Úrskurður nr. 568/2017
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 14. nóvember 2017 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 568/2017
í stjórnsýslumáli nr. KNU17070032
Kæra [...] á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 14. júlí 2017 kærði [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. júní 2017, um að synja honum um dvalarleyfi fyrir foreldri, sbr. 72. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi ásamt maka sínum.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar frá 23. júní 2017 verði ógilt og að kærunefnd útlendingamála veiti kæranda dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar, sbr. 69. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði ógilt og að stofnuninni verði gert að taka mál kæranda til efnismeðferðar að nýju.
Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að kærandi hafi lagt fram umsókn um dvalarleyfi þann 27. febrúar 2017. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. júní 2017, var umsókn kæranda um dvalarleyfi fyrir foreldri synjað. Ákvörðun Útlendingastofnunar var móttekin af fyrirsvarsmanni kæranda hér á landi þann 29. júní 2017. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 14. júlí 2017. Kærunefnd hefur borist greinargerð kæranda, dags. 27. júlí 2017.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að samkvæmt 69. gr. laga um útlendinga gæti nánasti aðstandandi útlendings, sem dveldist hér á landi á grundvelli dvalarleyfis samkvæmt tilteknum ákvæðum laga um útlendinga, fengið dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar. Til nánustu aðstandenda teldust m.a. foreldrar 67 ára og eldri. Kærandi væri hins vegar 65 ára gamall og uppfyllti því ekki aldursskilyrði 69. gr. laga um útlendinga. Var umsókn hans um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar því synjað.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé búsettur í [...] ásamt maka sínum. Þau hafi sótt um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar við tvo uppkomna syni þeirra sem séu búsettir hér á landi. Annar þeirra hafi komið hingað [...] árið 2015 og sé sonur þeirra beggja en hinn hafi dvalið hér á landi síðan 2000 og sé sonur kæranda en stjúpsonur maka kæranda. Fram kemur að kærandi og maki hans búi við [...] og hafi því sótt um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar við syni sína. Synir þeirra hafi byggt umsókn kæranda og maka hans á þeim syni sem hafi dvalist lengur hér á landi.
Krafa kæranda er í fyrsta lagi byggð á því að lögmætisreglan hafi verið brotin við töku ákvörðunar Útlendingastofnunar enda uppfylli kærandi og maki hans skilyrði fyrir dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar, sbr. 69. gr. laga um útlendinga. Í öðru lagi byggir kærandi kröfu um ógildingu ákvörðunar Útlendingastofnunar á því að stofnunin hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga en gögn málsins hafi borið með sér að kærandi og maki hans ættu saman son sem væri búsettur hér á landi. Kærandi byggir á því, með hliðsjón af grófleika brots og mikilvægi þeirra hagsmuna sem séu í húfi, að ógilda beri ákvörðun Útlendingastofnunar í málinu. Hagsmunir kæranda af því að fá hér dvalarleyfi vegna ástandsins í heimaríki séu slíkir að þeir leiði einir og sér til ógildingar ákvörðunar Útlendingastofnunar. Í þriðja lagi byggir kærandi á því að Útlendingastofnun hafi brotið gegn ákvæði 7. gr. stjórnsýslulaga, sem mæli fyrir um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda. Stofnuninni hafi m.a. borið að leiðbeina kæranda og maka hans um að þau gætu uppfyllt skilyrði fyrir dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið ,sbr. 78. gr. laga um útlendinga.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um dvalarleyfi fyrir foreldri, sbr. 72. gr. laga um útlendinga.
Í 69. gr. laga um útlendinga er kveðið á um skilyrði fyrir dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar. Í 1. mgr. 69. gr. segir m.a. að nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. geti með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla. Til nánustu aðstandenda teljist maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára og eldri. Þá kemur fram í 2. mgr. 72. gr. laga um útlendinga að heimilt sé að veita útlendingi sem er 67 ára eða eldri dvalarleyfi eigi hann uppkomið barn hér á landi. Í þeim tilvikum er jafnframt heimilt að veita útlendingi undanþágu frá skilyrði um að geta framfleytt sér sjálfur, sbr. 55. gr. laganna, ef barn hans sýnir fram á að það geti tryggt framfærslu viðkomandi.
Af framangreindu er ljóst að foreldri verður aðeins veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 72. gr. laga um útlendinga hafi það náð 67 ára aldri en um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði. Í máli þessu liggur fyrir að kærandi hefur ekki náð þeim aldri. Verður þegar af þeirri ástæðu að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 72. gr. laga um útlendinga.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Anna Tryggvadóttir
Anna Valbjörg Ólafsdóttir Árni Helgason