Utanríkisráðherra og fjármálaráðherra á fundi með framkvæmdastjóra hjá Alþjóðabankanum
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra áttu í dag fund í utanríkisráðuneytinu með Jorge Familiar framkvæmdastjóra fjárreiða (Vice President and Treasurer) hjá Alþjóðabankanum í Washington.
Heimsóknin hingað til lands er sú fyrsta í hringferð hans um Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin til að kynna fjárhagslega hlið breytinga á starfsemi bankans sem nú eru til umræðu. Umfangsmikil umbótavinna hefur staðið yfir undanfarið ár sem nefnd hefur verið framþróun Alþjóðabankans eða „Evolving the World Bank“. Hún snertir alla þætti starfsemi bankans þar á meðal framtíðarsýn og hlutverk hans, fjárhagslíkan og rekstrarlíkan. Stefnt er að því að heildstæðar tillögur liggi fyrir til samþykktar á ársfundi bankans sem haldinn verður í Marrakesh í Marokkó í október næstkomandi.
Tilgangur þessarar vinnu er að tryggja að bankinn sé til þess fallinn að takast sem best á við fjölþættar áskoranir samtímans, ekki síst hnattrænar áskoranir á borð við loftslagsmál, samhliða því að vinna að útrýmingu fátæktar og bættum lífskjörum í samstarfslöndum bankans.