Hoppa yfir valmynd
1. september 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 172/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 172/2021

Miðvikudaginn 1. september 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 30. mars 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 30. mars 2021 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn 8. mars 2021. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 30. mars 2021, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að meðferð og endurhæfing væru ekki fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. mars 2021. Með bréfi, dags. 7. apríl 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfum 7. og 14. apríl 2021 bárust viðbótarathugasemdir frá kæranda sem kynntar voru Tryggingastofnun með bréfi, dags. 15. apríl 2021. Með bréfi, dags. 19. apríl 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi, dags. 21. apríl 2021. Með tölvubréfi 5. maí 2021 bárust viðbótargögn frá kæranda sem voru kynnt Tryggingastofnun með bréfi, dags. 6. maí 2021. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar um synjun á örorkulífeyri en það hafi verið í þriðja skipti sem stofnunin synji umsókn kæranda um örorkulífeyri.

Kærandi greinir frá því að bæði læknir hennar og félagsráðgjafi segi endurhæfingu vera fullreynda hjá henni og að henni hafi verið vísað þrisvar sinnum úr endurhæfingu vegna eiturlyfjaneyslu. Hún eigi þrjú börn sem hún sé búin að missa frá sér sökum neyslu. Þá sé kærandi einnig búin að sitja þrisvar sinnum í fangelsi og sé núna í fangelsinu B. Hún sé búin að vera á fjárhagsaðstoð í tólf ár og sé mjög illa stödd félagslega. Kærandi sé með langa sakaskrá og enginn sé að fara að ráða hana í vinnu. Hún sé með mikinn kvíða, þunglyndi, ofvirkni og sé með greiningar vegna þess. Kærandi væri mjög þakklát ef hún gæti fengið tímabundna örorku til fjögurra ára til að komast út úr þeim félagslegu hremmingum sem hafi fylgt henni allt hennar líf. Hún sé búin að lifa á lágmarkslaunum hjá félagþjónustunni í tólf ár og hafi fengið synjun á umsókn sína um örorku þar sem hún sé ekki búin með endurhæfingu. Þó hafi hún gert þrjár tilraunir til endurhæfingar en alltaf verið vísað frá sökum neyslu eða kvíða en við það verði hún launalaus í mánuð. Hún voni því að mál hennar verði endurskoðað.

Í viðbótarathugasemdum kæranda, dags. 7. apríl 2021, greinir kærandi frá sögu sinni í stuttu máli. Hún sé búin að vera á öllum unglingaheimilum sem til séu á landinu og hafi byrjað ung í vímuefnaneyslu. Hún hafi orðið móðir fimmtán ára og hafi byrjað að sprauta sig þegar hún var sextán ára. Hún hafi misst son sinn frá sér þegar hann varð tveggja ára en eftir það hafi hún farið í mikla neyslu. Þá hafi hún búið á götunni í mörg ár, sofið í C og sprautað sig með morfíni og rítalíni allan daginn. Hún hafi gert allt til að komast í vímu hvort sem það hafi verið að selja líkama sinn eða brjóta af sér. Hún sé búin að fara í ótal meðferðir. Kærandi sé búin að eignast tvö önnur börn og sé búin að missa þau öll sökum neyslu. Hún sé mjög kvíðin, þunglynd og félagsfælin og sé með persónuleikaröskun og eigi mjög erfitt með að sinna sér dagsdaglega. Hún hafi fengið félagslega íbúð en hafi verið vísað úr henni fyrir óreglu og sé núna á lista hjá Reykjavíkurborg vegna húsnæðis sem henti henni. Kærandi sé á lyfjum við ADHD, þunglyndi og kvíða. Þessa stundina sé kærandi í fangelsinu B að afplána sína þriðju fangelsisrefsingu. Hún sé með mjög langa sakaskrá fyrir hegningarlagabrot og sé búin að vera inn og út úr meðferðum eða fangelsum síðustu tólf ár. Hún sé því ekki endurhæfingarhæf en Tryggingastofnun hafi ekki samþykkt umsókn hennar um örorku af því hún sé ekki búin að klára endurhæfingu sem sé mjög sorglegt því að bæði félagsráðgjafi hennar og læknir hafi sagt að öll endurhæfing sé fullreynd.

Í viðbótarathugasemdum kæranda frá 14. apríl 2021 segir að kærandi hafi farið í margar innlagnir á D og E og tvisvar sinnum hjá F. Þá hafi hún verið nokkrum sinnum á fíknigeðdeild. Kærandi sé núna í geðteyminu hjá Landspítalanum.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkulífeyri. Umsókn kæranda um örorkulífeyri hafi verið synjað með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 30. mars 2021, með vísan til þess að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd og því ekki tímabært að taka afstöðu til örorku hennar. 

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Nánar sé fjallað um skilyrði örorkumats í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat. Tryggingastofnun sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18 til 67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Nánar sé fjallað um endurhæfingu og skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris í reglugerð nr. 661/2020.

Málavextir séu þeir að við afgreiðslu Tryggingastofnunar á umsókn kæranda um örorkulífeyri hafi legið fyrir umsókn, dags. 8. mars 2021, spurningalisti, dags. 10. mars 2021, læknisvottorð, dags 11. mars 2021, og tvenn önnur fylgigögn, dags. 5. mars 2021.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 30. mars. 2021, var kæranda tilkynnt að ekki væri tímabært að taka afstöðu til örorku hennar þar sem endurhæfing væri ekki fullreynd, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Beiðni hennar um örorkumat hafi því verið synjað. Kæranda hafi verið bent á reglur sem varði endurhæfingarlífeyri og hún hvött til að hafa samband við heimilislækni sinn til að leita ráðgjafar um þau endurhæfingarúrræði sem í boði væru. Rökstuðningur fyrir synjun umsóknar hafi verið veittur með bréfi, dags. 13. apríl 2021. Í því bréfi hafi meðal annars verið bent á að í gögnum málsins hafi komið fram upplýsingar um vímuefnavanda. Upplýst hafi verið að innlögn á D hefði staðið til en ekki hafi orðið af henni vegna afplánunar í fangelsi. Að mati Tryggingastofnunar sé meðferð/endurhæfing ekki fullreynd og þá sé ekki tímabært að meta örorku.

Samkvæmt gögnum Tryggingastofnunar hafi kærandi verið samþykkt á endurhæfingarlífeyri fyrir tímabilið 1. nóvember 2019 til 30. apríl 2020. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 13. janúar 2020, var kæranda tilkynnt um stöðvun þeirra greiðslna frá og með 31. janúar 2020 þar sem hún væri hætt í endurhæfingu. Henni hafi verið tjáð að hægt væri að sækja um að nýju ef breyting yrði á endurhæfingu hennar.

Samkvæmt læknisvottorði, dags. 17. febrúar 2021, sem byggi meðal annars á upplýsingum úr sjúkraskrá og greinargerð frá félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, eigi kærandi að baki langa og mjög flókna geðsögu. Hún hafi verið í alvarlegri fíkniefnaneyslu frá barnsaldri og glímt við ýmis konar geðvanda. Hún hafi alist upp við ofbeldi, óreglu og skilnað foreldra. Þá hafi skólaganga verið erfið. Hún eigi margar spítalainnlagnir að baki og meðferðir á D og fleiri stöðum. Hún hafi í gegnum tíðina verið hjá ýmsum geðlæknum vegna þunglyndis og kvíða og hafi ADHD greining verið gerð árið 1996. Atvinnusaga kæranda hafi verið mjög takmörkuð.

Fram kemur að kærandi sé í afplánun. Óljóst sé hvað taki við að því loknu, hún sé húsnæðislaus og hafi verið á framfærslu hjá félagsþjónustu Reykjavíkur. Hún hafi tekið þátt í endurhæfingarúrræðinu G á vegum þjónustumiðstöðvar H sem sé stuðningsúrræði fyrir einstæða foreldra. Hún hafi einnig verið hjá I en hafi ekki geta nýtt sér að fullu þau endurhæfingarúrræði sem þar voru í boði. Kærandi hafi reynt mörg endurhæfingarúrræði en ekki gengið vel. Á dagskrá sé innlögn á D en hún hafi hafið afplánun áður en til þess hafi komið. Að mati læknis sé kærandi óvinnufær og endurhæfing fullreynd.

Í spurningalista vegna færniskerðingar, sem fylgt hafi með umsókn kæranda um örorkulífeyri, sé skráð að hún sé búin að vera meira eða minna í neyslu síðustu fimmtán ár. Hún hafi lent í aftanákeyrslu árið 2017 og glími við áfallastreituröskun eftir það og sé illt í baki og hálsi. Ekki séu skráðar athugasemdir við einstaka þætti í spurningalista vegna færniskerðingar. Undir liðnum geðræn vandamál skrái kærandi hins vegar að hún fari í og úr maníum, hún sé með mikinn kvíða og áfallastreituröskun og stundum fari hún í það mikið þunglyndi að hún komist ekki fram úr rúminu.

Í bréfi Reykjavíkurborgar, þjónustumiðstöðvar H, dags. 5. mars 2021, sé gerð ítarlega grein fyrir félagssögu kæranda og lýst þeim endurhæfingarúrræðum sem hún hafi tekið þátt í.

Vegna framkominnar kæru hafi Tryggingastofnun farið yfir öll gögn máls að nýju. Að mati Tryggingastofnunar beri læknisfræðileg gögn um heilsufarsvanda kæranda ekki með sér að skilyrði til greiðslu örorkulífeyris samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar séu uppfyllt. Samkvæmt því ákvæði greiðist örorkulífeyrir einungis þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilegra viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Örorka sé metin samkvæmt sérstökum staðli, sbr. reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Tryggingastofnun hafi því tekið þá ákvörðun að synja umsókn um örorkulífeyri en vísa þess í stað á viðeigandi úrræði innan ramma reglna um endurhæfingarlífeyri. Á grundvelli 7. gr. laga um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Áætlun um endurhæfingu skuli taka mið af heilsufarsvanda umsækjanda með það að markmiði að aðstoða hann við að leita lausna á þeirri færniskerðingu eða heilsubresti sem valdi skertri starfshæfni. Leitast skuli við að endurhæfingaráætlun byggi á heildstæðri nálgun með það að markmiði að bæta heilsu og auka starfsorku og starfshæfni.

Það sé ekki hlutverk Tryggingastofnunar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna og aðra fagaðila hverju sinni að koma þeim einstaklingum sem ekki séu settir í örorkumat samkvæmt ákvörðun Tryggingastofnunar í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni.

Með vísan til framanritaðs sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að sú ákvörðun að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og vísa þess í stað á viðeigandi úrræði innan ramma reglna um endurhæfingarlífeyri hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 30. mars 2021 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda var læknisvottorð J, dags. 17. febrúar 2021. Í vottorðinu koma fram eftirfarandi sjúkdómsgreiningar:

„CHRONIC VIRAL HEPATITIS C

ATTENTION DEFICIT DISORDER WITHOUT HYPERACTIVITY

FÍKNIHEILKENNI AF VÖLDUM ÓPÍUMNOTKUNAR

LYFJAFÍKN

FÍKNIHEILKENNI AF VÖLDUM NOTKUNAR SLÆVILYFJA EÐA SVEFNLYFJA

BLANDIN KVÍÐA- OG GEÐLÆGÐARRÖSKUN

MENTAL AND BEHAVIOURAL DISORDERS DUE TO USE OF ALCOHOL - HARMFUL USE

MENTAL AND BEHAVIOURAL DISORDERS DUE TO USE OF OPIOIDS – DEPENDENCE SYNDROME

MENTAL AND BEHAVIOURAL DISORDERS DUE TO MULTIPLE DRUG USE AND USE OF OTHER PSYCHOACTIVE SUBSTANCES - HARMFUL USE“

Um fyrra heilsufar kæranda segir í vottorðinu:

„Undirritaður þekkir ekki mjög vel til A. Nokkur samskipti 2020. Byggi þetta vottorð á fyrri sögu úr sjúkraskrá og síðan fylgir með ítarleg greinargerð frá félagsþjónustunni sem er í samræmi við helstu upplýsingar úr sjúkraskrá. Þannig xx ára kona með langa og mjög flókna geðsögu. Alvarleg fíkniefnaneysla frá barnsaldri og geðvandi ýmis konar. Ólst upp við ofbeldi og óreglu, foreldrar skildu. Skólaganga erfið. Margar spítalainnlagnir og meðferðir á D og fleiri stöðum. Í gegnum tíðina hjá ýmsum geðlæknum. Átt við þunglyndi og kvíða að stríða frá bernsku. ADHD greining 1996. Lengstum utan vinnumarkaðar. Endurhæfingar verið reyndar, haft endurhæfingarlífeyri. Framfærsla frá félagsþjónustu.“

Um núverandi heilsuvanda og færniskerðingu kæranda segir:

„Símtal við félagsráðgjafa K sem er með undirritaða heimild um að ræða við mig um A og óskaði eftir símtali. A er nú í afplánun. Eftir það er ójóst, er húsnæðislaus og verið á framfærslu hjá félagsþj. Var einna síðast í G og I, hið fyrra stuðningsúrræði við einstæðar mæður en hið seinna kannski meira í líkingu við endurhæfingu en hún gat illa nýtt sér það að sögn K. Hún hefur reynt mjög mörg endurhæfingarúrræði en ekki gengið vel. Það er mjög löng og alvarleg neyslusaga, endurteknar meðferðir ofl.

Úr göngudeildarnótu geðdeildar 13.12 sl: A er xx ára kona með langa sögu um fíknivanda en hefur náð nokkuð góðum edrú tímabilum inná milli. Á að baki nokkrar innlagnir á fíknigeðdeild, seinast fyrir tæpum 3 árum. Fær suboxone á D, hefur 2x nýlega verið melduð til innlagnar þangað seinustu vikurnar en ekki mætt. EKki fengið suboxone í nær 2 vikur. A segist hafa verið í neyslu seinustu 6 vikurnar eftir 7 mánuði edrú, stuttu eftir fallið lést ....... við hlið hennar. Óljós frásögn af magni neyslu að undanförnu, ...... Missti félagslega íbúð nýlega og verið á gistiheimili seinustu nætur."

Á dagskrá var svo innlögn á D en hóf afplánun áður en kom til þess.“

Í vottorðinu kemur fram að læknisskoðun hafi verið framkvæmd 18. nóvember 2020. Lýsing læknisskoðunar er svohljóðandi:

„Ekki gerð formleg skoðun nú. A afplánar.

Dagsetning skoðunar hér er þegar ég síðast sá A. Þá var hún mjög illa stödd, bæði andlega og líkamlega.“

Í vottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að ekki megi búast við að færni hennar aukist með tímanum. Í frekari athugasemdum með læknisvottorði segir:

„Endurhæfing fullreynd að mínu mati og fleiri fagaðila.

Örorkubætur lífsnauðsynlegar.“

Í athugasemdum segir:

„Það á líka að fylgja með vottorði þessu og berast til ykkar ítarleg greinargerð frá K félagsráðgjafa sem þekkir A vel.

Lyfjameðferð í þessu vottorði sett fram með fyrirvara, þar sem ég veit ekki nákvæmlega hvernig því er háttað í dag, ætti þó að vera nærri lagi.“

Einnig liggur fyrir læknisvottorð J, dags. 20. apríl 2021, þar sem fram kemur að það sé mat læknis að endurhæfing hafi ekki skilað nægjanlegum árangri og ekki sé líklegt að það verði miklar breytingar þar á. J telji endurhæfingu fullreynda.

Enn fremur liggur fyrir læknisvottorð L vegna eldri umsóknar um endurhæfingarlífeyri, dags. 25. október 2019, og þar segir:

„Var á Dfebrúar 2018 vegna fíkniefnaneyslu. Verið nú edrú í 19 mánuði. Notaði amfetamín, kannabis og áfengi. Verið í endurhæfingu frá janúar 2019 á vegum G. I byrjar 28.10. nk og og fullt programm í janúar 2020. Átt við þunglyndi og kvíða að stríða frá bernsku. Ofbeldi og óregla á bernskuheimilinu. Er hjá geðlækni, M. Ert á Wellbutrin, Fluoxetin og Sobril við kvíða. Byrjaði í neyslu 12 ára. Eignast barn 15 ára og var edrú í 4-5 ár á eftir og aftur 2013 í tvö ár. ADHD greiningu fékk hún 1996 (N). Vill ekki vera á lyfjum vegna þess, líður illa á þeim, verður upptjúnuð.“

Í samantekt læknisvottorðsins segir:

„Núverandi vinnufærni: Kvíði, þunglyndi og neysla á sumum tímum í bland hefur valdið óvinnufærni hennar.

Framtíðar vinnufærni: Vænst er að hún komist út á vinnumarkaðinn um mitt ár 2021. Hafði unnið á elliheimili en næstum búin með sjúkraliðanám. Stundað nám af og til á þeim tíma sem hún hefur verið utan vinnumarkaðarins.

Samantekt: Ung kona sem hefur alist upp við ofbeldi og óreglu og átt við langvinnan kvíða og þunglyndi að stríða og fíkniefnaneyslu á tímabilum. Er í virkri endurhæfingu og líður almennt vel um þessar mundir.“

Þá liggur einnig fyrir bréf frá K, félagsráðgjafa hjá þjónustumiðstöð H, dags. 5. mars 2021, og þar segir meðal annars um neyslu- og meðferðarsögu að kærandi eigi að baki tæplega fjörtíu meðferðir á P, E og F og einnig hafi verið reynd meðferðarúrræði erlendis. Um mat K á stöðu kæranda segir:

„Ur. hefur verið með mál A til vinnslu á Þjónustumiðstöð H í 2 ár. Markmiðið með vinnslunni hefur verið að koma A í virkni og viðeigandi endurhæfingu með það fyrir sjónum að auka lífsgæði hennar og möguleika á námi eða vinnu að endurhæfingu lokinni. Liður í endurhæfingunni hefur verið að vinna í sem flestum málum sem hafa hamlað bata hennar.

Miðað við fyrirliggjandi gögn í máli og sögu A um fíkniefnaneyslu og áfallasögu er það hins vegar mat undirritaðrar að eigi sé raunhæft að endurhæfa hana út á vinnumarkaðinn. Endurhæfing hefur ekki skilað þeim árangri sem vænst hefur verið af og eru ekki miklar líkur á að breyting verði þar á. Ur. mun eftir bestu getu styðja A áfram í sinni edrúmennsku og aðstoða hana við að vinna að bættri andlegri líðan og betri húsnæðisstöðu en mikilvægt er að A sé tryggð örugg framfærsla til að auka líkur á stöðuleika í lífi A.“

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar sem kærandi lagði fram með umsókn um örorkumat, dags. 8. mars 2021, svaraði kærandi spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni sinni. Í lýsingu á heilsuvanda nefnir kærandi að hún sé meira eða minna búin að vera í neyslu síðustu fimmtán ár og hafi tvisvar verið vísað úr endurhæfingu. Þá hafi hún lent í aftanákeyrslu árið 2017 og sé með verki í baki og hálsi eftir það, auk þess sem hún glími við áfallastreituröskun. Í svörum kæranda varðandi líkamlega færni greinir kærandi ekki frá erfiðleikum við daglegar athafnir. Hvað varðar andlega færni greinir kærandi frá því að hún fari í og úr maníum, sé með mikinn kvíða og áfallastreituröskun og fari stundum í það mikið þunglyndi að hún komist ekki fram úr rúminu.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er Tryggingastofnun heimilt að gera það að skilyrði að umsækjandi um örorku gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að meta örorku þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Þá var kæranda leiðbeint að fá ráðgjöf hjá heimilislækni um frekari endurhæfingarúrræði.

Fyrir liggur að kærandi býr við ýmis vandamál af andlegum toga og að hún hefur verið í endurhæfingu um tíma. Í læknisvottorði J, dags. 17. febrúar 2021, kemur fram að kærandi sé óvinnufær og ekki megi búast við því að færni aukist með tímanum. Það sé hans mat að endurhæfing sé fullreynd. Þá telur K félagsráðgjafi samkvæmt bréfi, dags. 5. mars 2021, að ekki sé raunhæft að endurhæfa kæranda út á vinnumarkaðinn. Í læknisvottorði L, dags. 25. október 2019, segir að kærandi hafi verið edrú í nítján mánuði, hafi verið í virki endurhæfingu, líði vel og að þess sé vænst að hún komist út á vinnumarkað. Að mati úrskurðarnefndar verður ekki ráðið af gögnum málsins og eðli veikinda kæranda að frekari endurhæfing geti ekki komið að gagni. Einnig liggur fyrir að kærandi hefur fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun í þrjá mánuði en heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á frekari endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.

Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 30. mars 2021, um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta