Hoppa yfir valmynd
8. júlí 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Unnið að einföldun á stofnanakerfi ríkisins

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur sett á laggirnar starfshóp um einföldun á stofnanakerfi ríkisins. Markmiðið er að halda áfram að bæta þjónustu, auka skilvirkni, stuðla að sveigjanleika í skipulagi og framþróun og auðvelda stafræna þróun ríkisins.

Í dag eru A-hluta stofnanir íslenska ríkisins tæplega 160 talsins. Við þá tölu bætist á annan tug ríkisfyrirtækja í B-hluta og C-hluta og á sjöunda tug sjálfstæðra stjórnsýslunefnda. Rúmlega helmingur stofnana í A-hluta er með færri en 50 starfsmenn og fjórðungur með færri en 20 starfsmenn. Um tveir þriðju stofnana velta undir milljarði króna á ári.

Talsverður árangur hefur náðst í einföldun stofnanakerfis undanfarin ár, en stofnanirnar voru 250 talsins árið 1998 og 206 árið 2006. Þannig var skattamálum t.a.m. áður sinnt hjá á öðrum tug stofnana, en þau eru nú öll á einum stað hjá Skattinum eftir að Embætti ríkisskattstjóra, Skattrannsóknarstjóra ríkisins og Tollstjóra voru sameinuð í eitt árin 2020 - 2021. Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið sameinuðust í eina stofnun um áramótin 2020/2021 auk þess sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur verið lögð niður og verkefni færð annað. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur tekið við hlutverki Mannvirkjastofnunar og Íbúðalánasjóðs, nokkrar stofnanir sameinuðust í Samgöngustofu og heilbrigðisumdæmi voru endurskilgreind og stofnanir sameinaðar.

Talið er mikilvægt að halda áfram að stuðla að sífellt betri, skilvirkari og hagkvæmari opinberri þjónustu. Ríkisendurskoðun birti í febrúar sl. skýrslu um stofnanakerfi ríkisins, en megintillaga hennar er að stjórnvöld fylgi eftir og taki afstöðu til framkominna tillagna um einföldun stofnanakerfisins á undanförnum áratug. Ber þar helst að nefna tillögur verkefnisstjórnar um breytingar á stofnanakerfi ríkisins frá 2015 sem skipuð var fulltrúum allra ráðuneyta.

Ríkisstjórnin samþykkti í júní sl. að fela fyrrnefndum starfshópi að undirbúa og hrinda í framkvæmd einföldun á stofnanakerfi ríkisins með það að markmiði að það verði burðugra, sveigjanlegra og hagkvæmara. Verkefnið verður unnið undir forystu ráðherranefndar um ríkisfjármál.

Hópurinn verður skipaður aðstoðarmönnum fjármála- og efnahagsráðherra, forsætisráðherra og innviðaráðherra, auk sérfræðinga úr viðkomandi ráðuneytum. Ætlunin er að verkefnið nái þvert á stjórnarráðið og munu því aðstoðarmenn og sérfræðingar úr þeim ráðuneytum sem verkefnið snertir jafnframt koma að vinnu hópsins. Fyrirhugað er að hópurinn skili niðurstöðum í haust.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta