Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2021 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Framtíðarheimavöllur handritanna

Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunar og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra - myndKristinn Magnússon / Morgunblaðið

Í dag eru liðin 50 ár frá heimkomu fyrstu handritanna frá Danmörku, Flateyjarbókar og Konungsbókar eddukvæða. Sá viðburður markaði tímamót í Íslandssögunni og var táknrænn lokapunktur handritamálsins, en afhending handritanna fór fram í áföngum næstu 26 árin á eftir. Skil Dana á menningarverðmætum hingað til lands er einstakur viðburður í alþjóðlegu samhengi.

„Það er ánægjulegt að minnast þessara tímamóta í ljósi þess að nú eru hjólin eru farin að snúast, framkvæmdum við Hús íslenskunnar miðar vonum framar og við hugum að aukinni samvinnu við Dani um framtíð handritasafns Árna Magnússonar. Okkur ber öllum sameiginleg skylda til að varðveita, rannsaka og miðla þessum fjársjóðum þjóðarinnar til nýrra kynslóða,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Framtíðarsýn um handritasafnið

Viðræður eru hafnar við dönsk stjórnvöld um aukna samvinnu og framtíðarsýn um málefni íslenskra handrita sem hýst eru í Danmörku. Starfshópur skipaður fulltrúum beggja ríkja mun skila ríkisstjórnum landanna niðurstöðu sinni síðar á árinu. Meðal þess sem til umræðu er fyrirkomulag lána á handritum til Íslands, stafræn endurgerð þeirra, miðlun, rannsóknir og hvernig skuli efla íslensk og norræn fræði í löndunum tveimur.

„Danir deila ábyrgð á þessum hluta menningararfsins og við viljum hvetja frændþjóð okkar til góðra verka. Vilji okkar stendur til þess að fræðastarf er tengist handritunum verði eflt í báðum löndum og þeim mikilvæga menningararfi sem falinn er í íslensku handritunum sé miðlað svo sómi sé af,“ segir ráðherra.

Í hópnum fyrir hönd Íslands eru Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Ari Karlsson lögmaður og Rúnar Leifsson sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneyti. Fyrir hönd Danmerkur sitja Anne Matte Hansen og Peter Bøcher frá Kaupmannahafnarháskóla, ásamt Annemarie Falktoft skrifstofustjóra í háskóla og vísindamálaráðuneyti Danmerkur.

Hús íslenskunnar rís

Í dag munu Guðni Th. Jóhannesson forseti og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra leggja hornstein að Húsi íslenskunnar sem nú rís við Arngrímsgötu í Reykjavík. Fastasýning í Húsi íslenskunnar verður mikilvægur hluti framtíðarmiðlunar menningararfsins og þar munu handritin öðlast verðugan sess. Byggingin mun hýsa fjölbreytta starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þar verða sérhönnuð rými s.s. fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á íslenskum skinnhandritum, vinnustofur kennara og fræðimanna, lesrými fyrir háskólanema, fyrirlestra- og kennslusalir sem og skrifstofur og bókasafn.

Á undanförnum árum hefur ekki verið unnt að sýna þau handrit sem varðveitt eru hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum en með tilkomu Húss íslenskunnar verður bylting í aðstöðu stofnunarinnar til að varðveita, rannsaka og miðla menningararfi þeim sem handritin geyma. Framkvæmdum við húsið miðar vel og ráðgerir Framkvæmdasýsla ríkisins að húsið verði afhent í ágúst 2022.

Öflugt samstarf systurstofnana

Mikilvægt er að öflugar rannsóknarstofnanir starfi í báðum löndum. Sjö fræðimenn starfa við rannsóknarmiðstöð Árnastofnunar í Danmörku sem er í miklu samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar hér á landi. Stofnanirnar er reka saman sumarskóla í handritafræðum, sem hefur starfað sl. 17 ár og er haldinn til skiptis í Kaupmannahöfn og Reykjavík. Stofnanirnar standa einnig að vefnum vefinn.handrit.is, ásamt Landsbókasafni Íslands sem er rafræn handritaskrá þessara þriggja safna/stofnana en ætlunin er að skrá öll íslensk handrit í hana áður en yfir lýkur. Þar fyrir utan er gott samstarf milli stofnananna og einstakra starfsmanna, bæði á handritasviði og orðfræðisviði. Ljósmyndarar senda oft myndir á milli og stundum eru handrit lánuð milli landa til rannsókna. Til að viðhalda góðu samstarfi hefur verið sett á fót sérstök samstarfsnefnd sem fundar reglulega.

Árni Magnússon (1663–1730) var ötulasti safnari íslenskra handrita en safn hans geymir um 3000 handrit og tæplega 14000 skjöl. Þau eru flest varðveitt innan Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum á Íslandi og Den Arnamagnæanske Samling í Danmörku. Þess utan eru einna íslensk miðaldahandrit varðveitt í Svíþjóð, Noregi, Þýskalandi, Frakklandi, Austurríki, Hollandi, Bandaríkjunum og á Englandi, Írlandi og Skotlandi. Handritasafn Árna Magnússonar hefur frá árinu 2009 verið á varðveisluskrá UNESCO yfir Minni heimsins (e. Memory of the World Register).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta