Gerum gott ökunám betra
Rætt var um stöðu, þróun, árangur og framtíð ökukennslu á Íslandi á málþingi sem Ökukennarafélag Íslands hafði forgöngu að ásamt samgönguráðuneytinu og Umferðarstofu. Fluttur var yfir tugur fyrirlestra um efnið og í lok fundar voru pallborðsumræður.
Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í samgönguráðuneytinu, flutti ávarp í upphafi fundar og minnti í upphafi á að rétturinn til að aka bíl væri mikilvægur en um leið viðkvæmur og vandmeðfarinn. Hún sagði margt hafa breyst í umferðinni á Íslandi síðustu áratugina, bílum hefði fjölgað, hraðinn aukist og margs konar ný áreiti gerðu meiri kröfur til ökumanna. Hún sagði verða unnið að því í samgönguráðuneytinu á næstu misserum að endurskoða fyrirkomulag ökunáms og taka fyrirkomulag umferðarfræðslu til endurskoðunar.
Í lokin sagði ráðuneytisstjórinn: ,,Kastljósi dagsins er beint að ökunámi ? það er brýnt að gera gott ökunám betra. Markmið þessa málþings er að skapa umræðu um mikilvægi góðrar ökukennslu þar sem nemandi og kennari mynda einstök tengsl. Það er mikil ábyrgð að aka bíl og andartaks gáleysi getur varað að eilífu. Við verðum að taka höndum saman og leita allra leiða til fækka umferðarslysum. Samgönguráðuneytið mun ekki láta sitt eftir liggja.?
Birgir Hákonarson frá Umferðarstofu og Birna Hreiðarsdóttir, lögfræðingur í samgönguráðuneyti, ræddu um breytingar og framtíðarsýn í ökunámi hérlendis. Í máli Birnu kom fram að stefnt er að því að frumvarp til nýrra umferðarlaga verði lagt fram á Alþingi næsta vor og að skipaður verði á næstunni starfshópur samgönguráðuneytis sem leggja á fram tillögur um umferðarfræðslu í skólum. Sagði Birna það brýnt að umferðarfræðsla verði samfelld allt frá leikskóla, gegnum grunnskóla og uppí framhaldsskóla.
Meðal annarra sem fluttu erindi voru ökukennarar sem ræddu um stöðu ökunáms á Íslandi, tveir norskir fyrirlesarar fjölluðu um ökukennslu, reglugerðir og námskrá í Noregi, og fjallað var um reglu- og námskrárumhverfi ökunáms á Íslandi.