Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 80/2013.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 14. febrúar 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 80/2013.

 

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Kæra kæranda, A, er dagsett 14. ágúst 2013. Kærandi kvartar undan því að hafa verið án atvinnuleysisbóta í fimm mánuði frá 1. janúar til 1. maí 2012. Allan þann tíma hafi hún þó stimplað sig inn hjá Vinnumálastofnun án nokkurra athugasemda. Kærandi kveðst ekki ætla að sætta sig við þetta óréttlæti.

 

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kvað upp úrskurð í máli kæranda 14. maí 2013. Þar kemur fram að með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 26. janúar 2012, hafi henni verið tilkynnt að þar sem stofnuninni hafi ekki borist upplýsingar um óupplýstar tekjur hennar sem óskað hafi verið eftir 5. janúar 2012 hafi stofnunin stöðvað greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar. Í bréfinu segir einnig að berist Vinnumálastofnun umræddar upplýsingar verði umsókn kæranda tekin fyrir á ný. Kærandi hafi síðan sent inn umbeðin gögn 30. maí 2012 eða rétt tæpum fjórum mánuðum eftir að ákvörðun um stöðvun greiðslna til hennar hafi verið tekin. Vinnumálastofnun hafi þá litið svo á að kærandi hefði skilað inn nýrri umsókn með þessu og hafi umsóknin verið samþykkt frá og með þeim degi. Stofnunin hafi ekki talið sér fært að endurupptaka mál kæranda þar sem þriggja mánaða kærufrestur til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skv. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, hafi verið liðinn.

 


 

Kæra kæranda vegna framangreinds máls barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 6. júní 2012, en þar kemur fram að kæranda hafi ekki verið kunnugt um að umræddar upplýsingar hafi ekki borist en hún hafi beðið lífeyrissjóð sinn um að koma upplýsingunum til skila. Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 14. maí 2013 segir í niðurstöðu að þar sem umsókn kæranda hafi verið samþykkt frá og með 30. maí 2012 hafi kærandi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um þá ákvörðun fyrir úrskurðarnefndinni. Hvað varði synjun Vinnumálastofnunar á greiðslum til kæranda fyrir tímabilið 20. desember 2011 til 29. maí 2012 sé ekkert í gögnum málsins sem gefi til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Var málinu því vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Seinni kæra kæranda til úrskurðarnefndarinnar er dagsett 14. ágúst 2013 eins og fram hefur komið. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður að líta svo á að með þeirri kæru sé um endurupptökubeiðni að ræða skv. 24. gr. stjórnsýslulaga. Lagagreinin fjallar um endurupptöku máls og hljóðar 1. mgr. greinarinnar svona:

 

Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin
.“

 

Í máli þessu hafa ekki komið fram upplýsingar þess efnis að ákvörðun úrskurðarnefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að íþyngjandi ákvörðun hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin. Er kæranda því, með vísan til þess sem hér hefur verið rakið, synjað um endurupptöku máls hennar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða sem lauk með úrskurði uppkveðnum 14. maí 2013.

 


 

 

 

Úrskurðarorð

Kröfu A um endurupptöku máls hennar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er synjað.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta