Vinnuverndarþing
Þingforseti og þingfulltrúar.
Það er mér sönn ánægja að fá tækifæri til að ávarpa ykkur gesti á norrænu vinnuverndarþingi. Formlegt norrænt samstarf á sviði vinnuverndarmála er orðið rúmlega hálfrar aldar gamalt og mér er tjáð að svo skemmtilega hittist á að það sé í fimmtugasta skipti sem norrænt vinnuverndarfólk komi saman á sérstöku þingi til að bera saman bækur sínar. Fyrsti formlegi fundinn var haldinn í Helsingfors í maí 1951. Það var fyrsta þingið um vinnulæknisfræði og aðbúnað á vinnustöðum eins og það var kallað á þeim tíma.
Ég ætla ekki að fara ítarlega yfir sögu norræns vinnuverndarsamstarfs. Það mun Jorma Rantanen, forseti Alþjóðanefndar um vinnuvernd, gera í erindi sem hann flytur síðar í dag. Ég vil einungis nefna tvö atriði sem bera norræna vinnuverndarsamstarfinu gott vitni. Annars vegar eru það leiðbeiningar um áhættumat á efnum. Hins vegar stofnun NIVA sem er norræn stofnun um menntun á sviði vinnuverndar. Hún hefur haft mikla þýðingu fyrir endurmenntun þeirra sem starfa að vinnuvernd og höfum við Íslendingar notið góðs af starfi hennar.
Eins og ykkur er sjálfsagt kunnugt um gegnir Ísland formennsku í norrænu ráðherranefndinni á þessu ári. Í formennskuáætlun Íslands er lögð áhersla á nokkur atriði sem varða vinnuvernd. Á Austurlandi Íslands eiga sér stað einhverjar umfangsmestu framkvæmdir í sögu landsins. Unnið er að því að reisa stærstu vatnsaflsvirkjun á svæði sem kennt er við Kárahnjúka. Með framkvæmdunum er stefnt að því að efla atvinnulíf í þessum landsfjórðungi en á því hefur verið mikil þörf. Með hliðsjón af þessum framkvæmdum höfum við gert það að forgangsverkefni í formennskuáætlun okkar í norrænu ráðherranefndinni að auka samstarf og samráð um að bæta heilsuvernd og öryggi starfsmanna við stórframkvæmdir.
Annað atriði sem rétt er að nefna í þessu sambandi er endurskoðun norrænu samstarfsáætlunarinnar á svið vinnumála- og vinnuverndarmála. Gildistími þeirrar áætlunar sem skapar umgjörð um samstarf okkar á þessum sviðum rennur út um áramótin. Það hefur því fallið í hlut Íslands að leiða endurskoðun áætlunarinnar og semja nýja áætlun sem gildir fyrir árin 2005 til 2008. Norræna ráðherranefndin hefur nýlega samþykkt áætlunina fyrir sitt leyti en hún verður lögð fyrir þing Norðurlandaráðs til endanlegrar samþykktar.
Ekki eru lagðar til neinar róttækar breytingar á norrænu vinnuverndarsamstarfi í norrænu samstarfsáætluninni á sviði vinnumála og vinnuverndarmála fyrir árin 2005 til 2008. Því má ekki gleyma að áætlunin byggir á norræna vinnuverndarsáttmálanum frá 29. júní 1989. Auðvitað tekur samstarfsáætlunin mið af breyttum aðstæðum bæði á vinnustöðunum og ekki síður því alþjóðlega umhverfi sem við búum við á hverjum tíma.
Ísland auk Noregs og Lichtenstein eru skuldbundin af tilskipunum Evrópusambandsins á sviði aðbúnaðar og hollustu á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Allar tilskipanir á þessu sviði hafa verið teknar upp í viðauka samningsins. Þótt samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hafi að ýmsu leyti reynst vel hafa verið á honum vissir gallar. Þessa galla hefur verið reynt að sníða af ef þess hefur reynst kostur. Einn af göllunum er aðild EFTA/EES-ríkjanna að mótun tillagna á sviði Evrópusambandsins. Þetta hefur verið áberandi á sviði aðbúnaðar og hollustu á vinnustöðum. Margir af þeim sem hér eru þekkja tilurð tilskipana á vettvangi Evrópusambandsins. Á undanförnum árum hafa þær orðið til í ráðgjafanefnd Evrópusambandsins á sviði vinnuverndar. Evrópusambandið hefur ekki ljáð máls á því að EFTA/EES-ríkin taki sæti í nefndinni. Á þessu hefur orðið breyting og munu Íslendingar ásamt öðrum EFTA/EES-ríkjum taka þátt í starfi nefndarinnar frá og með þessu ári. Ég vænti mikils af starfi nefndarinnar og þátttöku okkar fólks í því.
Þótt tekið hafi verið mikilvægt skref í þá átt að tengja Ísland og önnur EFTA/EES-ríki að evrópsku vinnuverndarstarfi með því að veita þeim aðild að ráðgjafanefndinni um vinnuvernd hefur enn ekki tekist að semja um aðild þessara ríkja að Evrópsku vinnuverndarstofnuninni. Þar strandar á Evrópusambandinu sem hefur sett fram að okkar mati ósanngjarnar kröfur um árgjald. Ég vænti þess að fyrr en síðar finnist lausn á þessu deilumáli og að Íslendingar og EFTA/EES-ríkin geti verið aðilar að Evrópsku vinnuverndarstofnuninni.
Með hliðsjón af framangreindu er ég þeirrar skoðunar að Norðurlöndunum beri að efla sem mest samstarf á vettvangi Evrópusambandsins. Í norrænu samstarfsáætluninni á sviði vinnumála og vinnuumhverfismála fyrir árin 2005 til 2008 er tekið mið af þessu. Þar er lögð áhersla á að norræna ráðherranefndin tryggi að til sé vettvangur þar sem unnt sé að fjalla um og skiptast á upplýsingum sem skipta Norðurlöndin máli hvort sem um sé að ræða málefni á alþjóðlegum vettvangi eða vettvangi Evrópusambandsins. Því er ekki að neita að nokkur þýðingarmikil málefni eru á dagskrá Evrópusambandsins sem full ástæða er fyrir Norðurlöndin að fylgjast grannt með. Hér á ég við til dæmis endurskoðun á vinnutímatilskipuninni og tilraunum til að ná samstöðu um vinnuskilyrði starfsmanna útleigufyrirtækja.
Ágætu þingfulltrúar.
Ég hef í þessari ræðu minni gert norrænt, evrópskt og alþjóðlegt vinnuverndarstarf að umtalsefni. Mér finnst viðeigandi að ljúka þessum með nokkrum orðum um það sem við höfum verið að gera á Íslandi að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
Vorið 2003 samþykkti Alþingi umtalsverðar breytingar á lögunum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Hér er í raun um að ræða mestu breytingar sem hafa verið gerðar á lögunum frá gildistöku þeirra árið 1980.
Mikilvægasta lagabreytingin er á áherslum í vinnuverndarstarfinu. Áður var áhersla lögð á eftirlit, vélaskoðanir, vinnustaðaheimsóknir og ábyrgð atvinnurekenda. Enda þótt þessi atriði verði áfram mikilvæg hefur áherslum verið breytt og ábyrgð atvinnurekenda verið verulega aukin frá eldri löggjöf og krafist virkra aðgerða af þeirra hendi. Atvinnurekandi ber nú ábyrgð á því að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað í samráði við fulltrúa starfsmanna. Í henni skal koma fram mat á áhættu í starfi og áætlun um heilsuvernd starfsmanna. Þessa áætlun skal endurskoða eftir því sem aðstæður breytast. Hlutverk Vinnueftirlits ríkisins felst í því að slíkt áhættumat sé gert og að það sé aðgengilegt starfsmönnum.
Athyglisvert nýmæli í lögunum snertir fyrirbrigði sem menn hafa á síðustu árum veitt aukna athygli. Það er einelti. Samkvæmt 38. gr. laganna skal setja reglur um aðgerðir gegn einelti. Innlendar sem og erlendar kannanir hafa leitt í ljós að hér er um að ræða vandamál sem þarf að taka á. Það er mikilvægt að starfsmenn njóti velsældar og virðingar í starfi. Ekki síst vegna þess að rannsóknir hafa sýnt að langvarandi einelti getur haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar í för með sér fyrir starfsmenn. Niðurstöður benda til þess að þolendur eineltis finni fyrir aukinni streitu sem getur komið fram sem aukið þunglyndi, einbeitingarleysi, minnistruflanir o.fl. Það eru því full efni til að taka á þessu vandamáli af einurð og ég tek eftir því að þetta efni er á dagskrá þingsins.
Góðir þingfulltrúar.
Ég sé að á dagskrá þessa þings eru fjölmörg áhugaverð og mikilvæg viðfangsefni. Ég hef áður minnst á lengd vinnutíma og einelti. En það eru fleiri málefni á dagskrá eins og gildi góðs vinnustaðar, fjarvera frá vinnu vegna veikinda, og það sem ef til vill er tímanna tákn, rafrænt eftirlit með vinnustaðnum og starfsmönnum. Það er ljóst að þetta þing hefur að mörgu að hyggja. Ég vænti þess að þingið verði árangursríkt og frá því komi ábendingar og tillögur sem vinnuverndarstarfið njóti góðs af. Ég óska þinginu og þinggestum velfarnaðar og segi norræna vinnuverndarþingið sett.