Hoppa yfir valmynd
14. janúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 55/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

                                                        

Miðvikudaginn 14. janúar 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 55/2014:


Kæra A

á ákvörðun

Reykjanesbæjar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A hefur með kæru, dags. 3. október 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjanesbæjar, dags. 15. júlí 2014, á umsókn hans um styrk vegna húsnæðismála.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 11. júní 2014, sótti kærandi um styrk hjá Reykjanesbæ vegna húsnæðismála í tengslum við flutning. Með bréfi, dags. 15. júlí 2014, var kæranda tilkynnt að samþykkt hefði verið að veita kæranda 100.000 króna styrk vegna kostnaðar við ramp og skábraut en synjað um styrk vegna málunar og flutnings.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 3. október 2014. Með bréfi, dags. 6. október 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Reykjanesbæjar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjanesbæjar barst með bréfi, dags. 21. nóvember 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 26. nóvember 2014, var bréf Reykjanesbæjar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Málsástæður kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar gerir kærandi athugasemd við að skattur hafi verið dreginn frá styrknum vegna kostnaðar við ramp og skábraut. Kærandi er einnig ósáttur við synjun sveitarfélagsins um styrk vegna málunar og flutnings.

 

III. Sjónarmið Reykjanesbæjar

Í greinargerð Reykjanesbæjar kemur fram að kærandi hafi sótt um styrk vegna kostnaðar í tengslum við flutninga. Um hafi verið að ræða málningarkostnað, vinnu við flutninga og efnis- og vinnukostnað við smíði á rampi fyrir hjólastól út á verönd. Umsókn kæranda um styrk vegna kostnaðar við flutninga og málun hafi verið synjað þar sem í reglum félagsþjónustu Reykjanesbæjar sé ekki að finna ákvæði um styrkveitingar af þessu tagi. Um sé að ræða eðlilegt viðhald og kostnað sem almennt falli til hjá þeim sem flytji í nýtt húsnæði, óháð því hvort viðkomandi búi við fötlun eður ei.

Kærandi hafi fengið styrk að fjárhæð 100.000 krónur vegna vinnu- og efniskostnaðar við smíði á skábraut/rampi út á verönd en styrkurinn hafi verið veittur í formi fjárhagsaðstoðar þrátt fyrir að ekki væru ákvæði um slíka styrki í reglum um félagslega þjónustu í sveitarfélaginu. Af styrkfjárhæðinni hafi verið dreginn skattur í samræmi við reglur ríkisskattstjóra þar um.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð hjá Reykjanesbæ. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjanesbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um styrk vegna húsnæðismála.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í reglum Reykjanesbæjar um fjárhagsaðstoð er ekki að finna ákvæði sem kveða á um styrkveitingar vegna kostnaðar í tengslum við flutning í nýtt húsnæði. Í ljósi þess að sveitarfélagið hefur ekki sett reglur þar að lútandi er það mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki átt rétt á umbeðnum styrk. Engu að síður veitti sveitarfélagið kæranda styrk að fjárhæð 100.000 krónur vegna kostnaðar við ramp og skábraut umfram skyldu en styrkurinn var veittur í formi skattskyldrar fjárhagsaðstoðar. Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Reykjanesbæjar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Reykjanesbæjar, dags. 15. júlí 2014, um synjun á umsókn A um styrk vegna húsnæðismála er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta