Viljayfirlýsing um seinni áfanga ljósleiðarahringtengingar Vestfjarða
Neyðarlínan hefur það að markmiði að almenningur nái ávallt í neyðarnúmerið 112 og að tryggja virkni neyðar- og öryggisfjarskipta Tetra öryggisfjarskiptakerfisins svo og vöktunarbúnað Vaktstöðvar siglinga sem félagið rekur. Fjarskiptasjóður og Neyðarlínan hafa á undanförnum árum átt farsælt samstarf um fjölmörg uppbyggingararverkefni innviða fjarskipta sem miðað hafa að auknu öryggi í þágu almennings og viðbragðsaðila. Verkefni þetta er liður í framtaki stjórnvalda um eflingu fjarskiptainnviða og þá einkum ljósleiðarakerfa utan markaðssvæða.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra fagnar þessum áfanga:
,,Það er mjög mikilvægt að þessi hringtenging ljósleiðara á Vestfjörðum dragist ekki þrátt fyrir að ekki hafi verið hægt að taka tilboði markaðarins um verkefnið. Með hringtengingunni er leitast við að tryggja enn frekar fjarskipti í þessum landshluta. Þarna erum við að halda áfram uppbyggingu í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um eflingu fjarskiptainnviða."
Arnbjörg Sveinsdóttir, formaður stjórnar fjarskiptasjóðs, og Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, skrifuðu undir viljayfirlýsinguna að viðstöddum stjórnarmönnum fjarskiptasjóðs, þeim Valgerði Sverrisdóttur og Gunnari Svavarssyni.