Umsagnarfrestur um drög að heilbrigðisstefnu liðinn
Alls bárust 27 umsagnir um drög að heilbrigðisstefnu sem birt var til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Umsagnarfrestur rann út í gær.
Umsagnir bárust frá heilbrigðisstofnunum og menntastofnunum, fagfélögum, sjúkingasamtökum, sveitarfélögum og einstaklingum og eru þær aðgengilegar þeim sem vilja kynna sér þær í samráðsgáttinni. Unnið verður úr umsögnunum í ráðuneytinu á næstu vikum og lokahönd lögð á heilbrigðisstefnuna sem heilbrigðisráðherra mun leggja fyrir Alþingi sem tillögu til þingsályktunar á vorþingi. Á grundvelli stefnunnar verða unnar aðgerðaáætlanir til fimm ára um einstaka þætti stefnunnar og einstakar greinar heilbrigðisþjónustunnar.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist þakklát öllum þeim sem hafa lagt sitt af mörkum við stefnumótunarvinnuna og miðlað af þekkingu sinni, reynslu og metnaði til þess að efla heilbrigðiskerfið og bæta þjónustu þess til skemmri og lengri tíma: „Heilbrigðisstefnan á að vera leiðarljós sem sameinar krafta þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu og tryggir sjúklingum bestu þjónustu sem völ er á, þar sem öryggi, gæði og jöfnuður eru í fyrirrúmi. Ég er bjartsýn á að nú muni takast að ljúka við gerð heilbrigðisstefnu til ársins 2030 í góðri og almennri sátt, að hún verði skjal sem samfélagið sé sammála um og alþingi getur lokið í þverpólitískri sátt og sem síðar verði vinnuskjal margra heilbrigðisráðherra.“