Hoppa yfir valmynd
20. apríl 2021

Samræmd Covid-19 vottorð í augsýn

Ráðherraráðið tilbúið í viðræður við Evrópuþingið

Sendiherrar ESB-ríkjanna samþykktu 14. apríl sl. umboð til viðræðna við Evrópuþingið um tillögu að samræmdum Covid-19 vottorðum (Stafrænt grænt vottorð eins það er kallað). Gert er ráð fyrir að vottorðin verði komin í gagnið í lok júní. EFTA-ríkin taka þátt í tæknilegum undirbúningi og gert er ráð fyrir að reglur taki gildi á sama tíma alls staðar á Evrópska efnahagssvæðinu og í Sviss. Ríkisstjórnin samþykkti fyrir sitt leyti að fyrirliggjandi drög að reglugerð fái flýtimeðferð innan EFTA-stoðarinnar.

Helstu breytingar sem orðið hafa á tillögunni eftir að framkvæmdastjórnin lagði hana fram eru þessar:

  • Tekið er sérstaklega fram að Stafræna græna vottorðið sé ekki forsenda þess að hægt verði að nýta sér ferðafrelsi. Þetta birtist m.a. í því að með nýja kerfinu verða ekki einungis gefin út bólusetningarvottorð heldur einnig vottorð um bata af fyrri sýkingu eða um niðurstöður sýnatöku.
  • Sérstakt ákvæði fjallar um alþjóðlegt samstarf. Er þar tekið á útgáfu vottorða til þeirra sem eru ríkisborgarar EES-ríkja, þar búsettir eða löglega staddir en hafa fengið til dæmis bólusetningu í 3. ríkjum.
  • Ákvæði um vernd persónuupplýsinga hafa verði styrkt á grundvelli sameiginlegs álits evrópskra persónuverndaryfirvalda.
  • Gert er ráð fyrir aðlögunartíma í sex vikur eftir gildistöku reglnanna. Er þar tekið tillit til ríkja eins og Þýskalands og Svíþjóðar sem lögðu á það áherslu að það yrði gríðarlegt átak að tengja dreifstýrt heilbrigðiskerfi við nýja vottorðakerfið.

Gert er ráð fyrir að Evrópuþingið samþykki sitt samningsumboð á fundi 26.-29. apríl. Í kjölfarið geta þríhliða viðræður ráðherraráðsins, þar sem Portúgal er í forystu þessa stundina, við Evrópuþingið og framkvæmdastjórnina hafist.

Stefna gegn skipulagðri glæpastarfsemi og mansali

Framkvæmdastjórn ESB kynnti 14. apríl sl. nýja stefnu í viðureign við skipulagða glæpastarfsemi. Fram kemur í fréttatilkynningu að þeir sem stundi skipulagða glæpi sé fljótir að laga sig að nýjum aðstæðum. Í heimsfaraldrinum megi sjá að glæpastarfsemi hafi aukist á netinu og vörusvik tengd lækningavörum og bóluefnum hafi farið vaxandi. Tekjur af skipulagðri glæpastarfsemi í álfunni eru taldar nema um 140 milljörðum evra á ári. Áberandi hluti skipulagðrar glæpastarfsemi er fíkniefnasmygl og sala, fjársvik og mansal. Með nýju stefnunni stendur til að brjóta upp viðskiptamódel glæpamanna og raska möguleikum til skipulags.

Nánar tiltekið á að

  • efla löggæslu og samstarf dómsmálayfirvalda þvert á landamæri,   
  • auka áherslu á rannsókn tiltekinnar glæpastarfsemi eins og umhverfisglæpa og mansals, framkvæmdastjórnin birti einmitt þennan sama daga nýja stefnu í því efni, þar sem lögð er áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir, til að draga úr eftirspurn, og markvissar aðgerðir til að vernda konur og börn sem verða fyrir mansali,
  • sjá til þess að glæpir borgi sig ekki með því að herða á reglum um að gera ávinning upptækan og peningaþvættisúrræðum,
  • auka færni löggæslunnar á sviði stafrænnar tækni.

Aprílfundur fjármála- og efnahagsráðherra ESB 

Staða efnahagsmála. Eins og á fyrri fundum á yfirstandandi ári var aðalumræðuefnið á fundinum í dag, 16. apríl, staða og horfur í efnahagsmálum aðildarríkja ESB. Ný efnahagsspá mun þó ekki liggja fyrir fyrr en í maí, en samkvæmt febrúarspánni er útlit fyrir 3,7% meðalhagvöxt á árinu 2021 og 3,9% árið 2022 í aðildarríkjum ESB. Flest bendir til þess að vöxturinn verði fremur minni en meiri í ljósi þess hversu óhönduglega hefur gengið með bólusetningar gegn Covid-veirunni. Þá fóru ráðherrarnir yfir niðurstöður fundar G20 ríkjanna sem haldinn var 7. apríl sl. Í grófum dráttum kemur þar fram að horfur í efnahagsmálum hafi batnað það sem af er ári samanborið við mikinn samdrátt 2020, aðallega vegna herferðar í bólusetningum og áframhaldandi stuðningsaðgerða stjórnvalda. Hins vegar sé staðan misjöfn milli landa og enn mjög brothætt vegna nýrra afbrigða af veirunni og vandræða kringum bólusetningar í mörgum ríkjum. Þeir þættir sem G20 telur að verði að leggja áherslu á til að efla hagvöxt að nýju er að hjálpa þeim sem verst hafa orðið úti í faraldrinum, eins og ungt fólk, konur og ófaglært launafólk.

Staða Bjargráðasjóðsins. Umræða um Bjargráðasjóðinn var á sínum stað. Engin formlega samþykkt Endurreisnaráætlun (National Recovery Plan) hefur enn borist frá aðildarríkjunum, en skilafrestur rennur út 30. apríl. Fjármögnun ESB á Bjargráðasjóðnum með skuldabréfaútgáfum hvílir m.a. á samþykkt slíkra áætlana frá öllum aðildarríkjum ESB. Þá mun efnahagsaðstoð ESB við einstök ríki ráðast af því að ákveðin grunnskilyrði séu til staðar sem eiga að endurspeglast í endurreisnaráætlun þeirra. Til upprifjunar má nefna að ESB stefnir að árlegri skuldabréfaútgáfu upp á 150-200 milljarða evra næstu 4-5 árin og verður því einn stærsti skuldabréfaútgefandi evrabréfa á alþjóðlegum fjármálamarkaði. Endurgreiðslu þeirra á að vera lokið 2058.

Viðbótartekjur ESB (New own-resources). Fjármögnun Bjargráðasjóðsins kallar óhjákvæmilega á umræðu um nýja tekjuöflun ESB ríkjanna, þ.e. sérstakan kolefnisskatt yfir landamæri (Carbon Border Adjustment Mechanism, CBAM)) og stafræna skattinn (Digital Tax), sem OECD hefur verið að útfæra, enda hanga endurgreiðslur á skuldabréfum ESB saman við innleiðingu þessara skatta.

Mikill áróður er í gangi gegn kolefnisskattinum einkum frá Kínverjum, en efasemdarraddir hafa einnig heyrst frá Bandaríkjunum. Að undanförnu hefur ESB reynt að gera lítið úr áhyggjum USA, sbr. frétt í Financial Times með yfirskriftinni “EU rebuffs US concerns over carbon border tax threat”.

Jákvæðari umræða heyrist hins vegar um stafræna skattinn á grundvelli vinnu OECD og viðbragða USA. Í Politico í gær er haft eftir frönskum yfirmanni skattamála hjá framkvæmdastjórn ESB að skatturinn muni aðeins hitta fyrir 5-6 bandaríska tæknirisa. ESB virðist því ætla að taka minna skref en upphaflega var áformað, sbr. eftirfarandi ummæli. “We will … construct something which is soft enough to make sure we do not create obstacles to the digitalization of our economies,” sagði yfirmaðurinn. “The last thing anyone would want is to create tensions with our trade partners, starting with the United States.

Fjármálamarkaðurinn. Þá var rætt um stöðu mála á fjármálamarkaði. Þar lúta áhyggjur manna fyrst og fremst að því að fyrirtæki í erfiðleikum vegna faraldursins fái ekki nægilega greitt aðgengi að nauðsynlegri fjármögnun. Umræða um „Banking Union“ og „Capital Markets Union“ var líka á sínum stað en fátt nýtt að frétta í þeim málum.  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta