Þurfum að rannsaka handritin og kynna börnin okkar fyrir þeim
„Handritin eru mikilvægur hluti menningararfleifðar okkar sem nauðsynlegt er að viðhalda og miðla - og þar eru tækifæri til að gera betur. Við þurfum að rannsaka handritin og kynna börnin okkar fyrir þeim og komandi kynslóðir,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra sem ræddi við þátt danska ríkisútvarpsins, Deadline, í vikunni um áherslur sínar á að fá fleiri íslensk handrit til Íslands frá Danmörku og hvatningu hennar til danskra stjórnvalda að sinna rannsóknum á handritunum betur.
Ráðherra hefur lagt mikla áherslu á mikilvægi þess að auka veg og virðingu menningararfsins, að sýna handritin, ræða þau og rannsaka. Um 700 handrit eru í vörslu á söfnum í Danmörku, en sáttmáli var gerður um vörslu þeirra árið 1965 milli Íslands og Danmerkur.
Hægt er að horfa á viðtalið hér - en innslagið hefst á 19. mínútu.
Viðræður eru nú í gangi milli ríkjanna um aukna samvinnu og framtíðarsýn um þau íslensku handrit sem enn eru hýst í Danmörku. Starfhópur á vegum ráðherra og danskra stjórnvalda mun skila niðurstöðum á fyrri hluta þessa árs.
„Við verðum að gera þetta í sameiningu á vettvangi starfshópsins sem nú er að störfum og að Ísland fái þannig handritin til sín að láni til langs tíma. Við erum að byggja nýtt safn, Hús íslenskunnar, þar sem lögð verður enn meiri áhersla á rannsóknir og að handritin séu til sýnis,“ sagði Lilja.