Hoppa yfir valmynd
16. júní 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Hækkun styrkja til kaupa á hjálpartækjum 1. júlí

Hækkun styrkja til kaupa á hjálpartækjum 1. júlí - myndStjórnarráðið

Fjárhæðir styrkja vegna kaupa á hjálpartækjum hækka umtalsvert 1. júlí með nýrri heildarreglugerð heilbrigðisráðherra. Með reglugerðinni eru styrkirnir færðir upp til verðlags sem ekki hefur verið gert frá árinu 2008. Áætlað er að framlög til niðurgreiðslu vegna kaupa á hjálpartækjum aukist með þessu um 214 milljónir króna á ársgrundvelli. Um er að ræða hjálpartæki sem auðvelda fólki að takast á við athafnir daglegs lífs.

Réttur til styrkja vegna kaupa á hjálpartækjum tekur til þeirra sem sjúkratryggðir eru hér á landi. Með hjálpartæki er vísað til búnaðar sem ætlaður er til að draga úr fötlun, aðstoða fólk með fötlun til að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Styrkir eru veittir vegna hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða. 

Hjálpartæki fyrir börn sem eiga tvö heimili

Í reglugerðinni er einnig kveðið á um heimild Sjúkratrygginga Íslands til að veita styrki til kaupa á tilteknum hjálpartækjum fyrir börn sem búa á tveimur heimilum en ákvæði þess efnis tók gildi um síðustu mánaðamót. Heimilin verða þannig jafnsett og börnin eiga hjálpartækin vís á báðum stöðum. Þessir styrkir eru veittir vegna kaupa á sjúkrarúmum, dýnum, stuðningsbúnaði og hjálpartækjum tengdum salernisferðum.

Aðgengilegri upplýsingar um gildandi reglur

Gildandi reglugerð um styrki vegna hjálpartækja hefur verið breytt níu sinnum á liðnum árum. Með útgáfu nýrrar heildarreglugerðar verða upplýsingar um reglur og réttindi fólks til styrkja við kaup á hjálpartækjum skýrari og aðgengilegri þeim sem á þurfa að halda.

Reglugerðin hefur verið send Stjórnartíðindum til birtingar og öðlast gildi sem fyrr segir 1. júlí.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta