Matvælaráðherra áformar sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra kynnti ákvörðun sína um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar fyrir ríkisstjórn í morgun. Eftir hádegi hélt ráðherra fundi með starfsmönnum beggja stofnana þar sem tilkynnt var um fyrrgreinda ákvörðun. Við sameiningu munu allir starfsmenn flytjast yfir í nýja stofnun, og verður áhersla lögð á að fyrirliggjandi mannauður og þekking haldist í málaflokknum. Réttindi og skyldur starfsfólks munu færast til nýrrar stofnunar, en umræða um skipulag mun bíða nýs forstöðumanns.
Engin breyting verður gerð á tilhögun starfsstöðva í sameiningarferlinu eða staðsetningum starfsmanna. Sameinuð stofnun mun hafa um 130 stöðugildi og getur aðalskrifstofa verið staðsett á öllum meginstarfsstöðvum. Ekki er gert ráð fyrir að forstöðumaður hafi aðsetur á höfuðborgarsvæðinu.
Samræmist loftslagsmarkmiðum stjórnvalda
Bæði Landgræðslan og Skógræktin eiga sér langa sögu og hafa verkefni þeirra tengst frá upphafi. Í ágúst sl. gaf matvælaráðherra út Land og líf, fyrstu heildarstefnuna í landgræðslu og skógrækt auk aðgerðaáætlunar, sem mun nýtast vel í sameiningarferlinu.
Stjórnvöld leggja áherslu á kolefnisbindingu og samdrátt í losun frá landi auk endurheimtar votlendis og birkiskóga. Einnig gerir losunarbókhald Íslands fyrir landnotkun kröfu um mjög sérhæfða þekkingu. Kröfur um gæði og samhæfða miðlun upplýsinga til almennings og stjórnvalda aukast ár frá ári, og auk þess er brýnt að byggja upp þekkingu á sviði vottunar kolefniseininga í ýmsum landnýtingarverkefnum. Í ljósi þessa skipaði ráðherra starfshóp í maí sl. sem var falið að greina rekstur stofnananna, eignaumsýslu, samlegð faglegra málefna þeirra og að vinna áhættugreiningu vegna mögulegrar sameiningar. Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni í byrjun október.
Tækifæri skapast við sameiningu
Í skýrslunni kemur fram að stærstu tækifærin með sameiningu stofnananna séu í aukinni samlegð í stoðþjónustu. Einnig að mikil samlegð sé í verkefnum eins og loftslagsbókhaldi, endurheimt birkiskóga, fræframleiðslu, landupplýsingum, ráðgjöf til bænda og landeigenda um landnýtingu og landbætur, umsjón lands í eigu ríkisins ásamt fræðslu og kynningu. Þessi niðurstaða samræmist vel aðgerðaáætlun matvælaráðherra í Land og líf. Við sameiningu mun stjórnendum óhjákvæmilega fækka, en í því felst ekki að í stærri stofnun fækki störfum. Auk þess sem ná má fram aukinni skilvirkni meðal starfsfólks má gera ráð fyrir því að í stærri stofnun megi nýta húsnæði, tæki og annan búnað betur.
Skjöl vegna nauðsynlegra lagabreytinga verða birt á samráðsgátt stjórnvalda í dag. Áætlað er að frumvarpsdrög verði birt á samráðsgáttinni í desember 2022, og frumvarp um sameiningu stofnananna verði lagt fram á Alþingi í febrúar 2023. Gert er ráð fyrir því að auglýst verði eftir forstöðumanni vorið 2023 og að ný stofnun geti tekið formlega til starfa þann 1. janúar 2024.
„Það er tilhlökkunarefni að hægt verði að samnýta þá þekkingu og þann mannauð sem þessar stofnanir búa yfir. Framundan er spennandi verkefni, að koma á fót öflugri stofnun sem mun fóstra eina af okkar stærstu auðlindum, hlúa að henni og vernda fyrir komandi kynslóðir,“ segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra.
Skýrslu starfshópsins og áform um lagasetningu á samráðsgátt má nálgast hér.