Vefþjónusta fyrir sjónskerta og lesblinda
Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra opnar í dag, 16. nóvember 2006, nýja vefþjónustu, www.stillingar.is, fyrir þá sem eiga erfitt með lestur, til dæmis vegna lesblindu og sjónskerðingar. Formleg opnun fer fram á Nordica Hotel, sal H, 2. hæð, klukkan 14. Hugsmiðjan ehf. þróaði og rekur þjónustuna og hefur félagsmálaráðuneytið þegar tekið hana í gagnið á heimasíðu sinni (sjá ljósblátt tákn efst á síðunni).
Stillingar.is er einföld vefþjónusta fyrir eigendur vefsvæða sem vilja koma til móts við þarfir fólks sem á erfitt með að lesa. Talið er að meira en 10% notenda eigi erfitt með lestur texta á vefsvæðum og felst þjónustan í því að geta á einum stað valið letur og liti á veftexta og notað þær stillingar á öllum vefsvæðum sem kjósa að tengjast þjónustunni.
Á vefsvæðinu er að finna skýringar á þjónustunni og hægt er að prófa hana á þeim vefsvæðum sem þegar hafa tekið hana í notkun (til dæmis felagsmalaraduneyti.is, tryggingamidstodin.is, obi.is og auðlesinn mbl.is). Notendur tilgreina þá samsetningu leturgerðar, texta- og bakgrunnslita, línubils og fleira sem þeim finnst þægilegast að lesa. Umsjónarmaður vefsvæðis sem nýtir sér þjónustu Stillingar.is fær upplýsingar um óskir allra þeirra sem heimsækja vefinn og getur með sjálfvirkum hætti sérsniðið framsetningu hans og útlit til samræmis við þær.
Gott aðgengi að rafrænni þjónustu fær sífellt meira vægi, ekki síst þegar kemur að þjónustu hins opinbera á vefjum sínum. Í stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið, Auðlindir í allra þágu, er að finna markmið um að rafræn þjónusta opinberra aðila taki mið af þörfum mismunandi hópa fatlaðra, svo sem blindra og sjónskertra. Raunin er sú að flest af því sem talið er að auðveldi aðgengi fatlaðra að netinu nýtist ekki síður öðrum almennum notendum.
Vefi opinberra aðila þarf að gera þannig úr garði að þeir standist alþjóðleg viðmið og séu aðgengilegir öllum. Stjórnvöld hafa beint þeim tilmælum til stofnana að þær uppfylli alþjóðlegar lágmarkskröfur um aðgengi að vef eigi síðar en fyrir árslok 2007. Allir opinberir aðilar; ráðuneyti, stofnanir og sveitarfélög, eru hvattir til að vinna að þessum markmiðum.