Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 110/2013.

 

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 14. febrúar 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 110/2013.

 

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að kærandi, A, var afskráður af atvinnuleysisskrá vegna þess að hann mætti ekki í boðað viðtal 18. apríl 2013 eins og fram kemur meðal annars í samskiptasögu. Hann fékk ekki greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 30. mars til 18. júlí 2013 vegna þess að hann staðfesti ekki atvinnuleit á því tímabili. Í tölvupósti Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 19. desember 2013, kemur fram að þó kærandi hafi verið afskráður á þessu tímabili hefði honum verið kleift að senda inn staðfestingu sína á atvinnuleit á „mínum síðum“. Staðfesting á atvinnuleit sé forsenda þess að greiddar séu atvinnuleysisbætur. Kæranda hafi því fyrst verið greiddar atvinnuleysisbætur að nýju eftir að hann hafi sótt aftur um atvinnuleysisbætur 19. júlí 2013. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að afskrá hann af atvinnuleysisskrá og kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 10. október 2013. Hann mótmælir því að hann hafi komist inn á „mínar síður“ á umræddu tímabili eins og Vinnumálastofnun fullyrðir. Hann krefst þess að honum verði greiddar atvinnuleysisbætur fyrir umrætt tímabil og krefst þess einnig að honum verði reiknaðir dráttarvextir. Vinnumálastofnun telur að þar sem kærandi hafi ekki staðfest atvinnuleit á tímabilinu 30. mars til 18. júlí 2013 geti hann ekki átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta á því tímabili.

 


 

Kærandi mætti ekki á boðað starfsleitarnámskeið hjá Vinnumálastofnun 18. apríl 2013. Honum var sent bréf 18. apríl 2013 þar sem honum var gefinn kostur á að skila inn skýringum á fjarveru sinni innan sjö daga frá dagsetningu bréfsins. Engar skýringar bárust frá kæranda og var hann því afskráður eins og fram hefur komið. Skýringar bárust síðan frá kæranda 7. maí 2013. Málið var þó ekki tekið fyrir fyrr en 8. júlí 2013 en þá var því frestað og óskað skýringa frá kæranda. Fram hefur komið að þessi langa bið á meðferð málsins var vegna mistaka Vinnumálastofnunar. Andmælabréf kæranda barst 10. júlí 2013. Á fundi Vinnumálstofnunar 17. júlí 2013 var tekin ákvörðun um biðtíma á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Viðurlagaákvörðunin var síðar felld niður 20. ágúst 2013 þar sem kærandi var ekki með stimplanir á þeim tíma sem boðað viðtal var, þar sem hann fékk ekki greiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 30. mars til 18. júlí 2013. Kærandi hafði ekki staðfest atvinnuleit á því tímabili.

 

Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að greiða kæranda ekki atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 30. mars til 18. júlí 2013 vegna þess að hann staðfesti ekki atvinnuleit á því tímabili er nú til meðferðar fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Úrskurðarnefndin hafði samband við kæranda með símtali 20. nóvember 2013 og óskaði eftir afstöðu hans. Kærandi benti á í símtalinu að þar sem hann hafi verið afskráður hjá Vinnumálastofnun hefði hann ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 30. mars til 18. júlí 2013 og að hann væri að kæra þá ákvörðun. Af hálfu kæranda kemur fram að það sé rangt að hann hafi haft aðgang að „mínum síðum“ eftir að hann var afskráður og hafi það verið útilokað fyrir hann að staðfesta virka atvinnuleit og hafi það verið staðfest í símtali við Vinnumálastofnun. Í tölvupósti starfsmanns Vinnumálastofnunar 14. febrúar 2014 til úrskurðarnefndarinnar kemur hins vegar fram að þegar atvinnuleitandi er afskráður hjá Vinnumálastofnun hafi hann fullan aðgang að heimasvæðinu „mínar síður“. Ef atvinnuleitandinn ætli sér að staðfesta atvinnuleit með rafrænum hætti, þá fái hann þau skilaboð að hann sé afskráður og sé honum leiðbeint um að snúa sér að næstu þjónustuskrifstofu. Komi þá færsla í samskiptasögu viðkomandi um að hann hafi reynt að staðfesta atvinnuleit. Af samskiptasögu kæranda megi ráða að hann hafi ekki gert tilraun til að staðfesta atvinnuleit sína með rafrænum hætti á tímabilinu 1. apríl til 18. júlí 2013.

 

Í kæru kemur fram að kærandi hafi þegið greiðslur atvinnuleysisbóta frá 14. júní 2011 og frá þeim tíma hafi hann verið virkur í atvinnuleit. Kærandi kveðst hafa mætt í alla boðaða viðtalstíma hjá Vinnumálastofnun nema einn í mars 2013. Sú boðun hafi komið með smáskilaboðum í farsíma með 24 klukkustunda fyrirvara en kæranda hafi ekki borist skilaboðin fyrr en nokkrum dögum síðar. Kærandi kveðst hafa brugðist strax við með skýringum og ósk eftir nýjum fundi hjá tilgreindum starfsmanni Vinnumálastofnunar. Sá hafi vísað kæranda með beiðni hans um nýjan fund til Vinnumálastofnunar. Síðar hafi komið í ljós að erindi hans hafi glatast. Eftir ítrekaðar beiðnir kæranda hafi mál hans síðan verið tekið fyrir hjá stofnuninni 19. júlí 2013 og ákveðið að kærandi myndi sæta viðurlögum frá þeim degi. Kærandi gagnrýnir vinnubrögð Vinnumálastofnunar um fundarboðun með smáskilaboðum. Þá bendir kærandi á að skýringar hans á fjarveru sinni á boðaðan fund hafi glatast í meðförum Vinnumálastofnunar í þrjá mánuði og ekki fundist fyrr en hann sjálfur hafi átt frumkvæði að því að leita skýringa. Kærandi greinir frá því að sú ákvörðun að afskrá hann af atvinnuleysisskrá megi rekja beint til athafnaleysis og mistaka Vinnumálastofnunar í málsmeðferð. Kærandi bendir á að ef úrskurðarnefndin staðfesti ákvörðun Vinnumálastofnunar telji hann rétt að viðurlögin taki gildi frá og með dagsetningu upphaflegs skýringarbréfs hans en ekki þess tíma er stofnunin tók það fyrir sem hafi verið löngu eftir eðlilegan málshraðatíma í stjórnsýslunni eftir að það týndist í meðförum stofnunarinnar. Kærandi krefst þess að honum verði greiddar atvinnuleysisbætur frá því þær voru felldar niður auk dráttarvaxta vegna vangoldinna greiðslna frá þeim tíma sem hver greiðsla átti að fara fram samkvæmt lögum til greiðsludags.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. nóvember 2013, sent afrit af bréfi Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 27. nóvember 2013.

 

Í viðbótargreinargerð Vinnumálastofnunar sem barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í tölvupósti 19. desember 2013 segir meðal annars að kærandi hafi verið afskráður á tímabilinu 30. mars til 18. júlí 2013. Ástæða afskráningarinnar hafi verið sú að kærandi mætti ekki í boðað viðtal 18. apríl 2013. Kæranda hafi verið sent bréf 18. apríl 2013 þar sem honum var gefinn kostur á að skila inn skýringum á fjarveru sinni innan sjö daga frá dagsetningu bréfsins. Í bréfinu hafi kæranda verið tilkynnt að ef hann hefði ekki samband innan sjö daga frá dagsetningu þess yrði litið á það sem staðfestingu þess efnis að hann væri ekki í virkri atvinnuleit. Engar skýringar hafi borist frá kæranda og því hafi hann verið afskráður. Vinnumálastofnun bárust síðan skýringar kæranda 7. maí 2013, þar sem fram kemur að útilokað hafi verið fyrir kæranda að mæta vegna veikinda föður hans. Í andmælabréfi kæranda 10. júlí 2013 mótmæli kærandi því að hann hafi án gildra ástæðna hafnað þátttöku á starfsleitarnámskeiði 18. apríl 2013. Hann hafi þvert á móti gefið þær skýringar að honum hefði verið sent boð um að mæta á fund með sólarhringsfyrirvara í farsíma. Útilokað hafi verið fyrir hann að mæta á boðaðan fund meðal annars af persónulegum ástæðum og hafi það verið tilkynnt þjónustufulltrúa Vinnumálastofnunar. Fram kemur að á fundi 17. júlí 2013 hafi mál kæranda verið tekið fyrir og ákvörðun um biðtíma tekin á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi lagt inn nýja umsókn um atvinnuleysisbætur 19. júlí 2013. Fyrri ákvörðun um biðtíma hafi síðan verið felld niður 20. ágúst 2013.


Vinnumálastofnun bendir á að ástæða þess að kærandi hafi ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 30. mars til 18. júlí 2013 hafi verið sú að hann hafi ekki staðfest atvinnuleit á tímabilinu. Þó kærandi hafi verið afskráður á tímabilinu hefði honum verið kleift að senda inn staðfestingu sína á atvinnuleit á „mínum síðum“. Staðfesting á atvinnuleit sé forsenda þess að greiddar séu atvinnuleysisbætur. Því hafi kæranda fyrst verið greiddar atvinnuleysisbætur eftir að hann sótti um atvinnuleysisbætur að nýju 19. júlí 2013.

 

Vinnumálastofnun fellst á að langur tími hafi liðið frá því að stofnuninni bárust skýringar kæranda og þar til mál hans hafi verið tekið fyrir. Hafi það verið vegna mistaka. Stofnunin telur sig þó ekki geta litið framhjá því að kærandi staðfesti ekki atvinnuleit á umræddu tímabili og af þeim sökum geti hann ekki átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir umrætt tímabil.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. janúar 2013, sent afrit af viðbótargreinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 16. janúar 2014.

 


 

 

Kærandi skilaði inn athugasemdum við viðbótargreinargerð Vinnumálastofnunar í tölvupósti 8. janúar 2014. Kemur þar meðal annars fram að það sé rangt að hann hafi haft aðgang að „mínum síðum“ en aðgangi hans hafi verið lokað fljótlega eftir að hann hafi verið tekinn af skrá eftir að hann mætti ekki á umræddan fund. Þannig hafi verið útilokað fyrir kæranda að staðfesta virka atvinnuleit og hafi það verið staðfest í símtali við Vinnumálastofnun. Auk þess hafi hann verið búinn að senda inn upphaflegt erindi með skýringum á því af hverju hann hafi ekki getað mætt á umræddan fund en það bréf hafi líkt og fram komi í kæru týnst í þrjá mánuði. Sömu rök hans eigi við um þær skýringar Vinnumálastofnunar að stofnunin telji sig ekki geta litið fram hjá því að hann hafi ekki staðfest virka atvinnuleit. Þetta sé einfaldlega rangt. Að öðru leyti ítrekar kærandi það sem fram kemur í kæru hans

 

 

2.

Niðurstaða

Kærandi var afskráður af atvinnuleysisbótum frá 30. mars 2013 vegna þess að hann mætti ekki í boðað viðtal 18. apríl 2013. Tveggja mánaða viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar sem tekin var 17. júlí 2013 af þeim sökum að kærandi mætti ekki í viðtalið 18. apríl 2013 var síðar felld niður þann 20. ágúst 2013 þar sem kærandi hafði ekki verið á atvinnuleysisbótum á þeim tíma sem hann mætti ekki í viðtalið. Sú ákvörðun er ekki til umfjöllunar hér.

Kæra kæranda snýr að því að hann fékk ekki greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 30. mars til 18. júlí 2013. Ástæða þess var sú að hann staðfesti ekki atvinnuleit á tímabilinu en hann staðhæfir að það hafi hann ekki getað gert eftir að hann var afskráður. Vinnumálastofnun heldur því hins vegar fram að kærandi hafi getað haft samband á á „mínum síðum“ þrátt fyrir það að hann hafi verið afskráður. Þegar þannig hátti til fái atvinnuleitandi skilaboð á „mínum síðum“ um að hann sé afskráður og leiðbeiningar um að snúa sér að næstu þjónustuskrifstofu. Komi þá fram færsla í samskiptasögu atvinnuleitandans um að hann hafi reynt að staðfesta atvinnuleit. Af samskiptasögu kæranda megi ráða að hann hafi ekki gert tilraun til að staðfesta atvinnuleit sína með rafrænum hætti á tímabilinu 1. apríl til 18. júlí 2013.

 

Kærandi bendir á að skýringar hans á fjarveru sinni á boðaðan fund hafi glatast í meðförum Vinnumálastofnunar í þrjá mánuði og ekki fundist fyrr en hann sjálfur hafi átt frumkvæði að því að leita skýringa. Þá ákvörðun að afskrá hann af atvinnuleysisskrá megi rekja beint til athafnaleysis og mistaka við málsmeðferð Vinnumálastofnunar.

Kærandi mætti ekki á boðaðan fund hjá Vinnumálastofnun 18. apríl 2013. Honum var í bréfi, dags. 18. apríl 2013, gefinn kostur á að skila inn skýringum á fjarveru sinni innan sjö daga og jafnframt sagt að ef hann hefði ekki samband innan sjö daga yrði litið á það sem staðfestingu þess efnis að hann væri ekki í virkri atvinnuleit. Engar skýringar bárust frá kæranda og var hann því afskráður.

Í 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að sá sem telst tryggður á grundvelli laganna skuli eftir að umsókn hans hefur verið samþykkt og á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum, hafa reglulega samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveður. Á heimasíðu Vinnumálastofnunar er að finna fyrirmæli um að hinum tryggða beri að staðfesta atvinnuleit á tímabilinu 20.–25. hvers mánaðar, hvort sem er í gegnum síma, á heimasíðu stofnunarinnar eða með komu á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar. Upplýsingar þessar eru einnig aðgengilegar á umsókn um atvinnuleysisbætur og umsækjendum er einnig leiðbeint um þessa skyldu á kynningarfundum og í kynningarbæklingi. Kæranda var því kleift að staðfesta atvinnuleit sína með öðrum hætti en á „mínum síðum“ og það bar honum að gera óskaði hann þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur enda er staðfesting á atvinnuleit forsenda þess að greiddar séu atvinnuleysisbætur. Með vísan til þess að kæranda láðist að staðfesta atvinnuleit sína á umræddu tímabili er hin kærða ákvörðun staðfest.

 


 

 

Úr­skurðar­orð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bótaréttar Árna Stefáns Árnasonar á tímabilinu 30. mars til 18. júlí 2013 er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

for­maður

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                 Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta