Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2015 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 5/2014

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

biskupi Íslands

Kærandi, sem er kona, taldi að biskup Íslands hefði brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við skipun karls í embætti sóknarprests. Kærunefnd féllst á það mat biskups Íslands að umsækjendur hefðu verið jafnhæfir til að hljóta skipun í embættið. Nefndin taldi það lögmætt sjónarmið af hálfu biskups að líta til þess að í prestaköllum væri æskilegt að prestar væru af báðum kynjum, væri þess kostur. Var því talið að ekki hefði verið brotið gegn lögum nr. 10/2008 við skipunina.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 17. febrúar 2015 er tekið fyrir mál nr. 5/2014 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

  2. Með kæru, dagsettri 9. október 2014, kærði B hrl., f.h. A, ákvörðun biskups Íslands um að skipa karl í embætti sóknarprests C í J. Kærandi telur að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 13. október 2014. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 6. nóvember 2014, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 7. nóvember 2014. Athugasemdir kæranda bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 20. nóvember 2014, og voru þær kynntar kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 21. nóvember 2014. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 3. desember 2014, og voru þær kynntar kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 4. desember 2014. Frekari athugasemdir kæranda bárust kærunefndinni 12. desember 2014 og voru þær kynntar kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 16. desember 2014. Frekari athugasemdir kærða bárust kærunefndinni 5. janúar 2015 og voru þær kynntar kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 6. janúar 2015.  

  4. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

    MÁLAVEXTIR

  5. Kærði auglýsti laust embætti sóknarprests í C, J, þann X 2014. Í auglýsingunni kom fram að æskilegt væri að umsækjandi byggi yfir stjórnunarreynslu af kirkjulegum eða sambærilegum vettvangi. Þá kom fram að lögð væri sérstök áhersla á að sá sem embættið hlyti myndi hafa fasta búsetu í prestakallinu.

  6. Kærandi var annar af tveimur umsækjendum um embættið. Á grundvelli starfsreglna nr. 1109/2011, um val og veitingu prestsembætta, voru umsækjendur boðaðir á fund valnefndar í C. Að fundi loknum ákvað valnefndin að mæla með þeim er skipaður var og hlaut hann skipun í embættið þann X 2014. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi kærða fyrir skipuninni og barst hann með bréfi, dagsettu 3. júní 2014.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  7. Kærandi telur ákvörðun kærða haldna stórfelldum annmörkum og hafa gengið gegn meginreglum stjórnsýsluréttarins og ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Mat valnefndar og síðar kærða á hæfi umsækjenda hafi verið bersýnilega rangt og annar umsækjandi skipaður í embættið þrátt fyrir að kærandi hafi verið mun hæfari til að sinna því. Kærandi hafi í öllu falli verið jafnhæf og sá er skipaður var eins og staðfest hafi verið af kærða. Engar aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun kærða eins og fram komi berum orðum í rökstuðningi hans. Kærandi hafi því einnig gengið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

  8. Kærandi bendir á þau laga- og reglugerðarákvæði sem kærði sé bundinn af við ákvörðun um skipun í embætti. Verulega hafi skort á að fram hafi farið heildstætt mat á hæfi umsækjenda áður en ákvörðun hafi verið tekin. Bæði valnefnd prestakallsins og kærði hafi komist að efnislega rangri niðurstöðu um hæfi umsækjenda. Þegar litið væri til þeirra sjónarmiða sem hafa bæri til hliðsjónar við mat á hæfi umsækjenda sé ljóst að kærandi hafi verið mun hæfari til að gegna embættinu.

  9. Kærandi tekur fram að báðir umsækjendur um embættið séu með kandidatspróf í guðfræði en sá er skipaður var sé hins vegar með viðbótarmeistaragráðu í greininni með áherslu á trúfræði og helgihald. Hann standi því kæranda skör framar er kemur að guðfræðimenntun. Hins vegar hafi kærandi sótt margvísleg námskeið og fyrirlestra hjá biskupsstofu. Kærandi hafi sótt árleg prédikunarnámskeið í Skálholti, lokið grunnnámi í NLP og öðlast kennsluréttindi í kyrrðarbæninni en allt hafi þetta nýst henni mjög vel í starfi sóknarprests. Þá bendir kærandi jafnframt á að í auglýsingunni um embættið hafi ekki verið gerður sérstakur áskilnaður um guðfræðimenntun umfram það sem áskilið sé í 1. mgr. 38. gr. laga nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Þrátt fyrir það virðist bæði valnefnd og kærði telja að viðbótarmenntun þess er skipaður var hafi aukið vægi umfram viðamikla starfsreynslu kæranda sem að mati kæranda fái ekki staðist. Þá sé ljóst að kærandi standi framar þeim er skipaður var varðandi aðra menntun.

  10. Kærandi greinir frá starfsreynslu þess er skipaður var og starfsreynslu sinni sem sóknarprestur. Hún standi honum miklum mun framar þar sem starfsreynsla sem sóknarprestur vegi mun þyngra en starfsreynsla sem prestur. Niðurstaða valnefndar og kærða að þessu leyti hafi bæði verið röng og villandi. Kærandi greinir einnig frá annarri starfsreynslu sinni og þess er skipaður var en ljóst sé að hún standi honum mun framar hvað aðra starfsreynslu varðar, hvort heldur horft sé til eðli eða lengd starfsreynslunnar. Að mati kæranda standi hún honum einnig mun framar hvað varðar hæfni til boðunar og sálgæslu. Ekki hafi verið horft til reynslu kæranda af sálgæslu eða vinnu hennar við erfiðar aðstæður að því leyti.

  11. Kærandi tekur fram að ekkert liggi fyrir um annað en að samskiptahæfni beggja umsækjenda sé góð. Hún kunni vel að koma fyrir sig orði og hafi átt góð samskipti við söfnuð sinn og aðra. Hvað varði frammistöðu þeirra í viðtölum verði að leggja til grundvallar að hún hafi verið viðunandi þar sem verulega skorti á að gerð hafi verið fullnægjandi grein fyrir henni. Í rökstuðningi kærða sé lítið sem ekkert fjallað um leiðtogahæfileika og framtíðarsýn umsækjenda og því verði að leggja til grundvallar að þau standi jafnt að vígi að því leyti.

  12. Kærandi bendir á að í rökstuðningi valnefndar og kærða sé vikið að stjórnunarreynslu þess er skipaður var og henni gert hátt undir höfði. Hins vegar sé ekki vikið að stjórnunarreynslu kæranda þrátt fyrir að hún sé umtalsverð og henni hafi verið gerð ítarleg skil í umsókn um embættið. Kærandi rekur stjórnunarreynslu þeirra beggja og tekur fram að ekki verði annað ráðið en að stjórnunarreynsla kæranda á kirkjulegum vettvangi sé mun meiri, enda hafi hún gegnt starfi sóknarprests í tíu ár. Stjórnunarreynsla þeirra af öðrum vettvangi verði að teljast sambærileg og halli þá síst á þann er skipaður var.

  13. Kærandi telur ljóst að hún hafi verið mun hæfari en sá er skipaður var til að gegna embættinu. Þar vegi þyngst tíu ára reynsla hennar af starfi sóknarprests á móti samanlagðri tæplega sex mánaða reynslu hans af slíku starfi. Kærandi telur að skort hafi á að fram færi fullnægjandi heildstætt og málefnalegt mat á hæfi þeirra, bæði hvoru fyrir sig og innbyrðis þeirra á milli, á grundvelli þeirra sjónarmiða sem lögum samkvæmt beri að hafa til hliðsjónar við slíkt mat. Ef slíkt mat hefði farið fram hefði kærða mátt vera ljóst að kærandi sé mun hæfari til að gegna  embættinu. Niðurstaða kærða um hæfi umsækjenda og niðurstaða valnefndar um að sá er skipaður var hafi verið örlítið hæfari, séu því bersýnilega rangar. Ekki verði séð að nein önnur ástæða en kynferði kæranda hafi ráðið því að hún hafi ekki verið skipuð í embættið. Í rökstuðningi kærða sé sérstaklega tekið fram að tvær konur séu starfandi sem prestar í prestakallinu og því þyki rétt af þeim sökum að ráða karl sem sóknarprest. Þess sé þó ekki getið að önnur tveggja kvennanna muni fljótlega láta af störfum vegna aldurs og að samhliða skipuninni hafi kona verið skipuð í embætti prests. Kærandi bendir á að mikill meirihluti starfandi sóknarpresta hér á landi séu karlmenn eða 75,3%. Ef fallist yrði á að mat kærða á hæfi umsækjenda hafi verið rétt og þau jafnhæf til að gegna embættinu sé ljóst samkvæmt meginreglum III. kafla laga nr. 10/2008 að kærða hafi borið að skipa kæranda í embættið.

  14. Kærandi tekur fram að sú viðbára kærða að mikilvægt sé að í hinu nýlega sameinaða prestakalli þjóni prestar af báðum kynjum sé haldlaus. Það að kærði reyni að réttlæta hina ólögmætu skipun með þeim hætti sýni að hann hafi talið slíka réttlætingu nauðsynlega og þar með sé ljóst að kynferði umsækjenda hafi skipt máli við ákvörðunina.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  15. Í greinargerð kærða er greint frá því hvernig staðið sé að vali á umsækjendum um störf sóknarpresta og aðkomu kærða að því ferli. Kærði rekur menntun umsækjenda og tekur fram að það hafi verið niðurstaða hans að sá er skipaður var stæði kæranda framar hvað menntun varðar. Þegar horft sé til starfsreynslu þeirra beggja liggi fyrir að kærandi hafi tæplega tíu ára reynslu af starfi sóknarprests. Starfsreynsla þess er skipaður var sé aftur á móti tæp fimm ár, sem héraðsprestur í tvö ár, sem sóknarprestur með hléum á þriggja ára tímabili og við störf með sóknarpresti C við prestsþjónustu í tvö ár samhliða fræðslufulltrúastarfi.

  16. Kærði tekur fram að hann hafi ekki talið ástæðu til að kanna sérstaklega hæfni umsækjenda í starfi þar sem þær upplýsingar hafi komið fram í umsóknum þeirra. Ljóst sé að bæði hafi getið sér mjög gott orð í þeim störfum og verkefnum sem þeim hafi verið falin og góð meðmæli hafi fylgt umsóknunum. Sú hefð hafi skapast hjá kærða að kalla umsækjendur í viðtöl ef hann teldi vafa leika á hæfni þeirra, ef ekki væri málefnalega staðið að valinu hjá valnefnd eða valið ekki reist á lögmætum sjónarmiðum. Að mati kærða hafi slíkt ekki átt við í þessu tilviki.

  17. Kærði bendir á að í umsókn kæranda hafi ekki verið vikið sérstaklega að framtíðarsýn hennar fyrir C. Í umsókn hennar komi þó fram ítarleg lýsing á störfum hennar í öðru prestakalli. Sá er skipaður var hafi hins vegar gert ítarlega grein fyrir framtíðarsýn sinni fyrir prestakallið í umsókn sinni. Í 10. gr. starfsreglna nr. 1109/2011 sé kveðið á um að umsækjendur um prestakall lýsi framtíðarsýn sinni. Að mati kærða hafi ekki verið ástæða til að gera athugasemdir vegna þessa.

  18. Við val á sóknarpresti skuli sérstaklega líta til reynslu og hæfni í stjórnunarstörfum en í auglýsingunni hafi verið sérstaklega tilgreint að æskilegt væri að umsækjandi byggi yfir stjórnunarreynslu af kirkjulegum eða sambærilegum vettvangi. Sá sem var skipaður hafi gegnt stöðu framkvæmdastjóra D við K en þar hafi hann haft yfirumsjón með starfsemi D, sem sé umgjörð fræðslustarfs í prófastsdæminu. Í því felist að skipuleggja starfið þar, sjá um mannaráðningar, greiða reikninga, útbúa fjárhagsáætlun og bera ábyrgð á rekstrinum gagnvart stjórn. Þá hafi hann sinnt margvíslegri verkefnastjórnun innan kirkjunnar. Af gögnum málsins, einkum meðmælum, verði ekki annað séð en að hæfni hans á þessu sviði sé mjög góð. Kærandi hafi starfað sem sóknarprestur í E í tæp tíu ár en hún sé eini presturinn í prestakallinu. Hún hafi þar stýrt og byggt upp innra starf kirkjunnar ásamt sóknarnefnd. Starf sóknarprests C sé ólíkt að því leyti að hann starfi við hlið tveggja presta. Þó að sóknarprestur stýri ekki störfum annarra presta sé hann í fyrirsvari um kirkjulegt starf í sóknum prestakallsins og hafi forystu um mótun þess og skipulag. Í fyrirsvari og forystu sóknarprests felist ekki stjórnunarvald eða boðvald yfir presti, sbr. starfsreglur nr. 1110/2011 um presta. Kærandi hafi meiri reynslu í því að vera í fyrirsvari um kirkjulegt starf en sá er skipaður var hafi aftur á móti meiri reynslu í verkefnastjórnun og skiptingu verka milli manna. Ljóst sé að kærandi hafi fimm ára lengri starfs/stjórnunarreynslu en kærði telji að starfs/stjórnunarreynsla þess sem skipaður var sé fjölþættari. Kærði hafi því ekki talið rétt að gera sérstakan greinarmun á reynslu þeirra og hæfni á sviði stjórnunar.

  19. Af framansögðu sé ljóst að kærði hafi kannað hæfi umsækjenda, hafi kannað hvort niðurstaða valnefndar væri byggð á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum og komist að þeirri niðurstöðu að svo væri. Ekki hafi verið ástæða til að gera athugasemdir við ákvörðun valnefndar um innbyrðis vægi hæfnisþátta. Ólíkt valnefnd hafi kærði talið báða umsækjendur jafnhæfa og þá hafi einkum verið horft til reynslu kæranda sem sóknarprests. Því hafi kærði talið að horfa bæri til 18. gr. laga nr. 10/2008 og jafna hlut kynjanna innan fyrirtækis eða stofnunar.

  20. Kærði tekur fram að það hafi verið skilningur hans að skoða bæri kynjasamsetningu á sérhverri starfsstöð kirkjunnar þar sem því verði viðkomið og heimilt sé að lögum. Í því felist að þar sem starfi einn sóknarprestur í prestakalli sé eftir því sem mögulegt er horft til kynjasamsetningar í prófastsdæminu. Þar sem fleiri prestar starfi saman í prestakalli sé horft til kynjasamsetningar innan prestakallsins. Þessi skilningur eigi sér stoð í dómi Hæstaréttar nr. 195/2006. Þrír kvenprestar hafi verið starfandi í C áður en skipað hafi verið í embættið. Það hafi því verið vilji kærða að karl yrði skipaður í a.m.k. eitt af þeim tveimur embættum sem væru að losna svo fremi sem það myndi rúmast innan laga og starfsreglna þjóðkirkjunnar. Kynjasamsetning innan prestakallsins hafi fyrst komið til álita eftir að mat á hæfni umsækjenda hafi legið fyrir.

  21. Kærði hafnar því að verulega hafi skort á að fram hafi farið heildstætt mat á hæfi þeirra sem sóttu um embættið og það hafi verið byggt á ómálefnalegum sjónarmiðum. Þvert á móti hafi farið fram mat á hæfi umsækjenda út frá fyrirframgefnum viðmiðum, sbr. 10. gr. starfsreglna um val og veitingu prestakalla, ákvæði auglýsingarinnar sem og leiðbeinandi reglna kærða. Kærði bendir á að skipunarvald kærða sé takmarkað. Valnefnd skuli ná samstöðu um einn umsækjanda og niðurstaða hennar teljist bindandi ef tveir þriðju nefndarmanna nái samstöðu. Kærði skipi þann umsækjanda í embætti sem valnefnd hafi náð samstöðu um svo fremi sem hún sé byggð á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum. Rökin fyrir þessu ferli séu að valnefndir prestakalla skuli hafa val um það hver gegni starfi sóknarprests eða prests. Að mati kærða hafi mat valnefndar C á hæfi umsækjenda og ákvörðun valnefndarinnar um innbyrðis vægi matsþátta verið málefnalegt og í samræmi við ákvæði jafnréttislaga. Kærði hafi því talið bæði rétt og skylt að staðfesta niðurstöðu valnefndar og skipa karlinn í embættið.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA

  22. Kærandi tekur fram að mat kærða og valnefndarinnar á hæfni umsækjenda sé bersýnilega rangt. Kærandi telur ljóst að þegar litið sé til þeirra sjónarmiða sem hafa bar til hliðsjónar við matið samkvæmt lögum, reglum nr. 1109/2011 og leiðbeinandi reglum kærða hafi kærandi verið mun hæfari til að gegna embættinu en sá er skipaður var. Í greinargerð kærða sé dregið úr menntun og reynslu kæranda á meðan menntun og reynsla þess er skipaður var sé gert hærra undir höfði. Þannig sé tíu ára reynsla kæranda sem sóknarprestur ekki metin að verðleikum af hálfu kærða. Framsetning kærða á tæplega sex mánaða samanlagðri starfsreynslu þess sem skipaður var sé enn sem fyrr frekar villandi og til þess fallin að gefa ranga mynd af samanbornu hæfi umsækjenda.

  23. Kærandi mótmælir því að framtíðarsýn hennar um embættið hafi ekki komið fram. Í ítarlegri umsókn hennar um embættið og viðtali hjá valnefndinni hafi framtíðarsýn hennar komið fram. Í fundargerð valnefndar hafi hins vegar ekki verið gerð grein fyrir spurningum nefndarformanns eða svörum umsækjenda við þeim. Á því verði aðrir en kærandi að bera ábyrgð. Í viðtali við kæranda hafi komið fram frekari og ítarlegri upplýsingar um hæfni hennar, reynslu og afstöðu til einstakra þátta embættisins sem hefði verið eðlilegt að gera grein fyrir í fundargerð og leggja til grundvallar við matið.

  24. Kærandi mótmælir einnig þeirri niðurstöðu kærða að gera ekki sérstakan greinarmun á reynslu og hæfni umsækjenda á sviði stjórnunar og gera þannig lítið úr tíu ára starfsreynslu hennar sem sóknarprests. Að gegna embætti sóknarprests feli í sér mikla ábyrgð og kalli sömuleiðis á hæfni til stjórnunar, samstarfs, samvinnu og skipulags. Mun skemmri reynslu þess er skipaður var verði ekki jafnað við tíu ára starfsreynslu kæranda sem sóknarprests, sama hversu fjölþætt hún kunni að þykja. Þá verði einnig að hafa í huga að í auglýsingu um embættið hafi verið sérstaklega tilgreint að æskilegt væri að umsækjendur byggju yfir stjórnunarreynslu af kirkjulegum vettvangi. Óumdeilt sé að kærandi standi þeim er skipaður var mun framar varðandi kirkjulega stjórnunarreynslu. Það sé í raun staðfest í athugasemdum kærða þar sem fram komi að kærandi hafi meiri reynslu í því að vera í fyrirsvari um kirkjulegt starf.

  25. Að mati kæranda fær röksemdarfærsla kærða um kynjasamsetningu á sérhverri starfsstöð kirkjunnar ekki staðist. Það gefi auga leið að ekki sé hægt að horfa til kynjasamsetningar innan einstakra prestakalla eða einstakra svæða þegar komi að skipun í embætti. Þegar komi að því að leggja mat á kynjasamsetningu beri að horfa til starfssviðsins sem slíks en ekki hvar því starfi sem um ræðir sé gegnt. Þá verði ekki með nokkru móti unnt að fallast á að kærði geti réttlætt niðurstöðu sína með vísan til dóms Hæstaréttar nr. 195/2006.

  26. Kærandi bendir á að innan kirkjunnar þekkist gjörla að þrír karlkyns prestar, en engin kona, hafi unnið saman um lengri eða skemmri tíma í sama prestakalli. Því sé einkar ótrúverðug sú viðbára kærða að líta beri til kynjasamsetningar innan hvers prestakalls þegar komi að skipun í prestsembætti. Kærandi tekur fram að af rökstuðningi og greinargerð kærða verði skýrlega ráðið að kyn umsækjenda hafi ráðið úrslitum við veitingu embættisins. Samkvæmt því hefði kærði átt að taka það sérstaklega fram í auglýsingu um embættið að kyn umsækjenda myndi skipta máli og þá eftir atvikum með því fororði að ef tveir eða fleiri umsækjendur teldust jafn hæfir til að gegna embættinu yrði karlkyns umsækjandi valinn fram yfir kvenkyns umsækjanda með vísan til kynjasamsetningar innan prestakallsins. Það hafi kærði hins vegar ekki gert enda hefði slík auglýsing verið nokkuð ankannaleg í ljósi þess að mikill meirihluti starfandi sóknarpresta eru karlar.

    ATHUGASEMDIR KÆRÐA

  27. Kærði tekur fram að fullyrðing kæranda um auglýsinguna sé byggð á misskilningi. Kærði hafi litið svo á að þegar tveir eða fleiri umsækjendur um embætti séu metnir sambærilega hæfir, að því er varði þá þætti sem leggja skuli til grundvallar hæfnismati, beri að horfa til kynjasamsetningar og velja þann einstakling sem er af því kyni sem sé í minnihluta. Ákvæði jafnréttislaga komi því ekki til skoðunar fyrr en slíkt hæfnismat hafi farið fram. Þegar af þeim ástæðum hafi ekki tíðkast að auglýsa sérstaklega eftir umsækjanda af öðru kyninu.

  28. Að mati kærða eru jafnréttislögin ekki skýr um hvort horfa beri til allra sóknarpresta í landinu, allra presta, eða prestastéttarinnar í heild sinni. Framkvæmdin hafi verið sú að horfa til sérhverrar starfsstöðvar þar sem æskilegt sé, að mati kærða, að sérhver einstaklingur geti valið milli kven- eða karlprests þar sem því verði við komið. Því hafi að undanförnu verið leitast við að jafna hlut kynjanna meðal sóknarpresta/presta á sérhverri starfsstöð. Að mati kærða þjóni það hvorki söfnuðum landsins né sé það í samræmi við ákvæði jafnréttislaga að einungis karlprestar þjóni í einu prófastsdæmi og konur í öðru. Alls staðar sé blöndun æskileg en að sjálfsögðu skuli ætíð velja hæfasta umsækjandann.

  29. Í viðbótarathugasemdum kærða er áréttað að þegar litið sé til allra hæfnisþátta 10. gr. starfsreglna nr. 1109/2011 séu kærandi og sá er skipaður var jafnhæf. Kærandi hafi lengri starfsreynslu en sá er skipaður var hafi meiri menntun á sviði guðfræði.

  30. Kærði fjallar um meginreglu sem dómstólar og kærunefnd jafnréttismála hafi mótað, það er að ráða beri þann umsækjanda sem sé af því kyni sem sé í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Hann telur meginregluna óljósa. Ætla megi að tilgangur hennar sé að stuðla að því að konur og karlar beri sambærilega ábyrgð í samfélaginu og séu sambærilega sýnileg. Þá megi ætla að tilgangur reglunnar sé að tryggja konum og körlum í reynd jafna möguleika til allra starfa óháð hugsanlegum viðhorfum í samfélaginu um að sum störf henti konum betur en körlum og öfugt. Jafnframt megi ætla að markmið reglunnar sé að stuðla að breyttum viðhorfum til getu og hæfni kvenna og karla. Kærði telur að það sé í höndum sérhvers atvinnurekanda að tryggja að þessari meginreglu sé beitt með samkvæmum hætti í samræmi við ákvæði jafnréttislaga og í samræmi við hlutverk og markmið sérhverrar stofnunar. Þannig telur kærði að með því að tryggja, þar sem því verði við komið, að konur og karlar starfi hlið við hlið í þeim prestsembættum þar sem fleiri en einn prestur starfi sé best unnið gegn hefðbundnum viðhorfum til kynja, hæfni þeirra og getu og sýnileiki þeirra sé best tryggður. Með því að beita umræddri reglu með þessum hætti séu að mati kærða jafnframt tryggðir þeir hagsmunir sóknarmanna að geta valið hvort þeir leiti þjónustu karl- eða kvenprests.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA

  31. Kærandi mótmælir því að horfa skuli til kynjasamsetningar innan hverrar starfsstöðvar fyrir sig en ekki innan starfsstéttarinnar í heild sinni. Það gefi augaleið að við skipun í prestsembætti sé einfaldlega ekki hægt að líta til kynjasamsetningar innan einstakra prestakalla, þar sem ef til vill starfi aðeins tveir prestar, en horfa með öllu framhjá kynjasamsetningu sóknarpresta eða prestastéttarinnar í heild. Ef veitingarvaldshöfum sé í sjálfsvald sett hvernig þeir túlki og beiti ákvæðum laga nr. 10/2008 sé ljóst að markmiðum laganna og tilgangi verði seint náð.

  32. Kærandi tekur fram að mikill meirihluti starfandi sóknarpresta hér á landi séu karlmenn eða um 75%. Áður en hægt sé að byggja ákvarðanir um skipan í embætti á kynjasamsetningu innan einstakra prestakalla verði að jafna kynjahlutföll meðal sóknarpresta í heild sinni, og eftir atvikum prestastéttarinnar. Aðeins þegar jafnvægi hafi náðst í kynjahlutföllum meðal sóknarpresta, og eftir atvikum presta í heild, sé hægt að fara að smíða sérstakar meginreglur um embættisskipanir í hverju prestakalli fyrir sig. Slík aðferðarfræði samrýmist best tilgangi og markmiði laga nr. 10/2008.

  33. Kærandi ítrekar að ef fallist verði á að kærða hafi verið rétt að viðhafa þá aðferðarfræði sem hann hafi gert þá hafi honum í öllu falli borið að geta þess sérstaklega í auglýsingu um embættið. Þá áréttar kærandi að hún hafi verið hæfari en sá er skipaður var til að gegna umræddu embætti og því hafi kærða borið samkvæmt almennum meginreglum stjórnsýsluréttarins að skipa kæranda í embættið.

    NIÐURSTAÐA

  34. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

  35. Embætti sóknarprests í C, J, var auglýst laust til umsóknar með auglýsingu X 2014 en þar var greint frá því að í prestakallinu væru 14 sóknir og að í J væru sjö prestaköll með 28 sóknum. Embættið skyldi veitt frá 1. ágúst 2014. Um skipunina giltu ákvæði í lögum nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, starfsreglur um val og veitingu prestsembætta, sbr. auglýsingu nr. 1109/2011, sem sett var með heimild í 2. mgr. 59. gr. laga nr. 78/1997, og leiðbeinandi reglur biskups um málsmeðferð fyrir valnefnd við val á sóknarpresti eða presti í prestakalli.

  36. Í 1. gr. starfsreglnanna er mælt fyrir um að valnefnd prestakalls velji sóknarprest nema óskað hafi verið kosningar í prestakalli. Samkvæmt 2. gr. reglnanna skal ráðgjafi starfa með þeim sem um málið fjalla af hálfu kirkjunnar. Sjónarmið sem valnefnd ber að leggja til grundvallar mati eru tilgreind í 10. gr. starfsreglnanna en þau eru guðfræðimenntun, starfsreynsla, starfsferill, hæfni til boðunar og sálgæslu og loks samskiptahæfni en auk þessa ber valnefnd að meta hvernig umsækjendur uppfylli sérstök skilyrði eða aðra sérstaka hæfni er áskilin er í auglýsingu. Í ákvæðinu er einnig tekið fram að við mat á hæfni skuli nefndin einnig hafa til hliðsjónar aðra menntun og starfsreynslu sem ætla megi að hafi áhrif á niðurstöðu nefndarinnar. Auk þess skuli meta frammistöðu í viðtölum, leiðtogahæfileika og framtíðarsýn. Þá greinir í ákvæðinu að við val á sóknarpresti skuli sérstaklega líta til reynslu og hæfni í stjórnunarstörfum. Loks gerir ákvæðið ráð fyrir að við val samkvæmt ofanskráðu skuli gæta ákvæða laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

  37. Niðurstöðu valnefndar skal fylgja rökstuðningur með vísan til þeirra sjónarmiða er nefndin leggur til grundvallar, sbr. 12. gr. starfsreglna nr. 1109/2011. Samkvæmt 13. gr. reglnanna skipar biskup þann umsækjanda í embætti sem valnefnd hefur náð samstöðu um enda telji hann og ráðgjafi niðurstöðu valnefndar reista á lögmætum sjónarmiðum.

  38. Í auglýsingunni var óskað eftir því að umsækjendur gerðu skriflega grein fyrir persónulegum upplýsingum, menntun, starfsferli, samskiptahæfileikum og öðru sem þeir óskuðu að koma á framfæri. Fram kom að æskilegt væri að umsækjandi byggi yfir stjórnunarreynslu af kirkjulegum eða sambærilegum vettvangi og lögð sérstök áhersla á að umsækjandi sem embættið hlyti hefði fasta búsetu í prestakallinu.

  39. Tveir umsækjendur voru um embættið, kærandi, sem er kona, og karl er skipaður var í embættið X 2014 í kjölfar niðurstöðu valnefndar á fundi nefndarinnar 19. maí 2014. Þar var bókað í fundargerð að karlinn stæði konunni örlítið framar. Í skýrslu ráðgjafa, dagsettri 22. maí 2014, kemur fram að eftir að rætt hefði verið við báða umsækjendur hefði verið framkvætt heildstætt samanburðarmat á umsækjendunum. Í fundargerðinni er ekki greint nánar frá sjónarmiðum er notuð voru við matið eða niðurstöðu einstakra þátta þess. Þar greinir á hinn bóginn frá menntun þess er skipaður var, að hann hafi innleitt nýjungar í fermingarfræðslu innan prófastsdæmisins og átt mikinn þátt í uppbyggingu F á J og loks frá stjórnunarreynslu hans við rekstur eininga innan kirkjunnar og mannaforráðum, sérstaklega í starfi við D.

  40. Kærandi lauk BA prófi í uppeldisfræði árið 1996 og cand. theol. prófi árið 2003. Sá er skipaður var í embætti sóknarprests í C lauk cand. theol. prófi árið 2008. Hann lauk prófi í kennslufræði til kennsluréttinda árið 2009 og MA prófi í guðfræði (trúfræði og helgihaldi) árið 2013. Sá er skipaður var hafði þannig nokkru meiri menntun á svið guðfræði en kærandi. Hann lauk einnig sjötta stigi í einsöng frá M árið 2004. Kærandi mun hafa sótt námskeið og fyrirlestra hjá biskupsstofu, sótt árleg prédikunarnámskeið í Skálholti, lokið grunnnámi í NLP og öðlast kennsluréttindi í kyrrðarbæninni. Kærði lagði ekki sérstakt mat á menntun umsækjenda umfram guðfræðinámið.

  41. Kærandi kenndi einn vetur við grunnskóla á landsbyggðinni, starfaði í átta ár á leikskólum á höfuðborgarsvæðinu og með guðfræðináminu á heimili fyrir fjölfötluð börn í Reykjavík. Hún var vígð til prestsþjónustu árið 2004 og hefur frá 1. nóvember 2004 gegnt embætti sóknarprests í E. Sá er embættið hlaut mun hafa gegnt 40% starfi sem æskulýðsfulltrúi á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2006 til 2008 en starfað sumurin 2005 til 2009 við sumarbúðir þjóðkirkjunnar við K um lengri eða skemmri tíma hvert sinn. Hann hóf störf sem fræðslufulltrúi L í ágúst 2008 og gegndi því starfi til septembermánaðar 2012 er hann var skipaður héraðsprestur í J. Starfshlutfall í fræðslufulltrúastarfinu var 75% á tímabilinu ágúst 2008 til mars 2011 en 100% á tímabilinu apríl 2011 til ágúst 2012. Á því tímabili er hann var fræðslufulltrúi gegndi hann þrisvar starfi sóknarprests í afleysingum í prestaköllum á J, ýmist í 50% eða 100% starfi en samanlagt námu þessi tímabil um níu mánuðum. Kærandi hafði samkvæmt þessu talsvert lengri starfsreynslu innan þjóðkirkjunnar en sá er skipaður var og jafnframt lengri starfsreynslu að loknu guðfræðiprófi.

  42. Hæfni til boðunar og sálgæslu, samskiptahæfni og leiðtogahæfileikar voru ekki til umfjöllunar hjá valnefnd. Taldi kærði ekki ástæðu til að kanna frekar hæfni umsækjenda á þessum sviðum þar sem umsækjendur hefðu bæði þessa eiginleika til að bera í ríkum mæli. Hefur ekkert komið fram við meðferð málsins hjá kærunefndinni er raskar þeirri niðurstöðu. Af hálfu kærða var bent á að kærandi hefði í umsókn ekki vikið sérstaklega að framtíðarsýn sinni fyrir prestakallið en að ekki hefði verið gerð athugasemd vegna þessa.

  43. Í auglýsingu um embætti sóknarprests í C var tekið fram að æskilegt væri að umsækjandi byggi yfir stjórnunarreynslu af kirkjulegum eða sambærilegum vettvangi. Kærandi fjallaði ekki sérstaklega um stjórnunarreynslu sína í umsókn sinni en hún hafði sem fyrr segir gegnt embætti sóknarprests í E í nærfellt tíu ár er embættið var auglýst. Hún hafði verið í forsvari fyrir samstarfssvæði prestakallanna við utanverðan G þegar því var ýtt úr vör veturinn 2011 til 2102. Sá er skipaður var gerði í umsókn grein fyrir stjórnunarreynslu og sýn á stjórnun og tiltók þar að hann hefði verið forstöðumaður verkefna, svo sem fermingarfræðslunámskeið, mót og leiðtogaefnanámskeið. Hann hefði einnig stýrt uppbyggingarstarfi innan prófastsumdæmisins á vettvangi F, sem fræðslufulltrúi og héraðsprestur. Starfsreynsla þess er skipaður var í starfi sóknarprests var um níu mánuðir. Við umfjöllun valnefndar verður ekki séð að gerður hafi verið sérstakur samanburður á stjórnunarreynslu umsækjendanna tveggja. Af hálfu kærða er fram komið að ekki hafi verið gerður greinarmunur á hæfni umsækjendanna á sviði stjórnunar þar sem reynsla kæranda hafi verið lengri en þess er skipun hlaut en sá hafi jafnframt haft til að bera fjölþættari reynslu. Fellst kærunefnd á að þegar lengri stjórnunarreynsla kæranda sem sóknarprestur og fyrirsvarsmaður samstarfssvæða prestakalla er vegin á móti stjórnunarreynslu þess er ráðinn var, sem fræðslufulltrúi, sóknarprestur í afleysingum og sem héraðsprestur, þar sem hann gegndi m.a. starfi framkvæmdastjóra D, sé ekki rétt að gera sérstakan greinarmun á reynslu þeirra og hæfni á sviði stjórnunar.

  44. Heildstætt mat á þeim þáttum sem að framan greinir, menntun, starfs- og stjórnunarreynslu, hæfni til boðunar og sálgæslu, samskiptahæfni og leiðtogahæfileikum, leiðir að mati kærunefndar til þeirrar niðurstöðu að umsækjendur hafi verið jafnhæfir til að gegna embætti sóknarprests í C. Er þá fallist á það mat kærða að starfsreynsla þeirra úr ólíkum störfum innan kirkjunnar hafi verið lögð að jöfnu og að ekki hafi verið sérstök ástæða til að telja starfsreynslu úr starfi sóknarprests vega þyngra að þessu leyti en þá reynslu er sá er skipaður var hafði til að bera.

  45. Upplýst er að þegar kærði skipaði í embætti sóknarprests í C voru um 75% starfandi sóknarpresta á landinu karlar og um 25% voru konur. Málsaðila greinir á um skyldur kærða til þess, þegar svo háttar til og við þær aðstæður að umsækjendur voru jafnhæf til að hljóta skipun í umrætt embætti, að skipa konu í embættið. Eru aðilar sammála um að við þær aðstæður að verulega halli á annað kynið í tiltekinni starfsgrein skuli leitast við að jafna hlut kynjanna en aðila greinir á um það hvort það hafi verið lögmætt sjónarmið að leggja til grundvallar að æskilegt væri að prestar í sama prestakalli væru af báðum kynjum. Kærunefnd hefur metið þau sjónarmið sem hér eru uppi og kemst að þeirri niðurstöðu að eins og hér stendur á hafi kærði ekki lagt ólögmæt sjónarmið til grundvallar. Við það mat er meðal annars haft í huga það hlutverk er prestar, þar á meðal sóknarprestar, gegna til þjónustu við söfnuðinn um persónuleg og viðkvæm málefni. Eðli starfsins kann því að leiða til þess að æskilegt sé að söfnuður njóti þjónustu presta af báðum kynjum, sé þess kostur. Þá verður ekki litið fram hjá því að við flutning kæranda úr einu embætti sóknarprests í annað hefði ekki verið vissa fyrir því að hlutfall kvenna á starfssviði sóknarpresta yrði jafnað í raun.

  46. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að kærði hafi ekki brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við skipun í embætti sóknarprests í C í xmánuði árið 2014. Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu er ekki efni til að verða við kröfu kæranda um málskostnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði braut ekki gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við skipun í embætti sóknarprests í C í xmánuði árið 2014.

 

Erla S. Árnadóttir

Björn L. Bergsson

Þórey S. Þórðardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta