Tilraunaverkefni um vinnumiðlun til þriggja ára
Ráðist verður í tilraunaverkefni um vinnumiðlun í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnar vegna kjarasamninga síðastliðið vor. Verkefnið er skipulagt í samráði velferðarráðuneytisins og Vinnumálastofnunar við Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og Samtök atvinnulífsins (SA) sem munu stofna félag um framkvæmdina. Samkomulag um verkefnið var undirritað í dag.
Tekist hefur samkomulag milli velferðarráðuneytisins, Vinnumálastofnunar, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands um tilraunaverkefnið. Markmiðið er að efla vinnumiðlun og stuðla að virkari vinnumarkaðsaðgerðum sem auki líkur atvinnuleitenda á því að fá störf á vinnumarkaði að nýju. Félag ASÍ og SA mun annast þjónustu við atvinnuleitendur í tengslum við vinnumiðlun og vinnumarkaðsaðgerðir og fær til þess greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
Vinnumálastofnun mun eftir sem áður sjá um skráningu og ákvarðanir um réttindi viðkomandi atvinnuleitenda innan atvinnuleysistryggingakerfisins samkvæmt lögum. Þar með talin er umsjón með greiðslu atvinnuleysisbóta og ábyrgð á öllum stjórnsýsluákvörðunum um réttindi og skyldur atvinnuleitendanna í samræmi við lög um atvinnuleysistryggingar.
Aukin þjónusta við atvinnuleitendur, óbreytt starfsemi Vinnumálastofnunar
Tilraunaverkefnið felur í sér viðbót við núverandi þjónustu á sviði vinnumiðlunar og ráðgjafar við atvinnuleitendur á þeim svæðum þar sem þörfin er mest, enda sameiginlegt mat þeirra sem að verkefninu koma að auka þurfi fjárframlög á þessu sviði.
Framlög til Vinnumálastofnunar vegna vinnumiðlunar og ráðgjafar verða óbreytt frá því sem áætlað var í fjárlögum þessa árs eða um 313 milljónir króna og er gert ráð fyrir að þeim verði varið til þjónustu við 73,5% þeirra sem eru í atvinnuleit.
Afmörkun tilraunaverkefnisins
Tilraunaverkefnið tekur til 26,5% fólks sem er í atvinnuleit. Þetta eru atvinnuleitendur á Austurlandi sem eru félagsmenn aðildarfélaga ASÍ, atvinnleitendur á Suðurnesjum sem eru félagsmenn í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur, Verkalýðsfélags Grindavíkur, Sjómanna og vélstjórafélags Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis og FIT (Félagi iðn og tæknigreina). Verkefnið nær einnig til atvinnuleitenda á höfuðborgarsvæðinu sem eru félagsmenn í VR, FIT og Fagfélagsins.
Kostnaður
Áætlaður heildarkostnaður vegna tilraunaverkefnisins þau þrjú ár sem það stendur yfir er um 300 milljónir króna. Auk þessa er gert ráð fyrir að um 20 milljónum króna verði varið í gæðaeftirlit og mat á verkefninu. Kostnaður ársins 2012 er áætlaður 81,8 milljónir króna þar sem verkefnið hefst ekki fyrr en í maí.
Mat á verkefninu
Velferðarráðuneytið mun fylgjast með framgangi verkefnisins og meta árangur þess. Birtar verða framvinduskýrslur á sex mánaða fresti og skýrsla með lokamati á verkefninu í maí 2015. Umfang verkefnisins og árangur þess skal koma til endurmats í júní 2013.