Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aukin fjárveiting til íslenskukennslu fyrir útlendinga

Ríkisstjórnin hefur að tillögu menntamálaráðherra, dómsmálaráðherra og félagsmálaráðherra ákveðið að stórauka fjárveitingar til íslenskukennslu fyrir útlendinga.

„Innflytjendur eru hjartanlega velkomnir og í þeim anda tökum við á móti þeim“, segir Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra. „Skjót og góð aðlögun þeirra að samfélaginu okkar skiptir miklu máli og ég hef reynt að greiða fyrir því í samstarfi við aðra ráðherra, meðal annars með því að efla íslenskukennslu fyrir innflytjendur.“

Tungumálakunnátta er grundvallarforsenda fyrir fullri þátttöku og aðlögun fólks að íslensku samfélagi. Mikil fjölgun hefur orðið á fólki af erlendum uppruna sem kemur til Íslands til lengri eða skemmri dvalar. Skýringa á því er ekki síst að leita í mikilli spurn eftir vinnuafli og hagsæld hér á landi.

Ríkisstjórnin hefur í dag falið menntamálaráðuneytinu skipulag og ábyrgð á íslenskunámi fyrir útlendinga. Stofnað verður til sérstaks verkefnis um íslenskukennsluna með verkefnisstjórn sem í sitja fulltrúar menntamálaráðherra og félagsmálaráðherra.

Framlög til verkefnisins árið 2007 nema 100 milljónum króna, en ætla má að kostnaður á næstu árum verði hærri, þegar breytingar á skipulagi og framboði námskeiða eru komnar til framkvæmda. Enn fremur er erfitt að henda reiður á fjölda útlendinga sem munu sækja námskeiðin.

Stefnt er að því að frumvarp til breytinga á lögunum um íslenskan ríkisborgararétt verði lagt fyrir Alþingi í þessum mánuði og að þar verði gert ráð fyrir að umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt sýni fram á lágmarkskunnáttu í íslensku en að dómsmálaráðuneytið móti nánar þær kröfur sem gerðar verða. Gildistöku þeirra ákvæða sem lúta að íslenskukunnáttu verður frestað í tvö ár meðan verið er að byggja upp íslenskukennsluna.

„Styrkja verður ýmsa þætti stjórnkerfisins til að ná þeim árangri sem að er stefnt varðandi aðlögun útlendinga að íslensku samfélagi“, segir félagsmálaráðherra. „Mér er efst í huga Vinnumálastofnun sem hefur eftirlit með því að farið sé að lögum og reglum sem settar hafa verið um atvinnuþátttöku útlendinga hér á landi. Mikil fjölgun erlendra starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði hefur valdið auknu álagi á starfsemi Vinnumálastofnunar og er því mjög mikilvægt að búa henni það umhverfi að hún geti sinnt hlutverki sínu eins og til er ætlast.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta