Aukin samvinna í menntamálum milli Íslands og Póllands
Skólinn er rekinn af Vinafélagi pólska skólans í Reykjavík en þar stunda rúmlega 360 nemendur á aldrinum 5-18 ára nám, einkum í pólsku, sögu, náttúrufræði, landafræði og félagsfræði. Skólinn starfrækir jafnframt bókasafn auk þess sem þar er boðið uppá tónlistarkennslu, talþjálfun, sérkennslu og ráðgjöf skólasálfræðings. Skólinn er til húsa í Fellaskóla í Breiðholti og fer kennsla fram á laugardögum.
Tæplega 11.000 pólskir ríkisborgarar eru búsettir hér á landi en þeir eru nær 40% innflytjenda á Íslandi. Starfsemi Pólska skólans er mikilvæg fyrir þennan fjölmenna hóp, bæði til þess að auka tengsl og miðla þekkingu.
„Það er komin góð og dýrmæt reynsla á starf Pólska skólans og það er margt sem við getum lært af árangri hans og áherslum. Við vitum að góður grunnur í móðurmáli er mikilvæg undirstaða fyrir annað nám, ekki síst í íslensku. Tvítyngi veitir ótal tækifæri, tungumál opna dyr að fjölbreyttari þekkingu og þar með skilningi og framförum. Það var reglulega ánægjulegt að heimsækja skólann í fylgd Önnu Zalewska, við óskum forsvarsmönnum hans hjartanlega til hamingju með þessi tímamót og vonum að skólinn þróist og dafni áfram sem mikilvægur partur af skólasamfélaginu hér á landi,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.