi um 16 tíma á mánuði í frekari liðveislu frá Reykjavíkurborg. Með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 15. nóvember 2018, var kæranda tilkynnt að umsóknin hefði verið samþykkt og haft yrði samband um leið og þjónustan gæti hafist. Kærandi hefur vísað til þess að enn hafi ekki nein þjónusta hafist og kærir því drátt á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með bréfi, dags. 14. mars 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 24. apríl 2019. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. apríl 2019, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda 21. maí 2019 og voru þær sendar Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.  

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að umsókn hennar hafi ekki enn komið til framkvæmda rúmlega þremur árum eftir umsóknardag. Ekki verði séð að Reykjavíkurborg hafi upplýst kæranda um ástæður þess að dráttur yrði á afgreiðslu og henni hvorki tilkynnt um drátt á afgreiðslu né hvenær afgreiðslu væri að vænta. Kærandi hafi ítrekað sjálf haft samband við Reykjavíkurborg án þess að mál hennar hafi þó verið afgreitt eða þjónusta komið til framkvæmda. Réttindagæslumaður hafi setið fund með kæranda á þjónustumiðstöð þann 22. október 2018 og óskað eftir að mat færi fram á þjónustuþörf hennar. Niðurstaða fundarins hafi verið sú að sækja um meiri þjónustu til viðbótar við þá þjónustu sem kæran nái til. Það sýni að Reykjavíkurborg hafi dregið úr hófi að afgreiða málið og það sé brot á 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Á fundi þann 22. október 2018 hafi kærandi sótt um meiri þjónustu en þá sem þegar hafði verið sótt um en í svarbréfi við erindi réttindagæslumanns sé tilgreint að sótt hafi verið um frekari liðveislu. Frekari liðveisla hafi ekki átt sér stoð í lögum eftir 1. október 2018. Kærandi kannist ekki við að henni hafi borist svarbréf vegna þeirrar umsóknar. Þá bendir kærandi á að hún hafi einnig sótt um félagslegt leiguhúsnæði 30. ágúst 2016 og ekki enn fengið íbúð. Kærandi búi við mjög slæmar félagslegar aðstæður á heimili móður sinnar, sé með ódæmigerða einhverfu, kvíða og þunglyndi. Ætla mætti að það yrði horft til þeirra aðstæðna þegar ákvörðun í máli kæranda væri tekin. Kærandi krefst þess að Reykjavíkurborg afgreiði umsóknir hennar í samræmi við lög nr. 40/1991, 38/2018 og 37/1993.

Í athugasemdum kæranda er vísað til þess að Reykjavíkurborg hafi ekki sýnt fram á að vinnsla hafi verið í máli hennar svo að þjónusta komi til framkvæmda, hvorki með auglýsingu né öðrum hætti. Réttindagæslumaður hafi átt frumkvæði að því að setja á tíma sem kæranda stæði til boða að hitta ráðgjafa sinn oftar vegna þess hversu íþyngjandi biðin væri orðin. Um nýjan ráðgjafa hafi verið að ræða sem nú sé hætt og enn annar félagsráðgjafi kominn að hennar máli. Tímar hjá félagsráðgjafa séu ekki þjónusta fötlunar vegna og að setja það fram að kærandi hafi ekki nýtt sér þá tíma sé ósanngjarnt í hennar garð. Kærandi eigi erfitt með stöðugar breytingar ráðgjafa og það án allrar þjónustu, líkt og stoð- og/eða stuðningsþjónustu. Ekki verði séð að það sé eðlilegt að kærandi bíði í þrjú og hálft ár þegar sótt er um vægasta form félagsþjónustu, enda hafi þörf hennar fyrir þjónustu aukist á þeim tíma sem sé liðinn. Þetta sé ekki í samræmi við 9. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi kærandi ekki verið upplýst um tafir á að þjónustan komi til framkvæmda því hún hafi sjálf leitað eftir þeim upplýsingum.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að kærandi hafi sótt um liðveislu með umsókn, dags. 4. nóvember 2015. Umsókn kæranda hafi verið samþykkt og fallist á að veita liðveislu í 12 klukkutíma á mánuði í þrjá mánuði en hún hafi verið á biðlista eftir þjónustu frá þeim tíma. Kærandi hafi mætt í viðtöl og verið í reglulegum samskiptum við ráðgjafa á C en í júlí 2018 hafi mál hennar færst yfir á D. Á fundi þann 22. október 2018 hafi þjónustuþörf kæranda verið metin. Mat á þjónustuþörf, sbr. 6. gr. reglna um stuðningsþjónustu í Reykjavík, hafi leitt í ljós að kærandi þurfi á frekari þjónustu að halda og í kjölfarið hafi verið sótt um frekari liðveislu. Sú umsókn hafi verið samþykkt í nóvember 2018. Á fundinum hafi kærandi og ráðgjafi gert samkomulag um að hún gæti komið í viðtal hjá ráðgjafa aðra hvora viku og fengið símatíma þær vikur sem ekki væri viðtal. Kærandi hafi ekki mætt í boðuð viðtöl með ráðgjafa en hafi verið í sambandi við ráðgjafa símleiðis einu sinni til tvisvar í mánuði.

Reykjavíkurborg tekur fram að töf á veittri þjónustu sé tvíþætt. Annars vegar hafi ekki verið unnt að finna starfsmann til að sinna þjónustunni og hins vegar sé umsóknum forgangsraðað eftir þjónustuþörf, sbr. 1. mgr. 9. gr. reglna um stuðningsþjónustu í Reykjavík. Mál kæranda hafi einnig tafist sökum þess. Óvíst sé hvenær þjónustan geti hafist en unnið sé að því að finna starfsmann til þess að þjónusta við kæranda geti hafist eins fljótt og kostur sé. Í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ráðgjafi kæranda reglulega upplýst hana símleiðis um að tafir yrðu á þjónustu í formi liðveislu. Með hliðsjón af framangreindu sé það mat Reykjavíkurborgar að málsmeðferð í máli kæranda hafi verið í samræmi við 9. gr. stjórnsýslulaga og að kærandi hafi verið upplýst um þær tafir sem hafi orðið á afgreiðslu málsins. Ljóst sé að Reykjavíkurborg hafi ekki brotið gegn lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, öðrum ákvæðum stjórnsýslulaga eða ákvæðum annarra laga.

IV.  Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um afgreiðslu Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um félagslega liðveislu frá 4. nóvember 2015. Sótt var um í gildistíð laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, nú lög nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Kærandi hefur vísað til þess að enn hafi ekki nein þjónusta hafist og kærir því drátt á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls.

Markmið laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Markmið laga nr. 38/2018 er að fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Þjónustan skal miða að því að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Við framkvæmd þjónustu við fatlað fólk skal virðing borin fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði.

Í 24. gr. laga nr. 59/1992 er kveðið á um að sveitarfélög skuli eftir föngum gefa fötluðu fólki kost á liðveislu. Með liðveislu sé átt við persónulegan stuðning og aðstoð sem einkum miði að því að rjúfa félagslega einangrun, til dæmis aðstoð til að njóta menningar og félagslífs. Í sérstökum tilvikum skal veita fötluðum einstaklingum frekari liðveislu sem feli í sér margháttaða aðstoð við ýmsar athafnir daglegs lífs, enda sé hún nauðsynleg til að koma í veg fyrir dvöl á stofnun, sbr. 25. gr. laganna. Reykjavíkurborg hefur útfært nánar framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, meðal annars með reglum um stuðningsþjónustu í Reykjavík sem samþykktar voru í borgarráði 7. júní 2012. Í 2. gr. reglnanna kemur fram að markmið stuðningsþjónustu sé að veita aðstoð við notendur sem þurfa sakir fötlunar eða aðstæðna sinna á auknum stuðningi að halda umfram grunnþjónustu. Stuðningsþjónusta sé aðstoð við athafnir daglegs lífs og/eða félagslegur stuðningur til þess að rjúfa félagslega einangrun.

Í 8. gr. laga nr. 38/2018 segir í 1. mgr. að fötluðu fólki skuli standa til boða stoðþjónusta sem er nauðsynleg þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar þannig að það standi til jafns við aðra og komið verði í veg fyrir félagslega einangrun þess. Stoðþjónustan skuli meðal annars miðast við þarfir fatlaðra einstaklinga fyrir sérhæfða ráðgjöf, félagslegan stuðning og félagslegt samneyti, þar með talið ástundun tómstunda og menningarlífs, sbr. 1. tölul. ákvæðisins. 

Í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 59/1992 kemur fram að sveitarfélög skuli starfrækja teymi fagfólks sem metur heildstætt þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustu og hvernig koma megi til móts við óskir hans. Teymin skuli hafa samráð við einstaklinginn við matið og skuli það byggt á viðurkenndum matsaðferðum. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu var þörf kæranda metin í kjölfar umsóknar í nóvember 2015 og samþykkt að veita henni liðveislu í 12 klukkustundir á mánuði. Í október 2018 fór fram nýtt mat sem leiddi í ljós þörf á frekari þjónustu og var samþykkt að veita stuðningsþjónustu í 16 klukkustundir á mánuði.

Í lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks er ekki kveðið á um sérstakan afgreiðslufrest mála en í 1. mgr. 34. gr. laga nr. 38/2018 kemur fram að ákvörðun um að veita þjónustu skuli tekin svo fljótt sem kostur er. Sé ekki unnt að hefja þjónustu strax og umsókn er samþykkt skal tilkynna umsækjanda um ástæður þess og hvenær þjónustan verði veitt. Ef fyrirséð er að þjónusta sem sótt var um geti ekki hafist innan þriggja mánaða frá samþykkt umsóknar skal leiðbeina umsækjanda um þau úrræði sem hann hefur á biðtíma og aðra þjónustu sem er í boði. Þá skal veita honum aðra viðeigandi þjónustu á meðan beðið er eftir að þjónustan sem samþykkt hefur verið hefjist.

Í 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram sú meginregla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er. Í ákvæðinu kemur ekki fram hvaða tímafrest stjórnvöld hafa til afgreiðslu mála en af því leiðir að aldrei má vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Með hliðsjón af þessari meginreglu verður að telja að stjórnvöldum sé skylt að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um í samræmi við þessa meginreglu og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd af þeirra hálfu eins fljótt og unnt er. Hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Þannig verður að líta til umfangs máls og atvika hverju sinni, auk þess sem mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila getur einnig haft þýðingu í þessu sambandi.

Kærandi hefur vísað til þess að engin þjónusta hafi farið í gang hjá Reykjavíkurborg í kjölfar umsóknar hennar um félagslega liðveislu, þrátt fyrir að hún hafi ítrekað haft samband við sveitarfélagið. Reykjavíkurborg hefur vísað til þess að ekki hafi verið unnt að fá starfsmann til að sinna þjónustunni og að umsóknum sé forgangsraðað eftir þjónustuþörf. Óvíst sé hvenær þjónustan geti hafist en unnið sé að því að finna starfsmann til þess að þjónustan geti hafist eins fljótt og kostur sé.

Úrskurðarnefndin getur fallist á að starfsmannaskortur valdi töf á samþykktri þjónustu en að mati nefndarinnar getur það ekki réttlætt bið um ókomna tíð án þess að fyrir liggi einhver áætlun í þeim efnum eða virk upplýsingagjöf til umsækjanda um stöðu hans og skyldur. Verður þannig að gera þá kröfu til sveitarfélagsins að markvisst sé unnið að lausn í máli kæranda og gerðar séu ráðstafanir til að hún fái þá þjónustu sem hefur verið samþykkt að veita, eins fljótt og unnt er. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að Reykjavíkurborg hafi verið að vinna markvisst í máli kæranda sérstaklega og gert ráðstafanir til að veita henni samþykkta þjónustu.

Á grundvelli þess að sveitarfélagið hefur ekki áætlað hvernig og hvenær leyst verði úr máli kæranda er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að afgreiðsla máls kæranda hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Lagt er fyrir sveitarfélagið að hraða afgreiðslu málsins og veita kæranda samþykkta þjónustu svo fljótt sem auðið er. Ef fyrirséð er að á afgreiðslu málsins verði frekari tafir ber sveitarfélaginu að skýra kæranda með reglubundnum hætti frá því og upplýsa um ástæður tafanna auk þess hvenær þjónustan geti hafist, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Afgreiðsla Reykjavíkurborgar í máli A, var ekki í samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lagt er fyrir Reykjavíkurborg að hraða afgreiðslu máls kæranda og veita samþykkta þjónustu svo fljótt sem auðið er.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta