Breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar
Ásta R. Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur mælt fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar á Alþingi.
Samkvæmt frumvarpinu verður gildistími bráðabirgðaákvæðis laganna um heimildir til að greiða hlutfallslegar atvinnuleysisbætur á móti skertu starfshlutfalli launamanna framlengdur til 31. desember 2009. Sú breyting er þó lögð til að skerðing starfshlutfalls þurfi að vera 10% að lágmarki til þess að viðkomandi eigi rétt til hlutabóta.
Ráðherra sagði í framsöguræðu sinni að þessi heimild um hlutabætur hafi sannað ágæti sitt sem mjög gott vinnumarkaðsúrræði þar sem starfsmenn eru áfram virkir á vinnumarkaði í að minnsta kosti 50% starfshlutfalli í stað þess að missa ef til vill vinnu sína að fullu. Fram kom í máli ráðherra að í lok janúar síðastliðnum hafi um 1.280 einstaklingar fengið greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli þessarar heimildar og að tæp 40% þeirra hafi verið í hálfu starfi. Meðalstarfshlutfall þeirra sem fengu greiddar hlutfallslegar atvinnuleysisbætur var 66%.
Í frumvarpinu er einnig kveðið á um framlengingu bráðabirgðaákvæðis um rétt sjálfstætt starfandi einstaklinga til atvinnuleysisbóta þrátt fyrir tilfallandi verkefni til 31. desember 2009. Þá eru lagðar til ákveðnar breytingar sem ætlað er að færa rétt sjálfstætt starfandi einstaklinga til atvinnuleysisbóta til betra samræmis við rétt launamanna.
Loks er lagt til að Vinnumálastofnun fái skýrari heimildir en áður til að sinna eftirliti með framkvæmd laganna. Ráðherra sagði í framsöguræðu sinni að það væri miður ef einhver brögð væru af því að atvinnuleysisbótakerfið væri misnotað og auðvitað þurfi að fyrirbyggja slíkt eins og mögulegt er: „Mestu skiptir þó að kerfið þjóni vel heildinni og þeim markmiðum sem að var stefnt í upphafi. Við verðum fyrst og fremst að líta til tilgangs ákvæðisins sem er að auka möguleikana á því að sem flestir séu virkir á vinnumarkaði í einhverjum mæli í stað þess að hætta allri þátttöku og tel ég að vel hafi tekist til hvað það varðar.“