Hoppa yfir valmynd
5. september 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 303/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 303/2024

Fimmtudaginn 5. september 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 2. júlí 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. mars 2024, um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. mars 2024, var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að fjárhæð 259.564 kr., að meðtöldu 15% álagi, fyrir tímabilið 6. febrúar til 24. febrúar 2024 vegna reksturs á eigin kennitölu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. júlí 2024 og skýringar kæranda vegna kærufrests bárust 6. júlí 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. júlí 2024, var óskað eftir gögnum frá Vinnumálastofnun vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Umbeðin gögn bárust 26. ágúst 2024.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála krefst kærandi þess að Vinnumálastofnun endurgreiði honum þær atvinnuleysisbætur sem hann hafi greitt til baka, að upphæð 259.564 kr. Rökin þar að baki séu þau að kærandi hafi leitað ráða hjá Vinnumálastofnun um hvort að honum væri heimilt að opna VSK númer og selja þjónustu á meðan hann væri að fá atvinnuleysisbætur. Kærandi hafi viljað vera viss og fengið þau svör að það ætti ekki að hafa áhrif. Seinna hafi komið í ljós að ekki sé hægt að opna VSK númer nema vera skráður á launagreiðendaskrá og það sé óheimilt. Það hafi kærandi gert sér grein fyrir þegar hann hafi mætt á fyrirlestur hjá Vinnumálastofnun og átt samtal við annan atvinnuleitanda. Eftir fyrirlesturinn hafi kærandi farið í afgreiðslu stofnunarinnar og óskað skýringa, sem hann hafi fengið. Í kjölfarið hafi kærandi látið Vinnumálastofnun vita af mistökunum og gengið í að loka VSK númerinu. Kærandi hafi ítrekað bent Vinnumálastofnun á að þessi mistök ættu rót sína hjá stofnuninni vegna rangrar ráðgjafar í janúar. Á þeim tíma hafi kærandi verið ráðinn til starfa hjá opinberum aðila. Í launakerfinu þar hafi skuld kæranda við Vinnumálastofnun verið tilgreind sem hann hafi verið ósáttur við. Kærandi hafi látið Vinnumálastofnun vita af því en þá hafi krafan verið send í innheimtu. Kærandi hafi strax greitt skuldina vegna ótta um að skuldin hefði slæm áhrif á nýtt starf hans og lánstraust. Kærandi hafi svo loks þann 25. júní 2024 fengið svar um að hann geti kært þetta til úrskurðarnefndar velferðarmála, sem hann hefði gert strax ef honum hefði verið bent á það og ef Vinnumálastofnun hefði komið skýrt fram um að þetta yrði ekki leiðrétt.

Í skýringum kæranda, dags. 6. júlí 2024, kemur fram að hann hafi loks fundið hina kærðu ákvörðun á heimasíðu Vinnumálastofnunar þar sem þriggja mánaða kærufrestur sé tilgreindur. Kærandi bendi á að í samskiptaleiðum Vinnumálastofnunar sé ekki að finna slóð á ákvörðunina sjálfa né séu kæruleiðir tilteknar þar. Einnig hafi kæruleiðir ekki verið kynntar í símtölum eða tölvupóstum fyrr en í lok júnímánaðar. Ákvarðanir Vinnumálastofnunar virðast eingöngu birtar á „Mínum síðum“ undir „bréf“. Þrátt fyrir ítrekaða tölvupósta til Vinnumálastofnunar þar sem kærandi hafi verið að kvarta og leita leiða hafi honum ekki verið beint á að kæra fyrr en að liðnum kærufresti. Kæranda hafi ekki verið vísað á hvar hann gæti nálgast ákvörðunina sjálfa þar sem kæruleiðbeiningar væru tilgreindar. Þá séu ótalin þau símtöl sem kærandi hafi átt við Vinnumálastofnun, bæði þjónustufulltrúa og Greiðslustofu. 

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. mars 2024, um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 19. mars 2024, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, móttekinni 2. júlí 2024. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Í skýringum kæranda vegna kærufrestsins gerir hann meðal annars athugasemdir við að kæruleiðbeiningar séu ekki tilgreindar í skilaboðum frá Vinnumálastofnun. Hann hafi því ekki haft vitneskju um kærumöguleika fyrr en að liðnum kærufresti.

Fyrir liggur að kæranda var í hinni kærðu ákvörðun leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála eru þær ástæður sem kærandi hefur lagt fram vegna kærufrestsins ekki þess eðlis að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í því sambandi er meðal annars haft í huga að gögn málsins benda ekki til þess að hin kærða ákvörðun hafi verið efnislega röng. Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta