Hoppa yfir valmynd
13. desember 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 35/2012

Fimmtudaginn 13. desember 2012

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 22. mars 2012 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 20. mars 2012. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 13. mars 2012, þar sem Fæðingarorlofssjóður hafnaði að fella niður 15% álag vegna ofgreiðslu frá sjóðnum með börnum fæddum Y. júní 2010.

Með bréfi, dags. 26. mars 2012, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 27. mars 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 30. mars 2012, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

I. Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hann hafi óskað eftir því við Fæðingarorlofssjóð að fá fellt niður 15% álag á endurgreiðslukröfu sjóðsins þar sem hann hafði samið um endurgreiðsluna. Kærandi hafi ekki fengið álagið niðurfellt og kæri því þá ákvörðun sjóðsins.

Kærandi tekur fram að hann hafi svarað öllum bréfum og tölvupóstum innan þeirra tímamarka sem tilgreind hafi verið og hafi nú þegar greitt höfuðstól kröfunnar.

Upphaflega hafi kærandi ekki vitað um tilvist þeirra laga sem takmarki vinnu á því tímabili sem fæðingarorlof taki yfir og því ekki vitað að umrædd krafa myndi verða til. Kærandi og vinnuveitandi hans hafi svarað öllum fyrirspurnum og sent gögn innan tilgreindra tímamarka og þannig unnið í samvinnu við Fæðingarorlofssjóð. Þess vegna skilji kærandi ekki hvernig 15% álag geti myndast.

 

II. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kæranda hafi verið send greiðsluáskorun, dags. 7. febrúar 2012, ásamt sundurliðun ofgreiðslu, í kjölfar undangenginnar málsmeðferðar vegna hugsanlegrar ofgreiðslu, þar sem hann hafi verið krafinn um endurgreiðslu útborgaðrar fjárhæðar fyrir nóvembermánuð 2012 auk tímabilsins júlí 2011 til nóvember 2011 ásamt 15% álagi. Litið hafi verið svo á samkvæmt skrám RSK, fyrirhugaðri töku fæðingarorlofs með börnum fæddum Y. júní 2010 og innsendum gögnum og skýringum að kærandi hafi fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði skv. 9. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 og f-lið 8. gr. laga nr. 74/2008, nú 10. mgr. 13. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 136/2011, sbr. og 2. mgr. 15. gr. a ffl. Í kjölfarið hafi borist bréf frá kæranda, dags. 15. febrúar 2012, sem hafi verið svarað með rökstuðningi og skýringum, dags. 23. febrúar 2012.

Þann 2. mars 2012 hafi borist tölvupóstur frá kæranda þar sem hann hafi óskað eftir niðurfellingu á 15% álagi með þeim rökum að hann hafi talið sér vera heimilt að vinna eins mikið og hann gæti þann hálfa mánuð sem hann hafi ekki verið í fæðingarorlofi í hverjum mánuði. Þann 13. mars 2012 hafi kæranda verið sent bréf þar sem fram komi að ekki hafi verið færðar fram fullnægjandi skýringar um að kæranda verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Sé sú ákvörðun kærð nú.

Í 15. gr. a ffl., sbr. 6. gr. laga 90/2004, sé fjallað um leiðréttingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. kemur fram að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því hafi borið samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi foreldri rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Í 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, komi fram að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því hafi borið samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum skuli Vinnumálastofnun senda greiðsluáskorun til foreldris vegna hinnar ofgreiddu fjárhæðar ásamt 15% álagi. Þegar foreldri telji að því verði eigi kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar um of háar greiðslur úr sjóðnum til foreldris skuli foreldri færa fyrir því skrifleg rök innan fjögurra vikna frá því að greiðsluáskorun sannanlega barst foreldri. Vinnumálastofnun skuli taka afstöðu til þess innan fjögurra vikna frá því að rök foreldris bárust stofnuninni hvort þau leiði til þess að fella skuli niður álagið.

Eins og að framan hafi verið rakið hafi skrifleg rök frá kæranda borist með tölvupósti þann 2. mars 2012 sem ekki hafi verið talinn gefa tilefni til að fella niður 15% álagið, sbr. bréf til kæranda, dags. 13. mars 2012.

Í kæru komi jafnframt fram að ofgreiðslan hafi byggst á misskilningi hans þar sem hann hafi ekki lesið lögin um fæðingarorlof og að ofgreiðslan hafi komið til af því að hann hafi verið í fæðingarorlofi í hálfan mánuð í senn og haldið að hann hafi mátt vinna eins mikið og hann hafi getað hinn hálfa mánuðinn.

Að mati Vinnumálastofnunar geti vanþekking á lögum um fæðingar- og foreldraorlof eða ákvörðun um að vinna mikla vinnu þann hluta mánaðarins sem kærandi hafi ekki verið í fæðingarorlofi ekki talist vera fullnægjandi rök fyrir því að kæranda verði eigi kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar um ofgreiðslu.

Vakin sé athygli á því að kærandi hefur nú þegar endurgreitt Fæðingarorlofssjóði höfuðstól hinnar ofgreiddu fjárhæðar X kr. að viðbættu 15% álagi X kr. Alls hefur kærandi því endurgreitt Fæðingarorlofssjóði X kr.

 

III. Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um hafna því að fella niður 15% álag á endurgreiðslukröfu sjóðsins.

Af hálfu kæranda er byggt á því að hann hafi sýnt mikinn samstarfsvilja við Fæðingarorlofssjóð auk þess sem ofgreiðslan hafi verið vegna þess að hann hafi talið sér heimilt að vinna eins mikla vinnu og hann gat þá daga sem hann hafi ekki verið í fæðingarorlofi.

Óumdeilt er í málinu að kærandi hafi fengið of háar greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. 15. gr. a, sbr. 6. gr. laga nr. 90/2004 og 5. gr. laga nr. 155/2006, segir að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Þá segir jafnframt að fella skuli niður álagið færi foreldri rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar, en skv. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, skal kærandi færa rök sín fram innan fjögurra vikna frá því að greiðsluáskorun sannanlega barst honum. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur kærandi hins vegar ekki fært fullnægjandi rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til endurkröfu Fæðingarorlofssjóðs. Skal þá tekið fram að samkvæmt lögunum skal leggja álagið á óháð huglægri afstöðu eða ásetningi foreldris.

Með vísan til alls framangreinds verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að hafna kröfu A um niðurfellingu 15% álags vegna endurgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta