Úrræði fyrir námsmenn sem misst hafa vinnuna
Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi framlengt umsóknarfrest sjóðsins vegna yfirstandandi vorannar til 30. apríl nk. Upplýsingar um framfærslu sjóðsins er að finna á heimasíðu hans. Vakin er athygli á því að nýverið hækkaði frítekjumark námsmanna umtalsvert og fyrir skólaárið 2019/2020 nemur það 1.330.000 kr.
Hægt er að óska eftir viðtali í síma eða á skrifstofu Lánasjóðs íslenskra námsmanna hjá sérstökum ráðgjafa sjóðsins í málefnum þeirra sem nýverið misst hafa vinnuna.
Fram kemur á vef Vinnumálastofnunar að námsmenn eigi rétt á greiðslum úr Ábyrgðasjóði launa, bæði vegna vangoldinna launa og launa sem greidd eru vegna uppsagnarfrests. Námsþátttaka hefur því ekki áhrif á endanlegt uppgjör á launakröfum hjá Ábyrgðasjóðnum.
Þar er einnig bent á að nemendur í fullu námi geti sótt um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar önn þeirra lýkur í vor. Annars er atvinnuleitendum heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ETCS-einingum á önn án skerðingar á slíkum bótum.