Hoppa yfir valmynd
22. september 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 391/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 22. september 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 391/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22090028

 

Beiðni um endurupptöku í máli [...]

 

I.       Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 148/2022, dags. 31. mars 2022, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. febrúar 2022, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir kærandi) um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 4. apríl 2022. Hinn 11. apríl 2022 lagði kærandi fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar. Hinn 20. apríl 2022 synjaði kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa í máli hans með úrskurði kærunefndar nr. 180/2022. Hinn 13. september 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Kærandi sótti um endurupptöku málsins ásamt eiginkonu sinni og börnum auk uppkomins sonar síns og voru mál fjölskyldunnar unnin samhliða. Fjallað er um beiðni þeirra um endurupptöku í úrskurði kærunefndar nr. 386/2022 og 387/2022. Í ljósi frásagnar kæranda og skýrslna um viðtökuríki taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa kæranda eða talsmanni hans kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

Af beiðni kæranda um endurupptöku má ráða að hún sé byggð á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur m.a. fram að fyrir liggi ákvörðun sænskra yfirvalda um að vísa kæranda og börnum hans frá Svíþjóð þrátt fyrir að þau hafi verið búsett þar í sjö ár, börnin hafi alist þar upp, tali sænsku og hafi aðlagast sænsku samfélagi. Þá vísar kærandi til þess að hann hafi flúið heimaríki sitt vegna þess að hann hafi talið að lífi sínu væri ógnað þar í landi. Kærandi fjallar um ástandið í heimaríki þeirra og vísar til þess að í apríl hafi markviss stríðsrekstur Tyrkja á hendur Kúrdum í landamærahéruðum Tyrklands, Sýrlands og Íraks hafist að nýju. Þá hafi verið væringar á milli Kúrda í Tyrklandi og Sýrlandi annars vegar og í Írak hins vegar og innbyrðis séu einnig átök. Kærandi vísar til þess að hann hafi flúið hættuástand og sú hætta hafi aukist síðan kærunefnd komst að niðurstöðu í máli hans.

Þá vísar kærandi til jafnræðis og telur að mál hans skuli meta með tilliti til niðurstöðu kærunefndar í málum frá tilteknu Suður-Ameríkuríki sem hafi verið til afgreiðslu hjá nefndinni.

Þá fer kærandi fram á að mæta fyrir nefndina og færa nánari rök fyrir málaleitan sinni.

III.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda 31. mars 2022. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsókna kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi reisir beiðni sína um endurupptöku m.a. á því að hann telji að kærunefnd beri að endurskoða fyrri ákvörðun þar sem kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni hjá sænskum yfirvöldum og nú ríki stríðsástand í heimaríki hans.

Líkt og fram kemur í úrskurði kærunefndar, dags. 31. mars 2022, telur kærunefnd að í viðtökuríki sé veitt raunhæf vernd gegn því að fólki sé vísað brott eða það endursent til ríkja þar sem einstaklingar eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum eða þar sem lífi þeirra og frelsi er ógnað (non-refoulement), sbr. IV. kafla sænsku útlendingalaganna (s. Utlänningslagen 2005:716). Í því sambandi hefur kærunefnd einkum litið til þess að þær skýrslur og gögn sem nefndin hefur kynnt sér benda til þess að meðferð stjórnvalda í viðtökuríki á umsóknum um alþjóðlega vernd sé með þeim hætti að lagt sé einstaklingsbundið mat á aðstæður einstaklinga. Þá hafi umsækjendur um alþjóðlega vernd möguleika á að fá ákvarðanir um synjun verndar endurskoðaðar af sænskum yfirvöldum. Kærunefnd telur að gögn málsins beri með sér að í Svíþjóð sé veitt raunhæf vernd gegn því að fólki sé vísað brott eða endursent til ríkja þar sem það eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum eða þar sem líf þess eða frelsi sé ógnað. Að öðru leyti vísast til rökstuðnings nefndarinnar í úrskurði, dags. 31. mars 2022, nr. 148/2022, hvað þessa málsástæðu varðar.

Þá vísar kærandi til jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar með tilliti til niðurstöðu kærunefndar í málum frá tilteknu Suður-Ameríkuríki sem hafi verið til afgreiðslu hjá nefndinni. Kærunefnd telur að ekki sé hægt að jafna stöðu umsækjenda frá Venesúela við aðstæður kæranda í þessu máli enda eru málin efnislega ólík og afgreidd á ólíkum lagagrundvelli en mál þetta snýst um hvort unnt sé að endursenda kæranda til Svíþjóðar á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (Dyflinnarreglugerðin).

Í ljósi framangreinds er því ekki fallist á að atvik hafi breyst verulega í máli kæranda á þann hátt að hann eigi rétt á endurupptöku á máli sínu, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.


 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The appellant‘s request to re-examine the cases is denied.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                 Sandra Hlíf Ocares


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta