Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 601/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 601/2022

Miðvikudaginn 15. febrúar 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 26. desember 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. september 2022, þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 27. maí 2022. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 8. september 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að skilyrði staðals væru ekki uppfyllt. Kæranda var aftur á móti metinn örorkustyrkur. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem var veittur með bréfi, dags. 27. september 2022. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefnd velferðarmála tók Tryggingastofnun ríkisins nýja ákvörðun í málinu, dags. 3. janúar 2023, þar sem kæranda var metinn örorkulífeyrir frá 1. júní 2020 til 30. september 2024.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. desember 2022. Með bréfi, dags. 28. desember 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 4. janúar 2023, tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins að fallist hafi verið á kröfu kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur og óskaði stofnunin eftir frávísun málsins. Með bréfi, dags. 5. janúar 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til bréfs stofnunarinnar. Bréfið var ítrekað með tölvupósti 31. janúar 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að 8. september 2022 hafi kæranda verið synjað um örorkulífeyri með vísun í læknisfræðileg gögn og lög nr. 100/2007 um almannatryggingar. Kærandi telji sig eiga fullan rétt á örorkulífeyri til langframa samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar þar sem hann glími við læknisfræðilega viðurkennda sjúkdóma og eigi við fötlun að stríða. Í kærðri ákvörðun komi fram að „Við mat á örorku er byggt á örorkustaðli sem fylgir með reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat. Staðlinum er ætlað að meta færni umsækjanda og eru bæði líkamlegir og andlegir þættir lagðir til grundvallar.“ Samkvæmt niðurstöðu viðtals og skoðunar hjá álitslækni Tryggingastofnunar, auk annarra gagna, hafi kærandi fengið 14 stig í líkamlega hlutanum og fjögur í þeim andlega. Eftir að hafa fengið aðstoð við að lesa og skilja örorkustaðal, telji kærandi að slík skoðun eða spurningar hafi einungis átt sér stað að takmörkuðu leyti af hálfu álitslæknisins. Læknirinn hafi sjálfur sagt að hann gæti svarað flestum þeim spurningum er vörðuðu andlega þáttinn fyrir kæranda og þess vegna hafi kærandi ekki verið spurður út í flesta þættina í þeim hluta.

Í umbeðnum rökstuðningi hafi að mestu verið endurtekið það sem hafi komið fram í synjunarbréfinu og því sé erfitt að átta sig á hvers vegna örorkulífeyri hafi verið synjað þar sem skýrt komi fram að kærandi hafi verið og sé að glíma við margþætt veikindi. Það sem hafi bæst við í þessu bréfi sé eftirfarandi: „Fram komu upplýsingar um lungnasjúkdóm, stoðkerfiseinkenni, kannabisneyslu, félagskvíða og fleira. Frekari meðferð eða endurhæfing virtist ekki líkleg til að skila aukinni vinnufærni og kom því til örorkumats.“ Þetta sé niðurstaðan sem hafi verið unnin út frá gögnum sem hafi legið fyrir, þ.e.a.s. læknisvottorðum, umsókn, spurningalista og skoðunarskýrslu.

Í bréfinu komi skýrt fram að talið sé að „Frekari meðferð eða endurhæfing virtist ekki líkleg til að skila aukinni vinnufærni“ sem sé ástæða þess að kærandi hafi sótt um fullan örorkulífeyri. Kærandi geti ekki unnið að hluta til þar sem líkamlegir og andlegir þættir standa í vegi fyrir því og frekari meðferð sé ekki talin skila vinnufærni hjá honum. Þess vegna geti hann ekki séð hvernig hægt sé að neita honum um örorkulífeyri.

Í spurningalista Tryggingastofnunar vegna færniskerðingar hafi kærandi reynt eftir fremsta megni að veita upplýsingar um líkamlega og andlega stöðu sína. Í framhaldinu fjallar kærandi ítarlega um veikindi sín og fer fram á að honum verði veittur fullur örorkulífeyri.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að eftir að kæra og kærumálsgögn hafi borist stofnuninni hafi málið verið tekið til nýrrar efnisskoðunar og yfirferðar fyrirliggjandi gagna. Eftir nýja yfirferð hafi verið ákveðið að verða við kröfum kæranda um örorkulífeyri í stað örorkustyrks, sbr. bréf, dags. 3. janúar 2023.

Þar sem Tryggingastofnun hafi nú tekið málið upp að nýju og fallist á kröfu kæranda um örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar óski stofnunin eftir að úrskurðarnefndin vísi fyrirliggjandi kæru frá. Fallist úrskurðarnefndin ekki á frávísunarkröfuna áskilji stofnunin sér rétt til þess að leggja fram efnislega greinargerð vegna málsins.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 8. september 2022 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

Í kjölfar kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála tók Tryggingastofnun ríkisins ákvörðun með bréfi, dags. 3. janúar 2023, þar sem fallist var á að kærandi uppfyllti skilyrði örorkulífeyris frá 1. júní 2020 til 30. september 2024. Þá óskaði stofnunin eftir því í greinargerð sinni, dags. 4. janúar 2023, að úrskurðarnefnd velferðarmála vísaði kæru frá á þeim grundvelli að stofnunin hefði fallist á kröfu kæranda. Með bréfi, dags. 5. janúar 2023, sem ítrekað var með tölvupósti 31. janúar 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til greinargerðarinnar og bréfs stofnunarinnar, dags. 3. janúar 2023. Engin svör bárust frá kæranda vegna þessa.

Úrskurðarnefnd velferðarmála kveður upp úrskurði um tiltekin ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. 13. gr. laganna. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að ágreiningur sé til staðar á milli kæranda og Tryggingastofnunar ríkisins. Stofnunin hefur samþykkt umsókn kæranda um örorkulífeyri. Þar sem enginn ágreiningur er til staðar í máli þessu er kæru vísað frá úrskurðarnefndinni

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta