Úrskurður nr. 562/2017
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 17. október 2017 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 562/2017
í stjórnsýslumáli nr. KNU17070036
Kæra [...] á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 17. júlí 2017 kærði [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. júlí 2017, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í tvö ár.
Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að kærandi hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þann 8. mars 2016. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. ágúst 2016, hafi umsókn kæranda verið synjað. Með ákvörðuninni hafi kæranda jafnframt vísað brott frá landinu og ákveðið endurkomubann til tveggja ára. Kærandi hafi kært þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála sem hafi með úrskurði, dags. 23. mars 2017, staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd en fellt úr gildi ákvörðun um brottvísun og endurkomubann. Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 3. júlí 2017, var kæranda vísað brott frá landinu og bönnuð endurkoma til landsins í tvö ár. Ákvörðun Útlendingastofnunar var birt fyrir kæranda sama dag. Kærandi kærði ákvörðunina þann 17. júlí 2017. Kærunefnd hefur borist greinargerð kæranda, dags. 1. ágúst 2017. Þá bárust kærunefnd skýringar frá kæranda með tölvupóstum 13. október 2017.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að með fyrrnefndum úrskurði kærunefndar útlendingamála hafi kæranda verði veittur frestur til sjálfviljugrar heimfarar. Hann hafi hins vegar ekki yfirgefið landið innan veitts frests. Útlendingastofnun hafi boðað kæranda til viðtals þann 3. júlí 2017 þar sem honum hafi verið tilkynnt um hugsanlega brottvísun þar sem hann hefði ekki yfirgefið landið innan veitts frests. Var kæranda gefið færi á að mótmæla fyrirhugaðri ákvörðun um brottvísun og endurkomubann. Í viðtalinu hafi kærandi talið brottvísun ósanngjarna þar sem hann hafi skilið úrskurð kærunefndar útlendingamála þannig að aðeins væri um að ræða brottvísun en ekki endurkomubann. Í máli kæranda hafi einnig komið fram að hann ætti ekki ættingja á Schengen-svæðinu. Vísaði Útlendingastofnun til þess að samkvæmt a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga bæri stofnuninni, að teknu tilliti til 102. gr. laganna, að vísa kæranda úr landi þar sem hann hefði ekki yfirgefið landið innan veitts frests. Í gögnum málsins hefði ekkert komið fram sem leiddi til þess að sú ráðstöfun að brottvísa kæranda gæti talist ósanngjörn gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Var kæranda því vísað brott frá landinu og ákveðið endurkomubann til tveggja ára, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda er fjallað um málsástæður sem hann færði fram vegna umsóknar um alþjóðlega vernd hér á landi, sem lutu að því að hann yrði fyrir pólitískum ofsóknum í heimaríki. Kærandi hafi fullt tilefni til að óttast að verða hnepptur í varðhald í heimaríki og verða fyrir pyntingum. Þá byggir kærandi á því að hin kærða ákvörðun brjóti gegn 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga, sem kveði á um að ekki skuli brottvísa útlendingi ef það feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum. Kærandi hafi myndað sterk tengsl við landið en hann hafi verið virkur á vinnumarkaði og eignast marga vini hér á landi. Þar að auki hafi hann aldrei gerst brotlegur við lög. Loks byggir kærandi á því að í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi hann greint frá því að hann eigi níu ára gamlan son í [...]. Komi til brottvísunar og endurkomubanns sé ljóst að kæranda sé óheimilt að heimsækja son sinn þar í landi, enda feli ákvörðun um endurkomubann í sér bann við komu inná Schengen-svæðið. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. skuli, við ákvörðun um brottvísun, hafa það sem sé barni fyrir bestu að leiðarljósi. Í ljósi aldurs barns kæranda geti það seint talist þjóna hagsmunum barns kæranda að geta ekki hitt föður sinn í tvö ár. Í skýringum frá kæranda kemur jafnframt fram að samband við móður sonar síns sé gott og að hann geti hitt son sinn eftir nánara samkomulagi hverju sinni. Þá lagði kærandi fram ljósmyndir af [...] gögnum er varða son hans, n.t.t. fæðingarvottorð og skírteini fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd í [...], með gildistíma til 30. nóvember 2017.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í máli þessu er til úrlausnar hvort brottvísa beri kæranda frá Íslandi, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Jafnframt er til úrlausnar hvort rétt sé að ákvarða kæranda endurkomubann til landsins í tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. sömu laga.
Á grundvelli a-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal, svo framarlega sem 102. gr. á ekki við, vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur ekki yfirgefið landið innan veitts frests, sbr. 2. mgr. 104. gr. laganna. Í 2. mgr. 104. gr. segir m.a. að í þeim tilvikum þar sem ákvörðun felur í sér að útlendingur skuli yfirgefa landið skuli lagt skriflega fyrir hann að hverfa á brott. Að jafnaði skuli Útlendingastofnun veita útlendingi frest í 7-30 daga til að yfirgefa landið sjálfur. Í 102. gr. er m.a. kveðið á um vernd gegn brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun en samkvæmt 3. mgr. 102. gr. skal brottvísun ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots, tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans.
Eins og rakið hefur verið lagði kærandi fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þann 8. mars 2016. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. ágúst 2016, var umsókn kæranda synjað, auk þess sem kæranda var vísað brott frá landinu og ákveðið endurkomubann til tveggja ára. Ákvörðun Útlendingastofnunar var kærð til kærunefndar útlendingamála, sem staðfesti ákvörðun stofnunarinnar um synjun á alþjóðlegri vernd með úrskurði, dags. 23. mars 2017. Með úrskurðinum var ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun kæranda og endurkomubann hins vegar felld úr gildi. Þess í stað var lagt fyrir kæranda að hverfa af landi brott innan sjö daga frá birtingu úrskurðarins, en birting fór fram þann 27. mars 2017.
Af framangreindu er ljóst að eftir birtingu úrskurðar kærunefndar útlendingamála þann 27. mars 2017 hafði kærandi sjö daga frest til þess að yfirgefa landið sjálfviljugur, sbr. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Kærandi mun hins vegar enn vera staddur hér á landi. Þótt kærandi eigi barn í [...] verður ekki talið að ákvörðun um brottvísun frá Íslandi feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Hins vegar er unnt að líta til þessa atriðis við ákvörðun um endurkomubann. Samkvæmt framansögðu verður staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun kæranda með vísan til a-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, enda hafi hann ekki yfirgefið landið innan veitt frests, sbr. 2. mgr. 104. gr. laganna.
Þrátt fyrir að endurkomubann skuli að jafnaði ekki ákveðið til skemmri tíma en tveggja ára telur kærunefnd, eins og sérstaklega stendur á í máli þessu, í ljósi þess að kærandi á barn í [...] sem er umsækjandi um alþjóðlega vernd, að rétt sé að ákveða kæranda eins árs endurkomubann, sbr. 2. mgr. 102. gr. laga um útlendinga.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun kæranda er staðfest. Endurkomubann kæranda er ákveðið eitt ár.
The decision of the Directorate of Immigration regarding the appellants expulsion is affirmed. The appellant shall be denied entry into Iceland for one years.
Anna Tryggvadóttir
Anna Valbjörg Ólafsdóttir Árni Helgason