Mál nr. 43/2024. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.
Úrskurður kærunefndar útboðsmála 17. mars 2025
í máli nr. 43/2024:
T.ark Arkitektar ehf.
gegn
Isavia ohf.
Lykilorð
Reglugerð nr. 340/2017. Rammasamningur. Bindandi samningur.
Útdráttur
I auglýsti útboð á rammasamningi hönnuða. T gerði tilboð í tiltekinn hluta rammasamningsins en tilboðinu var hafnað á þeim grundvelli að T hefði ekki gert tilboð í alla hæfisflokka tiltekins fagsviðs, sem hefði verið ófrávíkjanleg krafa útboðsgagna. T kærði þá ákvörðun til kærunefndar útboðsmála. Í niðurstöðu nefndarinnar var tekið fram að fyrir lægi að kominn væri á bindandi samningur milli bjóðenda og I á grundvelli hins kærða útboðs, sem ekki yrði felldur úr gildi, sbr. 1. mgr. 114. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Var kröfu T því hafnað.
Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 8. nóvember 2024, sbr. leiðrétt kæra dags. 11. nóvember 2024, kærði T.ark Arkitektar ehf. (hér eftir „kærandi“) ákvörðun Isavia ohf. (hér eftir „varnaraðili“) að hafna tilboði kæranda í útboði nr. U24001 auðkennt „Rammasamningur hönnuða RSH24“.
Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði félagsins og leyfi kæranda að skila aftur inn skjali sem annmarkar voru á.
Varnaraðila var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Varnaraðili krefst þess í greinargerð sinni 26. nóvember 2024 að kröfu kæranda verði hafnað.
Kærandi lagði fram lokaathugasemdir sínar 2. desember 2024.
Kærunefnd útboðsmála óskaði eftir upplýsingum frá varnaraðila 10. mars 2025 um hvort kominn væri á bindandi samningur milli varnaraðila og bjóðenda í sama fagsviði og kærandi gerði tilboð í. Varnaraðili svaraði beiðni kærunefndar 11. mars 2025 og upplýsti um að kominn væri á bindandi samningur milli aðila.
I
Varnaraðili auglýsti hið kærða útboð 4. júlí 2024 innanlands og á Evrópska efnahagssvæðinu. Um var að ræða útboð á rammasamningi en í grein 0.1.1.5 í útboðsgögnum kom fram að gert væri ráð fyrir að allir bjóðendur sem uppfylltu hæfiskröfur yrðu aðilar að rammasamningi í þeim fagsviðum sem þeir sæktu um. Í verklýsingu útboðsins var nánar fjallað um fagsviðin og kom þar fram að í rammasamningnum væru þrír yfirflokkar, þ.e. „Byggingar og almenn útisvæði“, „Útisvæði á flugvelli“ og „Annað“, sbr. grein 1.1.3 í verklýsingu. Í hverjum yfirflokki væru svo fjöldi fagsviða, svo sem fram kom í tilboðsbók útboðsins.
Í grein 0.2.6 var fjallað um kröfur til tæknilegrar og faglegrar getu bjóðenda. Í grein 0.2.6.2 kom fram að bjóðandi skyldi með tilboðsgögnum sýna fram á að hann uppfyllti tilteknar lágmarkskröfur og voru kröfurnar útlistaðar nánar undir orðunum „Tæknileg geta bjóðanda (fyrirtæki)“. Í greininni var nánar rakið að bjóðendur í yfirflokknum byggingar og almenn útisvæði skyldu sýna fram á reynslu sína af að minnsta kosti einu verkefni sambærilegu að stærð og flækjustigi á síðastliðnum 10 árum. Verkefni sambærilegt að stærð væri umfram 5000 fermetra og verkefni sambærilegt að flækjustigi væri til dæmis hönnun á byggingu sem var í fullum rekstri á meðan framkvæmdum stóð, þ.e.a.s. starfsemi í viðkomandi byggingu raskaðist ekki á framkvæmdatíma, þar sem nauðsynlegt var að fasaskipta hönnun og framkvæmd, þar sem yfirsýn ráðgjafa skipti sköpum til þess að hönnun lyki innan þröngs tímaramma. Þá kom fram í grein 0.2.6.3 að tilboði bjóðanda sem ekki uppfyllti lágmarkskröfur um tæknilega og faglega getu yrði hafnað.
Í grein 0.3.1.1 var tekið fram að tilboð skyldu sett fram samkvæmt tilboðsbók, útboðslýsingu, fyrirmælum á útboðsvef verkkaupa og vefsíðu fyrir gæðamat. Bjóðandi skyldi í tilboði sínu gera ráð fyrir öllum kostnaði sem til kynni að falla samkvæmt útboðsgögnum. Í grein 0.3.1.2 kom fram að bjóðandi skyldi fylla út alla liði í tilboðsskrá þeirra fagsviða sem hann hygðist bjóða í sem sé hluti af útboðsgögnum. Bjóðandi skyldi bjóða í alla hæfisflokka innan fagsviðs, en að öðrum kosti áskildi verkkaupi sér rétt til að vísa tilboðinu frá.
Í grein 0.5 komu fram valforsendur í hinu kærða rammasamningsútboði. Í grein 0.5.1.1 var tekið fram að hefði bjóðandi ekki skilað öllum umbeðnum gögnum ætti hann á hættu að verkkaupi myndi ekki skoða tilboð hans frekar og það yrði metið ógilt. Tilboð bjóðanda sem uppfyllti kröfur verkkaupa yrði metið á grundvelli valforsendna. Í grein 0.5.1.2 kom fram að tilboð bjóðenda yrði metið m.t.t. þess hvort bjóðandi uppfyllti lágmarkskröfur sem gerðar væru til hæfis í grein 0.2.1 og undirgreinum hennar. Hefði bjóðandi ekki uppfyllt lágmarkskröfur verkkaupa yrði tilboð metið ógilt. Uppfyllti tilboð lágmarkskröfur myndi mat á þætti A – Gæði tilboðs, þætti B – Fjárhagslegt tilboð bjóðanda, þætti C – Sjálfbærni, D – Gæðakerfi og þætti D – Stjórnun teymis fara fram samkvæmt matslíkani. Það ætti við um öll fagsvið nema „Aðra ráðgjöf“, þar sem verð myndi gilda 100%. Þá kom fram í grein 0.5.1.4 að verkkaupi áskildi sér rétt til að óska skriflegra skýringa við einstök atriði tilboðs, teldi hann þörf á, og í grein 0.5.1.5 að verkkaupi áskildi sér rétt til að láta minni háttar vöntun eða formannmarka á fylgigögnum með tilboði ekki hafa áhrif á gildi tilboða, enda hefði vöntunin eða annmarkinn að mati verkkaupa ekki áhrif á tölulega niðurstöðu tilboðs, jafnræði bjóðenda yrði ekki raskað og ógildi tilboð fæli í sér strangari ákvörðun en nauðsynlegt væri vegna eðlis og umfangs annmarkans.
Í grein 0.5.1.6 var gerð grein fyrir matslíkani. Þar kom fram að þáttur A – Gæði tilboðs myndi gilda 55% og þáttur B – Fjárhagslegt tilboð bjóðanda myndi gilda 30%. Aðrir þættir, þ.e. C – Sjálfbærni, D – Gæðakerfi og E – Stjórnun teymis, myndi gilda 5% hver. Þá kom fram í grein 0.5.2.5 að þegar hæfi einstakra starfsmanna hefði verið metið þá yrðu gæðastig hönnunarteymis bjóðanda lögð saman út frá vægi hvers hæfisflokks. Nánari skýringu á gildi hæfisflokka kæmi fram í fylgiskjali D með útboðsgögnum. Þá kom fram í grein 0.5.2.7 að ekki væri gerð krafa um að ferilskrám yrði skilað fyrir tækniteiknara, nýliða, aðila sem sinnti hlutverki BIM-RE eða fyrir flokkinn „Önnur ráðgjöf“.
Bjóðendum var gert að fylla inn tilboðsbók í samræmi við þá liði sem þeir hygðust gera tilboð í. Samkvæmt henni féllu arkitektar undir yfirflokkinn „Byggingar og almenn útisvæði“ og bar bjóðendum að fylla inn liði Q1, Q2 og Q3. Að auki var tekið fram að fylla skuli inn tilboð í reiti sem bera heitið „Tækniteiknari“; „BIM-RE“ og „Nýliði“.
Með bréfi, dagsettu 24. október 2024, tilkynnti varnaraðili að tilboði kæranda hefði verið hafnað. Það væri niðurstaða varnaraðila að mat á tilboðinu hafi leitt í ljós að ófrávíkjanleg krafa um gerð og frágang tilboðs í grein 0.3.1.2, um að bjóðandi skyldi bjóða í alla hæfisflokka innan fagsviðs, væri ekki uppfyllt og vísaði varnaraðili til þess að ekki hafi verið boðið tímaverð í vinnu tækniteiknara, BIM-RE og nýliða. Væri tilboðið því ógilt og því hafnað.
Með bréfi 11. desember 2024 upplýsti varnaraðili bjóðendur um að búið væri að velja tilboð í útboðinu. Þá var í niðurlagi bréfsins leiðbeint um kæruheimild og biðtíma samningsgerðar, og jafnframt tekið fram að kæra í máli þessu hefði ekki varðað val á tilboði né borist innan biðtíma og hefði því ekki haft í för með sér sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar.
II
Kærandi byggir kröfu sína á því að hvergi í útboðsgögnum fáist séð að krafa sé gerð um tækniteiknara, BIM-RE og nýliða. Aðeins sé minnst á að ekki sé gerð krafa um að ferilskrá sé skilað fyrir þessa aðila í grein 0.5.2.7 í útboðsgögnum en hvergi annars staðar. Í fylgiskjali D með útboðsgögnum megi sjá að aðeins hæfisflokkarnir Q1, Q2 og Q3 komi til mats á tilboði frá arkitektum og út frá því hafi kærandi talið þetta einu gildu flokkana og hafi ekki leitað lengra í útfyllingu tilboðsbókar. Þá hafi annmarkar verið á uppsetningu á fylgiskjali A, þ.e. tilboðsbók, en magnskrárflipi nr. 9 hafi ekki verið rétt sniðinn til birtingar og hafi magnskráin opnast aðeins eins og um eina síðu væri að ræða. Tryggja hefði átt að báðar síður væru sýnilegar við opnun umrædds flipa og notanda þannig gert ljóst að um tvær útfyllingarsíður væri að ræða. Vegna þessa og sökum óljósra krafna um framboð starfsfólks umfram gilda flokka sem kæmu til mats á tilboði hafi kæranda láðst að fylla út seinni blaðsíðu magnskrárinnar. Þessu til viðbótar verði að teljast að það sé lágmarksskylda verkkaupa að yfirfara innlögð tilboð m.t.t. formgalla og gefa bjóðendum færi á leiðréttingum áður en niðurstaða sé tilkynnt. Slíkt sé í anda meðalhófs og í samræmi við upplýsingalög, enda sé opinberum aðilum að öðrum kosti gefið tækifæri til að sigta út bjóðendur með villandi eða óljósum skilmálum og mögulega skekkja samkeppnisstöðu. Nauðsynlegt sé að kærunefnd útboðsmála tryggi að ekki sé farið á svig við útboðsreglur með slíkri misbeitingu skilmála og útboðsferilsins. Þá bendir kærandi á að líta megi á villuna við útfyllingu magnskrárinnar sem minniháttar frávik sem rýri ekki gildi tilboðsins og fari ekki gegn ákvæðum greinar 0.5.1.5 í útboðsgögnum. Óski kærandi þess því að fá að skila útfylltri tilboðsskrá aftur inn.
Í lokaathugasemdum sínum bendir kærandi á að kæran sé byggð á því að gögn séu villandi og óljós annars vegar, og hins vegar að heimildum bjóðenda til að leiðrétta villur samkvæmt 4. mgr. 77. gr. reglugerðar nr. 340/2017 hafi ekki verið beitt. Það sé óhófleg stífni og ekki í anda meðalhófs eða góðra viðskiptahátta. Það sé eðlileg fyrsta ósk kæranda að fá að skila inn gögnum, en sé sú vægari lausn ekki í boði sé eðlilegt að ógilda útboðið sökum villandi og ófullnægjandi gagna. Þá ítrekar kærandi að í svo stóru og yfirgripsmiklu útboði verði tilboðsbók að vera auðlæsileg og í útboðsgögnum ætti ekki að fara á milli mála hverju eigi að skila. Bendir kærandi á að óljósar upplýsingar um vinnu tækniteiknara, BIM-RE og nýliða séu í útboðsgögnum og þær séu jafnframt dreifðar yfir mismunandi fylgiskjöl, skilmála og tilboðsbók. Kærandi hafi sent inn fyrirspurn til varnaraðila og óskað eftir upptalningu allra gagna sem skila ætti á útboðsvef varnaraðila. Varnaraðili hafi svarað beiðninni og vísað til greinar 0.3.2 og 0.3.3, og jafnframt hafi verið bent á að skila ætti matspurningum C1, D1 og E1 með tilboðsskrá. Ekki hafi verið tilgreint að einnig hafi átt að skila inn skuldleysisvottorði, staðfestingu lífeyrissjóðs, ársreikningi og vottorði úr fyrirtækjaskrá. Hafi svar varnaraðila við fyrirspurn kæranda því verið ábótavant.
Kærandi andmælir einnig þeim sjónarmiðum varnaraðila að misskilnings hafi gætt við túlkun eða þýðingu fylgiskjals D. Ljóst sé að kærandi hafi skilað inn gögnum vegna allra þátta samkvæmt grein 0.5.1.6 í útboðs- og samningsskilmálum og það megi augljóst vera að um sé að ræða fjárhagslegt tilboð kæranda þar sem tekist sé á um útfyllingu tilboðsbókar. Í fylgiskjali D sé tafla sem sýni hæfisflokka Q1-Q16, en glögglega megi sjá að aðeins Q1, Q2 og Q3 komi til skoðunar við mat á tilboðum í arkitektúr. Kærandi andmæli einnig ásökunum varnaraðila um að búa ekki yfir nægri tölvuþekkingu og færni til þess að yfirfara og skila rafrænum útboðsgögnum. Loks bendir kærandi á að um sé að ræða skort á innslætti í þrjá dálka í tilboðsbók, sem einungis hafi áhrif á einn matsþátt sem reiknaður sé út á einfaldan hátt. Slík villa hljóti að falla undir heimildina í grein 0.5.1.5, sbr. 4. mgr. 77. gr. reglugerðar nr. 340/2017. Ef slík villa falli ekki undir heimildina þá verði ekki séð undir hvaða kringumstæðum hún eigi við. Hér sé um augljósa villu að ræða og lítinn hluta þáttar B sem gildi 30% í heildarmati tilboðs og ógilding tilboðs feli augljóslega í sér strangari ákvörðun en nauðsynlegt sé vegna eðlis og umfangs annmarkans.
III
Varnaraðili bendir á að það sé ekki á valdsviði kærunefndar útboðsmála að mæla fyrir heimild kæranda til þess að skila inn lagfærðu skjali, svo sem kærandi krefjist. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna þeim hluta af kröfu kæranda.
Þá vísar varnaraðili til þess að kærandi hafi ekki boðið í vinnu tækniteiknara, BIM-RE og nýliða. Það sé rangt hjá kæranda að útboðsgögnin hafi ekki gert kröfu um að bjóðendur skyldu gera tilboð í vinnu tækniteiknara, BIM-RE og nýliða. Í þessum efnum vísar varnaraðili til þess að í grein 0.3.1.1 hafi komið fram að tilboð skyldu sett fram samkvæmt tilboðslýsingu, útboðslýsingu, fyrirmælum á útboðsvef verkkaupa og vefsíðu fyrir gæðamat, og skyldi bjóðandi gera í tilboði sínu ráð fyrir öllum kostnaði sem kunni að falla samkvæmt útboðsgögnum. Í grein 0.3.1.2 hafi komið fram að bjóðandi skyldi fylla út alla liði í tilboðsskrá þeirra fagsviða sem hann hyggist bjóða í, þ.e. í alla hæfisflokka innan fagsviðs, en að öðrum kosti áskilji verkkaupi sér rétt til að vísa tilboðinu frá. Í grein 5.1.1 í verklýsingu fyrir rammasamning hönnuða, sem hafi verið á meðal útboðsgagna, hafi komið fram að þóknun ráðgjafa fyrir alla hönnun og ráðgjöf sé skilgreind í tilboðsskrá fyrir viðkomandi fagsvið. Ráðgjafi skuli fylla út einingaverð fyrir alla hæfisflokka, tækniteiknara, nýliða og BIM-RE, eins og við eigi, fyrir þau fagsvið sem hann bjóði í og verði útfyllt tilboðsskrá fylgiskjal með samningi. Þá vísar varnaraðili til tilboðskráar, sem hafi verið meðal útboðsgagna, en þar komi fram þær leiðbeiningar að bjóðandi skuli ekki fylla út svarta reiti, grænn reitur skuli útfylltur með fjölda tíma til útreiknings heildartilboðsverðs og grár reitur skuli útfylltur með boðnu tímagjaldi.
Í tilboðsbókinni hafi hæfisflokkarnir Q1, Q2 og Q3 verið listaðir upp varðandi fagsviðið „Arkitektar / Architecture“ ásamt flokkum með heitin tækniteiknari, BIM-RE og nýliði. Í tilboðsbókinni hafi þessir flokkar verið grænir og útfylltir undir reitnum „fjöldi klst“ en gráir og óútfylltir undir reitnum „kr/klst“, til útfyllingar á tímagjaldi fyrir bjóðanda við tilboðsgerð. Aðrir flokkar hafi verið merktir svartir og því ekki til útfyllingar. Samkvæmt þessu telji varnaraðili ljóst að kæranda hafi verið skylt að bjóða í alla flokka innan fagsviðsins, en flokkarnir „Tækniteiknari“, „BIM-RE“ og „Nýliði“ hafi verið meðal flokka fagsviðsins. Þá sé ljóst af tilboðsbókinni að fletta hafi þurft til hægri til þess að sjá þrjá síðastnefndu flokkana. Telji varnaraðili að tilgreining í grein 0.5.2.7 í útboðsgögnum, þess efnis að ekki væri nauðsynlegt að skila ferilskrá fyrir tækniteiknara, nýliða eða aðila sem sinni hlutverki BIM-RE, til þess fallin að vekja athygli á að nauðsynlegt hafi verið að bjóða í þessa flokka, ella hefði ekki verið þörf á að tiltaka þá í greininni.
Þá telji varnaraðili að ákveðins misskilnings gæti hjá kæranda við túlkun eða þýðingu fylgiskjals D með útboðsgögnum, en kærandi haldi því fram að aðeins hæfisflokkarnir Q1, Q2 og Q3 kæmu til mats á tilboði frá arkitektum og kærandi hafi því haldið að þetta hafi verið einu gildu flokkanir og hafi því ekki leitað lengra í útfyllingu tilboðsbókar. Í þessum efnum bendir varnaraðili á að mat á tilboðum hafi verið margþætt, sbr. grein 0.5 í útboðs- og samningsskilmálum. Þeir þættir sem kæmu til mats hafi verið gæði, sjálfbærni, gæðakerfi, stjórnun teymis og fjárhagslegt tilboð, og hafi vægi hvers þáttar verið mismunandi samkvæmt töflu í grein 0.5.1.6. Hæfisflokkar Q1, Q2 og Q3 hafi aðeins komið til skoðunar við mat á gæðum tilboðs kæranda, sem hafi samkvæmt framangreindu verið einn af fimm þáttum sem kæmu til skoðunar, líkt og tafla í grein 0.5.1.6 hafi borið með sér. Kæranda sé því ekki unnt að álykta út frá því að framangreindir hæfisflokkar séu einu gildu flokkarnir eða einu flokkarnir sem kæmu til skoðunar við mat á tilboði í heild sinni. Þvert á móti sé sérstaklega tekið fram í grein 0.5.1.6 að allir flokkarnir á hverju fagsviði í tilboðsbók komi til skoðunar við mat á fjárhagslegu tilboði bjóðanda. Af því leiðir að hæfisflokkarnir Q1, Q2 og Q3, ásamt flokkunum „Tækniteiknarar“, „BIM-RE“ og „Nýliði“ hafi komið til skoðunar við mat á fjárhagslegu tilboði bjóðenda. Þar sem kærandi hafi ekki boðið í alla þá liði sem hafi komið til mats á fjárhagslegu tilboði hans hafi tilboðið verið ósamanburðarhæft og því hafi verið óhjákvæmilegt að hafna því.
Varnaraðili andmælir jafnframt þeim sjónarmiðum kæranda að annmarkar hafi verið á tilboðsbókinni og því hvernig hún hafi opnast þannig að hún hafi ekki verið rétt sniðin til birtingar. Tilboðsbókin hafi verið sett upp í Excel-forritinu, líkt og hefðbundið er við skrár af þessu tagi í útboðum. Forritið sé almennt aðgengilegt, bjóðendur hafi almennt aðgang að því og kunna alla jafna á það. Umræddur flipi nr. 9 hafi ekki verið ranglega sniðinn til birtingar af hálfu varnaraðila. Atviksbundin atriði á borð við skjástærð, aðdrátt og önnur stillingaratriði kunni að hafa áhrif á hvernig síðan í tilboðsbókinni birtist hverjum notanda. Neðst í flipanum sé stika sem unnt sé að færa til hægri til að sjá fleiri flokka og gefi stikan glögglega til kynna að fleiri flokkar séu til staðar en sjáist á einum skjá. Gera verði þá kröfu á þátttakendur í sérhæfðum útboðum, þar sem stuðst sé við rafrænar aðferðir, að þeir annað hvort búi yfir nægri tölvuþekkingu og færni til þess að yfirfara og skila rafrænum útboðsgögnum í samræmi við framkomnar kröfur, eða að þeir leiti sér aðstoðar við tilboðsgerðina. Jafnframt hafi kæranda mátt vera ljóst, líkt og að framan greinir, að honum hafi verið skylt að bjóða í sex flokka vegna fagsviðs arkitekta og hafi þeir því mátt til með að leita eftir flokkunum í tilboðsbókinni. Aukin heldur bendir varnaraðili á að fjöldi annarra bjóðenda í útboðinu hafi skilað inn tilboðsbókinni rétt útfylltri og megi draga þá ályktun að engir annmarkar hafi verið á sniðmáti tilboðsbókarinnar að þessu leyti.
Loks andmælir varnaraðili þeim sjónarmiðum kæranda, að honum hafi borið að yfirfara tilboðin og veita kæranda færi á að leiðrétta tilboð sitt. Afleiðingar þess að fylgja ekki ófrávíkjanlegum fyrirmælum um efni tilboða hafi verið skýrlega tilgreindar í útboðsgögnum, sbr. greinar 0.3.1.5, 0.4.3.1 og 0.4.3.3, þar sem efnislega hafi komið fram að verkkaupi áskilji sér rétt til að hafna þeim tilboðum sem ekki séu sett fram samkvæmt útboðsgögnum og ógildum tilboðum verði hafnað. Telji varnaraðili að kæranda hafi mátt vera ljóst að tilboði hans yrði hafnað ef hann byði ekki í alla flokka innan fagsviðsins. Bendir varnaraðili á að hann sé ekki stjórnvald og á honum hvíli því engin leiðbeiningarskylda í tengslum við opinber innkaup, sbr. til hliðsjónar bréf umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6382/2011. Þá sé það meginregla í opinberum innkaupum að bjóðendur beri ábyrgð á eigin tilboðum og að þeim sé skilað í samræmi við kröfur útboðsgagna, sbr. úrskurð kærunefndar útboðsmála í máli nr. 33/2022. Telji varnaraðili að ekki hvíli á honum almenn skylda til þess að heimila breytingar á tilboðum og jafnframt að honum hafi verið óheimilt að heimila þá breytingu sem kærandi fari fram á, þ.e. að kærandi fái að leggja fram nýja og uppfærða tilboðsbók. Að mati varnaraðila teljist villa kæranda hvorki ósamræmi né reikningsvilla, enda hafi vantað ákveðna flokka í tilboði kæranda. Geti heimild í grein 0.3.2.6 því ekki átt við í þessu tilfelli, sbr. og 4. mgr. 77. gr. reglugerðar nr. 340/2017. Þá sé bjóðendum að jafnaði óheimilt að leiðrétta og breyta tilboðum sínum eftir opnun tilboða, sbr. úrskurði kærunefndar útboðsmála í máli nr. 4/2021 og nr. 5/2023.
IV
Miðað verður við að hið kærða útboð falli undir reglugerð nr. 340/2017 um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu. Af 1. mgr. 9. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup leiðir að XI. og XII. kaflar laganna gilda um innkaup eftir reglugerð nr. 340/2017 en að öðru leyti fer um þau eftir ákvæðum reglugerðarinnar.
Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði kæranda og að kærandi fái að skila aftur inn skjali sem annmarkar voru á. Kærandi lagði fram tilboð í fagsviðið „Arkitektar“ undir yfirflokknum „Byggingar og almenn útisvæði“. Varnaraðili tilkynnti kæranda 24. október 2024 að tilboði hans hefði verið hafnað sem ógildu, en kæra málsins barst kærunefnd útboðsmála 8. nóvember 2024. Samkvæmt gögnum málsins tilkynnti varnaraðili bjóðendum 11. desember 2024 um val á tilboðum í hinu kærða útboði og 24. desember 2024 tilkynnti varnaraðili að kominn væri á bindandi samningur milli hans og bjóðenda í útboðinu, þ.á m. á fagsviði því sem kærandi gerði tilboð í. Liggur því fyrir að kominn er á bindandi rammasamningur milli bjóðenda og varnaraðila í kjölfar hins kærða útboðs. Samkvæmt 1. mgr. 114. gr. laga nr. 120/2016 verður bindandi samningur ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt. Þegar af þeirri ástæðu verður að hafna kröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði félagsins.
Úrskurðarorð
Kröfu kæranda, T.ark Arkitekta ehf., í máli þessu er hafnað.
Reykjavík, 17. mars 2025
Reimar Pétursson
Kristín Haraldsdóttir
Auður Finnbogadóttir