Mál nr. 10/2017
Mál nr. 10/2017
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
A
gegn
Brammer Ísland ehf.
Launakjör.
Kærandi, sem er karl, taldi að brotið hefði verið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með því að laun kæranda voru ákvörðuð lægri en laun konu sem gegndi jafnverðmætu starfi. Kærði taldi að ekki hefði verið um ójöfn laun að ræða, ekki hafi verið um að ræða sömu eða jafnverðmæt störf og að sá mismunur sem var á launum hafi ekkert haft með kynferði að gera. Kærði þótti hafa sýnt fram á að málefnalegar ástæður hafi búið að baki mismunandi launakjörum starfsmannanna og að mismunurinn hafi því ekki ráðist af kynferði. Braut kærði því ekki gegn lögum nr. 10/2008 við samningsgerð um launakjör til handa kæranda.
- Á fundi kærunefndar
jafnréttismála hinn 22. nóvember 2017 er tekið fyrir mál nr. 10/2017 og kveðinn
upp svohljóðandi úrskurður:
- Með kæru, dagsettri 23. júní
2017, kærði A ætlaðan kynbundinn mismun á launum milli hans og annars starfsmanns,
konu, hjá Brammer Ísland ehf., þ.e. kærða. Kærandi telur að kærði hafi brotið
gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
- Kæran ásamt fylgigögnum var
kynnt kærða með bréfi, dagsettu 30. júní 2017. Með erindi kærða, dagsettu 18.
júlí 2017, óskaði hann eftir lengri fresti til að skila greinargerð og var
kærandi upplýstur um veittan viðbótarfrest með bréfi kærunefndar, dagsettu 21.
júlí 2017.
- Greinargerð kærða barst með
bréfi, dagsettu 11. ágúst 2017, ásamt meðal annars launaseðlum konunnar sem
kærandi ber sig saman við og var óskað eftir því að nefndin myndi afmá
tilteknar upplýsingar úr greinargerð og að takmarkaður yrði aðgangur kæranda að
öllum gögnum er vörðuðu konuna. Með bréfi kærunefndar, dagsettu 29. ágúst 2017,
var kærða tilkynnt að nefndin myndi ekki verða við beiðni hans því samkvæmt 1.
mgr. 7. gr. laga nr. 10/2008 skal kærunefndin tryggja að aðili máls eigi þess
kost að tjá sig um efni máls áður en úrskurður er kveðinn upp.
- Greinargerð kærða var kynnt
kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 29. ágúst 2017.
- Kærunefndinni barst bréf
kæranda, dagsett 25. september 2017, með athugasemdum við greinargerð kærða og
sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 26. september 2017.
- Athugasemdir kærða bárust kærunefndinni
með bréfi, dagsettu 3. október 2017, og var afrit af því sent kæranda til
kynningar með bréfi nefndarinnar, dagsettu 4. október 2017.
- Sjónarmið málsaðila þykja hafa
komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar
jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir
nefndina.
- Við meðferð málsins voru lögð
fyrir kærunefnd jafnréttismála gögn sem varða laun tiltekins starfsmanns kærða.
Í samræmi við 4. mgr. 7. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt
kvenna og karla, tilkynnti kærunefndin umræddum einstaklingi bréflega að
upplýsingar sem hann varða hefðu verið veittar nefndinni og að fyllsta trúnaðar
yrði gætt við meðferð upplýsinganna.
- Kærandi kom ásamt fulltrúa VR á fund starfsmanns kærunefndar
jafnréttismála 6. september 2017 til að kynna sér þau trúnaðargögn sem honum
voru ekki send afrit af.
MÁLAVEXTIR - Kærði auglýsti laust starf bókara á skrifstofu fyrirtækisins
í maí 2015. Í auglýsingunni kom fram að helstu verkefnin væru bókun
innkaupareikninga, samskipti við innlenda og erlenda birgja, afstemmingar,
eftirfylgni vinnuferla og önnur tilfallandi verkefni í bókhaldi. Tilgreindar
hæfniskröfur í auglýsingunni voru: Viðurkenndur bókari eða sambærileg menntun
æskileg, reynsla af bókhaldsstörfum skilyrði, góð almenn tölvufærni, góð
kunnátta í excel, mjög góð enskukunnátta, nákvæmni og tölugleggni, sjálfstæði
og samskiptafærni.
- Konan sem kærandi ber sig saman við var ráðin í starfið því
kærði taldi hana hæfasta umsækjandann. Á sama tíma mun hafa verið ákveðið að
bjóða kæranda tímabundið starf hjá kærða, sem hann þáði.
- Kærandi telur að í starfi sínu hafi hann fengið lægri laun en
konan sem hann ber sig saman við og jafnframt að hann hafi verið með
umfangsmeira verkefni, borið meiri ábyrgð og afkastað meira en hún. Því hafnar
kærði og telur að launamunurinn skýrist af öðrum þáttum en kyni.
- Kærandi og kærði eru að öðru leyti ekki sammála um málavexti
og vísast til sjónarmiða þeirra.
SJÓNARMIÐ KÆRANDA - Kærandi lýsir málavöxtum þannig að hann og sú kona sem hann
ber sig saman við hafi hafið störf í sömu deild hjá kærða 1. júlí 2015. Störf
þeirra og verkefnalýsingar virðast hafa verið þau sömu. Í desember 2016 hafi
kærandi átt í samningaviðræðum við kærða og skrifað undir nýjan samning eftir
að hafa verið upplýstur um að launin sem honum væru boðin væru þau sömu og hjá
samstarfskonu hans í deildinni. Síðar í sama mánuði hafi kærandi fengið
upplýsingar um að konan sem hafi verið ráðin samkvæmt sömu starfsauglýsingu
hafi verið með 163.000 krónum hærri laun en kærandi. Auk þess telur kærandi að
hann hafi fengið meiri ábyrgð og náð betri árangri en konan. Kærandi taldi
ljóst að hann hefði ekki notið sömu launakjara og konan fyrir sama starf og að
kærði hefði brotið gegn 25. gr. laga nr. 10/2008. Kærandi krefst þess að
viðurkennt verði að kærði hafi brotið gegn jafnréttislögum og fyrirtækinu verði
gert að greiða honum þann mismun sem hafi verið á launum kæranda og konunni sem
hann ber sig saman við.
- Kærandi greinir frá því að störf hans og konunnar sem hann
ber sig saman við hafi verið þau sömu en kærandi hafi frá upphafi verið með töluvert
umfangsmeira verkefni og einnig hafi hann afkastað töluvert meira. Vikulegar
afkastaskýrslur hafi sýnt að frá fyrsta degi hafi kærandi verið öflugri
starfsmaður. Á þeim 19 mánuðum sem kærandi hafi unnið hjá kærða hafi hann auk
þess fundið að komið væri öðruvísi fram við hann en samstarfskonur hans.
- Kærandi bendir á að í starfsauglýsingunni frá maí 2015 hafi
verið leitað eftir bókara til að sjá um innbókun á vörukaupum hjá innlendum og
erlendum birgjum. Af auglýsingunni að dæma hafi kærandi ekki verið í vafa um að
þetta starf hentaði þekkingu hans og reynslu. Kærandi hafi haft tíu ára reynslu
af slíkri vinnu, þar af lengst í fyrirtæki sem hafi verið með um og yfir 2
milljarða króna í veltu. Þar hafi öll vörukaup farið í gegnum kæranda auk þess
hafi hann tollafgreitt allar sendingar og stemmt af viðskiptin við vörubirgja, Tollstjóra
og flutningsfélög.
- Fjármálastjórinn og starfsmannastjórinn hafi boðað kæranda í
starfsviðtal þar sem honum hafi verið sagt að önnur manneskja hefði verið ráðin
en kærði hefði fengið vilyrði frá móðurfélaginu í Bretlandi að ráða annan
starfsmann í sex mánuði. Jafnframt hafi kæranda verið gerð grein fyrir því að talið
væri að starfið yrði til frambúðar en ekki væri unnt að lofa því fyrr en
samþykki kæmi að utan. Það sem hafi staðið upp úr í viðtalinu hafi verið að
starfsmannastjórinn hafi spurt kæranda að því hvernig hann myndi lýsa sér í
stefnumótaauglýsingu. Kæranda hafi þótt það mjög sérstakt enda ekkert komið málinu
við og hafi hann látið þar við sitja og ráðið sig í vinnuna.
- Nokkrum dögum eftir að þau konan hófu störf hafi
verkaskipting milli þeirra verið ákveðin og kærandi verið fenginn til að sjá um
Ísland á meðan konan hafi verið fengin til að sjá um Noreg. Störfin og
verkefnalýsingin hafi verið þau sömu nema að Ísland hafi verið talsvert
viðfangsmeira og flóknara þar sem það hafi að hluta til verið unnið í tveimur
kerfum.
- Starfið hafi gengið út á samantekt á vörureikningum sem hafi komið
í bréfpósti, með DHL og á sameiginlegt netfang. Hver einasti reikningur hafi
verið yfirfarinn og athugað hvort tengd innkaupapöntun hefði verið móttekin og
að reikningurinn stemmdi við hana. Ef svo var hafi verið hægt að bóka
reikninginn eftir að fylgiskjalið hafði verið skannað. Það hafi einnig verið í
verkahring kæranda og konunnar sem hann ber sig saman við að sjá til þess að
birgjar fengju greitt. Þau hafi gert það með því að fylgjast með
greiðslufrestum og keyra út yfirlit úr kerfinu sem þau hafi svo látið til
gjaldkera.
- Þá greinir kærandi frá því að fjármálastjórinn hafi sent um
það bil vikulega á alla í deildinni afkasta- og stöðuskýrslur sem hafi sýnt
meðal annars að kærandi hafi samkvæmt tveimur mismunandi mælingum afkastað um
20% meira en konan. Afkastaskýrslurnar hafi fylgt formúlu móðurfélagsins.
Þessar skýrslur hafi verið það mikils metnar að þær hafi einnig verið notaðar í
samanburði við erlendar starfsstöðvar kærða.
- Kærandi upplýsir að í launaviðtali í lok árs 2015 hafi
fjármálastjórinn sagt að til stæði að stækka deildina og skipa þyrfti yfirmann
bókunar á vörukaupareikningum. Kærandi hafi skilið fjármálastjórann þannig hann
hefði haft augastað á kæranda fyrir þá stöðu. Eftir að sex mánaða samningi
kæranda hafi lokið hafi kærandi gert fjármálastjóranum og framkvæmdastjóranum ljóst
að hann horfði til áframhaldandi menntunar þannig að hann myndi líklega hætta
um sumarið og hafi kærandi óskað eftir að ráðningarsamningur myndi taka tillit
til þess. Kærandi hafi sagt að miðað við ábyrgðina og afköst sín, sérstaklega
árangur, teldi hann sig eiga skilið góða launahækkun. Hafi kærandi í því sambandi
bent á milljónir sem hann hafi fengið til baka fyrir félagið. Þau hafi verið sammála
kæranda og til hafi staðið að fara betur yfir þau mál í kjölfarið. Stuttu
seinna hafi fjármálastjórinn tilkynnt að hún væri að hætta hjá kærða. Í
kjölfarið hafi gerst ákveðnir hlutir í lífi kæranda sem hafi gert það meðal
annars að verkum að hann hafi ekki farið í nám. Það hafi ekki verið fyrr en haustið
2016 að kærandi hafi krafist þess að samningar væru efndir, hann fengi sína
launahækkun og að hún yrði afturvirk.
- Nýr fjármálastjóri hafi boðið kæranda 33% launahækkun, þ.e. óbreytt
laun, en sex tíma vinnudag vegna skerts úthalds, og að sú launahækkun myndi reiknast
frá og með 1. janúar 2016. Eftir á að hyggja telur kærandi að það tilboð hafi
verið í ljósi vitneskju hans um launamuninn í deildinni því hin nýju kjör hafi
verið áþekk því sem konan sem kærandi ber sig saman við hafi haft. Starfsmannastjórinn
og framkvæmdastjórinn hafi hins vegar tekið fram fyrir hendurnar á fjármálastjóranum
og við hafi tekið margir fundir um ábyrgð, afköst og árangur, meðal annars að framkvæmdastjórinn
hafi séð fyrir sér að kærandi gæti farið að leysa mál sem konan sem kærandi ber
sig saman við hafi ekki leyst hvað varðaði Noreg. Þannig hafi kæranda verið
treyst í upphafi fyrir ábyrgðarmeira verkefninu og í lokin hafi þau viljað leita
til kæranda vegna mála sem konunni og fleirum hafi ekki tekist að leysa.
- Framkvæmdastjórinn hafi gert kæranda tilboð og sagt að þau
kjör væru þau sömu og konurnar í deildinni væru með og á þeim forsendum hafi
kærandi samþykkt samninginn. Viku síðar hafi kærandi rekist á skjal sem sýni að
launamunur milli hans og konunnar hafi verið yfir 160.000 krónur þrátt fyrir
nýja samninginn sem kærandi hafi fengið. Í kjölfarið hafi kæranda verið sagt að
launaleiðrétting og orlofsgreiðslur konunnar útskýri þennan mun að mestu leyti.
Þau rök hafi kærandi ekki verið sáttur við. Kærandi hafi svo fundið skjöl sem
sýni að heildarmunur útborgaðra launa þeirra fyrstu fimm mánuði ársins hafi
verið um 600.000 krónur. Fjármálastjórinn hafi þá haft eftir framkvæmdastjóranum
að til stæði með tíð og tíma að bjóða kæranda sömu laun og konan hafi haft.
- Kærandi kveðst hafa verið eini starfsmaður þessarar deildar
sem hafi haft einhverja reynslu úr sambærilegum rekstri. Hann hafi bent á að
vegna þekkingarleysis starfsmanna hafi fyrirtækið tapað milljónum króna. Í
heildina hafi kærandi náð að endurheimta um sjö milljónir króna, en fjárhæðin hefði
verið hærri ef krónan hefði ekki styrkst. Kærandi hafi einnig bent reglulega á
að margir verkferlar væru rangir og að þá þyrfti að laga.
- Að lokum bendir kærandi á að hann sé fæddur X en konan sem
hann ber sig saman við sé fædd Y. Kærandi komi af hagfræðibraut úr
Verzlunarskólanum en konan sem hann ber sig saman við hafi lokið viðskiptafræði/hagfræði
í Háskóla Íslands.
- Kærandi hafi haft reynslu af keimlíku starfi úr stærra
fyrirtæki, auk reynslu af vinnu á lager og varahluta- og þjónustudeild. Þar að
auki hafi kærandi rekið sitt eigið félag síðan 2005. Konan sem kærandi ber sig
saman við hafi enga slíka reynslu haft svo kærandi viti til, hafi aldrei unnið
í félagi með birgðahald eða staðið í innflutningi af neinu tagi.
- Þetta starf hafi á engan hátt verið þess eðlis að
viðskiptafræðingur hafi, einungis út frá menntuninni, haft eitthvað meira fram
að færa. Störf í inn- og útflutningsrekstri krefjist sérþekkingar sem fáist aðeins
á vinnumarkaði. Samskipti við Tollstjóra, flutningsaðila, skilningur á ákveðnum
hugtökum, svo sem aðflutningsgjöldum, tollkrít og flutningsskilmálum, séu dæmi
um það. Afstemmingar vörubirgða við innbókun og móttöku, kostnaðarútreikningur,
lestur á skuldfærslutilkynningum og rétt meðhöndlun á söluskatti séu nokkur
dæmi um verk sem almennir bókarar fáist ekki við og sé ekki kennt í skólum.
- Óumdeilt sé að konan sem kærandi ber sig saman við hafi setið
lengur á skólabekk en kærandi. Líklega sé umdeilanlegt hvort þeirra hafi lært bókfærslu
lengur. Kærandi komi úr fyrirtækjarekstri, hafi alltaf verið í kringum
bókhaldsstörf og hafi gengið í eina gagnfræðiskólann og menntaskólann sem hafi
kennt bókfærslu. Í lögunum sé ekki gerður greinarmunur á hvaðan þekkingin eða
hæfnin komi.
- Kæranda hafi aldrei verið tjáð af yfirmanni að hann væri ekki
talinn nógu hæfur, honum væri ekki treyst í ákveðin verk, að þau vildu að hann næði
sér í aukamenntun til að fullnægja þeirra kröfum eða til þess að geta hækkað um
launaþrep. Stjórnendur hafi verið fegnir að fá ábendingar frá einstaklingi með
reynslu og fjölmargar þeirra hafi breytt ferlum hjá fyrirtækinu. Framkvæmdastjórinn
hafi ekki getað svarað kæranda þegar hann hafi spurt hvers vegna þessi mikli
launamunur hefði verið frá upphafi á kæranda og konunni sem hann ber sig saman
við. Kærandi telji að honum hafi aldrei staðið til boða að vera á sömu kjörum
og konan. Hið eina sem hafi ekki breyst á þessum tíma hafi verið að hann hafi
verði eini karlkyns starfsmaðurinn í deildinni, konur hafi gegnt flestum
stjórnunarstöðum á þessari starfsstöð.
- Kærandi kveður helstu atriði málsins meðal annars vera þau að
í auglýsingunni hafi staðið að æskilegt væri að viðkomandi væri viðurkenndur
bókari. Konan sé viðskiptafræðingur og á árunum 1990–2003 hafi hún starfað við
kennslu og eftir það í almennum bókhaldsstörfum. Kærandi komi af hagfræðibraut
úr Verzlunarskólanum og hafi lært bókfærslu síðan hann gekk í Tjarnarskóla. Frá
árinu 2005 hafi kærandi unnið í fyrirtækjum í innflutningi og alltaf í
fjármálum. Konunni sem kærandi ber sig saman við hafi verið falið að sjá um
Noreg og kæranda verið falið að sjá um Ísland. Störfin hafi verið þau sömu og
ferlarnir eins, að því undanskildu að hluti af Íslandi hafi verið keyrður á
tveimur kerfum. Kærandi viti að meðmælin sem kærði hafi fengið með honum hafi
verið þess eðlis að kærði hafi ekki verið í neinum vafa um hæfi hans. Þá telji
kærandi að honum hafi verið mismunað í tengslum við upplýsingagjöf vegna veikinda.
Einnig hafi kærði sagt að hluti af launamuninum hefði verið vegna þess að konan
fengi orlofið sitt greitt jafnóðum en kæranda hafi aldrei verið boðin þau kjör,
auk þess hafi hún fengið launaleiðréttingu í desember 2016. Tilgreint hafi
verið í póstinum þar sem launaviðtölin hafi verið boðuð, að ef um launabreytingu
væri að ræða myndi hún taka gildi frá og með 1. janúar 2017. Samkvæmt gögnum kærða
sé nýr samningur við konuna dagsettur 19. desember og sú launakeyrsla hafi farið
fram 16. desember 2016.
SJÓNARMIÐ KÆRÐA - Í greinargerð kærða er þess krafist að hafnað verði kröfu
kæranda um að viðurkennt verði að brotið hafi verið gegn jafnréttislögum. Þá er
þess krafist að kröfu kæranda um að kærða verði gert að greiða þann mismun sem
var á launum kæranda og konunnar sem hann ber sig saman við verði vísað frá
nefndinni. Til vara krefst kærði að öllum kröfum kæranda verði hafnað.
- Kærði hafnar málavaxtalýsingu kæranda og mótmælir henni að
því marki sem hún sé ekki beinlínis í samræmi við lýsingu kærða.
- Kærði sé íslenskt félag en hluti af alþjóðlegu fyrirtæki og
heyri undir móðurfélagið í Bretlandi. Kærði á Íslandi starfræki vöruhús á svæði
Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði, verslun og söluskrifstofu í Hafnarfirði og
skrifstofu í Kópavogi. Í dag starfi 37 starfsmenn hjá kærða.
- Kærði sé langt kominn í undirbúningi við að óska eftir
jafnlaunavottun samkvæmt reglugerð nr. 365/2017 og ÍST 85 og þyki miður að vera
vændur um kynbundið launamisrétti. Í tengslum við þá vinnu verði unnin
jafnréttisáætlun á íslensku skv. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008, en þar til
hún verði tilbúin sé notast við stefnu móðurfélagsins sem nefnist Code of
Conduct Policy. Samkvæmt þeirri stefnu sé það grundvallarnálgun kærða að
starfsmenn njóti jafnra tækifæra og framgangs á grundvelli hæfni, hæfileika og
færni.
- Konan sem kærandi beri sig saman við hafi verið ráðin að
undangenginni auglýsingu í starfið þar sem hún hafi þótt hæfust umsækjenda.
Kærandi hafi einnig sótt um starfið og hafi verið ákveðið að bjóða honum annað
starf, tímabundið.
- Byrjunarlaun konunnar sem kærandi ber sig saman við hafi
verið 61.360 krónum hærri á mánuði miðað við fullt starf, en byrjunarlaun kæranda.
Ástæða þessa munar hafi einkum verið mismunandi menntun og reynsla, en einnig
fyrirhuguð ábyrgð. Munurinn hafi ekkert haft með kyn að gera.
- Að beiðni konunnar sem kærandi beri sig saman við hafi hún
fengið greitt orlof jafnharðan, mánaðarlega, sem skýri aukinn mun á útborguðum
launum í völdum mánuðum kæranda. Að beiðni kærða hafi konan komið til starfa í
júní 2015 og fengið greitt fyrir þau störf í launaútborgun vegna júlí. Bæði hafi
þau unnið nokkra yfirvinnu en konan þó sýnu meiri á tímabilinu júlí til
nóvember 2015 sem kærandi hafi kosið að miða við. Á því tímabili hafi kærandi fengið
útborguð laun sem hafi verið samtals 555.899 krónum lægri en laun konunnar sem hann
beri sig saman við.
- Munur á útborguðum launum á tímabilinu sem kærandi hafi kosið
að miða við skýrist af fyrrnefndum liðum, þ.e. mismuni á mánaðarlaunum,
orlofsgreiðslum konunnar, greiðslu vegna júnímánaðar og yfirvinnu sem konan hafi
unnið.
- Önnur smærri atriði komi hér einnig til skoðunar, en þetta séu
skýringarnar í meginatriðum. Sé því ljóst að kærandi hafi farið með rangt mál
þegar hann hafi staðhæft um launamun þeirra. Það komi á óvart að kærandi með
reynslu sem bókari skuli hafa dregið þær ályktanir að mismunur útborgaðra launa
hafi þýtt sjálfkrafa mun á grunnmánaðarlaunum.
- Kærandi hafi haldið því fram að launamunur í desember 2016 milli
hans og konunnar sem hann beri sig saman við hafi verið 223.000 krónur, sem
hafi lækkað í 163.000 krónur eftir afturvirka hækkun. Tímabilið nóvember og
desember 2016 hafi verið sérstakt því tveir starfsmenn fjármáladeildarinnar hafi
hætt störfum, auk þess hafi kærandi ekki haft fulla starfsorku vegna
veikinda/slyss. Konan hafi gengið í störf annarra og lagt sérstaklega mikið af
mörkum á þessum tíma. Launaseðlarnir tali sínu máli, en þar sjáist glöggt að
yfirvinna hennar skýri það sem umfram sé R krónur í laun þann mánuðinn, á meðan
skert starfshlutfall kæranda skýri það sem upp á S krónur í laun þann mánuðinn hafi
vantað hjá honum, sbr. samning aðila frá 23. desember 2016. Hið rétta sé að
óverulegur munur upp á 5.072 krónur hafi verið þar til staðar á grunnmánaðarlaunum
þeirra beggja, þegar tillit hafi verið tekið til afturvirkrar launahækkunar
hans.
- Á því tímabili sem kærandi hafi starfað hjá kærða hafi fimm
manns verið í fjármáladeildinni. Til að byrja með hafi það verið fjórar konur
og einn karlmaður, þ.e. kærandi, en frá febrúar 2016 hafi þar starfað tveir
karlmenn og þrjár konur.
- Kærði upplýsir að þegar tímabundnu starfi kæranda hafi lokið hafi
kærði gjarnan viljað halda honum í starfi og til hafi staðið að gera nýjan
samning við hann. Þáverandi yfirmaður kæranda, fjármálastjórinn, hafi boðið kæranda
að gera nýjan ráðningarsamning, en kærandi hafi óskað eftir því að slíku
samtali yrði frestað vegna fyrirætlunar hans um að fara í skóla. Það hafi
dregist til ársloka 2016, en þá hafi kærandi fengið launahækkun afturvirkt miðað
við 1. janúar 2016, þ.e. frá þeim tíma er upphaflegi samningurinn hafi runnið
út.
- Kærði tekur fram að launaseðlar fyrir árið 2016 hafi verið gerðir
áður en þetta afturvirka samkomulag hafi verið gert. Skýri það að
launaseðlarnir gefi til kynna lægri mánaðarlaun en samningurinn hafi kveðið á
um og hærra starfshlutfall en raunin hafi verið. Aðilar hafi verið meðvitaðir
um að til stæði að hækka laun kæranda og því hafi laun hans árið 2016 ekki verið
skert miðað við starfshlutfall, þrátt fyrir umtalsvert minni starfsgetu eftir
slys. Hafi þessi niðurstaða verið kæranda hagfelld, en rétt sé að halda því til
haga að kærandi hafi gætt þess í þessum viðræðum að vera sanngjarn gagnvart
vinnuveitanda sínum. Aðalatriðið hér sé að aðilar hafi samið svo um að með
greiðslu á 240.368 krónum í launaleiðréttingu hafi kærandi verið búinn að fá
sem hafi numið S krónum í meðalmánaðarlaun fyrir árið 2016, að teknu tilliti
til skertrar starfsorku hans seinni hluta ársins.
- Frá 1. janúar 2016 hafi laun konunnar verið R krónur, auk
launaleiðréttingar ársins að fjárhæð 5.762 krónur á mánuði, alls T krónur á
mánuði. Mismunur á launum þeirra hafi því einungis verið 2% á þessu tímabili.
- Eftir upplýsingum kærða hafi kærandi á þessum tíma hugleitt frekara
nám sem hafi skýrt tregleika hans við að ráða sig í fast starf. Þá hafi hann lent
í slysi árið 2016 sem hafi einnig haft áhrif á fyrirætlanir hans. Í árslok 2016
hafi, að beiðni kæranda, verið gerður mjög stuttur samningur og horft til þess
að nýr stuttur samningur yrði gerður þegar hann rynni út ef hann væri enn óviss
um hvort hann vildi starfa áfram hjá kærða. Í lok janúar 2017 hafi kærandi hætt
störfum hjá kærða að eigin vali. Á meðan kærandi hafi eingöngu viljað gera
samning til eins mánaðar í einu, hafi ekki verið tímabært að ræða
framtíðarþróun starfs hans og launa með sama hætti og þá hafi verið gert við konuna
sem kærandi beri sig saman við og fleiri fastráðna starfsmenn. Hún hafi hækkað
í launum um áramótin 2016‒2017 þannig að laun hennar hafi
aftur orðið um 60.000 krónum hærri en laun kæranda og þá verið U krónur á
mánuði.
- Mismunur á launum kæranda og konunnar hafi frá 1. janúar 2017
verið 12,2%. Í janúar 2017 hafi laun kæranda verið reiknuð þannig að miðað hafi
verið við tímagjald og unninn tíma.
- Kærði byggir kröfu sína á þremur atriðum sem hvert um sig eigi
að leiða til þess að kröfu kæranda verði hafnað. Í fyrsta lagi sé ekki um ójöfn
laun að ræða. Í annan stað sé ekki um sömu eða jafnverðmæt störf að ræða. Loks
hafi mismunur launa ekkert með kynferði að gera.
- Varðandi það að ekki sé um ójöfn laun að ræða bendir kærði á að
samkvæmt 25. gr. laga nr. 10/2008 þurfi að leiða líkur að því að kona og karl
sem starfi hjá sama atvinnurekanda njóti mismunandi launakjara fyrir sömu eða
jafnverðmæt störf. Sönnunarbyrði vegna þessara atriða hvíli á kæranda. Sé
nægjanleg sönnun talin fram komin fyrir framangreindu hvíli sú sönnunarbyrði á
kærða að sýna fram á, sé um launamun að ræða, að munurinn skýrist af öðrum
þáttum en kyni. Kærði vísar máli sínu til stuðnings til 19. gr. laganna.
- Mikilvægt sé að hafa í huga að með jöfnum launum sé ekki
verið að horfa á krónutölu launa, heldur að laun skuli ákveðin á sama hátt
fyrir konur og karla. Þrátt fyrir þetta sé rétt að ítreka að árið 2016 hafi enginn
launamunur verið milli kæranda og konunnar sem hann beri sig saman við. Ef þau
hefðu bæði unnið 100% starf, að teknu tilliti til fyrrgreindrar launaleiðréttingar
þeirra, hefði munurinn á launum þeirra á mánuði verið 5.715 krónur sem jafngildir
1% mun. Kærði telur að það séu sömu laun í skilningi laganna.
- Ekki sé um það deilt að um 60.000 króna munur hafi verið á
byrjunarlaunum kæranda og konunnar, sem og á launum þeirra í janúar 2017 eftir
launahækkun hennar. Í hvorugu tilvikinu sé þó um að kenna kynbundnum mun og hafi
laun þeirra verið ákveðin á sama hátt. Munurinn skýrist af mismunandi menntun,
reynslu og starfi. Þá telur kærði það eðlilegt að starfsmaður sem fastræður sig
fái umbun fyrir það umfram starfsmann sem eingöngu vill vera í tímabundnu
starfi og möguleg starfslok vofi ávallt yfir.
- Kærði hafi metið konuna hæfari en kæranda þegar ákveðið hafi
verið að ráða í hið auglýsta starf. En kærði hafi hrifist af kæranda og boðið honum
vinnu, á launum sem hafi verið talin mjög góð en endurspegli þann mun sem hafi
verið á kæranda og konunni miðað við reynslu þeirra, menntun og fleira. Vandséð
sé hvernig kærði hafi getað litið öðruvísi á málið og önnur niðurstaða hefði
miklu frekar verið mismunun í hina áttina milli kæranda og konunnar.
- Varðandi það að ekki sé um sömu eða jafnverðmæt störf að ræða
bendir kærði á athugasemdir við 19. gr. frumvarps er orðið hafi að lögum nr. 10/2008
um að það hvort störf séu jafnverðmæt verði að byggjast á heildstæðu mati.
- Kærði hafi ráðið konuna í hið auglýsta starf. Hún hafi verið fengin
til að bera ábyrgð á umsjón með starfsemi í Noregi sem sé flóknara og tafsamara
en sambærilegt starf á Íslandi, af ýmsum ástæðum. Bæði komi til að samskipti séu
flóknari, vegna staðsetningar og mismunandi vinnustaðamenningar, en slíkt
skipti miklu máli í starfi bókara sem þurfi stöðugt að fá upplýsingar um ýmis stór
og smá atriði. Einnig sé gott aðgengi að þeim sem ábyrgð bera á bókhaldsskjölum
lykilatriði. Þá séu auknar kröfur til tungumálakunnáttu, en hér sé verið að
tala um kröfur starfsins, ekki kunnáttu viðkomandi starfsmanna, slíkur
samanburður hafi ekki farið fram. Samanburður á fjölda færslna geti verið
ágætur, en því sé hafnað að hann gefi til kynna hvort þeirra hafi afkastað
meira. Hið rétta sé að kærði hafi verið ánægður með báða þessa starfsmenn og hafi
lagt mikið á sig til að halda í þá. Auknar kröfur til þess starfs sem konan hafi
verið ráðin í hafi gert það að verkum að ekki hafi verið litið á það sem
jafnverðmætt starf og kærandi hafi verið ráðinn tímabundið til, heldur
verðmætara. Ekkert liggi fyrir í málinu sem hnekki þessu mati kærða og telji
hann því að ekki hafi verið leiddar að því líkur að kona og karl sem hafi starfað
hjá kærða hafi notið mismunandi launakjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Því
eigi þegar af þessari ástæðu að hafna kröfum kæranda, sbr. 25. gr. laga nr. 10/2008.
- Konan sem kærandi beri sig saman við hafi búið yfir 25 ára
reynslu af bókhaldsstörfum, sé útskrifuð sem cand. oecon. í
viðskiptafræði/hagfræði frá Háskóla Íslands og hafi kennt bókhald um árabil.
Kærandi hafi haft mun styttri starfsreynslu, enda töluvert yngri, hafi ekki stundað
háskólanám á bókhaldssviði, en lagt áherslu á það svið í menntaskóla.
Margviðurkennt sé, meðal annars í kjarasamningum, að starfsreynsla og menntun séu
málefnaleg rök fyrir hærri launum. Þetta eigi sérstaklega við í ráðningarmálum.
Telur kærði því eðlilegt að nokkur launamunur hafi verið á kæranda og konunni í
upphafi, og ítrekar að hún hafi verið ráðin í starfið sem auglýst hafi verið,
en kæranda hafi verið boðið tímabundið starf til reynslu. Launamunur í upphafi hafi
verið 14%, sem að mati kærða hafi verið eðlilegur og málefnalegur munur og á
engan hátt tengdur kyni þeirra.
- Við þetta bætist sú staðreynd að eftir reynslutíma, þegar
kærði hafi viljað gera fastan samning við kæranda, hafi kærandi kosið að gera
eingöngu skammvinna, tímabundna samninga. Þegar samið hafi verið um laun við konuna
um áramótin 2016‒2017 hafi eingöngu verið horft til
framtíðar, meðan launahækkun kæranda á sama tíma hafi fyrst og fremst verið hugsuð
fyrir liðna tíð.
- Með vísan til framanritaðs telur kærði sig hafa sýnt fram á
að sá launamunur sem hafi verið milli kæranda og konunnar sem hann beri sig
saman við skýrist alfarið af öðrum þáttum en kyni þeirra. Því beri einnig að
hafna kröfu kæranda með þessum rökum.
- Kærði krefst þess að kröfu kæranda um að kærða verði gert að
greiða sem nemur mun á launum kæranda og launum konunnar verði vísað frá kærunefndinni.
Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008 sé hlutverk kærunefndar að kveða upp
skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin. Kærunefndin sé því
ekki bær til að kveða upp úrskurð þess efnis sem kærandi fari fram á.
- Til vara gerir kærði þá kröfu að nefndin fallist á að hafna framangreindri
kröfu, með vísan til framangreindra raka, sé talið að taka verði hana til
efnislegrar úrlausnar.
- Kærði telur málið tilefnislaust og að kærandi hafi brotið
gegn starfs- og trúnaðarskyldum sínum þegar hann hafi aflað sumra þeirra gagna sem
hann hafi byggt á. Engu að síður hefur kærði ákveðið að gera ekki kröfu um
greiðslu málskostnaðar, sbr. 7. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008. Kærði áskilur sér
rétt til að krefjast bóta vegna þessa kostnaðar, komi til þess að framhald
verði á málinu.
ATHUGASEMDIR KÆRANDA - Meðal athugasemda kæranda við greinargerð kærða er að einu
skýringarnar sem hann hafi fengið frá framkvæmdastjóranum vegna launamunarins í
janúar 2017 hafi annars vegar verið að konan sem kærandi ber sig saman við hafi
fengið orlof greitt út mánaðarlega
og hins vegar að konan hafi fengið launaleiðréttingu,
en það stangist á við yfirlýsingar um launaviðtölin því að mati kæranda virðist
hún hafa fengið sína 60.000 króna launahækkun tveimur mánuðum á undan áætlun í
formi bónusa.
- Kærandi bendir á að rétt sé að það sé munur á menntun og
starfsreynslu kæranda og konunnar sem hann ber sig saman við. Þau hafi hins
vegar unnið hjá ólíkum fyrirtækjum og konan hafi aðeins unnið tveimur árum
lengur en kærandi í bókhaldi fyrirtækja en þó aldrei hjá fyrirtæki í
innflutningi, fyrirtæki með vörur til endursölu eða fyrirtæki með mikið
birgðahald. Auk þess hafi kærandi reynslu úr eigin rekstri síðan árið 2006.
- Kærandi telur að einnig beri að hafa í huga að launin hafi ekki
verið ákveðin út frá ferilskránum einum.
- Þá telur kærandi það í eðli sínu athugavert að konan sem hann
ber sig saman við hafi unnið meiri yfirvinnu, því yfirvinna hennar hafi verið reiknuð
á annan máta og einnig verið unnin að heiman.
- Kærandi bendir á að kærði hafi farið enn og aftur með rangt
mál varðandi nýjan samning í upphafi árs 2016. Kæranda hafi aldrei boðist nýr
samningur. Kærandi hafi beðið fram yfir áramót þar til vilyrði fyrir nýju
stöðugildi að utan hafi loksins borist. Kærandi hafi átt fund með þáverandi
fjármálastjóra þar sem kærandi hafi sagt honum að fyrirætlanir sínar næsta
haust væru ennþá skólaganga. Stuttu seinna hafi kærandi átt fund með þáverandi
fjármálastjóra og framkvæmdastjóranum þar sem kærandi hafi sagt að hann hafi
viljað fá launahækkun í ljósi þess að hann hafi afkastað mun meira en
samstarfskonurnar auk þess hafi hann verið að leysa áragömul mál sem þær hafi skapað
og hafi komið með athugasemdir sem hafi gjörbreytt ferlum fyrirtækisins. Þar hafi
kærandi einnig útskýrt betur fyrirætlanir sínar með skóla. Hvorugur hafi tjáð
kæranda að af þeim ástæðum byðist honum ekki launahækkun.
- Aðalatriðið sé að kærandi hafi samið um þessa leiðréttingu og
framtíðarlaunahækkun á þeim forsendum að laun hans og samstarfskvenna hans væru
sambærileg, en í því skyni hafi konan sem kærandi ber sig saman við aldrei verið
nefnd sérstaklega.
- Þar sem kærandi hafi haldið áfram að vinna eftir fyrstu sex
mánuðina hafi hann þar með verið orðinn fastráðinn. Kærandi kveðst ekki hafa
óskað eftir stuttum samningi í desember 2016. Kærandi hafi sagt kærða að hann yrði
kallaður inn á spítala og það gæti gerst með skömmum fyrirvara.
Starfsmannastjórinn hafi stungið upp á þessu fyrirkomulagi. Ef einhver hafi grætt
á þessu fyrirkomulagi þá hafi það verið kærði. Það hafi svo endað með því að kærandi
hafi verið lagður inn í þrjár vikur frá og með lok apríl 2016 og verið eftir
það ráðlagt að taka sér hlé frá vinnu/námi.
- Kærandi gerir athugasemdir við þá fullyrðingu kærða að ekki
hafi verið um ójöfn laun að ræða. Hann kveðst bæði byggja mál sitt á
launagögnum fyrstu fimm mánuði ráðningartímans og fyrir desember 2016 og einnig
athugasemdum og framkomu í sinn garð.
Þá hafi framkvæmdastjórinn ekki getað svarað því í janúar 2017 hvernig
byrjunarlaunin hafi í raun og veru verið ákveðin.
- Kærandi kveðst velta því fyrir sér að hvaða leyti Noregur sé flóknari
og tafsamari en Ísland. Notast hafi verið við sama hugbúnað sem hafi verið hýstur
á sama stað, með nákvæmlega sömu vinnuferla og tól. Á sama hátt veltir kærandi
því upp hvaða menningarmunur sé á Íslandi og Noregi og hvaða áhrif hann hafi á
innbókun reikninga og pörun þeirra
við vörumóttöku.
- Kærandi hafi talið sig vera að gera samning við kærða til
framtíðar þótt starfshlutfallið hafi getað verið breytilegt. Eftir fundina í desember 2016 hafi kærandi tekið saman
punkta og ábendingar og sent til framkvæmdastjórans,
en þeir hafi verið notaðir á stjórnendafundi í janúar 2017. Framkvæmdastjórinn hafi
viljað að kærandi tæki að sér að leysa mál fyrir Noreg og hafi sjálfur notað
orðið „consultant“. Fjármálastjórinn og kærandi
hafi rætt mikið um þá þörf kærða að fá nýtt bókhaldskerfi. Þegar kærandi hafi
hafið störf hafi staðið til að fá uppfærslu
á tilteknum hugbúnaði, en nú hafi það gjörbreyst og sé það að mestu leyti vegna
ábendinga frá kæranda.
- Hvað kröfu kærða um málskostnað varðar kveður kærandi að miðað
við ósamræmi í máli kærða frá upphafi og engan vilja til þess að leysa málið
góðfúslega við kæranda hafi hann
fundið sig knúinn til að leita til kærunefndarinnar. Málflutningur kærða hafi breyst
í hverju einasta svari og sé orðinn
töluvert annar en útskýringarnar sem kærandi hafi fengið í janúar 2016.
- Varðandi starfsauglýsinguna og fullyrðingar kærða um hana hafi
í henni ekki verið minnst á Noreg eða starfsemi annars staðar en á Íslandi. Ekki hafi heldur verið minnst
á að starfið væri tímabundið. Þá hafi ekkert staðið í upphaflegum
ráðningarsamningi kæranda um verkefnaskiptinguna og ekkert standi um Noreg í
samningi konunnar.
- Einnig gerir kærandi athugasemdir við markmið og tilgang
launaviðtala samkvæmt kærða. Tilgangurinn hafi verið að fara yfir launakjör
viðkomandi starfsmanns og ræða um starfið sjálft, hvort ábyrgð eða verkefni
hafi tekið breytingum. Einnig að veita endurgjöf á frammistöðu síðastliðna tólf
mánuði, fara yfir fyrirliggjandi samningsbundnar kjarasamningsbreytingar, laun
og aðrar umsamdar uppbætur og kynna íþrótta- og persónueflandi styrk fyrir árið
2017. Á þessu sé að sjá að kærði hafi talið að það skuli vera samhengi milli
ábyrgðar, frammistöðu og launa. Það sé
hins vegar ekki að sjá að kærði hafi litið svo á að prófskírteini eitt og sér
breyti um hæfi starfsmanna eða
réttlæti launahækkun.
- Hvað varði eftiráskýringar og staðreyndir sem felli mál kærða
hafi ekkert staðið um reynslu í samningi kæranda né hafi það orð verið notað í
návist kæranda eða verið rætt við hann
á þeim nótum. Aftur á móti hafi reglulega verið sagt við kæranda, alveg frá upphafi, að ástæða
tímabundna samningsins væri að móðurfélagið væri ekki búið að gefa leyfi fyrir föstu stöðugildi. Þáverandi
fjármálastjóri hafi talið, miðað við aukið umfang, að það myndi án efa koma að
því.
- Kærandi telur upp nokkur atriði sem bendi til þess að ósamræmi
sé af hálfu kærða frá upphafi. Aldrei hafi kæranda verið sagt að honum byðust
lægri kjör vegna mjög svo málefnalegra ástæðna. Fjármálastjórinn hafi hins
vegar boðið kæranda 33% launahækkun, sömu laun fyrir sex tíma vinnudag. Það hafi ekki verið samþykkt af
starfsmannastjóranum og framkvæmdastjóranum
og kærandi hafi aldrei fengið útskýringar á því.
- Ekkert mál kærunefndar jafnréttismála lýsi sambærilegum
aðstæðum og þetta mál. Í rauninni hafi þessi störf ekki verið jafnverðmæt því
það sé augljóst að Íslandsverkefnið hafi verið mun umfangsmeira, í erfiðari stöðu, til frambúðar og því verðmætara
og með réttu ætti það að vera metið til hærri launa. Vísar kærandi máli sínu
til stuðnings til mála nr. 4/1997 og 2/2009 hjá kærunefndinni.
- Þá bendir kærandi máli sínu til stuðnings á 4. gr. laga nr.
139/2003. Fallist kærunefndin á rök kærða sem hann hvorki hafi né geti sýnt fram
á að hafi gagnast í starfinu umfram reynslu kæranda og þekkingu þá sé í fyrsta
lagi verið að líta framhjá öllum hlutlausum staðreyndum og tölfræði á umfangi
starfanna og afköstum og árangri þeirra
beggja, sem stingi í stúf við yfirlýsingar kærða um að konan sem kærði ber sig
saman við hafi verið metin hæfari.
Auk þess sé litið fram hjá sérhæfingu mismunandi starfa á fjárhagssviðum
fyrirtækja af þessu tagi. Þá krefjist starfið ekki, lögum samkvæmt,
háskólagráðu. Kærði geti ekki sýnt fram á að menntun konunnar hafi komið að gagni í starfinu. Ef nota eigi háskólagráðu
sem hlutlausan staðal um hæfi einstaklings í starfi verði ekki hjá því komist
að horfa á gríðarlega ójafnt kynjahlutfall í háskólakerfinu síðustu áratugi. Það geri það að verkum að háskólagráða
sé mælikvarði sem sé til þess fallinn að mismuna kynjunum.
- Í ljósi raka kærða í þessu máli auk yfirlýsinga
framkvæmdastjórans finnist kæranda nauðsynlegt að athuga laun samstarfskvennanna sem hafi einnig verið á talsvert
hærri launum en kærandi. Þær hafi ekki gegnt ábyrgðarmeiri störfum en kærandi og
konan sem hann ber sig saman við. Þær hafi báðar verið yngri en konan, hafi ekki
kennt bókfærslu, verið viðurkenndir bókarar en ekki viðskiptafræðingar. Þrátt
fyrir að hafa starfað nokkrum árum lengur hjá kærða sé þó mikilvægt að undirstrika að engin þeirra hafði reynslu
kæranda úr sambærilegum störfum úr sambærilegum
fyrirtækjum enda hafi stór hluti af starfi kæranda farið í að hreinsa upp
fortíðarvanda sem þær hafi skapað.
Miðað við rök kærða um að konan sem kærandi ber sig saman við hafi fengið bónus
vegna aukaálags í nóvember og desember
2016 finnist kæranda einnig að meta skuli framlag hans umfram eðlilega
starfsskyldu.
ATHUGASEMDIR KÆRÐA - Í athugasemdum kærða er á það bent að augljóst sé að aðilar
líti ekki sömu augum á staðreyndir málsins. Þá telur kærði það blasa við að
kærandi dragi ályktanir og felli dóma um málefni samstarfsfólks síns sem hann
hafi ekki forsendur til. Kærði hafnar staðhæfingum hans, til að mynda um
yfirvinnu konunnar sem hann ber sig saman við, nám hennar og reynslu og
hagnýtingu þess náms og reynslu í starfi, afköst hennar og annarra starfsmanna
og gæði þeirra sem starfsmanna.
- Í stað þess að fara í gegnum einstaka liði athugasemda kæranda
telur kærði réttara að lýsa því yfir að staðið sé við allt það sem fram hafi
komið í greinargerð kærða. Jafnframt hafnar kærði málatilbúnaði kæranda að öllu
leyti sem hann sé ekki samræmanlegur því sem fram komi af hálfu kærða.
- Engu að síður tekur kærði fram að það hafi komið sér í opna
skjöldu að kærandi tali nú eins og hann hafi ekki óskað eftir því að gerður
yrði skammtímasamningur, þ.e. til eins mánaðar í senn. Kærði hafi ekki haft
frumkvæði að slíkri niðurstöðu, þó vera megi að þessi möguleiki hafi verið
nefndur eftir að kærandi hafi lýst því yfir að hann hafi ekki viljað binda sig
með ótímabundnum samningi. Sama gildi um ástæðu þess að ekki hafi verið gengið
frá nýjum ráðningarsamningi þegar tímabundinni ráðningu hafi lokið, þ.e. beri
að skilja málatilbúnað kæranda svo að hann haldi því fram að það sé á ábyrgð
kærða, þá sé því hafnað sem röngu.
- Kærði mótmælir útreikningi kæranda á meintum launamun og
vísar til greinargerðar sinnar í þeim efnum.
NIÐURSTAÐA - Í 1. mgr. 1. gr. laga nr.
10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið
laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla
og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 25.
gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna konum og körlum í launum og öðrum kjörum á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að því að kona og karl sem starfa hjá sama atvinnurekanda njóti
mismunandi launakjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf skal atvinnurekandi sýna fram á, ef um launamun er að ræða,
að munurinn skýrist af öðrum þáttum en kyni,
sbr. 2. mgr. 25. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan
rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að
því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Verkefni
kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp
skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr.
5. gr. laganna.
- Eins og að framan greinir takmarkast
valdsvið kærunefndar jafnréttismála við að kveða upp úrskurð um hvort ákvæði
laga nr. 10/2008 hafi verið brotin. Verður því að vísa frá nefndinni kröfu
kæranda um að kærða verði gert að greiða honum mismun á launum hans og þess
kvenkyns starfsmanns er hann ber sig saman við.
- Kærandi og konan er hann ber
sig saman við hófu bæði störf hjá kærða í júlí 2015. Hefur kærði upplýst að
konan hafi verið ráðin í það starf bókara er bæði sóttu um að undangenginni
auglýsingu en að kærandi hafi verið ráðinn í annað starf bókara tímabundið til
loka árs 2015.
- Konan hafði lokið stúdentsprófi
á árinu 1985 og cand. oecon. prófi í viðskiptafræði/hagfræði á árinu 1990.
Fljótlega eftir að konan lauk háskólaprófi hafði hún hafið störf við bókhald og
fjármál og hafði gegnt slíkum störfum nær samfellt þar til hún hóf störf hjá
kærða. Hún hafði einnig kennt bókfærslu og skyldar greinar í Viðskipta- og
tölvuskólanum á 12 ára tímabili. Kærandi hafði stundað nám í tvö ár í
framhaldsskóla og hafði lokið verslunarprófi af hagfræðibraut. Hann hafði
starfað frá árinu 2007 sem innkaupastjóri hjá innflutnings- og
heildsölufyrirtæki, við tollafgreiðslu hjá verslunarfyrirtæki og hafði gegnt
skrifstofustarfi hjá þjónustufyrirtæki. Auk þess hafði kærandi á níu ára
tímabili starfað við bókhaldsvinnu í eigin fyrirtæki.
- Er kærandi hóf störf hjá kærða
námu mánaðarlaun hans V krónum en mánaðarlaun konunnar er hann bar sig saman
við námu Z krónum. Mánaðarlaun kæranda voru hækkuð í mars 2016 í Þ krónur og
mánaðarlaun konunnar voru hækkuð á sama tíma í R krónur. Eftir að hinn
tímabundni samningur kæranda rann út í lok árs 2015 starfaði hann áfram hjá
kærða á óbreyttum launum. Ekki var gerður annar skriflegur ráðningarsamningur
og greinir málsaðila á um ástæður þess. Í maí 2016 varð kærandi fyrir slysi og
eru aðilar sammála um að kærandi hafi eftir það haldið óbreyttum launum en ekki
haft fulla viðveru það sem eftir var ársins. Með skriflegu samkomulagi sem
dagsett er 23. desember 2016 voru mánaðarlaun kæranda hækkuð um 60.092 krónur fyrir
mánuðina janúar til apríl 2016 og honum greidd út eingreiðsla vegna þess að fjárhæð
240.368 krónur. Af samkomulaginu má jafnframt ráða að aðilar hafi verið sammála
um að þrátt fyrir skerta viðveru yrði ekki hreyft við mánaðarlaunum hans fyrir
tímabilið maí til desember 2016 sem yrðu þá óbreytt á því tímabili, Þ krónur. Í
bréfi kærða til konunnar þann 19. desember 2016 kom fram að mánaðarlaun hennar
yrðu hækkuð frá 1. janúar 2017 um 58.000 krónur og næmu þannig T krónum.
Kærandi lét af störfum hjá kærða í lok janúarmánaðar 2017.
- Fyrir liggur að kærandi hafði allan
tímann sem hann starfaði hjá kærða lakari launakjör en konan sem hann ber sig
saman við. Eins og að framan greinir bjó konan að umtalsvert lengri
starfsreynslu við bókhaldsstörf en kærandi auk þess sem hún hafði meiri menntun
en hann, en rökstuðningur kærða fyrir launamuni þeirra byggir á þessum atriðum.
Þykir því kærði hafa sýnt fram á að málefnalegar ástæður hafi búið að baki
mismunandi launakjörum þeirra og að mismunurinn hafi því ekki ráðist af
kynferði. Kærandi hefur jafnframt bent á að laun annarra samstarfskvenna hafi
verið hærri en hans. Af málatilbúnaði hans má ráða að þessir starfsmenn hafi
haft meiri menntun en kærandi og lengri starfsreynslu í fyrirtækinu en hann.
Telur kærunefndin af þeim sökum ekki ástæðu til frekari umfjöllunar um þessa
ábendingu.
- Með vísan til þess sem að
framan er rakið telur kærunefnd jafnréttismála að kærði hafi ekki brotið gegn
lögum nr. 10/2008 við samningsgerð um launakjör kæranda.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kærði braut ekki gegn lögum nr. 10/2008 við ákvörðun launakjara kæranda.
Erla S. Árnadóttir
Björn L. Bergsson
Þórey S. Þórðardóttir