Hoppa yfir valmynd
16. mars 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félagslegt réttlæti fyrir sanngjarna hnattvæðingu

Félags- og tryggingamálaráðherra, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, hefur lagt fram á Alþingi skýrslu um 97. Alþjóðavinnumálaþingið í Genf 2008. Meðal efnis í skýrslunni er yfirlýsing sem þingið afgreiddi um félagslegt réttlæti fyrir sanngjarna alþjóðavæðingu. Með yfirlýsingunni er mörkuð stefna Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, aðildarríkjanna og samtaka aðila vinnumarkaðarins að því er varðar áhrif hnattvæðingar á framvindu félags- og vinnumála. Þetta er þriðja yfirlýsingin sem Alþjóðavinnumálaþingið hefur afgreitt í 90 ára sögu stofnunarinnar.

Með yfirlýsingunni er viðurkenndur ávinningurinn af hnattvæðingu en jafnframt er hvatt til aðgerða í því skyni að hrinda í framkvæmd áætlun Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um mannsæmandi vinnu þannig að arðinum sé skipt með sanngjörnum hætti milli allra.

Yfirlýsingin felur einnig í sér að nýjum stoðum er skotið undir það hlutverk Alþjóðavinnumálastofnunarinnar að liðsinna aðildarríkjunum að beita sér fyrir umbótum og ná árangri og félagslegu réttlæti á grundvelli hinna fjögurra þátta í stefnu í stofnunarinnar um mannsæmandi vinnu; störf fyrir vinnufúsar hendur, félagslega vernd, frelsi aðila vinnumarkaðarins til samningsgerðar og samstarf þeirra við ríkisvaldið og virðing fyrir grundvallargildum og réttindum í atvinnulífinu.

Í ljósi þeirrar kreppu í efnahagsmálum sem blasir við fjölmörgum ríkjum er ástæða til að draga fram ákvæði í aðfararorðum yfirlýsingarinnar. Þar segir meðal annars að Alþjóðavinnumálastofnuninni sé falið að fara yfir og fjalla um öll alþjóðleg stefnumið í efnahags- og fjármálum út frá grundvallarmarkmiðum um félagslegt réttlæti. Í þessu felst hvatning um að efla samvinnu og samráð alþjóðastofnana sem fjalla um og móta stefnu í efnahags- og fjármálum við Alþjóðavinnumálastofnunina. Hlutverk hennar verður að leggja mat á það hvaða áhrif efnahags- og fjármálastefnan hefur á félagslegt réttlæti, grundvallarréttindi í atvinnulífinu og mannsæmandi vinnu. Þetta leggur aðildarríkjunum þá skyldu á herðar að sjá til þess að við stefnumótun í hlutaðeigandi alþjóðastofnunum, til dæmis Alþjóðaviðskiptastofnuninni og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sé tekið tillit til þessara grundvallaratriða Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í félags- og vinnumálum.

Skjal fyrir Acrobat Reader Skýrslan um 97. Alþjóðavinnumálaþingið í Genf 2008

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta