Úrskurður vegna kæru dánarbús
[…]
[…]
[…]
Reykjavík 25. júlí 2012
Tilv.: FJR12020129/16.2.2
Efni: Úrskurður vegna kæru dánarbús [A], kt. […].
Ráðuneytið vísar til kæru yðar vegna dánarbús [A], dags. 26. apríl 2012, þar sem kærð er ákvörðun tollstjóra, dags. 30. mars 2012. Í ákvörðun tollstjóra var kröfu um að fella niður vaxta- og innheimtukostnað vegna innheimtu þing- og sveitarsjóðsgjalda synjað.
Í kærunni er þess krafist að ákvörðun tollstjóra verði felld úr gildi og að allur innheimtu- og vaxtakostnaður verði felldur niður. Einnig er farið fram á að ráðuneytið hlutist til um að verklag tollstjóra um sambærileg mál verði breytt þannig að innheimtubréf verði skiljanleg gjaldendum án þess að þeir þurfi að leita sérstakleg upplýsinga hjá tollstjóra. Þá er farið fram á að ráðuneytið hlutist til um að verklagi í samskiptum ríkisskattstjóra og tollstjóra verði breytt þannig að gjaldendur þurfi ekki að bera skilaboð á milli stofnananna.
Málavextir og málsástæður:
Málavextir eru þeir að þann 26. febrúar 2008 lést [A], kt. […], til heimilis að [X] í Reykjavík. Leyfi til einkaskipta á búi hinnar látnu var veitt og erfðafjárskýrsla gerð í samræmi við ákvæði laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt. Ríkisskattstjóri áætlaði opinber gjöld á dánarbúið fyrir tekjuárið 2008 þar sem skattframtali fyrir dánarbúið var ekki skilað á árinu 2009. Opinberu gjöldin voru ekki greidd og fór krafan því í innheimtu hjá tollstjóra. Þá hafði erfðafjárskattur ekki verið greiddur að fullu og fór hann einnig í innheimtu hjá tollstjóra. Skuldirnar voru síðan greiddar 1. nóvember 2011 ásamt vöxtum og kostnaði.
Bréf kæranda, dags. 31. október 2011
Kærandi sendi bréf til tollstjóra og ríkisskattstjóra, dags. 31. október 2011, þar sem gerðar voru athugasemdir við málsmeðferð skattyfirvalda. Í bréfinu kom fram að enginn álagningarseðill hafði borist forsvarsmanni kæranda í ágúst 2009 og var þess farið á leit við tollstjóra að innheimtukostnaður yrði lækkaður.
Í bréfinu eru málavextir raktir og telur forsvarsmaður kæranda að um mistök hafi verið að ræða þar sem gjaldandi hafi verið tekjulítil og aðeins lifað um 2 mánuði ársins 2008. Láðst hafi að skila skattframtali fyrir gjaldárið 2009 en gengið hafi veirð frá því í mars árið 2011. Nokkru síðar hafi kærandi fengið greiðsluáskorun um greiðslu sömu skattskuldar og hafði verið áætluð á kæranda árið 2010. Eftir samskipti við embætti sýslumannsins í Reykjavík hafi kæranda verið gefin sú skýring að mistök hafi átt sér stað þar sem tollstjóri hafi ekki verið upplýstur um leiðréttingu þá sem átti sér stað í marsmánuði 2011 þegar gengið var frá skattaskýrslu gjaldanda fyrir tekjuárið 2008 og taldi kærandi af þeim sökum að málinu væri lokið. Þá hafi kæranda í mars 2011 borist bréf frá sýslumanninum í Reykjavík þar sem fram hafi komið að sýslumaður hefði að ósk tollstjóra gert árangurslausa aðfaragerð vegna skattskuldar kæranda og vakin var athygli á því að kröfuhafar gætu farið fram á gjaldþrotaskipti innan tiltekins frests. Eftir fund forsvarsmanns kæranda við embætti tollstjóra hafi honum verið tjáð að þau innheimtubréf tollstjóra sem hefðu borist kæranda vörðuðu ekki erfðafjárskatt heldur opinber gjöld en kærandi gerir athugasemdir við innheimtubréfin þar sem þau hafi ekki verið nægjanlega skýr. Samkvæmt upplýsingum hjá tollstjóra hafi fengist þær upplýsingar að ofnýttur persónuafsláttur kæranda hafi verið 34.034 kr. auk kostnaðar við innheimtu hans, þ.e. aðfarargjald, dráttarvextir af þinggjöldum, gjald vegna beiðni um nauðungarsölu, þinglýsing, stimpilgjald, aðfarargjald til héraðsdóms og kostnaður vegna greiðsluáskorunar, eða samtals kr. 204.261. Að auki hafi verið ógreiddur erfðafjárskattur eins erfingja að fjárhæð kr. 224.509, auk dráttarvaxta að fjárhæð kr. 82.867, eða samtals kr. 307.376. Ekki hafi verið hægt að fá upplýsingar um hvenær sérhver kostnaðarliður af skattskuldinni féll til og þannig hafi ekki ekki verið hægt að komast að því hvort allur kostnaðurinn væri vegna þess hversu seint kærandi brást við að skila inn skattframtali gjaldanda fyrir tekjuárið 2008 eða hvort einhver hluti hans væri vegna mistaka ríkisskattstjóra við að upplýsa tollstjóra. Þá sé það kæranda hulið hvers vegna álagningarseðill kæranda fyrir tekjuárið 2008 hafi ekki borist erfingjum.
Ákvörðun tollstjóra, dags. 19. desember 2011
Í ákvörðun tollstjóra, dags. 19. desember 2011, kom fram að erfingjar bera óskipta ábyrgð á skuldum kæranda. Erfðafjárskattur hafi verið lagður á erfingja kæranda í mars árið 2009 og var vísað til þess að erfingjar eru samábyrgir greiðslu hans, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 14/2004. Þá kom fram að í álagningu skattyfirvalda gjaldárið 2009 hafi opinber gjöld verið áætluð á dánarbúið þar sem skattframtali hafði ekki verið skilað inn vegna tekjuársins 2008. Tiltekið var að sú skylda hvíli á skattyfirvöldum að áætla tekjur á skattaðila sé framtali ekki skilað innan tilskilins framtalsfrests, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í bréfi tollstjóra kemur einnig fram að álagningarseðill ársins 2009 hafi verið sendur á síðasta lögheimili hinnar látnu og að í 2. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003 komi fram að erfingjar skuli telja fram fyrir bú sem er undir einkaskiptum. Í 98. gr. sömu laga segi að ríkisskattstjóri skuli senda hverjum skattaðila tilkynningu um þá skatta sem á hann hafa verið lagðir. Fram kemur að ljóst sé að kærandi sem dánarbú sé sjálfstæður skattaðili, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003 og af þeim sökum hafi álagningarseðilinn verið sendur á heimilisfang dánarbúsins að [X] í Reykjavík. Þá sé framtalsskylda erfingja skýr og vísar tollstjóri til óbirtrar niðurstöðu umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5068/2007 þar sem kemur fram að ætla megi gjaldanda að hafa ákveðið frumkvæði að því að fylgjast með niðurstöðu álagningar opinberra gjalda og afla sér upplýsinga um hana ef hann telji ástæðu til að ætla að álagningin hafi leitt til greiðsluskyldu af hans hálfu og vilji komast hjá vanefndaafleiðingum. Þar sem ekkert var aðhafst af hálfu kæranda voru álögð þing- og sveitarsjóðsgjöld gjaldfelld í samræmi við 112. gr. laga nr. 90/2003. Síðasti gjalddagi álagningarinnar hafi verið 1. desember 2009 og í kjölfar þess að öll álagningin var gjaldfallin hófust vanskilaaðgerðir með sendingu tilkynningar til erfingja um gjaldfallna álagningu ársins 2009, dags. 24. mars 2010, og greiðsluáskorun þann 19. maí 2010. Þá hafi tilkynning, dags. 8. júní 2009, og greiðsluáskorun, dags. 16. nóvember 2009, verið sendar vegna erfðafjárskattsins og bifreiðagjalds. Þann 7. febrúar 2011 hafi þrjár aðfararbeiðnir verið sendar til sýslumanns að undangenginni áritun héraðsdóms Reykjavíkur vegna gjaldfallinnar álagningar 2009 og gjaldfallins erfðafjárskatts. Í framhaldinu hafi verið gert árangurslaust fjárnám hjá forsvarsmanni kæranda sem og fjárnám í fasteign hjá öðrum erfingja kæranda.
Fram kemur í bréfi tollstjóra að í þeim innheimtubréfum sem erfingjum bárust vegna erfðafjárskattsins var hann merktur gjaldflokki EF en í tilkynningum um gjaldfallin þing- og sveitarsjóðsgjöld voru þau merkt gjaldflokki AB. Telja verði að tilgreiningin hafi verið nægjanlega skýr og telja verði að erfingjum hafi borið að hafa frumkvæði að því að afla sér frekari upplýsinga hjá innheimtumanni ríkissjóðs vegna þeirra. Þá kemur fram að í tilkynningu tollstjóra um gerð árangurslauss fjárnáms, dags. 29. mars 2011, hafi komið fram að um væri að ræða kröfur bæði vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda og erfðafjárskatts.
Í bréfi tollstjóra kemur einnig fram að skýrsluskil dánarbúsins hafi verið í mars 2011 og hafi skattbreyting verið gerð hjá ríkisskattstjóra 18. ágúst 2011. Fram til 18. ágúst 2011 hafi tollstjóra því borið að innheimta kröfuna samkvæmt áætlun ríkisskattstjóra, sbr. 1. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskattt. Þá sé það gjaldenda að koma á framfæri við innheimtumenn ríkissjóðs að skattskýrsla sé til meðferðar hjá skattyfirvöldum til að komast megi hjá innheimtuaðgerðum á meðan það ferli stendur yfir. Skattyfirvöld hlutist almennt ekki til um það.
Þá var innheimtukostnaður vegna máls kæranda rakinn í bréfinu en hann nam samtals að fjárhæð kr. 152.425. Niðurstaða tollstjóra var sú að ekki væri unnt að fallast á það með kæranda að málsmeðferð innheimtumálsins ætti að leiða til lækkunar innheimtukostnaðar. Innheimtuaðgerðir hafi verið gerðar í samræmi við lög og reglur sem gilda um innheimtu opinberra gjalda og hafi meðalhófsregla stjórnsýsluréttarins verið virt. Í því sambandi beri að líta til þess að um tvö ár liðu frá því erfðafjárskatturinn var lagður á uns tollstjóri lagði fram fjárnámsbeiðni hjá sýslumanni vegna gjaldfallinna eftirstöðva hans. Umræddur innheimtukostnaður hafi því fallið til vegna innheimtuaðgerða á erfðafjárskattinum jafnhliða hinum opinberu gjöldum. Þá hafi tæpt ár liðið frá því að tilkynning um gjaldfallna álagningu ársins 2009 hafi verið send erfingjum og þar til fjárnámsbeiðni hafi verið send. Þá hafi verklag verið útskýrt, að gjaldendum beri að koma því á framfæri við innheimtumenn ríkissjóðs að framtalsskil hafi farið fram hjá skattyfirvöldum og hafi þar af leiðandi ekki verið um mistök að ræða í samskiptum viðkomandi stjórnvalda. Með vísan til ofangreinds var því ekki fallist á að tilefni væri til lækkunar eða niðurfellingar lögbundins innheimtukostnaðar í málinu og var beiðni kæranda hafnað.
Úrskurður ríkisskattstjóra, dags. 30. desember 2011
Í úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 30. desember 2011, eru sjónarmið kæranda rakin og kemur þar fram að eftir athugun ríkisskattstjóra á álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2009 vegna tekna tekjuársins 2008 hafi komið í ljós að persónuafsláttur hafi verið miðaður við andlátsdag hinnar látnu eða þann 26. febrúar 2008. Verklagsreglur ríkisskattstjóra um ívilnanir voru raktar og tekið fram að þar kveði á um að gæta eigi þess að ekki komi til hlutfallslegrar þyngri álagningar á andlátsári en verið hefði ef einstaklingurinn hefði fengið álagningu fyrir heilt ár. Andlátsdagur gjaldanda var 26. febrúar 2008 og hafi Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins verið búinn að ganga frá lífeyrisgreiðslum er komu til útborgunar þann 1. mars 2008 og því reiknað gjaldanda persónuafslátt fyrir marsmánuð. Af sanngirnissjónarmiðum féllst ríkisskattstjóri á að reikna gjaldanda persónuafslátt út marsmánuð 2008 eða alls 91 dag fyrir tekjuárið 2008. Hvað ósk forsvarsmanns kæranda varðaði um verulega lækkun á innheimtukostnaði þá var því til svara hjá ríkisskattsstjóra að ekki væri á valdsviði hans að ákveða innheimtukostnað og var þeim lið vísað alfarið til tollstjóra. Tekjuskattur kæranda sem var kr. 104.171 var því lækkaður um kr. 37.940 og varð kr. 66.231.
Kæra, dags. 15. febrúar 2012
Með kæru, dags. 15. febrúar 2012, var ákvörðun tollstjóra, dags. 19. desember 2011, kærð til ráðuneytisins. Ráðuneytið framsendi kæruna til tollstjóra með bréfi, dags. 28. febrúar 2012 og tók tollstjóri ákvörðun með bréfi, dags. 30. mars 2012. Um mistök var að ræða af hálfu ráðuneytisins þegar kæran var framsend til tollstjóra þar sem ákvörðun tollstjóra, dags. 19. desember 2011, var kæranleg til ráðuneytisins og bar ráðuneytinu því að úrskurða um þá ákvörðun. Eins og málið liggur fyrir nú fjallar úrskurður ráðuneytisins um kæru, dags. 26. apríl 2012.
Ákvörðun tollstjóra, dags. 30. mars 2012
Í ákvörðun tollstjóra, dags. 30. mars 2012, kemur fram að innheimtukostnaðurinn var tilkominn vegna innheimtuaðgerða í kjölfar vangreiðslu á erfðafjárskatti og þing- og sveitarsjóðsgjöldum og var sérstaklega tekið fram að tekjuskattur væri innheimtur sem hluti af þing- og sveitarsjóðsgjöldum. Þá kemur fram að á meðan á innheimtuaðgerðum stóð nam skuld kæranda vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda um 800 þúsund krónum vegna áætlunar skattyfirvalda fyrir gjaldárið 2009 þar sem ekki hafði verið skilað inn framtali af hálfu kæranda. Eftir að framtali hafi verið skilað inn hafi verið gerð skattbreyting til lækkunar hjá ríkisskattastjóra þann 18. ágúst 2011. Fram að þeim tíma hafi tollstjóra borið að innheimta kröfuna samkvæmt áætlun ríkisskattstjóra, sbr. 1. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003. Engar heimildir standi til að fella niður innheimtukostnað í málinu þrátt fyrir að gerð hafi verið skattbreyting til lækkunar eftir að innheimtukostnaður féll til. Vísað var í því skyni til álits umboðsmanns Alþingis nr. 2777/1999 þar sem fram komi meðal annars að það sé almenn regla að kröfuhafi geti krafið skuldara um þann kostnað sem stafar af réttmætum ráðstöfunum til innheimtu kröfu vegna vanskila skuldara þannig að kröfuhafi verði skaðlaus. Innheimtuaðgerðir í máli kæranda hafi verið í samræmi við lög eins og nánar sé rakið í fyrra bréfi tollstjóra.
Varðandi kröfu um að fella niður vaxtakostnað að fjárhæð kr. 11.574 sem fram komi á greiðslukvittun tollstjóra, dags. 1. nóvember 2011, kemur fram að um sé að ræða eftirstöðvar vaxta sem stofnuðust vegna vangreiðslu á þing- og sveitarsjóðsgjöldum vegna ársins 2009 en þó að teknu tilliti til skattbreytingar þeirrar er átti stað 18. ágúst 2011 og vaxtaniðurfærslu vegna hennar. Dráttarvextir leggist á vangreiddar kröfur samkvæmt 114. gr. laga nr. 90/2003 en ekki sé heimild í lögum til að veita undanþágur frá lögákveðnum dráttarvöxtum.
Þá vísar tollstjóri til þess að innheimtumenn ríkissjóðs séu bundnir af jafnræðisreglu stjórnsýslu- og skattaréttar hvað varðar innheimtu skatta og aðgerða í kjölfar vanskila. Það þýði að innheimtumönnum ríkissjóðs beri að fara eins með alla gjaldendur sem eins er ástatt um. Þar af leiðir að ekki sé unnt að taka einstaka gjaldendur út og meðhöndla þá með öðrum hætti. Því þurfi að vera til staðar heimildir í skattalögum til að unnt sé að veita einstökum gjaldendum ívilnanir á borð við niðurfellingu vaxta en engar slíkar reglur eru til staðar, hvorki varðandi vexti né kostnað af innheimtuaðgerðum. Með vísan til alls þessa synjaði tollstjóri erindi kæranda um að vaxta- og innheimtukostnaður í málinu yrði felldur niður.
Kæra, dags. 26. apríl 2012
Í kæru, dags. 26. apríl 2012, er þess krafist að vaxta- og innheimtukostnaður vegna hinnar niðurfelldu tekjuskattsskuldar fyrir gjaldárið 2009 verði felldur niður. Samkvæmt greiðslukvittun frá tollstjóra sé um að ræða fjárhæð sem nemi 164.399. Til vara er þess krafist að kostnaðinum verði skipt jafnt á ríkið og dánarbúið. Þá er þess farið á leit við ráðuneytið að það hlutist til um að verklagsreglur hjá tollstjóra og ríkisskattstjóra verði teknar til endurskoðunar þannig að innheimtubréf séu skiljanleg gjaldendum og að gjaldendur þurfi ekki að bera skilaboð milli embætta.
Í kærunni kemur fram að hin látna hafi alla tíð staðið í skilum með opinber gjöld af hvaða tagi sem er og síðan hafi fyrirsvarsmaður kæranda farið að fá innheimtubréf. Vitað hafi verið að erfðafjárskattur hafi ekki verður greiddur af öllum erfingjum og því ekkert verið aðhafst. Það hafi ekki verið fyrr en síðla árs 2011 sem fyrirsvarsmanninum hafi verið ljóst að tollstjóri hafi verið að innheimta önnur opinber gjöld. Áætlun ríkisskattstjóra hafi ekki verið í neinu samræmi við tekjur hinnar látnu undanfarin ár og heldur ekki í samræmi við staðgreiðslu skatta af hálfu hinnar látnu en brugðist hafi verið við með því að skila inn skattframtali þegar þetta hafi uppgötvast. Erindi opinberra aðila til gjaldenda eigi að vera skiljanleg og skýr samkvæmt stjórnsýslulögum og í þessu máli verði að horfa til framgöngu skattyfirvalda í heild en ekki eingöngu til embættis tollstjóra. Það geti ekki gengið upp að með rangri álagningu skatta og óskýrum bréfum tollstjóra til gjaldenda geti myndast stórkostlegur tekjustofn fyrir ýmis önnur embætti ríkisins eins og reyndin hafi orðið í þessu tilfelli.
Ráðuneytið óskaði eftir umsögnum tollstjóra og ríkisskattstjóra með bréfum, dags. 14. og 15. maí 2012.
Umsögn ríkisskattstjóra, dags. 5. júní 2012
Í umsögn ríkisskattstjóra, dags. 5. júní 2012, er ítrekað að ríkisskattstjóri fari ekki með innheimtu opinberra gjalda heldur eingöngu álagningu þeirra. Þá er áréttað að álagning og innheimta erfðafjárskatts sé framkvæmd af sýslumönnum og tollstjóra þó svo að ríkisskattstjóra séu settar ákveðnar heimildir í lögum um erfðafjárskatt, sbr. 10. gr. laganna. Ríkisskattstjóri vísar til hinnar almennu reglu um að kæra eða beiðni um endurskoðun opinberra gjalda fresti ekki innheimtu, sbr. 1. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og að það heyri því undir skattaðila sjálfan að semja um frestun á innheimtu á meðan leyst er úr ágreiningi eða beiðni um endurskoðun er afgreidd. Þá kemur fram í umsögninni að eftir að ríkisskattstjóri hafði lagt á hið síðbúna framtal og skattbreytt vegna síðara erindis kæranda frá 1. nóvember 2011, hafi staðið eftir skuld hjá erfingjum kæranda vegna erfðafjárskattsins en samkvæmt upplýsingum frá tollstjóra hafi innheimtugerðir verið gerðar jafnhliða vegna ógreidds erfðafjárskatts og ógreiddra opinberra gjalda. Þá vísar ríkisskattstjóri til þess að í kæru til ráðuneytisins hafi nokkrum sinnum komið fram að kærandi hafði fulla vissu um að hluti erfðafjárskattsins væri ógreiddur. Við innheimtuaðgerðir vegna slíkra krafna falli til kostnaður sem að ekki verði séð að komist hefði verið hjá í ljósi innheimtuaðgerða tollstjóra og þeim kostnaði sem fylgdi vegna ógreidds erfðafjárskatts. Sá kostnaður hefði væntanlega fallið til enda þótt skattframtali kæranda hefði verið skilað á réttum tíma og álagning opinberra gjalda verið byggð á innsendu framtali í framtalsfresti.
Umsögn tollstjóra, dags. 6. júní 2012
Í umsögn tollstjóra, dags. 6. júní 2012, kemur fram að kærandi krefjist þess að innheimtukostnaður verði lækkaður eða felldur niður þar sem meðal annars innheimtubréf embættisins hafi verið óskýr og erfingjar þar af leiðandi ekki vitað af álagningu þing- og sveitarsjóðsgjalda. Þessi þáttur hafi verið rökstuddur í tilvitnuðum bréfum tollstjóra til kæranda sem og framtalsskylda erfingja. Tekið er fram að þó að innheimtubréf innheimtumanns kunni að vera talin gjaldendum óskýr hafi það með engu móti áhrif á ábyrgð og skyldu erfingja til að telja fram og standa skil á sköttum dánarbús, sbr. 2. mgr. 90. gr. og 2. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þá vísaði tollstjóri til óbirtrar niðurstöðu umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5068/2007 þar sem tekið er fram að að ætla megi gjaldanda að hafa ákveðið frumkvæði að því að fylgjast með niðurstöðu álagningar opinberra gjalda og afla sér upplýsinga um hana ef hann telji ástæðu til að ætla að álagningin hafi leitt til greiðsluskyldu af hans hálfu og hann vilji komast hjá vanefndaafleiðingum.
Tollstjóri áréttar það sem áður hefur verið tekið fram í bréfum til kæranda um að innheimtukostnaðurinn hafi einnig fallið til vegna vanskila á erfðafjárskatti, sem enginn hafi borið brigður á að hafi verið réttilega álagður og innheimtur, en þing- og sveitarsjóðsgjöld gjaldársins 2009 hafi verið í innheimtuferli jafnhliða erfðafjárskattinum. Fjárhæð innheimtukostnaðarins hafi ekki hækkað með því að þessar tvær skatttegundir hafi verið innheimtar jafnhliða og þegar af þeirri ástæðu þykir tollstjóra ekki standa rök til að fella niður eða lækka innheimtukostnaðinn.
Þá kemur fram að skattbreyting til lækkunar á tekjuskatti vegna innsends framtals eða ákvörðunar skattyfirvalda um ívilnandi aðgerðir til lækkunar skatta geti engu breytt um þá niðurstöðu að gjaldendur bera ábyrgð á þeim innheimtukostnaði sem stofnast vegna innheimtuaðgerða, hvort sem krafan sé vegna áætlaðra skatta eða álagningar samkvæmt framtali. Vísaði tollstjóri í þessu skyni til aftur álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2777/1999. Hafi innheimtuaðgerðir í málinu því verið gerðar í samræmi við lög og reglur.
Hvað varði kröfu kæranda um endurgreiðslu eftirstöðva dráttarvaxta sem lögðust á þing- og sveitarsjóðsgjöld gjaldársins 2009 þá vísaði tollstjóri til þess að innheimtuaðili hafi ekki lagaheimild til að fella niður dráttarvexti. Dráttarvextir leggist á vangreiddar kröfur samkvæmt 114. gr. laga nr. 90/2003 og ekki séu heimildir í lögum til að veita undanþágur frá lögákveðnum dráttarvöxtum. Með vísan til þess sem hefur verið rakið telur tollstjóri að hvorki lagaheimildir né jafnræðissjónarmið standi til þess að verða við kröfum kæranda í málinu og staðfesta beri synjun embættisins á endurgreiðslu innheimtu- og vaxtakostnaðar.
Forsendur og niðurstaða:
Kærandi í máli þessu er dánarbú [A], kt. […], sem lést þann 26. febrúar 2008. Búi hinnar látnu var skipt með einkaskiptum og samkvæmt því bera erfingjar óskipta ábyrgð á skattgreiðslum hinar látnu og dánarbúsins, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í 90. gr. laga nr. 90/2003 kemur fram að erfingjar skulu telja fram fyrir bú sem er undir einkaskiptum. Í 98. gr. laganna kemur svo fram að ríkisskattstjóri skuli senda hverjum skattaðila tilkynningu um þá skatta sem á hann hafi verið lagðir. Einnig kemur þar fram að ríkisskattstjóri skuli auglýsa rækilega að álagningu sé lokið svo og hvar og hvenær álagningarskrár liggi frammi.
Þar sem erfingjar sinntu ekki þeirri skyldu sinni að telja fram fyrir dánarbúið á árinu 2009 vegna ársins 2008 áætlaði ríkisskattstjóri opinber gjöld á dánarbúið í samræmi við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt. Síðasti gjalddagi til greiðslu gjaldanna var 1. desember 2009 og þar sem þau gjaldféllu hófust vanskilaaðgerðir hjá tollstjóra með sendingu tilkynningar til erfingja um gjaldfallna álagningu, dags. 24. mars 2010. Í framhaldinu fóru síðan fram frekari innheimtuaðgerðir af hálfu tollstjóra. Í mars 2011 var framtali fyrir dánarbúið fyrir árið 2009 skilað til ríkisskattstjóra. Opinber gjöld dánarbúsins ásamt ógreiddum erfðafjárskatti voru greidd með vöxtum og kostnaði 1. nóvember 2011. Með úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 30. desember 2011, var gerð skattbreyting til lækkunar á opinberum gjöldum dánarbúsins.
Ráðuneytið telur að í ljósi þess að ríkisskattstjóri auglýsir rækilega, meðal annars í dagblöðum, að álagningu sé lokið hafi erfingjarnir getað aflað upplýsinga um álagningu dánarbúsins til að standa skil á opinberum gjöldum. Í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 5068/2007 kemur fram að ætla megi gjaldanda að hafa ákveðið frumkvæði að því að fylgjast með niðurstöðu álagningar opinberra gjalda og afla sér upplýsinga um hana ef hann telur ástæðu til að ætla að álagningin hafi leitt til greiðsluskyldu af hans hálfu og hann vill komast hjá vanefndaafleiðingum. Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að erfingjar dánarbúsins verði að bera hallan af því að hafa ekki skilað inn framtali á réttum tíma og að þeir hafi átt að gæta að því hvort álagning opinberra gjalda hefði í för með sér greiðsluskyldu fyrir kæranda.
Samkvæmt 1. mgr. 114. gr. laga nr. 90/2003 skal greiða ríkissjóði dráttarvexti, sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti- og verðtryggingu, af því sem gjaldfallið er sé skattur ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga. Þar sem erfingjarnir greiddu ekki opinber gjöld dánarbúsins á gjalddaga lögðust dráttarvextir á skuldina samkvæmt lögunum. Engin heimild er í lögunum til að fella niður eða lækka dráttarvexti af opinberum gjöldum og telur ráðuneytið einungis heimilt að fella niður dráttarvexti ef unnt er að sýna fram á að um mistök hafi verið að ræða af hálfu innheimtumanns eða ríkisskattstjóra sem leitt hafi til þess að dráttarvextir hafi fallið á skattkröfu. Ráðuneytið telur ekki vera um slík mistök að ræða í þessu máli.
Innheimtuaðgerðir hafa í för með ýmsan kostnað hjá innheimtumönnum ríkissjóðs. Þó svo að krafa lækki við skattbreytingu ber skuldari ábyrgð á þeim innheimtukostnaði sem stofnast hefur vegna innheimtuaðgerða hvort sem krafan er vegna áætlaðra skatta eða álagningar samkvæmt framtali. Innheimtumaður ríkissjóðs getur krafið skuldara um þann kostnað sem stafar af réttmætum ráðstöfunum til að innheimta kröfu vegna vanskila skuldara þannig að ríkissjóður verði skaðlaus samkvæmt áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2777/1999. Með vísan til framangreinds og þess að gæta ber jafnræðis við innheimtu skattskulda, sbr. 2. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, hafnar ráðuneytið kröfum kæranda um niðurfellingu dráttarvaxta og kostnaðar .
Ráðuneytið fellst ekki á þá málsástæðu kæranda að innheimtubréf tollstjóra séu ekki nægjanlega skýr. Þá telur ráðuneytið skýra aðgreiningu á verkefnum ríkisskattstjóra og tollstjóra.
Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að staðfesta beri ákvörðun tollstjóra, dags. 30. mars 2012.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun tollstjóra, dags. 30. mars 2012, um að hafna endurgreiðslu vaxta- og innheimtukostnaðar vegna opinberra gjalda dánarbús […] er staðfest.
Fyrir hönd ráðherra