Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 58/2003

Þriðjudaginn, 10. febrúar 2004

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

    

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 26. ágúst 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 24. ágúst 2003.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 20. júní 2003 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

    

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Kærandi hefur síðan í apríl 2001 verið búsett í B-landi ásamt sambýlismanni sínum, D, og hefur lögheimili þeirra verið skráð þar. Stundaði kærandi framhaldsnám í lögfræði við E-háskóla og lauk þaðan meistaranámi í F-fræði í júní 2002, en hóf í september 2002 að vinna á Íslandi. Stundaði kærandi vinnu á íslenskum vinnumarkaði fram að fæðingu sonar síns, G, en hann fæddist í E-borg 10. júní 2003, sbr. meðfylgjandi vottorð. Sambýlismaður kæranda stundar framhaldsnám í H-fræði í B-landi.apríl 2003 sótti kærandi um greiðslur í fæðingarorlofi vegna fæðingar drengsins.

Samkvæmt leiðbeiningum Tryggingastofnunar ríkisins var umsóknum samhliða beint til tryggingastofnunarinnar í B-landi og Tryggingastofnunar þar sem óljóst þótti hvorum aðilanum bæri að inna af hendi greiðslur í fæðingarorlofi til kæranda. Með bréfi dagsettu þann 6. maí 2003 hafnaði tryggingastofnunin í B-landi greiðslum í fæðingarorlofi til kæranda. Var greiðslum hafnað á grundvelli þess að kærandi ætti rétt á greiðslum frá Íslandi þar sem hún hefði í tíu mánuði fyrir fæðingu barns síns stundað vinnu hjá íslenskum aðilum og greitt skatta og launatengd gjöld á Íslandi. Um rökstuðning fyrir ákvörðuninni var vísað til 2. mgr. 13. gr. reglugerðar Evrópusambandsins nr. 1408/71/EBE um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja, en þar segir m.a. að launþegi sem ráðinn er til starfa í einu aðildarríki heyri undir löggjöf þess ríkis jafnvel þótt hann búi í öðru aðildarríki.

Tryggingastofnun var þegar í stað sent afrit af bréfi tryggingastofnunar B-lands. Þrátt fyrir það synjaði stofnunin kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði með bréfi dags 20. júní 2003. Um rökstuðning fyrir ákvörðuninni segir í bréfi Tryggingastofnunar: „Af gögnum sem þú hefur lagt fram og staðgreiðsluskrá RSK sést að þú uppfyllir ekki skilyrði um að hafa verið á innlendum vinnumarkaði. Þar sem þú ert búsett og með lögheimili í B-landi átt þú að telja tekjur þínar fram þar og þ.a.l. sækja um greiðslur vegna fæðingarinnar í B-landi.“

Kærandi leitaði til Ríkisskattstjóra vegna ummæla Tryggingastofnunar um að skattur hefði verið ranglega greiddur af launum á Íslandi, en fékk þar þau svör að launatekjur kæranda væru skattskyldar á Íslandi og skattlagðar sem slíkar, sbr. meðfylgjandi vottorð dags 15. ágúst 2003. Þrátt fyrir það hefur Tryggingastofnun ekki viljað endurskoða ákvörðun sína og er kæranda því sú leið ein fær að kæra ákvörðun stofnunarinnar.

  

Málsástæður og lagarök.

Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof er kveðið á um að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Í 1. mgr. 13. gr. er síðan nánar kveðið á um skilyrði fyrir rétti foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þar kemur fram að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr sjóðnum eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Þá skal starfshlutfall ekki vera undir 25% í hverjum mánuði samkvæmt 4. mgr. sömu greinar.

Kærandi uppfyllir öll skilyrði laga um fæðingar- og foreldraorlof til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Kærandi starfaði samfellt í nær tíu mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingu barns hennar þann 10. júní 2003, þ.e. í launuðum störfum hjá íslenskum vinnuveitendum og greiddi tekjuskatt og launatengd gjöld á Íslandi. Þannig starfaði kærandi hjá I í Reykjavík í september-nóvember 2002, fyrir J í desember 2002 og mars 2003 og K í janúar til júní 2003. Af meðfylgjandi útprentun úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra má sjá launagreiðslur til kæranda og staðgreiðslu af launum. Þar hafa þó ekki enn verið færðar inn launagreiðslur frá K fyrir janúar og febrúar, en launaseðlar vegna þeirra mánaða eru meðfylgjandi, stimplaðir af Ríkisskattstjóra til staðfestingar á móttöku. Var starfshlutfall kæranda á tímabilinu aldrei undir 25%.

Þannig verður ekki séð að standist sú fullyrðing Tryggingastofnunar ríkisins að kærandi uppfylli ekki skilyrði um að hafa verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. ákvörðun dags 20. júní 2003.

Til grundvallar ákvörðun Tryggingastofnunar virðist einnig liggja að þar sem kærandi hafi lögheimili í B-landi beri henni þá þegar af þeirri ástæðu að sækja um greiðslur vegna fæðingarinnar í B-landi. Í þessu sambandi er rétt að benda á að samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof er lögheimili á Íslandi ekki skilyrði fyrir rétti til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Um þetta segir í greinargerð með frumvarpi til laga um fæðingar- og foreldraorlof, athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins: „Lagt er til að veita eingöngu foreldrum sem eru þátttakendur á innlendum vinnumarkaði rétt til fæðingar- og foreldraorlofs. Í því sambandi er bæði átt við foreldra sem eru starfsmenn hjá öðrum aðila og þá sem eru sjálfstætt starfandi. Hugtökin „starfsmenn“ og „sjálfstætt starfandi“ eru skilgreind í 7. gr. frumvarpsins. Þetta er ekki breyting frá gildandi fæðingarorlofslögum nr. 57/1987, með síðari breytingum. Í 2. gr. þeirra laga segir: „Foreldrar, sem gegna launuðum störfum og eiga lögheimili á Íslandi, eiga rétt á fæðingarorlofi í allt að sex mánuði...“ Fallið var frá búsetuskilyrðum og er gert nægilegt að viðkomandi starfi á íslenskum vinnumarkaði. Er þetta einkum gert með tilliti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.“ Kemur þarna skýrt fram að það er ekki skilyrði fyrir rétti til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði að viðkomandi hafi lögheimili á Íslandi.

Í ákvörðun Tryggingastofnunar frá 20. júní sl. kemur einnig fram sem rökstuðningur fyrir synjun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði að kæranda beri að telja tekjur sínar fram til skatts í B-landi þar sem hún er búsett þar og hafi þar lögheimili. Ekki er vísað til lagaraka í þessu sambandi. Vegna þessara fullyrðinga hefur kærandi aflað álits Ríkisskattstjóra, sbr. meðfylgjandi vottorð dags 15. ágúst 2003. Þar kemur fram að launatekjur þær sem kærandi hefur haft á Íslandi frá því í september 2002 séu skattskyldar hér á landi og skattlagðar sem slíkar, sbr. 1. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignaskatt og reglugerð nr. 648/1995. Þá kemur einnig fram í vottorðinu að laun kæranda hafi myndað stofn til tryggingagjalds hjá launagreiðendum hennar, sbr. lög nr. 113/1990. Því verður ekki séð að fullyrðingar Tryggingastofnunar um skattlagningu tekna kæranda standist.

Um rökstuðning fyrir réttindum til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er ennfremur vísað til 2. liðar 2. mgr. 13. gr. reglugerðar Evrópusambandsins nr. 1408/71/EBE, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja, sem er hluti af EES-samningnum, en þar segir m.a.: „skal launþegi, sem ráðinn er til starfa í einu aðildarríki, heyra undir löggjöf þess ríkis, jafnvel þótt hann búi í öðru aðildarríki...“ Kemur þarna skýrlega fram að það að kærandi hefur lögheimili í B-landi breytir ekki rétti hennar til greiðslna í fæðingarorlofi á grundvelli þess að hún hefur starfað á íslenskum vinnumarkaði og greitt skatta og launatengd gjöld af tekjum sínum á Íslandi.

Af ofangreindu er ljóst að kærandi á samkvæmt lögum rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og því ber að verða við kröfu hennar.“

Með bréfi, dags. 27. ágúst 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð alþjóðadeildar Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 26. september 2003. Í greinargerðinni segir:

„Að beiðni lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar (TR) er óskað eftir greinargerð frá alþjóðadeild TR í máli þessu þar sem reynir á túlkun reglna í rg. ESB nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja.

Almannatryggingareglur EES samningsins hafa verið birtar í VI. viðauka við EES og hafa einnig verið birtar í íslensku Stjórnartíðindunum. Það er til skoðunar hér hvort kærandi geti fallið undir þær undanþágureglur sem fram koma í 14.-17. gr. rg. ESB nr. 1408/71 sbr. einnig 54. gr. og 64. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993.

Kærandi í máli þessu A er með lögheimili í B-landi frá 18. apríl 2001 og er enn skráð þar með lögheimili skv. gögnum frá Hagstofu Íslands. Kærandi telst þar af leiðandi ekki í sjúkratryggingum á Íslandi sbr. 32. gr. 1. nr. 117/ 1993 þar sem lögheimilisskilyrðinu er ekki fullnægt. Í máli þessu er ekki verið að deila um sjúkrakostnað vegna fæðingar heldur eingöngu um rétt til fæðingarorlofs en mæðravernd og sjúkrakostnaður hefur alfarið lent á búsetulandinu í þessu tilviki B-land, enda er kærandi með fasta búsetu þar og nýtur sjúkratrygginga þar í landi.

Í 1. mgr. 13. gr. rg. ESB nr. 1408/71 kemur fram að þeir einstaklingar sem reglugerðin nái til skuli aðeins heyra undir löggjöf eins aðildarríkis og skal hún ákveðin í samræmi við II. bálk reglugerðarinnar. Undanþágur eru að finna í 14.-17. gr. reglugerðarinnar. Þær reglur kveða á um að launþegar, sjálfstætt starfandi, sjómenn og opinberir starfsmenn geti að uppfylltum skilyrðum óskað eftir áframhaldandi aðild að íslenska almannatryggingakerfinu þrátt fyrir starf á EES svæðinu. Til þess að starfsmaður geti haldið áfram að heyra undir íslenska almannatryggingakerfið verður hann að vera á íslenskum vinnumarkaði áður en hann er sendur út á vegum íslensks vinnuveitanda til starfa á EES svæðinu. M.ö.o þá verður starfsmaðurinn að falla undir íslenska almannatryggingalöggjöf við upphaf útsendingar sbr. ákvörðun framkvæmdaráðs ESB um almannatryggingar nr. 181 er varðar túlkun og framkvæmd rg. ESB nr. 1408/71 og hefur ákvörðun þessi verið birt í EES viðbætinum. Kærandi uppfyllir ekki þau skilyrði sem sett eru um útsenda starfsmenn þar sem hún var námsmaður fyrst og síðan ráðin til starfa í B-landi í beinu framhaldi af námi sínu þar. Skv. upplýsingum sem liggja fyrir í málinu fór vinnan algjörlega fram í B-landi. Engin formleg umsókn hefur borist til Tryggingastofnunar/alþjóðadeildar vegna útgáfu á E 101 IS vegna vinnu kæranda þar sem hægt hefði verið að leiðbeina undir hvaða löggjöf viðkomandi ætti að falla þ.e. B-lensk almannatryggingalöggjöf. Einungis tölvupóstur hefur borist frá kæranda sendur 26.06.2003 s.l. og fyrirspurn frá fæðingarorlofsdeild um hvort kærandi geti hugsanlega átt rétt hér á landi sem útsendur starfsmaður og svör alþjóðadeild um að engin formleg umsókn þess efnis hefði borist alþjóðadeild.

Kærandi hefur sótt um fæðingarorlof frá B-lenskum yfirvöldum en fengið synjun dags. 06.05.2003 s.l. á þeirri forsendu að hún ætti að falla undir íslenska almannatryggingalöggjöf og er vitnað til 2. mgr. 13. gr. rg. ESB nr. 1408/71 því til rökstuðnings. Þeirri ákvörðun hefur ekki verið hnekkt með því að kæra niðurstöðuna til æðra stjórnvalds og er kærufrestur útrunninn. Niðurstaðan virðist byggð á upplýsingum frá kæranda um að hún sé að vinna fyrir íslenskt fyrirtæki, borgi tryggingagjöld til Íslands og að vinnan fari fram á Íslandi. Tryggingastofnun B-lands telji Ísland vera starfslandið sbr. 2. mgr. 13. gr. rg. ESB nr. 1408/71 og að kærandi falli undir lagavalsreglurnar í rg. ESB nr. 1408/71. Hér er því um einhvern misskilning að hálfu B-lenskra aðila að ræða, sem fara með fæðingar- og foreldraorlofsmál þar í landi. Ekki hefur verið leitað eftir áliti þeirra aðila sem hafa yfirumsjón með lagavalsreglum í B-landi varðandi þetta álitaefni en hefði væntanlega verið gert ef málið hefði verið kært í byrjun í B-landi. Ekki skal heldur lagt mat á það hér hvort mál þetta gæti hugsanlega verið endurupptekið að nýju við B-lensk yfirvöld, þegar ákveðnum reglum hefur ekki verið nægilega framfylgt.

Vinnulandið er B-land þar sem vinnan fór fram og telst þar af leiðandi hið lögbæra land sbr. 2. mgr. 13. gr. a í rg ESB nr. 1408/71. Launþegi fær ákveðinn rétt þegar hann er á vinnumarkaði jafnframt því sem ákveðnar skyldur eru lagðar á hann varðandi skráningu hjá almannatryggingaskrifstofu þar sem viðkomandi er búsettur til þess að geta notið fullrar almannatryggingaverndar.

Með vísan til þess sem að ofan greinir getur alþjóðadeild TR ekki fallist á að kærandi falli undir þær undanþágureglur sem fram koma í 14.-17. gr. rg. ESB nr. 1408/71.“

  

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 27. október 2003. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn dags 17. apríl 2003 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði vegna væntanlegrar fæðingar barns 13. júní 2003. Í bréfi frá henni dags 25. apríl gerði hún grein fyrir því að hún hefði haft lögheimili í B-landi frá því í apríl 2001, stundað nám þar í landi þar til í júní 2002 og að síðan í september 2002 hefði hún starfað hjá íslenskum aðilum. Með bréfinu fylgdu 2 launaseðlar frá J, þ.e. annars vegar launaseðill fyrir nóvember-desember 2002 og hins vegar launaseðill vegna yfirvinnu til 31. mars 2003, og launaseðlar frá K fyrir janúar, febrúar og mars 2003. Síðan barst frá henni símbréf um að hún hefði fengið synjun á greiðslum í fæðingarorlofi í B-landi þar sem hún er búsett ásamt synjunarbréfi þaðan. Fylgdi þar með launaseðill fyrir aprílmánuð 2003.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags 20. júní 2003 var kæranda synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs (fæðingardag barns).

Lífeyristryggingasviði hefur borist greinargerð alþjóðadeildar, dags 26. september 2003. Þar koma að öðru leyti fram þau sjónarmið sem Tryggingastofnun hefur fram að færa í máli þessu.“

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 3. nóvember 2003 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 14. nóvember 2003, þar segir m.a.:

„Hugtakið innlendur vinnumarkaður er hvorki skilgreint í lögum um fæðingar- og foreldraorlof né í greinargerð með frumvarpi til laganna eða öðrum lögskýringargögnum. Eðlilegt er að starfsmaður teljist vera á innlendum vinnumarkaði þegar hann starfar fyrir íslenska aðila og greiðir tekjuskatt á Íslandi af launatekjum sínum og launin mynda stofn til tryggingagjalds hjá launagreiðendum, sbr. lög nr. 113/1990, en samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof er Fæðingarorlofssjóður einmitt fjármagnaður með tryggingagjaldi auk vaxta af innistæðufé sjóðsins. Kærandi uppfyllir þessi skilyrði, en eins og fram kemur í kæru, dags. 24. ágúst 2003, starfaði kærandi samfellt í nær tíu mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingu barns hennar, þann 10. júní 2003. Á umræddu tímabili var kærandi í launuðum störfum hjá íslenskum vinnuveitendum og fór vinnan fram ýmist á Íslandi eða í B-landi. Greiddi kærandi tekjuskatt og launatengd gjöld á Íslandi. Má skýrt sjá þetta af endurriti úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og afriti af launaseðlum sem fylgdu kærunni. Starfshlutfall kæranda á tímabilinu var aldrei undir 25%.“

     

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. 

Mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.

Með samfelldu starfi er átt við að foreldri þurfi að hafa verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. 

Í 1. gr. ffl. segir að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Þau eigi við um foreldra sem séu starfsmenn eða sjálfstætt starfandi. Samkvæmt lögunum er það ekki gert að skilyrði fyrir greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði að foreldri hafi átt lögheimili á Íslandi á viðmiðunartímabilinu. Ágreiningur í máli þessu varðar því það álitaefni hvort kærandi uppfylli skilyrði um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Barn kæranda er fætt 10. júní 2003. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 10. desember 2002 til fæðingardags barns. Kærandi lauk framhaldsnámi í lögfræði við E-háskóla og lauk þaðan meistaranámi í F-fræði í júní 2002. Hún hóf störf hjá I ehf. í september 2002, þar sem hún starfaði fram í nóvember sama ár. Þá starfaði hún hjá J í desember 2002 og í mars 2003 svo og hjá K í janúar til og með júní 2003. Kærandi kveður vinnuna hafa farið fram ýmist á Íslandi eða í B-landi og að stærstum hluta um að ræða verkefni þess eðlis að sá staður sem unnið var á hafði ekki þýðingu fyrir vinnuna eða vinnuveitanda.

Í gögnum málsins er yfirlit yfir staðgreiðslu skatta vegna framangreinds tímabils, en þar koma fram skil á staðgreiðslu skatta af launum kæranda frá því í september 2002 til og með júní 2003. Þá er staðfest með vottorði ríkisskattstjóra 15. ágúst 2003 að kærandi hafi haft laun frá íslenskum launagreiðendum meðan á dvöl hennar í B-landi hafi staðið. Launatekjur hennar séu skattskyldar hér á landi og skattlagðar sem slíkar. Þá kemur þar fram að launatekjur kæranda hafi myndað stofn til tryggingagjalds hjá launagreiðendum hennar, sbr. lög nr. 113/1990 með síðari breytingum.

Með hliðsjón af því sem fram er komið um störf kæranda og launatekjur uppfyllir kærandi að mati úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála það skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. að hafa verið í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Með hliðsjón af því er eigi tilefni til að taka afstöðu til ákvæða reglugerðar Evrópusambandsins nr. 1408/71 í máli þessu. 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er hafnað. Greiða ber kæranda greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði með hliðsjón af 2. mgr. 13. gr. ffl. 

  

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er hafnað. Greiða ber kæranda greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. 

  

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta