Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2020 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Synjun á umsókn um útgáfu rekstrarleyfis í flokki II – Gististaðir.

Stjórnsýslukæra

Með bréfi dags. 22. febrúar 2017 barst ráðuneytinu kæra frá [X hrl.] fyrir hönd [Z ehf.] (hér eftir kærandi). Kærð var ákvörðun Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu (hér eftir sýslumaður), frá 22. nóvember 2016 um að synja umsókn um rekstrarleyfi fyrir gististað í fl. II að [Y].

Stjórnsýslukæran er byggð á kæruheimild í 26. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæran barst innan kærufrests.

Kröfur

Í kæru er þess krafist að ákvörðun sýslumanns verði breytt og kæranda veitt rekstrarleyfi vegna gististaðar í fl. II að [Y]. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik

Upphaf málsins má rekja til umsóknar kæranda dags. 18. september 2015 um rekstrarleyfi fyrir gististað.

Umsóknin fór í lögbundið umsagnarferli skv. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Byggingafulltrúi lagðist gegn útgáfu leyfisins þann 13. nóvember 2015. Umsögn byggingarfulltrúa grundvallaðist á því að lokaúttekt hafi ekki farið fram á húsnæðinu.

Þann 17. nóvember 2015 lagðist slökkvilið höfuðborgarsvæðisins gegn útgáfu leyfisins með vísan til þess að umbeðin gögn hefðu ekki borist frá kæranda.

Skrifstofa borgarstjórnar lagðist gegn útgáfu leyfisins þann 19 nóvember 2015 á þeim grundvelli að staðsetning fyrirhugaðrar starfsemi væri á skilgreindu íbúðarsvæði ÍB10, þar sem óheimilt er að reka gististað í fl. II. Fyrirhuguð starfsemi hafi því ekki verið innan þeirra marka sem reglur og skipulag Reykjavíkurborgar segja til um, sbr. 1.  tölul. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007.

Þann 15. mars 2016 veitti heilbrigðiseftirlit neikvæða umsögn með vísan til neikvæðrar umsagnar byggingafulltrúa.

Með bréfi dags. 3. nóvember 2016 tilkynnti sýslumaður kæranda að fyrirhugað væri að synja umræddri umsókn á grundvelli fyrirliggjandi umsagna Var kæranda veittur 14 daga frestur til að koma á framfæri andmælum eða athugasemdum áður en ákvörðun yrði tekin á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Engin andmæli eða athugasemdir bárust sýslumanni.

Með bréfi dags. 22. nóvember 2016 synjaði sýslumaður umsókn kæranda.

Þann 22. febrúar 2017 barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu stjórnvaldskæra vegna synjunar sýslumanns á áðurnefndri umsókn.

Með bréfi, dags. 29. mars 2017 óskaði ráðuneytið umsagnar sýslumanns um kæruna. Þá fór ráðuneytið fram á að fá send gögn máls.

Umsögn sýslumanns ásamt gögnum máls bárust með bréfi, dags. 27. apríl 2017. Umsögn sýslumanns var send kæranda til athugasemda þann 29. maí 2017.

Með bréfi dags. 13. júní 2017 bárust athugasemdir frá lögmanni kæranda við umsögn sýslumanns.

Málið hefur hlotið umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og málið er tekið til úrskurðar.

Sjónarmið kæranda

Í kæru er þess krafist að ákvörðun sýslumanns verði breytt og kæranda veitt rekstrarleyfi vegna gististaðar í fl. II að [Y]. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Í kæru er forsaga málsins rakin. Kemur fram að fyrirsvarsmenn kæranda hafi leitað ráða hjá skipulagsfulltrúa í opnum viðtalstíma vegna fyrirætlana um að kaupa fasteign að [Y] í því skyni að reka þar gistiheimili.

Í kæru er borið við að starfsmaður skipulags- og bygginganefndar hafi upplýst kæranda um að rekstrarleyfi myndi fást fyrir þessa tilteknu fasteign út frá gildandi reglum og aðalskipulagi.

Kærandi hafi í kjölfarið sótt um byggingarleyfi til breytinga á tilteknum íbúðum í eigninni í ljósi réttmætra væntinga. Í þessu samhengi vísar kærandi til tölvupósts frá byggingarfulltrúa dags. 25. ágúst 2015. Í tölvupóstinum kemur fram að starfsmaður hafi gert mistök við upphaflega upplýsingagjöf til kæranda.

Í kæru er vísað til fyrirspurnar sem fyrirsvarsmenn kæranda sendu á umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar þann 12. janúar 2016 varðandi rekstur íbúðargistingar í fl. II að [Y].

Misvísandi svör hafi borist frá Reykjavíkurborg þann 29. janúar 2016 og 10. febrúar 2016, eftir að kærandi hafði formlega sótt um rekstrarleyfi.

Kærandi bendir á að mótsagnir hafi verið í svörum Reykjavíkurborgar. Í kæru er neikvæðri umsögn Reykjavíkurborgar einnig mótmælt efnislega og byggt á því að umrædd eign sé innan þess svæðis þar sem heimilt er að reka gististarfsemi í fl. II. skv. aðalskipulagi.

Kærandi bendir á að hann hafi lagst í kostnað við umræddar framkvæmdir í ljósi réttmætra væntinga.

Sjónarmið sýslumanns

Í framhaldi þess að kæra barst óskaði ráðuneytið eftir umsögn sýslumanns ásamt málsgögnum. Umsögn sýslumanns barst ráðuneytinu þann 27. apríl 2017.

Í umsögn sýslumanns kemur fram að leyfisveitanda sé óheimilt að gefa út rekstrarleyfi ef einhver lögbundinna umsagnaraðila mælir gegn útgáfu þess, sbr. 5. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Þá séu umsagnir bindandi fyrir leyfisveitanda sbr. 2. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um sama efni.

Sýslumaður bendir á að hluti hinna neikvæðu umsagna í málinu byggist á því að umrædd leyfisumsókn samræmist ekki aðalskipulagi Reykjavíkurborgar.

Sýslumaður hafi leitað eftir afstöðu Reykjavíkurborgar til sjónarmiða kæranda um að [Y] sé innan þess svæðis sem heimilt er að reka gistiheimili í fl. II. skv. aðalskipulagi Þá hafi sýslumaður jafnframt leitað afstöðu Reykjavíkurborgar um sjónarmið kæranda um réttmætar væntingar til útgáfu leyfis í kjölfar samskipta hans við starfsmenn Reykjavíkurborgar.

Með tölvupósti dags. 31. mars 2017 ítrekaði Reykjavíkurborg þau sjónarmið sem fram komu í umsögn borgarstjórnar dags. 19. nóvember 2015. Í tölvupóstinum kemur fram að eign kæranda sé staðsett á skilgreindu íbúðarsvæði ÍB10 þar sem óheimilt sé að reka gististað í fl. II. Þá vísar Reykjavíkurborg til þess að væntingar aðila til að fá leyfi til framkvæmda fela ekki í sér leyfi til framkvæmda. Allar framkvæmdir sem kærandi hafi ráðist í án tilskilinna leyfa eru því á hans áhættu og ábyrgð.

Sýslumaður tekur undir sjónarmið Reykjavíkurborgar um að meintar væntingar til framkvæmda feli ekki í sér leyfi til framkvæmda. Þá bendir sýslumaður á að kæranda hefði verið í lófa lagið að afla sér tilskilinna leyfa áður en hann lagðist í kostnaðarsamar framkvæmdir.

Sýslumaður vekur athygli á því að neikvæð umsögn byggingafulltrúa í málinu grundvallast m.a. á því að kærandi hafi látið hjá líða að óska eftir lokaúttekt og í kæru sé ekkert sem bendi til þess að breyting hafi orðið þar á.

Sýslumaður vísar til þess að slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hafi einnig veitt neikvæða umsögn um umsókn kæranda þann 17. nóvember 2017.

Sýslumaður tekur fram að sú umsögn ein og sér hefði leitt til þess að lagaskilyrði hefðu brostið til útgáfu leyfisins.

Viðbótarsjónarmið kæranda

Ráðuneytið veitti kæranda kost á að gera athugasemdir við umsögn sýslumanns. Athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda með bréfi dags. 13. júní 2017. Kærandi telur að skýringar Reykjavíkurborgar séu ófullnægjandi og vísar að öðru leyti til þess sem áður hefur komið fram.

Forsendur og niðurstaða

Sem fyrr greinir synjaði sýslumaður umsókn kæranda um leyfi til reksturs gististaðar í fl. II að [Y]. Ráðuneytinu barst stjórnsýslukæra með bréfi, dags. 22. febrúar 2017.

Sýslumaður veitti umsögn um kæruna með bréfi, dags. 27. apríl 2018. Kærandi kom að frekari athugasemdum og ítrekaði málsástæður sínar og kröfur með bréfi dags. 13. júní 2017.

Að mati ráðuneytisins telst málið nægilega upplýst og tækt til úrskurðar.

Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, er sýslumanni skylt að leita umsagna lögbundinna umsagnaraðila við úrvinnslu umsagna um rekstrarleyfi. Í 5. mgr. 10. gr. sömu laga segir að sýslumanni sé óheimilt að gefa út rekstrarleyfi leggist einhver umsagnaraðili gegn útgáfu þess. Umsagnir eru bindandi fyrir leyfisveitanda sbr. 2. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 1277/2016.

Um hlutverk umsagnaraðila er fjallað í 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007. Samkvæmt ákvæðinu er hlutverk sveitarstjórnar m.a. að staðfesta að fyrirhuguð starfsemi sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsskilmála. Í 2. mgr. 27. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 kemur fram að sveitarstjórn skuli staðfesta að staðsetning staðar sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélags kveður á um.

Í málinu liggur fyrir að skrifstofa borgarstjórnar lagðist gegn útgáfu leyfisins þann 19. nóvember 2015. Hin neikvæða umsögn byggist á því að fyrirhuguð starfsemi er staðsett á skilgreindu íbúðarhúsnæði ÍB10, þar sem óheimilt sé að reka gististað í fl. II. Af því leiði að umsókn kæranda hafi ekki verið innan þeirra marka sem reglur og skipulag Reykjavíkurborgar segja til um, sbr. 1. tölul. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007.

Af gögnum máls má þó ráða að kæranda hafi verið veittar misvísandi upplýsingar frá starfsmönnum Reykjavíkurborgar um skipulagslega stöðu [Y].

Hins vegar verður ekki hjá því litið að synjun sýslumanns grundvallist einnig á neikvæðri umsögn byggingarfulltrúa þar sem lokaúttekt hafi ekki farið fram á húsnæðinu líkt og áskilið er skv. b. lið. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007. Þá hafi slökkvilið einnig veitt neikvæða umsögn þar sem kærandi hafi látið hjá liggja að skila inn umbeðnum gögnum. Af þeim sökum liggur ekki fyrir staðfesting slökkviliðs á að kröfum um brunavarnir hafi verið fullnægt, líkt og áskilið er skv. e. lið. 4. mgr. 10. gr. laganna og 4. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 1277/2016. 

Í málinu liggur einnig fyrir að heilbrigðiseftirlit hefur lagst gegn útgáfu leyfisins með vísan til neikvæðrar umsagnar byggingarfulltrúa. Í því samhengi er vert að benda á að óheimilt er að leigja út íbúðarhúsnæði eða íbúðarherbergi nema húsnæði hafi hlotið samþykki byggingarnefndar skv. 1. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti.

Hefur umræddum annmörkum ekki verið mótmælt af kæranda.

Líkt og fram hefur komið er sýslumanni óheimilt að gefa út rekstrarleyfi leggist einhver umsagnaraðili gegn útgáfu þess skv. 5. mgr. 10. gr. laganna. Í ljósi fyrirliggjandi umsagna er það mat ráðuneytisins að lagaskilyrði hafi brostið til útgáfu leyfisins.

Að öllu framangreindu virtu telur ráðuneytið ákvörðun sýslumanns, um að synja umsókn kæranda um útgáfu rekstrarleyfis vegna gististaðar í flokki II að [Y], lögmæta.

Vegna mikilla anna hefur dregist á langinn að úrskurða í máli þessu og beðist er velvirðingar á því.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 22. nóvember 2016, um að synja umsókn kæranda um útgáfu rekstrarleyfis vegna gististaðar í flokki II að [Y] er staðfest.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta