Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2022 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 21. janúar 2022

Heil og sæl.

Upplýsingadeild heilsar á bóndadegi og færir ykkur það helsta sem hefur verið á döfinni í utanríkisþjónustunni síðustu tvær vikur.

Vaxandi spenna á landamærum Úkraínu og Rússlands hefur verið í brennidepli alþjóðastjórnmálanna að undanförnu. Af þessu tilefni komu varnarmálaráðherrar Norðurlandanna saman til fundar í dag á vettvangi norræna varnarsamstarfsins (NORDEFCO). Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tók þátt í fundinum og að honum loknum sendu ráðherrarnir frá sér sameiginlega yfirlýsingu. 

Í viðtali við Fréttablaðið í dag undirstrikaði utanríkisráðherra svo alvarleika málsins. „Enginn vafi er á að gripið verður til þvingunaraðgerða ef brot Rússlands gegn landamærahelgi Úkraínu færast í aukana. Landvinningastríð og brot gegn landamærum og lögsögu ríkja eru ólíðandi í alþjóðlegu samhengi og væru þvingunaraðgerðir fullkomlega réttlætanleg viðbrögð við þeim,“ segir Þórdís Kolbrún meðal annars í viðtalinu.

Í lok síðustu viku átti Þórdís Kolbrún símafund með Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Blinken óskaði eftir fundinum í því skyni að árna Þórdísi Kolbrúnu velfarnaðar í nýju embætti. Ráðherrarnir ræddu jafnframt sameiginleg sjónarmið og gott samstarfs Íslands og Bandaríkjanna, þar með talið á sviði öryggis- og varnarmála, loftslagsmála og viðskipta.

„Bandaríkin eru stærsta viðskiptaland Íslands, en tengsl ríkjanna rista mun dýpra. Má þar meðal annars nefna menningu, vísindi, íþróttir og afþreyingu. Ég tel að Íslendingum líði sérstaklega vel þegar þeir heimsækja Bandaríkin, það hefur að minnsta kosti verið mín reynsla, og ég vona að bandarískir ríkisborgarar finni fyrir svipaðri tilfinningu þegar þeir heimsækja Ísland,“ sagði Þórdís Kolbrún meðal annars.

Á þriðjudag ávarpaði ráðherra málþing um jafnrétti á norðurslóðum. Málþingið var hluti af fyrirlestraröðinni Vísindi á norðurslóðum, sem er samstarfsverkefni sendiráðs Íslands í Ottawa, sendiráðs Kanada í Reykjavík, Polar Knowledge Canada og Norðurslóðanets Íslands.

„Jafnrétti kynjanna er forsenda sjálfbærrar þróunar á norðurslóðum og undirstaða samfélagslegrar velferðar og stöðugleika. Um er að ræða grundvallar mannréttindi sem leggja grunninn að eftirsóknarverðu og réttlátu samfélagi,“ sagði Þórdís Kolbrún í ávarpi sínu. 

En þá að sendiskrifstofum okkar.

Sem fyrr segir hefur vaxandi spenna í og við Úkraínu verið efst á baugi að undanförnu og sér þess stað í starfsemi sendiskrifstofanna. Hermann Ingólfsson, fastafulltúri Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu, tók til að mynda þátt í fundi NATO-Rússlandsráðsins í síðustu viku þar sem öryggismál í Evrópu voru til umræðu. 

Ísland var í síðustu viku kjörið í varaforsæti UN Women í New York og mun Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, sitja í stýrinefnd stofnunarinnar fyrir hönd ríkjahóps Vesturlanda. 

María Erla Marelsdóttir, sendiherra Íslands í Berlín, afhenti forseta Króatíu, Zoran Milanović, trúnaðarbréf sitt á þriðjudag, en Króatía er á meðal umdæmislanda sendiráðs Íslands í Þýskalandi. Í Króatíu fundaði María Erla einnig með embættismönnum hjá forsetaembættinu og utanríkisráðuneytinu þar sem samstarf ríkjanna á sviði jarðhita og jafnréttismála var til umræðu auk þess sem þess var getið að í ár eru þrjátíu ár frá því Ísland og Króatía tóku upp stjórnmálasamband. 

Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í París, tók þátt í umræðum á vettvangi UNESCO um skaðlega karlmennsku. 

Sendiráð Íslands eiga gjarnan í nánu samstarfi og samtali við önnur norræn sendiráð í viðkomandi gistiríkjum. Þannig fundaði Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra Íslands í Washington, til að mynda með norrænum kollegum sínum þar í borg í vikunni. 

Og Unnur Orradóttir Ramette fundaði sömuleiðis með kollegum sínum í París. 

Þórir Ibsen, sendiherra Íslands í Peking, fundaði með kjörræðismönnum Íslands í Peking.  

Sendiráð Íslands í Malaví fékk skemmtilega heimsókn frá SOS Barnaþorpum á Íslandi í vikunni og velgjörðarsendiherra þeirra, Rúrik Gíslasyni. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi steig Rúrik meðal annars léttan dans með börnunum í Mangochi héraði. 

Sendiráð Íslands í Washington sagði frá peningasendingu sem það fékk frá 82 ára gamalli konu frá Georgia fylki í Bandaríkjunum á Twitter-reikningi sínum. Konan bað sendiráðið um aðstoð við að greiða reikning frá Rauða kross Íslands vegna sjúkrabíls sem eiginmaður konunnar þurfti á að halda í ferð hjónanna til Íslands síðasta sumar. Þar sem konan sagðist ekki vera nógu fær á tölvur greip hún til þess að ráðs að senda 195.000 krónur í íslenskum seðlum til sendiráðsins.

Helga Hauksdóttir, sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, var í síðustu viku í viðtali í morgunútvarpi Rásar 1 í tilefni krýningarafmælis Danadrottningar. Ræddi hún meðal annars um hátíðarhöldin, drottninguna sjálfa og tíma hennar á valdastóli. Hér er hægt að hlusta á viðtalið.

Að lokum er gaman að segja frá því að Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Tókýó og fyrrverandi ráðuneytisstjóri, var þann 1. janúar síðastliðinn sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín en orðuveitingin fór fram á Bessastöðum þann 12. janúar. 

Við óskum Stefáni að sjálfsögðu innilega til hamingju.

Fleira var það ekki í bili.

Með kærri kveðju,

Upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta