Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 63/2003

Þriðjudaginn, 27. apríl 2004

  

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir, lögfræðingur.

Þann 19. september 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 10. september sama ár.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 27. júní 2003 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

  

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Ég undirritaður A sótti um fæðingarstyrk í júní sl. ásamt unnustu minni B en okkur var synjað á þeim forsendum að ég hafi farið til D-lands til að vinna en ekki í nám sem er ekki rétt. Öll skjöl varðandi það mál eru í vörslu Tryggingastofnunar ríkisins.

Máli mínu til sönnunar sendi ég ný gögn inn í málið þar sem sést að ég var búinn að leita mér upplýsinga um E-skólann meðan ég bjó á Íslandi. Sjá skjal dagsett 07.03.2002 og einnig skjal um staðfesta skólavist dagsett 29.04.2002. Þetta sýnir að ég flutti til D-lands til að fara í nám. Ég varð að komast inn í D-lenskt fagmál G-greinar vegna framhaldsnáms míns og hvar var betra að gera það en í vinnu hjá D-lensku byggingarfyrirtæki. Það hefði verið algerlega ómögulegt fyrir mig að hefja nám í F-fræði algerlega ótalandi á D-tungumáli með öllu. En þar sem F-fræði er ekki kennd á Íslandi varð ég að flytja hingað til D-lands.

Ég er íslenskur ríkisborgari og ætla að koma heim og vinna að námi loknu. Ég upplifi að það sé verið að mismuna íslenskum námsmönnum og það er óásættanlegt að mínu mati. Einnig þykir mér það heldur fúlt að eftir vinnu í 3 mánuði í öðru landi en Íslandi missi maður rétt sinn á að fá fæðingarstyrk sem er einmitt til að aðstoða nýbakaða foreldra og ekki veitir af. Það er mín ósk að þið endurskoðið þetta mál þannig að íslenska ríkið verði ekki þekkt fyrir að snúa baki í ríkisborgara og skattgreiðendur sína.“

  

Með bréfi, dags. 13. október 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

  

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 3. febrúar 2004. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laga um fæðingar- og fæðingarorlof nr. 95/2000 (ffl.) á grundvelli undanþáguákvæðis 13. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000.

Með umsókn dags. 9. júní 2003 sótti kærandi um fæðingarstyrk námsmanna vegna áætlaðrar fæðingar barns 3. júlí 2003. Með fylgdu, afrit út mæðraskýrslu, staðfesting dags. í janúar 2003 frá E-skólanum í D-landi um nám hans þar frá ágúst 2002 og staðfesting á því að hann eigi ekki rétt á greiðslum í fæðingarorlofi í D-landi á grundvelli þess að hann fái námslán á Íslandi.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda dags. 18.júní 2003 var óskað eftir annars vegar upplýsingum um hvað hann hefði verið að gera frá því hann flutti til D-lands í apríl 2002 og þar til hann hóf nám í ágúst 2002 og hins vegar staðfestingu frá LÍN þar sem fram komu námshlutfall hans á síðustu 12 fyrir áætlaðan fæðingardag barns.

Í bréfi frá kæranda dags. 24. júní 2003 kom fram að ástæða þess að hann hefði flutt til D-lands rúmum þremur mánuðum áður en skólinn hófst hafi verið til að læra D-tungumálið betur og jafnvel til að vinna í sínu fagi sem G sem hann gerði.

Í yfirlýsingu um nám frá LÍN dags. 23. júní 2003 kom fram að kærandi hefði lokið fullu námi á námsárinu 2002 - 2003.

Kæranda var með bréfi dags. 27. júní 2003 synjað um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna á grundvelli þess að kærandi hafi verið í starfi í D-landi í þrjá mánuði áður en nám hófst og verði því ekki litið svo á að hann hafi flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis. Í sama bréfi var sambýliskonu hans einnig synjað um greiðslu fæðingarstyrk á sama grundvelli. Í bréfinu mun hafa láðst að gera greinarmun á flutningsdegi þeirra og einungis tilgreindur flutningsdagur kæranda þó sambýliskona hans hafi flutt síðar.

Samkvæmt 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar. Þar segir m.a. að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. 

Í 1. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar segir:

"Rétt til fæðingarstyrks á foreldri sem er utan vinnumarkaðar, í minna en 25% starfi eða í námi að því tilskildu að foreldrið hafi átt lögheimili hér á landi við fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og síðustu 12 mánuðina þar á undan. Skilyrði um lögheimili er í samræmi við það búsetuskilyrði sem sett er fyrir rétti til að teljast tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar."

Í 13. gr. reglugerðarinnar segir:

"Tryggingastofnun ríkisins er, þrátt fyrir skilyrði 12. gr., heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Skilyrði samkvæmt ákvæði þessu er að fyrir liggi yfirlýsing frá almannatryggingum í búsetulandi um að foreldri eigi ekki rétt á greiðslum vegna fæðingar, ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur í því ríki.

Ef fyrir hendi er réttur úr almannatryggingum í búsetulandi sem er lakari en sá réttur sem námsmaður á rétt til hér á landi er Tryggingastofnun ríkisins heimilt, þrátt fyrir skilyrði 2. mgr., að greiða mismun sem því nemur."

Í 1. mgr. 12. gr. nr. 909/2000 segir að skilyrði um lögheimili sé í samræmi við það búsetuskilyrði sem sett er fyrir rétti til að teljast tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar. Í I. kafla A.. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 (atl.) er kveðið á um hverjir skuli tryggðir skv. lögunum. Þar segir í 9. gr. a. að sá sem sé búsettur hér á landi teljist tryggður að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna, nema annað leiði af milliríkjasamningum.

Skv. 6. gr. Norðurlandasamnings um almannatryggingar, sbr. lög nr. 46/1993, fellur sá sem er búsettur í norrænu landi undir löggjöf búsetulandsins ef sérstakar ástæður leiða ekki til annars.

Skv. samningi um Evrópska efnahagssvæðið og a-lið 2.mgr. 13. gr. reglugerðar ESB nr. 1408/71 skal einstaklingur sem ráðinn er til starfa í einu aðildarríki heyra undir löggjöf þess ríkis, jafnvel þótt búseta hans sé skráð í öðru aðildarríki.

Í 9. gr. c. atl., sbr. breytingalög nr. 74/2002, er kveðið á um heimild fyrir því að ákveða að einstaklingur sem tryggður er skv. lögunum sé áfram tryggður þótt hann uppfylli ekki skilyrði 9. gr. a. (um búsetu hér á landi) enda dveljist hann erlendis við nám og sé ekki tryggður í almannatryggingum námslandsins. Sama gildi um maka hans og börn undir 18 ára aldri sem með honum dveljast.

Þegar kærandi flutti til D-lands í apríl 2002 og hóf störf þar varð hann þar með tryggður í almannatryggingum þar í landi. Þegar hann hóf síðan nám þar í ágúst 2002 fullnægði hann þannig ekki skilyrðum 9. gr. c. atl. fyrir því að heimilt væri að ákveða að hann væri áfram tryggður hér á landi. Þar af leiðandi uppfyllir hann ekki heldur það skilyrði 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 að hafa flutt lögheimili sitt vegna náms. Það skiptir ekki máli í þessu sambandi hvort tilgangur flutningsins hafi verið að fara síðan í nám.“

  

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 11. febrúar 2004 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust, þar sem kærandi ítrekar kröfur sínar.

  

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks. Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. framangreindrar reglugerðar er réttur námsmanns til fæðingarstyrks bundinn því skilyrði að foreldri hafi átt lögheimili hér við fæðingu barns. Í 1. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins sé, þrátt fyrir 12. gr. heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Barn kæranda fæddist 3. júlí 2003. Samkvæmt gögnum málsins flutti kærandi lögheimili sitt til D-lands 15. apríl 2002. Eftir það starfar hann á vinnumarkaði í D-landi fram til þess að hann hóf nám við E-skólann í D-landi í ágúst 2002. Í gögnum málsins er að finna gögn því til staðfestingar að tilgangur lögheimilisflutnings í apríl 2002 hafi verið tímabundinn flutningur vegna náms þess sem kærandi hóf í ágúst 2002. Samkvæmt því telst hann hafa flutt lögheimili sitt tímabundið vegna námsins og uppfylla skilyrði 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um undanþágu frá lögheimilisskilyrði. Fyrir liggur yfirlýsing þar sem staðfest er að kærandi eigi ekki rétt á greiðslum í D-landi vegna fæðingar barnsins.

Samkvæmt framanrituðu uppfyllir kærandi skilyrði 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um undanþágu frá lögheimilisskilyrði. Staðfest er að hann lauk fullu námi við E-skólann námsárið 2002-2003. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

  

  

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta