Mannanafnanefnd, úrskurðir 26. febrúar 2003
Þann 26. febrúar 2003, var fundur haldinn í Mannanafnanefnd. Fundinn sátu Andri Árnason, formaður, Guðrún Kvaran og Margrét Jónsdóttir.
Eftirtalin mál voru tekin til afgreiðslu:
Mál nr. 6/2003
Eiginnafn: Árvin (kvk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Síðari liður nafnsins Árvin hefur karlkynsendingu (-vin). Fer það því gegn almennum nafnritunarreglum íslensks máls að taka nafnið á mannanafnaskrá sem stúlkunafn, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn, sem kveður á um að stúlku skuli gefa kvenmannsnafn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Árvin er hafnað.
Mál nr. 7/2003
Eiginnafn: Pétrún (kvk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Eiginnafnið Pétrún tekur eignarfallsendingu (Pétrúnar) og telst að öðru leyti fullnægja 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Pétrún er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá.
Mál nr. 8/2003
Eiginnafn: Enrique (kk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Nafnið Enrique telst hvorki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls né hefur það unnið sér hefð í íslensku, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Beiðni um eiginnafnið Enrique er því hafnað. Rétt er að taka fram að nefndin lítur svo á að í beiðni til nefndarinnar sé eingöngu leitað eftir afstöðu nefndarinnar til eiginnafnsins Enrique.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Enrique er hafnað.
Mál nr. 9/2003
Breyting á rithætti: Ulf verður Úlf (kk.)
Úlf telst ekki ritað í samræmi við almennar nafnritunarreglur íslensks máls og hefur nafnið ekki unnið sér hefð í íslensku. Meginregla íslensks máls er að nöfn séu ekki án endingar, nema að hefð sé fyrir slíkum rithætti. Beiðni um breytingu á rithætti eiginnafns úr Ulf í Úlf er hafnað.
Úrskurðarorð:
Beiðni um breytingu á rithætti úr Ulf í Úlf er hafnað.
Mál nr. 10/2003
Aðlögun kenninafns: Ilias verður Elíasdóttir
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Með bréfi Hagstofu Íslands, þjóðskrár, dags. 12. febrúar 2003 var óskað úrskurðar mannanafnanefndar um beiðni um aðlögun kenninafns að erlendu eiginnafni föður og að kenninafn verði Elíasdóttir auk ættarnafnsins.
Með vísan til heimildar í 4. mgr. 8. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn, um aðlögun kenninafna sem dregin eru af erlendum eiginnöfnum, er fallist á ofangreinda beiðni.
Úrskurðarorð:
Ofangreind beiðni um aðlögun kenninafns að erlendu eiginnafni föður, Elíasdóttir, er tekin til greina.
Mál nr. 11/2003
Eiginnafn: Tóbías (kk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Eiginnafnið Tóbías tekur eignarfallsendingu (Tóbíasar) og telst að öðru leyti fullnægja 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Verður nafnið fært á mannanafnaskrá sem ritmynd eiginnafnsins Tobías.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Tóbías er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá.
Mál nr. 12/2003
Eiginnafn/millinafn: Finngálkn
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Finngálkn er hvorkynsorð. Almennar reglur um eiginnöfn eru að nöfn skuli vera karlkynsorð eða kvenkynsorð, nema að hefð sé fyrir öðru, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannnöfn. Verður orðið ekki tekið á mannanafnaskrá sem eiginnafn.
Millinöfn geta verið hvorkynsorð. Orðið Finngálkn er notað um furðusagnakvikindi sem er afkvæmi tófu og kattar. Skv. 5. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996 skulu millinöfn ekki vera þannig að þau geti orðið nafnbera til ama. Samkvæmt 22. gr. laganna skal mannanafnanefnd semja skrá um eiginnöfn og millinöfn sem heimil teljast samkvæmt 5. og 6. gr. laganna, svonefnda mannanafnaskrá. Við mat á því hvort nafn skuli tekið á mannanafnaskrá ber að taka tillit til skilyrða tilgreindra ákvæða, 5. og 6. gr., þ.m.t. hvort nafn sé líklegt til að vera nafnbera til ama. Verður þá að líta til þess hvort notkun nafnsins sé almennt líkleg til að valda nafnbera ama, og í því sambandi hvort nöfn teljist almennt ósiðlegt, niðrandi eða meiðandi. Að mati mannanafnanefndar er merking orðsins Finngálkn þess eðlis að hún falli undir að vera niðrandi og meiðandi fyrir nafnbera. Telur nefndin ekki rétt að orðið Finngálkn sé tekið á mannanafnaskrá sem millinafn. Beiðni um millinafnið Finngálkn er því hafnað.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eigin-/millinafnið Finngálkn er hafnað.
Mál nr. 13/2003
Eiginnafn: Lily (kvk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Eiginnafnið Lily telst hafa unnið sér hefð sem eiginnafn í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Lily er tekið á mannanafnaskrá.
Mál nr. 14/2003
Eiginnafn: Sigurnýjas (kk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Eiginnafnið Sigurnýjas tekur eignarfallsendingu (Sigurnýjasar) og telst að öðru leyti fullnægja 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Sigurnýjas er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá.
Mál nr. 15/2003
Eiginnafn: Sigurnýas (kk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Eiginnafnið Sigurnýas tekur eignarfallsendingu (Sigurnýasar) og telst að öðru leyti fullnægja 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Skal Sigurnýas tekið á mannanafnaskrá sem ritmynd eiginnafnsins Sigurnýjas.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Sigurnýas er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá sem ritmynd af eiginnafninu Sigurnýjas.
Fleira ekki gert.
Fundi slitið.