Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2012 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra segir brýna þörf á markaðsátaki fyrir íslenskar sjávarafurðir

OS-a-sjavarutvegsstefnu

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði í ræðu á Sjávarútvegsráðstefnunni í morgun að aldrei hafi verið jafn brýn þörf á sérstöku markaðsátaki fyrir sjávarafurðir af Íslandi á mörkuðum erlendis sem nú. Hann lýsti yfir vilja sínum og atvinnuvegaráðherra til að standa að sameiginlegu átaki stjórnvalda og sjávarútvegsins og benti á einstaklega vel heppnað samstarf ríkisstjórnar og ferðaþjónustu gegnum “Inspired by Iceland” sem fordæmi.

 “Við horfum fram á gríðarlega þorskgengd í Barentshafi sem hefur leitt til þess að kvóti Rússa og Norðmanna á þorski fyrir þetta ár aukist meira en nemur öllum þorskafla á Íslandi. Þetta þýðir það eitt að við getum gert ráð fyrir miklu harðari samkeppni á mörkuðum en við höfum átt í áður. Eina leiðin til að bregðast við því er með stóraukinni markaðssókn og með því að markaðssetja Ísland sem sérstakt gæðamerki. Sennilega hefur aldrei verið jafn mikil þörf og nú á skipulögðu átaki fyrir íslenskan sjávarútveg á mörkuðum erlendis.”

 Utanríkisráðherra rakti hvernig Norðmenn standa að sínum markaðsmálum fyrir norskt sjávarfang og sagði að til að halda í við þeirra átak þyrftu Íslendingar að verja 5-600 milljónum króna á ári í 30-40 markaðsverkefni á ári tengd sjávarútvegi og hafa amk. 7 manna sérsveit sem sinnti þeim eingöngu.

 Össur sagði fullan vilja til að “taka höndum saman með greininni og sveifla okkur saman í öflugt markaðsátak fyrir íslenskan sjávarútveg.”

 Utanríkisráðherra kvað bjart framundan í greininni, fyrirtæki hefðu síðan á miðju síðasta ári fjárfest fyrir 35-40 milljarða og kepptust samhliða við að greiða niður skuldir. Samhliða væru horfur í hafinu góðar, og spáði 250 þúsund tonna þorskafla innan 5 ára. Blikurnar sem væru á lofti, fyrir utan harðnandi samkeppni og lægð á evrópskum mörkuðum, væru m.a. makríldeilan. Hann ræddi tillögur sjávarútvegsnefndar Evrópuþingsins um viðskiptaþvinganir þar sem “átti bókstaflega að vera hægt að banna innflutning á öllu sem nokkru sinni hefði blakað sporð í sjó.” Utanríkisráðherra kvað það hafa verið eitt aðalverkefni ráðuneytisins í góðri samvinnu við atvinnuvegaráðuneytið og forvera þess að berjast gegn þeim af mikilli hörku.

“Við höfum rætt við hvert einasta ríki innan sambandsins, ég hef sjálfur rætt við þá utanríkisráðherra sem skipta máli, suma margoft, og Steingrímur við sína kollega. Þetta hefur þar að auki verið ótal sinnum rætt á fundum milli æðstu embættismanna þeirra og okkar,” sagði Össur í ræðunni. Hann kvaðst telja að tekist hafi að “nudda út flestum verstu ákvæðunum” en kvað menn þó þurfa að vera við öllu búna.

 Í tengslum við þetta sagði utanríkisráðherra að grillti í að þeir sem ættu hagsmuni af makríl erlendis kynnu að reyna að fá ýmis konar samtök til að sniðganga íslenskar sjávarafurðir vegna makríldeilunnar. Hann greindi frá því að í samvinnu ráðuneytanna og í samráði við greinina hefði verið ráðin almannatengslastofa, sem  skipulegði forvarnarstarf, og fælist ma. í að koma málstað okkar skipulega á framfæri við helstu keðjurnar sem selja íslenskt sjávarfang.

Ræða utanríkisráðherra á Sjávarútvegsráðstefnunni

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta